Viðvera stuðningsaðila í fæðingu stytt

Ég er að reyna að ná utan um fréttirnar frá því í gær um að nú eigi að takmarka stuðning fæðingarfélaga á Landspítalanum verulega. Stefnt er á að maki sé ekki lengur á spítalanum en í fjórar klukkustundir, kemur rétt fyrir fæðingu og fer svo stuttu seinna. Fyrst og síðast er ég sorgmædd og finn til með fjölskyldunum sem settar eru í þessar aðstæður.

Douluhjartað blæður við tilhugsunina um að konur fari einar á spítala í fæðingu og sé meinað að hafa með sér stuðningsaðila stærstan hluta fæðingarinnar. Ég vona heitt og innilega að Landspítalinn sé eini staðurinn sem grípi til þessara aðgerða. Mér sýndist á FB síðu ljósmæðravaktar HSS að makar/aðstandandi verði enn velkomnir sem er vel og ég veit að Björkin ljósmæður grípa ekki til þessa en þær geta ekki tekið við fleirum í þjónustu.

Ég get ekki séð annað en að það stríði gegn öllu sem við vitum um fæðingar og framgang þeirra. Fæðingar taka tíma. Stuðningur í fæðingu er lykilþáttur í fæðingu og á bak við mikilvægi stuðnings liggja ótal ótal rannsóknir sem segja frá mikilvægi hans. Viðvera stuðningsaðila í fæðingu eykur fæðingaránægju, dregur úr ótta og dregur úr inngripum. Rannsóknir sýna að fólk sem upplifir fæðinguna sína erfiða segir erfiðast að hafa ekki haft stuðning í kringum sig og að ekki hafi verið hlustað á það.

Ég er samt að reyna að skilja þessa ákvörðun, reyna að skilja að ákvörðuninni er ætlað að hlífa spítalanum, fækka komum þeirra sem ,,eiga ekki erindi” og hlífa starfsfólki svo það hitti sem fæsta. Ég er að reyna að sjá að ákvörðunin sé tekin með hagsmuni heildarinnar í huga en það koma alltaf þessi en, en.

Nú þegar hafði eitt og annað gert sem fækkaði komum á spítalann. Konur fóru einar í mæðraskoðun, beðnar um að einangra sig frá 36 viku, fóru einar í keisara, viðvera aðstandanda eftir fæðingu hafði verið stytt og þó þetta hafi ekki alltaf hljómað vel þá laut maður höfði og hugsaði að allir væru að leggja sitt af mörkunum til að staðið væri vörð um að kona hefði stuðningsaðila með sér í fæðingu. Aðlagast og hjálpast að. Hlýða Víði. Ég þurfti meir að segja að læra hratt að veita stuðning í gegnum netið. En nú á að takmarka veru aðstandanda enn frekar og ég velti því fyrir mér hvort að stutt sé í að tekið verði fyrir að stuðningsaðilar komi með á spítalann.

Mér verður strax hugsað til þess að þetta eigi eftir að auka álag á ljósmæður á spítalanum, þeirra yfirseta verður að vera meiri þegar kona hefur engan hjá sér stærstan hluta fæðingarinnar. Ég myndi líka halda að ljósmóðir þyrfti að vera í meiri nálægð við konurnar og veita meiri stuðning.

Mín spá er að inngrip eigi eftir að aukast og mænurótartíðnin eftir að verða enn hærri en hún er nú þegar og jafnvel að keisurum fjölgi. Vonandi er tekur einhver að sér að rannsaka það.

Stundum er bent á að spítalar séu fyrir veikt fólk og aðgerðir teknar þar séu teknar með hagsmuni veika fólksins og starfsfólk í huga. Eðlilega og ég get ekki dregið undan að ég er stolt af framlínufólkinu okkar núna sem sinnir óvenjumörgu alvarlega veiku fólki núna. Fæðing er hinsvegar eðlilegt ferli í lífshringnum sem jú þarf stundum læknisfræðileg inngrip en lútir öðrum lögmálum.  

Ég get aðeins reynt að ímynda mér hvernig verðandi foreldrum líður við að heyra þessar fréttir. Streitukerfin virkjast því óvissunni fylgir oft kvíði. Gagnlegasta streitukerfið okkar í þessum aðstæðum er hlúa að og annast (tend and befriend). Reynum að láta þetta oxítosin drifna streitukerfi taka yfir og hlúum að hvort öðru. Þegar reynir á verður að hugsa hratt og finna lausnir