top of page
Writer's pictureSoffía Bæringsdóttir

Verkir á móti sársauka

Ég man alltaf hvað mér fannst þessi útskýring Penny Simkin góð á að það væri munur á verkjum og sársauka og eftir því sem reynslan kom sá ég þetta oftar og ofta.

Fæðingu fylgja oft verkir en það er stór munur á verkjum og sársauka.

Þegar kona á von á sínu fyrsta barni er alveg eðlilegt að óttast verkina sem þær koma til með að upplifa í fæðingunni því það er einhvern veginn í beinunum á okkur að vita að fæðing er þrekvirki og svo bætist við að oft höfum við heyrt og lesið reynslusögur annarra.

Fæðing er stórmagnaður viðburður í lífi fjölskyldu og verkirnir sem fylgja fæðingunni eru ef svo má að orði komast eðlilegar aukaverkanir af virkni og átökum líkamans og þá verki þarf ekki að óttast.


Ef við setjum svona verki í samhengi, þá þekkja flestir verki í átökum eða eftir átök, svo sem í góðri fjallgöngu, í hlaupi og eftir erfiðan tíma í ræktinni. Verki sem fylgja átökum þekkir íþróttafólk til að mynda vel, átökin í athöfninni sjálfri og verkina sem á eftir koma. Flestir sem reynt hafa mikið á sig líkamlega þekkja líka vellíðanina sem fylgir því að takast á við erfitt en yfirstíganlegt verkefni og klára það. Vellíðan, sigurtilfinning og gleði.

Í eðlilegri fæðingu taka verkirnir ekki yfir upplifunina heldur eru hluti af henni. Þegar hlutirnir ganga venjulega fyrir sig er verkurinn hliðarafurð af vinnuþættinum. Fleira kemur inn í upplifunina, svo sem slökun og ró. Milli verkja kemur ró og vellíðan, eitthvað sem hormónar kvenna hafa mikil áhrif á. Í þessu ferli þar sem skipst er á milli verkja og hvíldartíma skiptir máli að geta dottið inn í ryþma, einhversskonar endurtekningu þar sem tíminn svo að segja stendur í stað en hringlaga ferli hvíldar og samdrátta endurtekur sig. Verkurinn er einfaldlega líkamleg upplifun sem getur verið svo sannarlega óþægileg en á ekki að vera óyfirstíganleg.

En það er líka einhver lína milli verks og sársauka, átaka og þjáninga og það er stór munur á að upplifa verki sem hluta af ferli eða upplifa sig í þjáningu. Það má í raun segja að þjáning sé óeðlilegur hluti fæðingar, þegar verkurinn sjálfur verður óyfirstíganlegur og ryþminn tapast.




Skilin á milli verks og sársauka eða þjáningar eru ekki alltaf skýr og aðeins ljós í huga þess sem upplifir. Aðeins hin fæðandi kona veit sjálf hvort hún er að upplifa verki eða þjást.

Hvar skilin liggja er ólíkt milli kvenna, konur hafa misháan sársaukaþröskuld og mismikið þol fyrir verkjum. Margir minni þættir hafa svo áhrif á verkjaupplifun svo sem líðan fyrir og í fæðingu, fyrri reynsla, vonir og væntingar og umhverfi. Þá má ekki gleyma að ekki byrja allar fæðingar eins og margir læknisfræðilegir þættir hafa þar áhrif á.

Eitt af því sem gagnast til að haldast í ryþmanum og halda verkjunum yfirstíganlegum er til dæmis góður stuðningur frá fjölskyldu og fagaðilum, upplifun á öruggu umhverfi og góður undirbúningur þar sem verðandi foreldrar þekkja ferlið sem líkami konunnar fer í gegnum og kunna leiðir til að bregðast við verkjunum og hjálpa til við að lina þá. Þannig getur kona komist í gegnum fæðingu með góðri upplifun með verkjum en án þjáningar. Fari kona yfir skilin milli verkja og sársauka, finnur fyrir þjáningu og það sem gert er hjálpar ekki til að haldast í ryþma og stundin verður óbærileg og virðist óbærileg er fulllástæða til að stíga inn í og finna út hvaða verkjastilling er gagnlegust í þessum aðstæðum.


Hluti af mínu starfi er einmitt að hjálpa pörum að viðhalda ryþmanum svo verkirnir verði yfirstíganlegir en takast á við það með pörum þegar verkirnir breytast úr verkjum í sársauka.

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page