top of page
Writer's pictureSoffía Bæringsdóttir

Doulunámið er hafið! Framhaldsdoulunám Erasmus

Um síðustu helgi hófst framhaldsdoulunámskeið sem hefur verið í þróun undanfarna mánuði í samstarfi við Króatísku doulusamtökin Hravaska doula og Erasmus+ áætlunina.


Markmið námskeiðsins er að dýpka þekkingu og færni doulna og styrkja þær í hlutverki sínu sem stuðningsaðilar á viðkvæmum tímum í lífi foreldra.


Fyrsta helgi námskeiðsins snerist um mannréttindi í fæðingum og hvernig doulur geta nálgast þau á árangursríkan og faglegan hátt.


Þetta viðfangsefni er afar mikilvægt, þar sem virðing fyrir réttindum fæðandi kvenna og fjölskyldna þeirra er grundvallaratriði í því að skapa jákvæða og valdeflandi upplifun í fæðingu.


Þátttakendur fengu innsýn í almenn mannréttindi og hvernig þau tengjast réttindum í fæðingum. Sérstök áhersla var lögð á rétt fæðandi kvenna til að taka upplýstar ákvarðanir, virðingu fyrir líkamlegri og andlegri heilsu kvenna og hlutverk doulna sem málsvara og stuðningsaðila við að tryggja þessi réttindi. Við skoðuðum stöðu kvenna á Íslandi, sem segja má að sé heilt yfir góð þegar kemur að mannréttindum.


Þátttakendur tóku þátt í fjölbreyttum æfingum sem höfðu það að markmiði að auka skilning þeirra á viðkvæmni og mikilvægi mannréttinda í fæðingarferlinu.


Meðal annars voru hlutverkaleikir þar sem doulur settu sig í spor bæði fæðandi kvenna og heilbrigðisstarfsfólks. Þessar æfingar vöktu miklar umræður og hjálpuðu þátttakendum að skilja betur hvernig hægt er að nálgast áskoranir á jákvæðan og lausnamiðaðan hátt.


Margar doulur tóku þátt í námskeiðinu og lýstu yfir ánægju sinni með það sem þær lærðu. Þær sáu strax hvernig þekkingin myndi nýtast í starfi þeirra, bæði til að styðja fæðandi konur betur og til að vera meðvitaðri um hlutverk sitt í því að efla mannréttindi í fæðingarferlinu.


Framhaldsnámskeiðið heldur áfram, er alls 8 helgar þar sem unnið verður með önnur lykilatriði í starfi doulna.


Samstarfið við Króatísku doulusamtökin og Erasmus+ er ómetanlegt og leggur grunn að faglegri þróun doulna á alþjóðlegum vettvangi.

Við hlökkum til að sjá hvernig þátttakendur nýta þessa þekkingu og hvernig hún mun hafa áhrif á framtíð doulustarfs á Íslandi. Þetta er stórt skref í átt að aukinni fagmennsku og dýpri skilningi á mikilvægi mannréttinda í fæðingum.


7 views
bottom of page