Um okkur

Viðvera stuðningsaðila í fæðingu stytt

Ég er að reyna að ná utan um fréttirnar frá því í gær um að nú eigi að takmarka stuðning fæðingarfélaga á Landspítalanum verulega. Stefnt er á að maki sé ekki lengur á spítalanum en í fjórar klukkustundir, kemur rétt fyrir fæðingu og fer svo stuttu seinna. Fyrst og síðast er ég sorgmædd og finn til með fjölskyldunum sem settar eru í þessar aðstæður.

Douluhjartað blæður við tilhugsunina um að konur fari einar á spítala í fæðingu og sé meinað að hafa með sér stuðningsaðila stærstan hluta fæðingarinnar. Ég vona heitt og innilega að Landspítalinn sé eini staðurinn sem grípi til þessara aðgerða. Mér sýndist á FB síðu ljósmæðravaktar HSS að makar/aðstandandi verði enn velkomnir sem er vel og ég veit að Björkin ljósmæður grípa ekki til þessa en þær geta ekki tekið við fleirum í þjónustu.

Ég get ekki séð annað en að það stríði gegn öllu sem við vitum um fæðingar og framgang þeirra. Fæðingar taka tíma. Stuðningur í fæðingu er lykilþáttur í fæðingu og á bak við mikilvægi stuðnings liggja ótal ótal rannsóknir sem segja frá mikilvægi hans. Viðvera stuðningsaðila í fæðingu eykur fæðingaránægju, dregur úr ótta og dregur úr inngripum. Rannsóknir sýna að fólk sem upplifir fæðinguna sína erfiða segir erfiðast að hafa ekki haft stuðning í kringum sig og að ekki hafi verið hlustað á það.

Ég er samt að reyna að skilja þessa ákvörðun, reyna að skilja að ákvörðuninni er ætlað að hlífa spítalanum, fækka komum þeirra sem ,,eiga ekki erindi” og hlífa starfsfólki svo það hitti sem fæsta. Ég er að reyna að sjá að ákvörðunin sé tekin með hagsmuni heildarinnar í huga en það koma alltaf þessi en, en.

Nú þegar hafði eitt og annað gert sem fækkaði komum á spítalann. Konur fóru einar í mæðraskoðun, beðnar um að einangra sig frá 36 viku, fóru einar í keisara, viðvera aðstandanda eftir fæðingu hafði verið stytt og þó þetta hafi ekki alltaf hljómað vel þá laut maður höfði og hugsaði að allir væru að leggja sitt af mörkunum til að staðið væri vörð um að kona hefði stuðningsaðila með sér í fæðingu. Aðlagast og hjálpast að. Hlýða Víði. Ég þurfti meir að segja að læra hratt að veita stuðning í gegnum netið. En nú á að takmarka veru aðstandanda enn frekar og ég velti því fyrir mér hvort að stutt sé í að tekið verði fyrir að stuðningsaðilar komi með á spítalann.

Mér verður strax hugsað til þess að þetta eigi eftir að auka álag á ljósmæður á spítalanum, þeirra yfirseta verður að vera meiri þegar kona hefur engan hjá sér stærstan hluta fæðingarinnar. Ég myndi líka halda að ljósmóðir þyrfti að vera í meiri nálægð við konurnar og veita meiri stuðning.

Mín spá er að inngrip eigi eftir að aukast og mænurótartíðnin eftir að verða enn hærri en hún er nú þegar og jafnvel að keisurum fjölgi. Vonandi er tekur einhver að sér að rannsaka það.

Stundum er bent á að spítalar séu fyrir veikt fólk og aðgerðir teknar þar séu teknar með hagsmuni veika fólksins og starfsfólk í huga. Eðlilega og ég get ekki dregið undan að ég er stolt af framlínufólkinu okkar núna sem sinnir óvenjumörgu alvarlega veiku fólki núna. Fæðing er hinsvegar eðlilegt ferli í lífshringnum sem jú þarf stundum læknisfræðileg inngrip en lútir öðrum lögmálum.  

Ég get aðeins reynt að ímynda mér hvernig verðandi foreldrum líður við að heyra þessar fréttir. Streitukerfin virkjast því óvissunni fylgir oft kvíði. Gagnlegasta streitukerfið okkar í þessum aðstæðum er hlúa að og annast (tend and befriend). Reynum að láta þetta oxítosin drifna streitukerfi taka yfir og hlúum að hvort öðru. Þegar reynir á verður að hugsa hratt og finna lausnir

Þakklæti í daglega lífinu

Eitt lítið ráð til að setja fókusinn á betri stað í parasambandinu er að tjá maka sínum þakklæti fyrir hluti sem alla jafna maður hefði ekki orð á.

,,Takk fyrir að fara út með ruslið“

,,Takk fyrir að sækja börnin og skutla á æfingu“

,,Takk fyrir að setjast niður með mér og ræða málin“

,,Takk fyrir að …… „

Fyrir marga er þetta ósköp skrítið til að byrja með og sumir hafa orð á að þeim finnist þetta óþarfi og jafnvel óþægilegt að hlusta á sagt við sig. Kannski fyrst en svo þykir flestum þakklæti betra með tímanum, gott að þakka fyrir sig og fá þakkir. Það er mikilvægt að báðir aðilar æfi þakklæti til þess að það auki sambandsánægjuna.

Með því að setja orð á þakklæti erum við að setja athyglina á það sem við sjáum og er gert fyrir framan okkur, þakklæti er að setja orð á að það sem viðkomandi geri fyrir okkur skipti máli og það auki velferð og vellíðan okkar. Að makinn okkar skipti okkur máli, að við viljum að hann viti að það sem hann geri skipti máli og við tökum því ekki sem sjálfsögðum hlut.

Þakklæti skilar sér því í meiri ánægju í parasambandinu og yfirleitt meiri ánægju með eigið framlag innan sambandsins.

Listin að hlusta

Fyrsta skrefið í átt að bættum samskiptum í parasambandinu er oft að taka ákvörðun um að vanda sig betur í samskiptum. Þegar stirrt hefur verið á milli manns og maka í einhvern tíma langar mann oft síst að hlusta á viðkomandi heldur frekar leiðbeina, gagnrýna og jafnvel stýra. Manni langar að laga hlutina með skipunum og festu. Hratt og örugglega því maður er úrvinda og oft einmana í sambandinu. Þó slík nálgun sé skiljanleg í strembnum aðstæðum er hún sjaldan leiðin að bættum samskiptum eða betra parasambandi.

Við þurfum og viljum koma skilaboðum áleiðis, við viljum líka að hlustað sé á okkur og tekið tillit til þess sem við höfum til málanna að leggja. Við viljum upplifa að maki okkar taki eftir okkur, að við finnum að við skiptum máli. Dr. Sue Johnson, hjónabandsráðgjafi, segir að stóra óorðaða spurningin í parasambandinu sé ,,sérðu mig, skipti ég þig máli?“ og líka ,,Ertu að hlusta á mig?“.

,,Flestir hlusta ekki til að skilja, flestir hlusta til að fá orðið aftur“

Hlustun krefst þess oft að við leggjum okkur fram, hlustum á orðin sem koma, skoðum tjáninguna sem fylgir og við horfum á manneskjuna. Þegar fólk hlustar til að skilja spyr það nánar út í það sem verið er að tala um. Hlustun felur í sér að bíða, melta og trufla ekki frásögn. Við þurfum að stilla okkur inn á að hlusta. Það getur verið krefjandi til að byrja með en er fljótt að komast upp í góðan vana og þegar fólk fer að leggja sig fram um að hlusta til að skilja í parasambandinu, breytast hlutirnir oft hratt til hins betra.

Fyrst skrefið í bættu parasambandi er því oft að leggja við hlustir, vanda sig við að grípa ekki fram í og hlusta á og heyra það sem makinn er í alvörunni að reyna að segja manni. Með því að leggja okkur fram við að hlusta sýnum við vilja til að skilja og virða maka okkar og ná áttum á því sem er sagt. Undir orðunum og frásögninni liggur oft beiðni um tengingu og traust. Því getur verið gagnlegt að velta því fyrir sér hvað maki manns sé raunverulega að biðja mann um í samtalinu, hvaða þörf hann óski eftir að fá uppfyllta.

Enginn segir þetta auðvelt, þvert á móti, það tekur tíma að venja sig á að hlusta til að skilja, hlusta með opnum huga og reyna að sjá eitthvað nýtt við það sem makinn er að segja manni. Það krefst meðvitundar að bregðast ekki við eins og venjulega heldur spegla frásögnina eða spyrja nánar til að skilja hvað hann er að segja. Það getur hinsvegar verið afskaplega fljótt að skilja sér í innilegra og nánara sambandi.

,,Ég gat þetta“

Do good without show or fuss

Facilitate what is happening rather than what you think

ought to be happening

If you must take the lead, lead so that the mother is

helped, tet still free and in charge.

When the baby is born, the mother will rightly say:

“ We did it ourselves“

Þessi texti- sem búið er að snara yfir á ensku úr kínversku, kemur frá LAo Tzu, úr bókinni um veginn, frá 500 fyrir krist. Þetta textabrot talar hvað mest til mín af öllum texta sem ég hef lesið um störf doulu eða annarra umönnunaraðila í fæðingu og reyni að minna mig á hann þegar ég er við fæðingar.

Í þessum stutta texta er búið að fanga það sem þarf að segja. Fæðing barns er í höndum konunnar og hennar stuðningsfélaga, það er mitt að vera til staðar og reyna eftir mætti að skapa aðstæður þar sem kona upplifir að hún sé við stýrið, í öruggum höndum á öruggum stað.

Skjálfti eftir fæðingu

Margar konur segja frá því að það sé eitt og annað sem komi þeim á óvart varðandi fæðingarferlið, og þá ekki síst það sem kemur eftir að barnið fæðist. Eitt af því er eftirskjálftinn, margar konur upplifa skjálfta eftir að barnið fæðist. Óstjórnlegur skjálfti og svolítil kuldatilfinning kemur fljótlega eftir að barnið fæðist og er algerlega eðlilegt og algengt. Það er allt í lagi, ekkert er að. Þessi skjálfti er algengur en kannski ekki svo mikið rætt um hann. Stundum er skjálftinn svo mikill að konur treysta sér varla til að halda á barninu sínu en svo hefur reynslan sýnt að þegar konur halda á börnum sínum í skjálftanum þá skjálfa þær yfirleitt minna og skemur (og fá minni verkjaupplifun). Athyglin er þá líka meira á litla barninu.

Ekki er að fullu vitað af hverju konur fá þennan skjálfta en hormónar spila þar stórt hlutverk. Líkaminn er að losa sig við endorfín og önnur hormón. Einhver áhrif hefur herbergishitinn en þó útilokar heitt herbergi alls ekki skjálftann. Við vitum heldur ekki alveg hvaða áhrif vökvi í æð hefur á skjálfta.

Skjálfti eftir fæðingu er kannski líka að einhverju leiti ,,sjokk“ viðbragð líkamans. Það er auðvitað ótrúlegt afrek að koma barni í heiminn og reynir á líkamann á einstakan hátt og eftir slíkt afrek er kannski eðlilegt að líkaminn sýni viðbrögð og þurfi að skjálfa til að jafna sig og komast í sitt fyrra horf.

Í flestum tilfellum er skjálftinn í nokkrar mínútur en getur verið upp undir klukkutíma. Ef skjálfti og óþægindi halda áfram sérstaklega eftir að heim er komið er ráðlagt að hafa samband við ljósmóður eða heilsugæslu til að útiloka sýkingu eða veikindi.

Parasambandið eftir fæðingu

Það kemur mörgum á óvart hve mikil breyting verður á parasambandinu við það að barn fæðist. Það tekur á að aðlagast því að hafa eignast barn og þegar fæðingin hefur verið erfið getur það verið enn strembnara. Slík upplifun er í raun í ætt við vægt þunglyndi og lýsir sér svipað en líka eitthvað sem ekki er rætt mikið um. Talið er að eitt af hverjum fimm pörum hið minnsta eigi erfitt með aðlagast breyttum aðstæðum og að um 80% para finni fyrir aukinni streitu í sambandinu eftir að barn er komið inn á heimilið.

Þegar litla barnið er komið í heiminn og börn inni á heimilinu má gera ráð fyrir að samskipti foreldra snúist fyrst og síðast um praktísk mál og áhyggjur, og svo lítið sem fimm mínútur fari í samtal um eitthvað annað. Fimm mínútur er ekki langur tími.

Óöryggi, svefnleysi, annríki og áhyggjur taka yfir heimilislífið og smátt og smátt beinist það að makanum í stað þess að snúa sér að hvort öðru.

Í fyrirtækjum og á stofnunum eru teymisfundir, samráðsfundir og allskonar samtalstækifæri og fæst fyrirtæki myndu láta hlutina koma í ljós, ræða þá seinna eða taka á því við betra tækifæri en ég held að margir hafi staðið sig að því að hugsa það inni á heimilinu. Samtalið er eitt mikilvægasta og gagnlegasta tækið sem við höfum inn í parasambandið og því ætti að vera alveg sjálfsagt að setjast niður og skipuleggja hlutina og sjá hvernig hefur gengið og að sama skapi ætti að vera sjálfsagt að taka frá tíma í fundi þar sem ekki er rætt um praktíska hluti eða annað sem tengist fjölskyldunni heldur samverustund sem nærir og færir fólk aftu saman.

Það að setjast niður reglulega, að minnsta kosti vikulega til að spjalla um eitthvað og hafa ekki börn, áhyggjur og annað fólk á spjalllistanum er fljótt að skila sér inn í meiri ánægju í parasambandið sem skilar sér svo yfirleitt nokkuð hratt inn í meiri ánægju í hvunndeginum og annríki dagsins.

Tilgangslausar samverustundir eru nauðsynlegar

Mikilvægi leiks ungra barna

Stundum finnst mér ekkert mjög þjált að nota orðið leikur yfir samskipti við mjög ungbörn, en leikur er samt mjög mikilvægur öllum börnum óháð aldri og skiptir gríðarlegu máli þegar kemur að námi og þroska barna. Leikur hjá nýfæddum börnum og ungbörnum eru jákvæð samskipti, tilgangslaus tímaeyðsla sem maður vill ekki að hætti. Leikur er gríðarlega vel rannsakað fyrirbrigði og vanmetinn oft á tíðum.

Leikur barna hjálpar börnum að byggja upp sjálfstæði og sjálfstraust, upplifa og finn ástúð og öryggi og skilja sjálft sig í samhengi við og tengslum við aðra.

Leikur barna undir þriggja mánaða er svo sem ekki flókinn, grettur og bros, hjal, tal og söngur. Börn elska andlit og andlitstjáningu og horfa helst á svæðið við augu og enni og svo munnsvæðið. Í leik svo ungra barna eru samskiptin aðalatriðið, viðbrögð við viðbrögðum. Maður þarf ekki hluti eða dót, bara sjálfan sig og barnið.

Samskiptin eru mikilvægust, skilaboð og svar

Leikur þjónar ekki bara því að efla barnið heldur eflast tengslin milli foreldris og barns, með því að leika við barn og tala við það kynnist maður barninu betur og áttar sig á styrkleikum þess. Barnið treystir á mann og þannig byggist sambandið upp. Í gegnum leikinn sér maður líka nokkuð fljótt hvernig týpa barnið er og hvað því líkar við og hvað ekki. Hvort það er rólegt eða meira fyrir stuð.

Svefn barns 0- 3 mánaða

Fyrst um sinn sofa börn ósköp mikið. Þau hafa ekki þol né getu í að einbeita sér lengi né vaka mikið. Yfirleitt vakna þau til að drekka, horfa smá og sofna aftur.

Nýfætt barn ætti að sofa á bilinu 16-18 tíma á sólarhring. Meðan barn er að þyngjast eðlilega fyrstu vikurnar þarf ekki að hafa áhyggjur ef barnið sefur meira en gæta þess að barnið sofi ekki minna.

Fyrst um sinn er alveg eðlilegt að barn vakni á tveggja til fjögurra tíma fresti til að drekka allan sólarhringinn til að drekka. Smám saman lengist svo þessi tími og það fer oft að myndast rútína um þriggja mánaða.

Fyrstu vikurnar er svefn barnsins óreglulegur, börn eru ekki með fullþroskað hormónakerfi til að stýra svefninum og því getur svefninn virkað tilviljunarkenndur og óútreiknanlegur. Það getur reynt á foreldra en er alveg eðlilegt og batnar með tímanum.

Svefnhrynjandi barna er allt öðruvísi en svefnhrynjandi fullorðinna. Svefnhringurinn er styttri og börn verja miklum tíma í REM svefni sem er mikilvægur fyrir heilaþroska barnsins.

Um þriggja mánaða fer svefnkerfið að breytast aðeins, daglúrarnir taka á sig fastari mynd og nætursvefninn byrjar að lengjast lítillega. Þetta er auðvitað misjafnt eftir börnum, sum börn eru búin að koma sér upp góðum svefnhrynjanda um 6-7 vikna meðan önnur ná því ekki fyrr en um sex-sjö mánaða og jafnvel seinna.

Börn vakna á 2-4 tíma fresti fyrstu vikurnar.

Það er gott að byrja að búa til góðar svefnvenjur þegar barnið er nokkurra vikna:

Byrja á því að gera greinarmun á nóttu og degi með birtumun. Hafa bjart á daginn og dimmt á kvöldin þar sem barnið sefur. Gæta þess að hafa venjuleg umgengnishljóð yfir daginn en kyrrlátara á kvöldin og nóttunni.

Fylgjast vel með barninu og læra inn á þreytumerki þess. Sum þreytumerki barna eru mjög skýr en önnur eru óljósari og getur verið erfiðara að spotta. Merki þess að barn sé þreytt er að það lygnir aftur augunum, lítur undan, starir út í loftið, nuddar augun og grípur jafnvel um eyrað og það volar jafnvel eða ,,kvartar“ undan þreytu.

Flestum börnum þykir gott að vera á hlýjum og öruggum stað með eitthvað þétt að sér og bakgrunnshljóð. Með því að vera kjarnaður og rólegur sjálfur róast flest börn á stuttum tíma.

Er barnið svangt?

Nýfætt barn treystir á umönnunaraðila sinn. Það treystir á að umönnunaraðilinn túlki það sem barnið er að segja því í hag. Það er alveg eðlilegt að það taki tíma að kynnast barni og átta sig á því hvað það er að segja manni. Fyrst um sinn sofa börn mest og eru mikið í að drekka og sofa.

Barn er ótrúlega duglegt að segja til hvenær það er orðið svangt eða tilbúið til að drekka. Fyrstu merkin eru að það fer að hreyfa höfuðið lítilega til, leita og rótera. Það opnar munninn enn betur og fer svo að hreyfa höfuðið ákveðið til beggja hliða og leita frekar ákaft. Þetta eru svona fyrstu merkin sem maður sér.

Svo fara þau að setja hendina upp í munn, teygja sig og reygja og maður verður var við aukna hreyfingu. Þarna er barnið orðið svangt og vill endilega fá að borða. Ef maður getur er gott að byrja að gefa barninu að drekka þarna.

Síðustu svengdarmerki ungra barna er þegar þau eru orðin rauð um andlit og niður á kroppinn, hreyfingar eru áberandi og þau skríkja jafnvel og að lokum fara þau að gráta.

Nýfædd börn gráta oft við lítið tilefni, það er alveg eðlilegt og viðbúið að barn gráti því það er svo tilbúið að drekka en það er ávinningur af því að gefa barni strax að drekka áður en það verður mjög svangt.

Myndaniðurstaða fyrir hungry cues

Myndaniðurstaða fyrir hungry cues
Myndin hér að neðan er fengin hjá Storkmama og sýnir myndrænt merki barnsins.

Hvernig Rebozo?

Líklega er Rebozo orðið nokkuð þekktara en það var. Rebozo er einfaldlega sjal sem má not á ólíka vegu og ég hef mest notað það sjálf til að bera eigin börn og nudda í fæðingu. Það er auðvelt að nota það til slökunar og nudds fyrir hvern sem er sem og á meðgöngu.

Það er betra að vanda til verka þegar keypt er Rebozo, svo það nýtist vel og virki eins og það á að virka. Fyrsta „rebozoið“ mitt var samt pasmína úr Tiger og dugði fyrst um sinn svo maður þarf heldur ekki að vera hræddur við að prófa sig áfram.

Rebozo-ið ætti að vera að minnsta kosti 2 metra langt, en ekki lengra en þrír metrar. Mér hefur fundist best að nota sjöl sem eru 2,6- 2.85 metrar á lengd. Þannig er það nógu langt til að nota í allt nudd og svo til að bera barn en ekki það langt að efnið þvælist fyrir. Ef nota á rebozo-sjalið í nudd og fæðingar er hægt að sjá hvort lengdin sé hentug með því að vefja sitthvorum enda sjalsins um hendurnar á sér og láta það slaka niður á gólf svo manneskja gæti legið í því. Ef það er hægt er sjalið nógu langt og smá aukalengd í lagi. Í raun eru sjöl sem eru lengri en þrír metrar mikið hentugri sem burðarsjöl.

Efnið verður að vera velofið, yfirleitt hentar bómull best en vel ofin ull hentar líka vel. Sjalið þarf að vera passlega þykkt svo það gefi sig ekki, helst án uppbrots við endana (getur meitt). Þegar sjalið er teygt beint á það ekki að gefa eftir en ef það er teygt á endana ætti það að gefa eftir lítillega – ca hálfan sentimetra. Almennt henta gerviefni ekki og hefðbundið silki er of sleipt. Velofið, þykkt hrásilki getur gengið upp.

Góð bómullarsjöl batna með notkun, svo með því að handfjalta sjalið mikið, nota það vel verður það mýkra og skemmtilegra í notkun. Þegar þvo á sjal er best að þvo það sér í þvottavél með litlu þvottaefni og strauja það á góðum hita eftir þvott.

Svefn barna fyrstu mánuðina

Börn fæðast með óþroskaðan svefn og vökuhrynjanda og það tekur nokkurn tíma að móta hann.  Svefnhrynjandi er hormónastýrt ferli sem ræður því hvenær við vöknum og sofnum. Svefnhrynjandi barna byrjar að myndast við 6-9 vikna en er yfirleitt ekki fullmótaður fyrr en um 12 vikna. Fram að þeim tíma gera börn ekki endilega greinarmun á nóttu eða degi. Þau sofa þegar þau eru þreytt. Svefn og vaka stýrast af svengd, börn vakna þegar þau eru svöng og sofna þegar þau eru södd. Því er erfitt að reikna út svefnmynstur barna fyrir þann tíma því það breytist ört.

Flest nýfædd börn sofa í nokkuð jöfnum dúrum allan sólarhringinn sem svo breytist eftir því sem þau eldast og þroskast. Fyrst um sinn eru þetta tveggja til þriggja tíma lúrar sem smá lengjast og algengt er að 4 mánaða gömul börn séu farin að sofa 3-4 tíma samfellt á nóttunni ( en kannski í heildina 9-10 tíma). Þessi tími lengist frekar hratt og mörg 4 mánaða börn hafa getuna til að sofa í lengri lúr, 5- 6 tímum, yfir nóttina. Meðan ungbörn eru að þyngjast nóg, eru heilbrigð og venjuleg þarf ekki að hafa áhyggjur af of miklum svefni. Fyrstu vikurnar þarf þó stundum að fylgjast með því að börnin séu að nærast vel.

Flest börn um sex mánaða eru farin að sofa um 10-12 tíma í einu ferli en það getur alveg eðlilegt að börn á þessum aldri vakni enn 2-3 á nóttunni, mörg eru enn svöng á 4 tíma fresti. Um 10-12 mánaða aldur eru mörg börn komin í ákveðna svefnreglu og farin að sofna og vakna á svipuðum tíma. Það er erfitt að segja algild viðmið en mörg 6 mánaða gömul börn vakna enn 1-2 tvisvar á nóttunni. Mörg eins árs gömul börn vakna einu sinni á nóttu og nokkuð algengt er að börn vakni amk einu sinni til c.a. tveggja ára.

Svefnþörf er auðvitað mismikil en flestir eru innan viðmiða sem sett hafa verið fram. Með ung börn hefur maður auga með því að þau sofi nóg frekar en þau sofi of mikið (að því gefnu að þau séu að þyngjast og dafna). Börn undir þriggja mánaða ættu að ná 16-18 klukkustunda svefni á sólarhring, 3- 6 mánaða 15- 17 tíma á sólarhring og 6 mánaða börn um 14 tíma á sólarhring.

Svefnhringur barna er oft í kringum 40-45 mínútur og er svefninum skipt í fimm stig eftir dýpt svefnsins. Dýpsti svefninn er ríkjandi fyrri hluta nætur. Fyrstu fjögur stig svefnsins eru non rem svefn og síðasta stigið er draumsvefn eða rem (rapid eye movement). Ferlið er yfirleitt á þá leið að fyrstu tíu mínútur svefnhringsins er barnið að sofna og sefur laust. 10-20 mínútur inn í svefnhringinn er barnið sofnað og sefur laust. Í 20-30 mínútu er djúpur svefn. Fjórði hlutinn er 30-40 mínútur þegar barnið er að koma úr djúpsvefninum og síðustu mínúturnar sefur barnið létt, augun eru oft mikið á hreyfingu og auðvelt að vekja barn.

Það er í raun eðlilegt að börn vakni á nóttunni, það gera fullorðnir líka. Munurinn er bara sá að börn vekja foreldra sína þegar þau vakna. Hinir fullorðnu færa sængina, snúa sér og halda áfram að sofa og muna jafnvel varla eftir því að hafa vaknað. Börn eru hinsvegar ekki alltaf fær um að laga sig sjálf eða segja frá því sem angrar þau og þurfa þess vegna aðstoð við að sofna aftur.

Margir þættir spila inn í að börn vakna á nóttunni sem hægt er að skipta upp í ákveðna flokka.

·        Algengast er líkamleg vanlíðan eða veikindi. Þættir eins og tanntaka, eynabólga, stíflur í nefi, bakflæði, asmi og fleira í þeim dúr.

·        Þroskatengdir þættir eru líka algengir, barnið hefur lært nýja færni sem það yfirfærir á svefntímann, algengt er að 4 mánaða börn fari að vakna út af þroskakipp sem og  7 mánaða börn og 10 mánaða gömul börn. Vaknanir vegna þroska ganga yfirleitt hratt yfir.

·        Breytingar á fjölskyldulífinu eða þættir úr umhverfi hafa oft áhrif og stundum gleymist að taka þá með í myndina. Breytingar á samveru t.d. foreldri fer að vinna, barnið eignast systkini, flutningar,  skilnaður eða önnur streita hefur allt áhrif. Börn sem hafa upplifað erfiðar aðstæður finna oft fyrir því í svefni sínum.

·        Skapgerð barnsins. Ekki eru öll börn eins og sum eru auðtruflaðri en önnur.

Að bregðast við barni

Það er mæðrum og foreldrum eðlislægt frá náttúrunnar hendi að bregðast við gráti barna sinna. Grátur er fyrsta tungumál barnsins og beiðni um aðstoð og umönnun. Foreldrar og sérstaklega mæður finna oft sterk líkamleg viðbrögð þegar börn þeirra gráta. Konur sem hafa börn sín á brjósti finna t.d. oft fyrir aukinni mjólkurmyndun þegar barnið grætur og jafnvel losunarviðbragði.

Með því að bregðast við gráti barns af yfirvegun kennum við barni að þörfum þess er sinnt og komum til skila að barn geti tjáð vanlíðan og að vanlíðaninni er mætt. Barn þarf á því að halda að foreldrar geti brugðist við þörfum þess og túlkað óskir þess barninu í hag. Með því að bregðast við barni byggist hægt og rólega upp gagnkvæmt traust milli aðila. Gera má líka ráð fyrir því að barnið gráti minna eftir því sem það eldist og þroskast.

Grátur er ekki neikvæð hegðun sem þarf að slökkva á. Grátur treystir samband barns og umönnunaraðila og minnkar streitu. Eftir því sem barnið eldist og þroskast minnkar gráturinn og tjáningin breytist.

Þegar barn grætur er líka mikilvægt að bregðast við því sjálfur af yfirvegun. Flest börn hafa ákveðna getu til að ná

Að skapa góðar svefnvenjur fyrir barn

Fyrst er að huga að því að skapa fyrirsjáanlegan ryþma. Haga hlutunum þannig að þeim fylgi ákveðinn taktur. T.d. svefn, leikur, matur, svefn. Oftast hentar betur að horfa í barnið og merki sem það sendir frá sér frekar en að ætla að fylgja klukkunni stíft en klukkan getur verið góð til hliðsjónar.

Hjálpa börnum að gera greinarmun á nóttu og degi. Þegar börn sofa í birtu á daginn og myrkri á nóttunni sofa þau betur og melatónin framleiðslan er í meira jafnvægi. Þegar barni er sinnt á nóttunni er því frekar rökkvað en þegar því er sinnt á daginn er meiri birta góð.

Hluti af góðri svefnrútínu er að hafa náttstaðinn bara sem náttstað en ekki líka leikherbergi.

Einkenni góðs parasambands

Í góðu sambandi er mikilvægt að finna að maður tilheyri maka sínum og skipti hann máli. Þessi grunnþörf að elska og vera elskaður, geta þegið og gefið. Í langtímasambandi er mikilvægt að byggja sambandið á vináttu þar sem traust ríkir og báðir aðilar eru ábyrgir fyrir þeirri uppbyggingu. Vinátta felur í sér að hlusta í gleði og sorg, vináttan felur í sér að taka makanum eins og hann er og vera áhugasamur og vakandi fyrir því sem hann er að segja. Í parasambandinu er mikilvægt að geta lesið hinn aðilann og viðurkennt hann og séð hann fyrir það sem hann er. Parið verður að geta viðurkennt hvort annað án þess að gera kröfu um að það deili sömu skoðunum og tilfinningum.

Við það að eignast barn stendur parasambandið oft á tímamótum, framundan er nýr og spennandi tími í lífi fólks og að mörgu að hyggja. Flestir vilja hlúa að og rækta parasambandið sitt á þessum tíma. Nokkuð hefur verið skoðað hvað einkennir gott samband, slíkar upplýsingar fást meðal annars með því að tala við pör um upplifun þeirra og greina reynslu þeirra.  

Bandaríski hjónabandsráðgjafinn John Gottman bendir á að traust byggist hægt og rólega upp og er lykilþáttur í hjónaböndum. Þetta benda fleiri rannsóknir á. Traust er grunnþáttur í öllum samfélögum og veitir öryggiskennd og vellíðan. Traust er að vera meðvitaður um líðan makans, vilja snúa sér að honum tilfinningalega, reyna að skilja hann og geta brugðist við í samhygð. Traust er ekki síður mikilvægt í vanmætti, maður verður að geta sýnt viðkvæmar hliðar og treyst makanum fyrir þeim. Traust er tvíhliða sem báðir aðilar eru ábyrgir fyrir.

Gagnkvæm virðing einkennir gott samband og hana er hægt að tjá á ýmsan máta. Virðing er að njóta félagsskapar makans, þekkja hann og viðurkenna með kostum og kynjum. Þekkja vonir hans og drauma, gleði og sorg. Virðing er að láta sig maka sinn varða, hlusta á hann og það sem hann hefur að segja sem og að reyna að skilja hann, ekki í hvunndeginum. Hlusta til að skilja ekki til að fá orðið.

Stuðningur og umhyggja er þýðingarmikill fyrir sambandið þar sem parið er næmt á þarfir hvors annars. Stuðningur er að sýna í verki að maður er vakandi fyrir því sem þarf að gera eða segja og vilja liðsinna maka sínum. Stuðningurinn skiptir miklu máli þegar reynir á. Hann felur í sér meira en að sýna samúð, hann felst í því að taka að sér aukin verkefni og skuldbindingar þegar makinn þarf að jafna sig. Stuðningur og umhyggja er að setja sig í spor makans og hafa löngun til að hlífa honum á erfiðri stundu. Stuðningur og umhyggja gerir hversdaginn þægilegri og sambandið nánara. Með stuðning og umhyggju að leiðarljósi er líklegra að hægt sé að ræða málin þegar á reynir og finna farsælan endi eða lausn á verkefnunum sem parið stendur frammi fyrir.

Gleði, húmor og að horfa í smáu augnablikin skiptir máli í samskiptum parsins. Að geta séð hið jákvæða og glaðst yfir því smáa. Finna stund til þess að njóta og upplifa saman styrkir sambandið. Grínið má þó ekki yfirtaka samskiptamáta parsins þannig að öllu sé slegið upp í grín.

Ekki er sjálfgefið að samband gangi og sjaldnast tilviljun að gott samband er gott. Atriðin sem hér hafa verið nefnd, vinátta, traust, virðing og gleði eru burðarliðir í góðu sambandi og byggja grunn undir sambandið svo það geti þroskast áfram og þróast. Með þessa burðarliði getur par gengið í gegnum tímabil og tímaskeið með sínum sérkennum og tekist á við verkefnin sem upp koma.  

Nokkur orð um parasambandið

Að eignast er fyrir flesta dásamleg og eftirsóknarverð breyting á lífinu. Allt breytist og verður betra. Líklega verður ekki meiri breyting á parasambandi en við það að eignast fyrsta barnið. Allir fá nýtt hlutverk og það tekur tíma að læra inn á barnið, sjálfan sig og parasambandið.  Meirihluti foreldra kannast við að hafa stögglað í sambandinu sínu fyrsta ár barnsins og að það taki tíma að aðlagast og lenda á fótunum aftur. Skal engan undra, það tekur tíma að annast lítið barn, bleiuskiptingar, þvottur og umönnun fyllir upp í tímann manns. Það er mikilvægt að gæta að verkaskiptingunni, skipta verkum jafnt á milli sín og ræða oft hver gerir hvað. Sumir detta inn í góða verkaskiptingu á heimilinu en flestir þurfa að gefa sér tíma til að ræða hlutina og finna taktinn. Svefninn er oft minni fyrsta árið eftir að barnið er fætt og lítill svefn gerir allt erfiðara. Með því að gæta þess að allir á heimilinu hvílist nóg gengur flest betur. Það er auðvelt að falla í þá gryfju að finnast maður verða að gera eitt og annað og taka það fram yfir svefninn en svefninn ætti að vera forgangsatriði. Þetta er sérlega mikilvægt ef barnið sefur slitrótt eða lítið. Síðast en ekki síst er mikilvægt að muna að í brimrótinni verður maður að muna að vera bandamaður maka síns. Spjalla mikið saman þegar vel gengur og enn meira þegar harðnar á dalinn.

Svefn ungbarns

Svefn er eitthvað sem við erum flest að spá í fyrsta ár barnsins, margir foreldrar finna að þau sofa minna og það tekur tíma að finna út hvernig er best að hjálpa barninu að fara að sofa.
Fyrstu mánuði barnsins er best ef það sefur alltaf í nálægð við foreldrana, þannig er hægt að sinna því þegar það vaknar án mikillar fyrirhafnar og heyra í því þegar það fer að rumska.

Nokkur atriði er varða rúmið/svefnstaðinn er gott að hafa í huga:

 • Passa að hafa ekki of heitt inni í herberginu
 • Dýnan á að vera stíf og jöfn
 • Ekki kodda fyrsta árið
 • Passa að hafa jafnvægi í sængurfatnaði, ekki of þykka sæng sérstaklega ef barnið er vel klætt
 • Ekki stuðkanta eða mörg mjúkdýr í rúmið/vögguna
 • Barn á alltaf að vera lagt á bakið til svefns

Ef barnið sefur uppí hjá foreldrum er mikilvægt að hafa í huga:

 • Aðeins foreldrar eða þeir sem annasta barnið hafi það upp í hjá sér
 • Gæta þess vel að barnið geti hvergi dottið fram úr
 • Enginn koddi og sérábreiða fyrir barnið
 • Foreldrar verða að vera í góðu standi, þ.e. ekki er mælt með því að foreldri sem hefur neytt áfengis, taki lyf, reyki eða á annan hátt er með skerta getu til að bregðast við barni deili rúmi með barni.

Fyrstu mánuðina eru börn í raun ekki með sérstaka svefnrútínu, þau sofa þegar þau eru södd og búin að leika. Þó er gott að fara að huga að því fljótlega að búa til góðar venjur með barninu, þannig að það sé fyrirsjáanleiki í daglega lífinu. Það hjálpar foreldrunum líka heilmikið að hafa ákveðinn ryþma.

Kynlíf eftir barnsburð

Það getur verið stórt skref að fara að huga að því að lifa kynlífi eftir að litla barnið er komið í heiminn. Það tekur mislangan tíma fyrir konur og pör að jafna sig eftir fæðinguna og finna fyrir löngun í kynlíf aftur. Líkaminn er oft mikið breyttur, maginn mjúkur, brjóstin þanin og húðin getur verið viðkvæm. Stundum þekkja konur ekki alveg líkama sinn og það getur tekið tíma að taka hann aftur í sátt.  Hversu langur tími á að líða eftir fæðingu er misjafnt milli para, lykilorðið er að bæði séu tilbúin og hafi áhuga en yfirleitt er gott að bíða fyrstu sex vikurnar eða svo en það er alls ekki óalgengt að löngunin sé ekki til staðar fyrstu 3-4 mánuðina og jafnvel ekki allt fyrsta árið.

Umönnun barns tekur alla manns athygli og tíma. Eftir að barnið er fætt er maður yfirleitt í meiri líkamlegri snertingu við aðra manneskju en maður hefur verið áður og hugtakið ,,touched out“ er stundu notað í því samhengi, snerti – , nándarþörfinni er einfaldlega uppfyllt. Þá er minni svefn og breytt svefnmunstur eitthvað sem hefur mikil áhrif og svo er hormónabúskapurinn öðruvísi fyrstu vikurnar og mánuðina eftir fæðingu. Hormónabreytingarnar hafa t.d. stundum í för með sér að konur eru með þurrari slímhúð sem þarf þá að bregðast við. Hormónabreytingarnar eru  sérstaklega þegar kona er á með barn á brjósti.

Ekki gleyma að tala saman og fara yfir málin, það er ekki ólíklegt að pör séu á ólíkum stað hvað varðar áhuga eftir að barnið er fætt. Það er mikilvægt að muna eftir því að snertast, knúsast og kyssast. Muna að fara yfir málin saman, hvar áhuginn liggur og hvenær og hvað geti verið gott og veitt ánægju. Það má ekki gleyma því að kynlíf getur verið mjög fjölbreytt og kryddað.

Flestir finna að þeir þurfa að breyta mynstrinu frá því sem áður var, til dæmis með tímasetningar því oft eru allir þreyttir á kvöldin, oft er ekki jafnmikill tími aflögu eins og áður var og þá þarf kannski að huga að því að nota tímann þegar barnið er að leggja sig eða fá stundarpössun.  Um að gera að nota hugmyndarflugið!

Langflest pör upplifa með tímanum eða um eins árs aldur barnsins að kynlífið er komið í svipað horf og það var áður en von var á barninu og mörg pör deila því að kynlífið sé ánægjulegra og nándin innilegri eftir að barnið kom til sögunnar.

 

 

 

 

 

Þegar tveir verða þrír- parasambandið

Ótal margt breytist við komu lítils barns inn á heimilið og parasambandið tekur nýja stefnu.  Í amstri dagsins taka við bleiuskipti, matargjafir og oft svefnlausar nætur.  Þá er ótalið aukinn þvottur, oft fjárhagsáhyggjur og oft breytt líkamsímynd. Minni tími fyrir hvort annað og parasambandið.  Sumir taka lítið eftir breytingunum meðan aðrir sakna nándarinnar frá makanum.   Það er alveg eðliegt að fókusinn breytist tímabundið og í raun nauðsynlegt að við getum lagt okkar þarfir aðeins til hliðar og annast lítið barn.  Það þýðir þó ekki að maður þurfi alveg að gleyma sér og makanum þó að sambandið breytist.

Með því að muna að setjast niður og spjalla saman helst tengingin. Tala um daginn ykkar, daginn ykkar saman og svo hvernig hann var þegar þið voruð ekki saman. Snúa sér að hvort öðru og sýna áhuga og athygli. Þannig nær maður að halda sér inni í málunum hjá makanum og deila því sem maður er sjálfur að upplifa. Það er mjög mikilvægt að tala um barnið, umönnun þess og foreldrahlutverkið en ekki síður mikilvægt að tala alls ekki um það og reyna að gleyma sér í spjalli um eitthvað sem manni finnst skemmtilegt og áhugavert við að vera maður sjálfur en ekki ,,mamma barnsins“ eða ,,pabbi barnsins“.

Það getur verið góð ákvörðun að ákveða að snúa sér að makanum og ákveða að tengja, snúa sér að makanum eftir athygli, hlýjum orðum, snertingu og umhyggu. Með því að taka meðvitaða ákvörðun um að veita makanum athygli og biðja um hana er maður að tengja sig inn í sambandið aftur. Það þarf ekki að fjölyrða um hve neikvæð áhrif það hefur á parasambanið að nota hunsun, svara ekki eða sýna makanum ekki hlýju, slíkt dregur parið hægt og rólega í sundur.

Að sama skapi getur gert kraftaverk að setja í orð, litlu fallegu hlutina í hversdeginum. Dagarnir eru nefnilega fullir af stuttum fallegum stundum sem má setja í orð, orða hve vel þið annist barnið, hvernig við höldum sambandi, hvað heimilið er fallegt, hárið hressandi eða hvað það er sem vekur örlitla aðdáun í hvunndeginum. Þá má líka setja þakklæti ofarlega í umræðuna, einföld tjáning eins og ,,takk fyrir að …..“ get verið ótrúlega hvetjandi.
,,Takk fyrir að hella upp á kaffi fyrir mig“, ,,Takk fyrir að vakna með barninu í nótt“, ,,Takk fyrir að elda“.

Flest pör finna breytingar á nánd og kynlífi fyrst eftir að barn fæðist. Það tekur líkama konu mislangan tíma að jafna sig eftir fæðingu, stundum er það nokkrar vikur en getur verið margir mánuðir.  Þreyta og svefnleysi eru líka þekkt fyrir að draga úr nándarlöngun og það getur verið að nýju foreldrarnir upplifi að þau þurfi ekki meiri snertingu eftir að vera í daglegri mikilli snertingu við lítið barn.

Það er ekkert rétt eða rangt í þessum málum en flestir eru sammála um að nánd og kynlíf skiptir máli svo það er gott að hafa orð á breytingunum og tjá áhuga og sýna umhyggju.  Margir finna að það er ekki jafnlaus tími fyrir kynlíf og þá getur verið gott ráð að skipuleggja og taka frá tíma fyrir kynlíf. Sumum finnst það óspennandi tilhugsun en spontant getur líka þýtt að ekkert verður úr neinu og með skipulagi er hægt að búa til eftirvæntingu og spennu. Aðalmálið er að taka hlutunum með ró og prófa sig áfram.

Uppáhaldspararáðið mitt er stefnumót. Stefnumót para ættu að vera skylda amk einu sinni í mánuði. Vera saman tvö, gera eitthvað þar sem þið veitið hvort öðru athygli og njótið ykkar saman. Fyrstu mánuðina eftir að barnið fæðist er kannski ekki raunhæft að fara út úr húsi en þá má útbúa góðan mat og borða saman eftir að barnið er sofnað, setja kerti á borðið og hafa tónlist undir. Horfa saman á gamanmynd og/ eða hlæja. Rifja upp góðar stundir og passa að láta samtalið ekki snúast of mikið um reikningana heldur það sem ykkur finnst skemmtilegt og áhugavert.

Þegar fram líða stundir er hægt að fá pössun, fara saman á kaffihús, kíkja á bókasafnið eða skella sér í göngutúr eða sund. Stefnumótið þarf ekki alltaf að vera viðburðarríkt, dýrt og alsett glimmeri heldur stund sem þið njótið, saman tvö í ahyggjuleysi og notalegheitum.

Margir finna einmitt að parasambandið verður betra, dýpra og nánara eftir að börnin fæðast. Það getur bara tekið tíma að aðlagast og finna taktinn aftur og oftar en ekki þarf að gera það meðvitað.

Ástin í góðu sambandi er í raun svolítið eins og pottablóm á heimilinu, það þarf að hlúa að henni og viðhalda svo hún vaxi og dafni. Hún þolir alveg að henni sé gleymt í smá tíma og þolir skuggatímabil og smá þurrk en það þarf að vökva og gæta þess að hún fái athygli og birtu.

 

 

 

Að eignast annað systkini

Ég hef tilhneigingu til að endurtaka mig og segi oft að allir ættu að byrja á því að eignast barn númer tvö. Þá eru flestir svo öruggir með sig og kunna handtökin og alveg búnir að mastera foreldrahlutverkið. Hitt er svo að þegar annað barnið kemur (nú eða þriðja eða fjórða eða..) að þá eru eldri systkini að fara í nýtt hlutverk og það getur verið erfitt og áhugavert að takast á við. Alltaf er eitthvað nýtt að takast á við og skoða.

Vissulega skiptir aldur barnsins miklu máli þegar það eignast systkini. Það er munur á þvi að vera 18 mánaða og eiga von á systkini eða 6 ára. Óháð aldri þurfa börn undirbúning. Það getur verið mjög skrýtið að fá annað barn inni á heimilið og margar  hugsanir hljóta að fara í gegnum huga lítils barns, svo sem eins og hvort ástin sé jafnmikil milli barnanna, hvort það sé yfirhöfuð gaman að eiga systkini, hvort maður gleymist og svo auðvitað gleði, spenningur og eftirvænting. Líklega sveiflast börn þarna á milli mikillar tilhlökkunar og gleði og efa og öfundar.

Börn verða afbrýðissöm og öfundssjúk og kannski má ganga út frá því að það sé eðlilegt. Systkinasambandið er lengsta staka sambandið sem við eigum á lífsleiðinni og kannski það mikilvægasta og á sama tíma vanmetnasta. Við verðum að gefa okkur að það komi til með að ganga á ýmsu. Systkini rífast, takast á, þræta og keppast um athygli foreldra sinna. Það er eðlilegt en fellur i hlut okkar foreldranna að hjálpa þeim að finna þessum tilfinningum farveg og hjálpa þeim að búa til gott og heilbrigt samband við systkini sín.

Þegar annað barnið okkar fæddist var ég mjög vel undirbúin undir að þetta yrði ,,allskonar“ og hafði verið svo lánsöm að geta drukkið í mig reynslu vinkvenna og lesið mér vel til. Það sem kom mér algerlega í opna skjöldu var hve skilyrðislaus, einföld og falleg ást systranna varð frá fyrstu stundu. Ég veit ekki hvort ég vissi það ekki eða bara áttaði mig ekki á því fyrr en ég hafði það fyrir augunum á mér að systrakærleikurinn kom strax og stóra systir tengdist og elskaði litlu systur sína frá fyrstu stundu. Bara rétt eins og við foreldrarnir.

Mikilvægasti þátturinn er líklega að byrja á  meðgöngunni að tala við barnið um nýja systkinið og halda svo samtalinu áfram eftir að er fætt. Tala við barnið út frá áhugasviði þess og aldri og leyfa því svolítið að stýra ferðinni. Ef barnið hefur mikinn áhuga á litla barninu er það vel en það má líka alveg ekki hafa áhuga á því. Samtalið er svo mikilvægt. Spjalla um hvað er að gerast, velta því fyrir sér hvernig þetta verði og svo framvegis og samþykkja og skoða tilfinningar barnsins sem koma upp og reyna að tengja við þær og skilja. Líklega verða stundir þar sem stóra systkinið  vill leika mikið við barnið og hafa það hjá sér og tala við það. Svo verða líka stundir þar sem að systkinið er afbrýðissamt og vill helst vera eitt með ykkur foreldrunum og efast um að það skipti jafnmiklu málið og áður. Þetta er bara hluti af ferlinu og þau verða að fá að finna að þessar tilfinningar eru eðlilegar og við verðum að leggja okkur fram um að skilja stóru börnin og hjálpa þeim að finna tilfinningunum og breyttum aðstæðum jafnvægi.

Þegar stórar tilfinningar stíga fram er svo gott að reyna að muna eftir frumtilfinningunni, reiði er til dæmis mikið oftar fylgitilfinning en frumtilfinning. Börn sýna oft reiði en eru í raun leið, hrædd eða afbrýðissöm í grunninn. Því er mikilvægt að gefa sér tíma til að skoða hvað það er sem er á bak við neikvæðu til finninguna og bregaðst við þeirri tilfinningu en ekki birtingarmyndinni sem getur verið svo klaufaleg.

Ef það er ekki nú þegar hátturinn á heimilinu þá er gæfuspor að hafa báða foreldra vel innvinklaða í umönnun barnsins svo það geti leitað jafn til foreldranna og bæði fundið huggun og gleði við það að leita til beggja. Við þurftum að taka á okkur rögg með þetta og það heppnaðist mjög vel, var gott skref fyrir stóru stelpuna okkar og samband hennar við pabba sinn.

Stundum þarf að fara í breytingar á herbergi, flytja eða færa til við komu nýs systkinis og þá er mikilvægt að fara í gegnum þær breytingar af yfirvegun og hafa barnið með í ráðum svona eftir þroska þess. Gefa sér tíma í breytingarnar, gera þær eftirsóknarverðar og taka þetta í rólegheitunum, líklega verður allt erfiðara ef þær eru þvíngaðar fram. Mér finnst oft ofuráhersla á að allar breytingar verði að gerast svo snemma í ferlinu en ég held að meðan við tökum yfirvegaða ákvörðun og breytum í rólegheitum að þá er hægt að gera það hvenær sem er. Mikilvægast er að vera meðvitaður og muna eftir stóra barninu og staldra við og velta því fyrir sér hvaða áhrif maður haldi að breytingin hafi á barnið og hvort hún sé nauðsynleg og með velferð fjölskyldunnar í heild að leiðarljósi. Ef svo er þarf maður alls ekki að vera hræddur og það er líka allt í lagi að efast um breytingar, hjá litlum og stórum en við verðum að prófa okkur áfram.

Stóra systkinið verður að finna að það skiptir ennþá miklu máli, að það er enn mikilvægur hluti af fjölskyldunni. Fá að finna að það sé einstaklingur innan fjölskyldunnar sem skiptir máli og fær enn sína athygli og sinn tíma þó í breyttu formi.

 

Árið 2017 kvatt

Þá er árið 2017 búið og farið. Mér finnst alltaf gott að nota síðustu daga ársins til að rifja upp helstu atburði og leiða hugann að komandi ári. Áramót eru einhversskonar uppgjör og tímamót.

Þetta hefur verið dásamlegt ár og gjöfult á svo margan hátt. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að vera viðstödd 16 fæðingar á árinu, ég er auðmjúk og þakklát fyrir. Hver fjölskylda er svo einstök og það er eiginlega ekki alveg hægt að færa það í orð hvernig það er að fylgjast með fjölskyldum vaxa og dafna. Barnsfæðing er magnaður lífsviðburður og ég er meðvituð um forréttindi mín að vera í kringum fjölskyldur á þessum ánægjulegu tímamótum. Af hverri fjölskyldu læri ég eitthvað nýtt, eitthvað nýtt um fæðingar, manneskjur og samskipti og ekki síst um lífið sjálft. Fyrir það er ég ótrúlega þakklát.

Ég tók á móti fólki í fæðingarundirbúning og aðstoðaði konur við að vinna úr fæðingarreynslunni sinni ásamt því að halda námskeið um fæðinguna, parasambandið og fyrstu fjóra mánuði ársins. Ég er að feta mig inn á braut fjölskyldumeðferðar og hef tekið á móti fólki í fjölskylduviðtöl.  Ég er alltaf á sama stað í Lygnu með yndislegu Bjarkar ljósmæðrunum sem er svo gott að vera í kringum.

Einu og hálfu ári lokið í námi í fjölskyldumeðferð. Tíminn hlífir mér ekki frekar en öðrum og þeysist áfram og mér finnst hálf ótrúlegt að aðeins ein önn sé eftir af náminu. Þetta hefur verið góður tími og ég hef öðlast yndislega færni sem vonandi kemur sér til góða fyrir fjölskyldurnar sem ég á eftir að aðstoða.

Tíu konur kláruðu doulu-nám hjá mér og það verður gaman að fylgjast með þeim halda áfram og útskrifast. Við unnum aðeins með doulusamtök og viljum virkja þau frekar. Á árinu var skrifuð mastersritgerð um doulur á Íslandi þar sem skoðuð var reynsla kvenna af því að vera með doulu og sú reynsla er góð. Það er alltaf ánægjulegt að fá staðfest með athugun það sem maður heldur.

Í september fór ég á Evrópska doulu-ráðstefnu til Póllands, það var í fyrsta sinn sem ég fór á douluráðstefnu og var innan um svona margar starfandi doulur. Þarna voru saman komnar 36 doulur frá ólíkum löndum, Belgíu, Bretlandi, Grikklandi, Króatíu, Lettlandi, Póllandi og Swiss svo einhver þjóðerni séu nefnd. Þvílíkur innblástur og mikil gleði, ég kynntist mörgum skemmtilegum konum og fékk innsýn í starf samstarfssystra minna í Evrópu og ekki þarf að fjölyrða um fegurð og dásemd Varsjár. Þema ráðstefnunnar var missir, hvernig við doulur getum stutt foreldra í gegnum missi. Þarft og erfitt umræðuefni sem lætur engan ósnortinn. Það snerti mig djúpt að fara á ráðstefnuna í Póllandi, bróðir minn dó í Póllandi fyrir 10 árum síðan og ég hafði ekki farið til Póllands síðan hann dó og mikið sem það var heilandi að ganga um götur Varsjár. Mér fannst eins og lífið væri komið í hring. Við doulur vinnum mest með upphaf lífsins og þarna var ég stuðningskona lífsins að læra um missi í landinu sem ég tengdi við missi.

Í október fór ég á Midwifery Today- ráðstefnuna, með Arneyju og Hrafnhildi ljósmæðrum og það var önnur skemmtileg yndisferð. Suomenlinna, lítil eyja við Helskinki tók vel á móti okkur og við eyddum nokkrum fallegum haustdögum innan um ljósmæður, doulur og stöku fæðingarlækni. Stemningin var dásamleg og mikið af yndislegum konum hvaðanæva úr heiminum sem gaman var að kynnast. Auk skemmtilegra fyrirlestra svo sem um oxytocin stendur kvöldvakan upp úr og ég var alveg dáleidd af öllum finnsku doulunum og finnsku ljósmæðrunum.

Fjölskyldan er bara við það sama, reyndar allir árinu eldri og við ættleiddum hund sem heitir Auðna og hún ber nafn með rentu og hefur svo sannarlega gert heimilislífið skemmtilegra. Við ætlum þó að hjálpa henni að gelta minna árið 2018!

Árið 2018 leggst vel í mig á allan hátt, ég held þetta verði gott ár, ljúft og vonandi bara svipað og síðasta ár. Þar sem allt er gott og stabílt en nokkur ævintýri inn á milli. Ég veit nú þegar af nokkrum fæðingum sem ég verð við og ég vonandi held áfram að taka á móti fólki í fæðingarundirbúning og viðtöl. Ég stefni á að klára fjölskyldumeðferðarnámið og halda áfram námskeið. Í lok janúar fer ég á Parent infant Psychotherapy námskeið sem ég hlakka mikið til að fara á og í lok mars er doulu-ráðstefna í London sem verður örugglega alveg frábær. Síðast en ekki síst vona ég að ég verji góðum tíma með fjölskyldunni.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða, megi árið 2018 vera ykkur gæfuríkt

Náttúrulegar leiðir til að takast á við fæðingu

Fæðing barns er stórvirki, það tekur á mörgum þáttum að koma barni í heiminn. Líkamlega er það krefjandi sem og andlega. Það er eitt og annað sem kona getur gert til að hafa áhrif á fæðinguna sína sem hjálpar til við að takast á við fæðinguna.

Öndun er svo ótrúlega einfalt en magnað hjálpartæki í fæðingu, ég hef séð það aftur og aftur hvað hvernig öndun dregur konur í annað meðvitundarástand. Hormónar, samdrættir og annað hafa auðvitað sín áhrif en þetta að draga inn andann, anda rólegar út og endurtaka  er svolítið eins og akkeri. Kemur konum aðeins lengra inn í fæðinguna og stundum alveg í gegnum hana. Það er eins og öndunin, yfirveguð, einbeitt og æfð minnki sársaukaupplifun, dragi úr meðvitund um umhverfið og geri konum betur kleift að fara inn í eigin líkama og ganga inn í tímaleysið sem fylgir fæðingu. Einn samdráttur enn, einn enn andardráttur. Það eru svo ótal mörg önnur tilefni þar sem andardrátturinn nýtist áfram, þó móður og barn séu ekki lengur eitt. Það á oftast eftir að sauma og stundum taka blóðsýni, það eru sárar geirvörtu og aumur botn sem fylgja manni inn í móðurhlutverkið.  Öndun þessi endurtekning að draga inn andann og anda rólega út, gagnast manni vissulega best þegar maður hefur æft það á einhvern hátt áður, meðvitað eða ómeðvitað. Svo sem að fara í jóga og gera hugleiðsluæfingar. Þá gagnast að sama skapi að muna að það þarf ekki nema þrjá rólega andardrætti til að róa líkamann, sem ósjálfrátt róar hugann. Þessa þrjá andardrætti er aðgengilegt að æfa heima hjá sér, hvenær sem maður man eftir, maður getur gert það í laumi svo að segja hvenær sem er en það er líka hægt að setja miða á ísskápinn eða stilla símann sinn á áminningu. Ég bendi fólki stundum á á námskeiðinum mínum að það geti verið gott að æfa saman andardráttinn í augnablik fyrir svefninn, haldast jafnvel í hendur þegar maður er lagstur á koddann og taka nokkra góða andardrætti og leyfa sér að finna, án þess að dæma, hvernig manni líður í líkamanum.

Mín reynsla í gegnum þær  fæðingar sem ég hef verið viðstödd er líka sú að öndunin kemur manni alltaf til góða en fæstar konur geta stýrt önduninni út alla fæðinguna, þar til barnið er komið í heiminn. Það er eins og þegar komið er á síðustu metrana taki líkamskerfið alveg við, stýri líkamanum og stýri önduninni. Ósjálfráða kerfið tekur yfir og þá getur reynt á að láta hugann fylgja með og leyfa líkamanum að stýra. Sumar konur hafa talað um að það hafi verið erfitt að hafa stýrt önduninni lengi og vel og finna svo á einhverjum tímapunkti að öndunin er ekki eins og þær vilja stýra honum, þá er að taka eftir því og samþykkja það. Minna sig á að maður er kominn það langt í fæðingunni að öndunin er ósjálfráð, þá er yfirleitt stutt eftir.

Hreyfing í fæðingu getur líka verið virkilega gagnleg, það að hreyfa sig reglulega meðan á fæðingunni stendur styttir fæðinguna og gerir hana mun bærilegri. Það er misjafnt hvernig hreyfiþörfin kemur til kvenna og meðan sumar eru mjög afslappaðar og finna lítinn frið með að hreyfa sig eru aðrar sem verða að vera á hreyfingu.

Í upphafi getur verið gott að ganga aðeins um, það er hægt að fara í gönguferð í byrjun fæðingarinnar og þegar líða fer á getur verið gott að ganga um húsið eða herbergið. Sumum finnst gott að rúlla sér á bolta eða hossa sér á milli samdrátta, getur linað verkina og hjálpað litla barninu að snúa sér og koma sér í góða stöðu. Eiginlega er öll hreyfing sem manni dettur í hug til hins góða.

Stundum er nóg að standa og hrista mjaðmirnar duglega, sveifla mjöðmunum í rólega í stóra hringi. Ef maður liggur út af er gagnlegt að muna að skipta um hlið á hálftíma fresti og jafnvel snúa sér í hring, hægri  hlið, bak, vinstri hlið, fjórir fætur.

Fæðing barns er stórvirki, það tekur á mörgum þáttum að koma barni í heiminn. Líkamlega er það krefjandi sem og andlega. Það er eitt og annað sem kona getur gert til að hafa áhrif á fæðinguna sína sem hjálpar til við að takast á við fæðinguna.

Öndun er svo ótrúlega einfalt en magnað hjálpartæki í fæðingu, ég hef séð það aftur og aftur hvað hvernig öndun dregur konur í annað meðvitundarástand. Hormónar, samdrættir og annað hafa auðvitað sín áhrif en þetta að draga inn andann, anda rólegar út og endurtaka  er svolítið eins og akkeri. Kemur konum aðeins lengra inn í fæðinguna og stundum alveg í gegnum hana. Það er eins og öndunin, yfirveguð, einbeitt og æfð minnki sársaukaupplifun, dragi úr meðvitund um umhverfið og geri konum betur kleift að fara inn í eigin líkama og ganga inn í tímaleysið sem fylgir fæðingu. Einn samdráttur enn, einn enn andardráttur. Það eru svo ótal mörg önnur tilefni þar sem andardrátturinn nýtist áfram, þó móður og barn séu ekki lengur eitt. Það á oftast eftir að sauma og stundum taka blóðsýni, það eru sárar geirvörtu og aumur botn sem fylgja manni inn í móðurhlutverkið.  Öndun þessi endurtekning að draga inn andann og anda rólega út, gagnast manni vissulega best þegar maður hefur æft það á einhvern hátt áður, meðvitað eða ómeðvitað. Svo sem að fara í jóga og gera hugleiðsluæfingar. Þá gagnast að sama skapi að muna að það þarf ekki nema þrjá rólega andardrætti til að róa líkamann, sem ósjálfrátt róar hugann. Þessa þrjá andardrætti er aðgengilegt að æfa heima hjá sér, hvenær sem maður man eftir, maður getur gert það í laumi svo að segja hvenær sem er en það er líka hægt að setja miða á ísskápinn eða stilla símann sinn á áminningu. Ég bendi fólki stundum á á námskeiðinum mínum að það geti verið gott að æfa saman andardráttinn í augnablik fyrir svefninn, haldast jafnvel í hendur þegar maður er lagstur á koddann og taka nokkra góða andardrætti og leyfa sér að finna, án þess að dæma, hvernig manni líður í líkamanum.

Mín reynsla í gegnum þær  fæðingar sem ég hef verið viðstödd er líka sú að öndunin kemur manni alltaf til góða en fæstar konur geta stýrt önduninni út alla fæðinguna, þar til barnið er komið í heiminn. Það er eins og þegar komið er á síðustu metrana taki líkamskerfið alveg við, stýri líkamanum og stýri önduninni. Ósjálfráða kerfið tekur yfir og þá getur reynt á að láta hugann fylgja með og leyfa líkamanum að stýra. Sumar konur hafa talað um að það hafi verið erfitt að hafa stýrt önduninni lengi og vel og finna svo á einhverjum tímapunkti að öndunin er ekki eins og þær vilja stýra honum, þá er að taka eftir því og samþykkja það. Minna sig á að maður er kominn það langt í fæðingunni að öndunin er ósjálfráð, þá er yfirleitt stutt eftir.

Hreyfing í fæðingu getur líka verið virkilega gagnleg, það að hreyfa sig reglulega meðan á fæðingunni stendur styttir fæðinguna og gerir hana mun bærilegri. Það er misjafnt hvernig hreyfiþörfin kemur til kvenna og meðan sumar eru mjög afslappaðar og finna lítinn frið með að hreyfa sig eru aðrar sem verða að vera á hreyfingu.

Í upphafi getur verið gott að ganga aðeins um, það er hægt að fara í gönguferð í byrjun fæðingarinnar og þegar líða fer á getur verið gott að ganga um húsið eða herbergið. Sumum finnst gott að rúlla sér á bolta eða hossa sér á milli samdrátta, getur linað verkina og hjálpað litla barninu að snúa sér og koma sér í góða stöðu. Eiginlega er öll hreyfing sem manni dettur í hug til hins góða.

Stundum er nóg að standa og hrista mjaðmirnar duglega, sveifla mjöðmunum í rólega í stóra hringi. Ef maður liggur út af er gagnlegt að muna að skipta um hlið á hálftíma fresti og jafnvel snúa sér í hring, hægri  hlið, bak, vinstri hlið, fjórir fætur.

 

European doula network- árleg ráðstefna í Varsjá

 

Ég fór á árlega ráðstefnu um helgina í Varsjá í Póllandi. European doula network eru samtök sem vinna að því að hafa samvinnu á milli doula óháð því hvar í Evrópu þær búa. Við vorum um það bil 60 sem tókum þátt.

Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja og hvernig ég get líst því hversu dásamlega skemmtileg þessi ráðstefna var og fræðandi.

Fyrst má kannski nefna að við vorum 60 doulur héðan og þaðan í Evrópu, ég hitti doulur frá Austurríki, Sviss, Póllandi, Rússlandi, Belgíu, Bretlandi, Grikklandi, Litháen og víðar. Dásamlegt alveg. Ég hef ekki verið umvafin svona mörgum reyndum doulum áður, við erum til þess að gera fáar á Íslandi og það var svo frábært að tala við þær, finna að þær voru að starfa af sömu hugsjón, að sama markmiði og hlæja með þeim að sömu bröndurunum.

Vinnusmiðjurnar voru ótrúlega skemmtilegar og fræðandi. Fyrst var fyrirlestur um pólska hjátrú tengda meðgöngu og fæðingu, sumt var mjög líkt því sem maður hefur heyrt heima á Íslandi, annað var framandi. Mér fannst fyndið að heyra að konum væri ráðlagt frá því að lita á sér hárið rautt á meðgöngu því það gæti orðið til þess að barnið yrði rauðhært. Það er margt hægt að segja um þessa hjátrú en fyndið er held ég best.

Svo fórum við á fyrirlestur um missi á meðgöngu og í fæðingu og hvernig doulur geta verið til staðar þegar foreldrar ganga í gegnum missi. Einnig var reynsla doula af þvi að aðstoða foreldra í kjölfar missis rædd.

Seinni vinnusmiðjan var Batik og Henna, við fengum að prófa að mála okkur með Henna lit og það var einstök upplifun, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég sem get ekki teiknað mynd svo fólk sjái hvort um er að ræða hund eða kartöflu gleymdi mér alveg og finn hlýju í hvert sinn sem ég lít á hendina á mér.
Svo fórum við yfir létta nuddtækni og rebozo-notkun. Langur en góður laugardagur.

Sunnudagurinn fór svo í fundarhöld, hvert EDN stefnir, hvað er að gerast í hverju landi fyrir sig og drög lögð að næstu ráðstefnu sem verður í Vín í september. Ég vona svo sannarlega að ég geti verið á EDN dögunum að ári og að þá verðum við fleiri en ein frá Íslandi.

Fæðing Áslaugar Emmu

My birth experience

I was due for the 31st of August, a very special day as it was coincidently the birthday of my sister. So
I was looking very much forward to this day. I had also asked my sister to come from Germany and be
with me during birth. Her flight was supposed to land on the 3rd of September. The previous weeks
had been very unstable for me as I had broken up with my boyfriend, the father of the child. He did
not give me the support and security I needed, and disappointed me constantly.
I was worrying for who would be with me during birth, should the baby come before my sister arrived.
My dear mother had passed away the year before. My father could certainly not do it as he would be too
stressed out and could not be the calm helper I wished to have by my side. And the child´s father? Maybe.
At least I had asked him and he had said yes. But I knew that I couldn´t rely too much on him.

One day when I was at the pregnancy yoga class from Auður, I heard a woman talking about a
“doula”, who would be with her during birth. I had never heard that word before and asked her
curiously about it. She explained to me that a doula is like your private midwife. You book her service
and she comes with you to the hospital. The advantage is that she is with you all the time, whereas
the midwifes in the hospital work in shifts, and it can easily happen that you get a new midwife when
you are in heavy labour. The thought of maybe having to give birth alone and then having to cope
with new midwifes, who are complete strangers to me, made me feel really insecure. So I thought
that it would be a very good solution for me to ask a doula for help.
And this is how I met Soffía. She was very sweet from the very first moment we met. We had several
meetings before I gave birth. There we talked about birth and breastfeeding, and she gave me always
a lovely foot massage. I was very relieved, as with her a huge problem had been solved for me. Now I
could look forward to birth, being much more relaxed and peaceful in my mind.
I was so sure that my child would come before the 31st of August, as everything had been so unstable
in my life the previous weeks. But now that I could relax much better and started to enjoy every day
of the pregnancy in beautiful sunny weather, it turned out that the baby would take its time. The due
date passed by and my sister arrived, but nothing had happened yet. Besides that my belly did get
bigger and bigger. In order to get the labour started we tried all kinds of things. We went for long
walks on the beach every morning, swimming at noon and drank red wine in the evening (just one
glass for me). I even danced wildly in my last yoga class with Auður and the other girls. The days
passed by and eventually my sister had to change her flight back and add some more days to her stay
in Iceland.

My midwife then suggested that I would have to be induced before I got 2 weeks overdue, but she
also said that labour might be more painful then. So I was a little bit scared and looked for other
remedies to get me started. Some homeopaths might have a remedy that helps. But I
was not lucky, the two women I called were both busy and could not help me. They rather
recommended me to wait a little bit more. But I was under pressure because I wanted my sister to be
with in the hospital and her flight back would be on the 14th, the last possible date for her. This really
stressed me and I was torn between two options, a) to be induced and b) to wait for a natural
beginning of the labour with the risk that my sister would be gone by then. In the end I chose option
a) and we went to the hospital on a Thursday evening where I received the first pill which was placed
in front of my cervix. We went home and I had a quiet night. Then we returned on the next morning
at 7 am, where I received the second pill. We got a nice room with a huge bathtub, as I wanted to
give birth in water, if possible. The morning passed and I still felt nothing. Although the midwife
could measure some labour activities in a four minute rhythm. I was in contact with Soffía, but I
decided to call her in when the real labour started. And the waiting continued. We went outside in
the sunshine and I started to run and hop around on the parking lot to help the baby to come out.
(I would not recommend doing that again because I had problems in my pelvic floor many montsh
after giving birth). But nothing really worked. So I got a third pill at about 5pm. By then I met my third
midwife as there had already two working shifts passed. She was older than the others and much
more open and kind. She was the first one who actually stayed longer in the room and talked to me,
hold my hand. She was like a mother to me. Her name was Þórdís Klara, and I told her that if my baby
was a girl I wanted to name her Elva Klara. What a coincidence. With Þórdís Klara I could eventually
open up and by 9pm the real labour started – quite suddenly and quickly evolving in more and more
painful waves. I soon kneeled on the floor, leaning over the gymnastic ball with my eyes closed,
surrendering to the labour pain. In every break I used the yoga breath which immediately calmed
and relaxed me. The CD “Grace” was playing in the background on repeat. As it turned 11pm Þórdís Klara
had to leave us –sadly so as she had given me so much security and warmth.

Now was the time to call for Soffía, who was with us the next half an hour. This was good because I
could tell that the new midwife was not exactly the person I had hoped for. Already the sound of her
chewing a chewing gum got on my nerves. By then I had my eyes closed all the time, too busy with
the labour. So basically sound, touch and smell was all I perceived. But I decided to just let go and
surrender to whatever would happen. As the pain got too strong, Soffía suggested that I could go
into the bathtub, because the warm water would usually have a soothing effect. Also there I had to
kneel on four feet. In one hand squeezing the little healing ball very hard, and in the other hand
holding the hand of my sister or Soffía. All three women were really busy with giving me all kinds of
help. The labour was so strong and rapid, there were just very short breaks in between. Soffía was
wonderful. Her deep soothing voice whispered constant motivations in my ear: „Vel gert!“, „You can
do it!“ or „There is a lot of power in you.“. And her warm hands pressed my lower back down and
helped to ease the pain. I cannot say how thankful I was to have her with me during birth. Greatful
also for the peaceful and feminine energy that surrounded me.
In the bathtub my cervix slowly had opened up and I thought that I would give birth soon. The
midwife prepared herself and put on armlong plastic gloves. Actually she put them on and off several
times after each contraction. Which irritated me, as I only heard the sound of it and it always made
me feel that I was expected to deliver immediately. But somehow the opening process stopped and
what remained was just the unbelieveable strong pain. I had been labouring and screaming loudly
since hours. I was exhausted and did not know how I possibly could go on like this. Would this never
end? In this moment I suddenly remembered what my friend Nana had told me about the children‘s
doctor and scientist Frédérick Leboyer who had researched in tribal communities and found out that
many women sing or yell words with the vowel A like “Ba, Ma, Ka,…” to open up the cervix. So I
started to do the same shouting out loud “BA, MA, KA, BA, MA, KA…!!!” and moving my hips in a
circular motion. Later on my sister told me that the midwife must have looked quite irritated at me.
This was nothing she did understand. Or maybe I am unfair towards her by judging her like this.
Because she also did a good job, just more in the technical aspects rather than in terms of warm
hearty care.
After more than two hours in the bath the water had gotten cold and I was really exhausted. I
thought I couldn´t do it anymore. I was totally out of energy. I only wanted to lie down and rest.
Nonetheless the labour continued and the midwife urged me to push. She did not give me a rest. And
I just said “I cannot anymore”. Then Soffía said to me “This is good, because when women say that
they cannot anymore then they have almost reached the point of birth.” I then laid down on the bed
again, on the back, one leg bent. Now the contractions weren´t that strong anymore but I had to
push as much as possible, pressing out my baby. The others could already see the hair on its head.
Pushing and pressing with each contraction was not as easy, because I felt so weak. The midwife had
already called for help and seemed to want to give me an epidural. Meanwhile I already thought of
the option of a caesarean. I actually had thought about all options of pain relief during the whole
labour process. The laughing gas, an epidural, the caesarean, etc. But somehow I and we all were too
busy with the labour that it just went on and on without having mentioned one of those. Somehow it
was always bearable, although utterly painful and overwhelmingly strong.

Soffía gave me strength by whispering in my ear that I still have a lot of power somewhere hidden inside of me. And so I
imagined myself being a strong and powerful mountain woman, standing on top of Esja. I had power!
I could do it! And the pushing and pressing continued.
My stomach had gotten so irritated that I had to puke in the same rhythm as I pushed down there.
My sister could not cope with this any longer. She had a greener face than me and withdrew to the
open window. Eventually I reached the point of no return, the point I believed I would never reach,
the point where I really got the right push and pressed out my baby in one-two-three short waves. All
of a sudden a warm and wet little body landed on my belly. And I hold my baby in my arm. “What is
it?” I asked, and the midwife said “Feel it yourself.” “A girl. And she is beautiful.” I stumbled. I was
overwhelmed by happiness. If my smile was a lamp, it would have illuminated the whole room. My
little daughter, my angel, there she was. Incredibly accomplished and beautiful. Everything before,
when she was still in my womb, felt just like an abstract idea. Now she was there with curious eyes
and long, delicate fingers. My Elva Klara. She was heavy and tall. 4500 gr and 55 cm, born at 3:54 am
on a Saturday morning, 13th of September.
My sister meanwhile collapsed on the armchair being utterly tired. She told me afterwards that it
took her at least one week to recover and digest this big experience. Of seeing someone you love
with so much pain and you cannot help. It was an overwhelming experience for her. Even though she
had given birth to three children.
Elva and I stayed in the hospital for the night, sleeping closely together in one bed. Her crying
sounded sweet to me. And the enchantment of looking at her, holding and kissing her has not
stopped ever since.

Fæðingarsaga Guðrúnar Ingu

Árið 2014 eignaðist ég einstaka stúlku á afmælisdegi mömmu minnar heitinnar. Hún fékk nafnið hennar auðvitað. Sú fæðing var erfið, og þá sérstaklega aðdragandinn, en fæðingin sjálf gekk síðan vel. Þá hafði ég farið niður á deild snemma með mjög harðar hríðar en mældist með enga útvíkkun ennþá, og fékk að fara inn á herbergi strax þrátt fyrir það. Ferlið tók 19 klukkustundir og eini staðurinn sem ég gat verið á var baðkarið, en mér þótti erfitt að standa upp úr baðinu og fara á klósettið (þurfti að gera það á 2 tíma fresti) og þar sóttu að mér erfiðar hugsanir, m.a. um dauðastríð mömmu minnar sem dó úr Alzheimer árið 2009. Mér fannst dauðinn vera nálægur sem sagt, og þetta var mér erfitt ferli. Á endanum þáði ég mænudeyfingu og náði að hvílast fyrir fæðinguna sjálfa, en ég stoppaði í 7 í útvíkkun í margar klukkustundir.

Þegar ég verð síðan aftur ólétt tveimur og hálfu ári síðar, blessunarlega, sótti að mér kvíði á óléttunni um næstu fæðingu. Ég ákvað því að horfast í augu við hræðsluna og var með galopið hugarfar. Tímarnir hjá Auði hjálpuðu mér mikið og ég fann að ég „heyrði“ oft skilaboðin hennar mun betur en síðast, sennilega því ég hafði gert þetta einu sinni áður. Ég ákvað að leita til Soffíu doulu, komin á áttunda mánuð meðgöngu, og hugsaði með mér að það myndi vera gott að hafa „mína“ manneskju með mér til að styrkja mig og styðja, þar sem mennirnir manns eru jú takmarkaðir þrátt fyrir að vera yndislegir J. Soffía sendi mig með lesefni og ég drakk allt í mig, endalausar fæðingarsögur, og lifði og hrærðist í þessu í svona viku yfir páska. Í næsta tíma hjá Soffíu, þar sem við hjónin mættum fyrst saman, spurði hún mig hvort ég væri áhugasöm um heimafæðingar, en hún fann það á sér einhvern veginn. Ég játti því en sagðist hvorki vera nógu mikill hippi né héldi ég að maðurinn minn væri til í það.

Við fórum yfir hlutina og öryggisatriði og fórum svo heim að hugsa. Það varð úr að við ákváðum að reyna þetta heima. Mig langaði líka til að vera heima með þriggja ára dóttur minni og þurfa ekki að senda hana burt til þess að fara á spítalann. Einhvers staðar var ég hrædd við að eiga ekki möguleika á mænudeyfingu, en eftir að hafa lesið mikið þá vissi ég að ef ég leyfði óttanum ekki að ráða þá myndi þetta ganga mjög vel. Því fóru öll kvöld í að taka smá slökunartíma í baði, hlusta á podcöst um fæðingar og segja mér aftur og aftur að ég gæti þetta.

Við áttum fund með stelpunum í Björkinni og það var frábært, svo við sannfærðumst enn frekar um að gera þetta heima. Eftir það fóru skoðanir fram heima hjá mér, þær settust með mér og drukku kaffi eða te og ég var skoðuð í sófanum heima. Þvílíkt frábært og yndislegt að fá að kynnast ljósmæðrunum sínum fyrirfram og heima hjá sér! Þær sögðu að munurinn væri sá að það að eiga á spítala fæli í sér að þú færir á vettvang heilbrigðisstarfsfólksins, en værirðu heima þá væri því öfugt farið. Þetta þótti mér frábærlega vel sagt og ég sannfærðist enn meira.

Á 39. viku fékk ég flensu, og ég vissi að það væri að styttast í þessu. Um leið og ég var farin að braggast fór ég af stað, að kvöldi laugardags 27. maí. Ég fór í langan göngutúr sama dag og í bumbupartí hjá Auði og var aktíft að koma líkamanum í réttan gír. Fyrsta hríð kom um tíuleytið um kvöldið. Stuttu síðar hættu hríðarnar og við lögðumst til hvílu, en eftir að maðurinn minn sofnaði byrjuðu þær aftur. Ég hugsaði um hríðarnar sem bylgjur og fagnaði því innilega þegar þær komu aftur. Ég reyndi að liggja sem lengst en það var eiginlega óbærilegt og ég svitnaði mikið. Ákvað því að fara framúr líka til að vekja manninn minn ekki, og gekk um gólf og fékk mér te, kveikti í arninum og horfði mikið út á sjó. Einbeitti mér að því að taka eftir öllu fallegu, hugsaði fallega, og fagnaði hríðunum. Þegar þær komu hugsaði ég „Já, komdu, komdu!“ og sagði það jafnvel upphátt. Tímasetti þær með appi og einbeitti mér að því að anda. Taldi upp að 20 í innöndun og 20 í útöndun, en þetta hafði ég æft stíft. Oftast dugði það fyrir hverja hríð en stundum þurfti ég tvær svona andanir. Hríðarnar voru sem sagt alveg jafn kröftugar og í fyrra skiptið, en í þetta sinn var ég tilbúin og fagnandi og alls ekki hrædd. Þvílíkt sem það hjálpaði! Sömuleiðis notaði ég mjaðmahristur (svona eins og í magadansi) þegar hríðarnar fjöruðu út, og visualiseraði að ég væri að hrista þær úr rófubeininu. Þannig náði ég spennu úr mjóbakinu eftir hverja hríð, í stað þess að þær sætu þar sem fastast. Þetta hjálpaði gríðarlega og mér fannst ég vera kynþokkafull þegar ég hreyfði mig. Ég bjó mér til fallega mynd í huganum, þar sem verndarhringur fólks sem ég hef misst (móðir, bróðir og amma) var í kringum okkur fjölskylduna. Þar setti ég einnig Auði, þar sem hún sat í lótusstellingunni brosandi og falleg. Orka var allt um kring og ljós. Þessi helgimynd hjálpaði. Þetta var að gerast og ég var vernduð og örugg.

Ég var í sambandi við Soffíu um kvöldið og af og til um nóttina og hún hvatti mig til að hringja um leið og ég þyrfti hana. Um klukkan fimm hringdi ég svo í hana og hún var komin stuttu síðar, og sat hjá mér og við drukkum te í rólegheitum á milli hríða. Ég fékk mér líka að borða um nóttina, sem er mjög mikilvægt þar sem hríðarnar eru orkufrekar. Um sjöleytið hringdum við til Kristbjargar ljósmóður, sem hljóp í skarðið fyrir þær hjá Björkinni þar sem þær voru einmitt að fara að hafa opið hús næsta dag og komust því ekki. Ég vissi hver Kristbjörg væri bara af orðspori og treysti henni algjörlega, og kveið því engu þrátt fyrir forföllin. Allt var eins og það átti að vera.

Um kl. sjö kom Kristbjörg, og þá vaknaði allt húsið. Skottan mín fór á fætur með pabba sínum og ég fór að elda hafragrautinn fyrir hana – og Soffía tók hana að sér á meðan maðurinn minn fór í sturtu. Allt var rólegt og gott og ég borðaði hafragraut standandi og í mjaðmahristum. Eftir þetta var eins og hríðarnar færu í þriðja gír, allt af stað! Kristbjörg mældi mig um kl. átta og þá var ég í fimm í útvíkkun. Hún mældi mig ekki aftur, sennilega til að ég færi ekki að búast við því að stoppa í sjö eins og síðast. Ég reyndi að fara í baðið, en ég á stórt bað heima svo ég var ekki með fæðingarlaug. Þar leið mér hins vegar alls ekki vel enda þurfti ég orðið nudd á mjóbakið. En ég sat með krosslagðar fætur og maðurinn minn var inni hjá mér, og ég andaði eins og ég gat og hugsaði eins jákvætt og ég gat. Þvílíkt sem þetta reyndi á! Ég sagði: „Ég get þetta, ég er að gera þetta!“ aftur og aftur. Maðurinn minn var í símanum sínum að skoða eitthvað en ég náði athygli hans og horfði í augun hans og sagði: „Ég elska þig!“ og við kysstumst innilega. Ég hafði lesið að það að vera jákvæð og upplifa þakklæti hjálpaði, sem og innilegur koss. Enda er opnunin í útvíkkun í eðli sínu kynferðisleg, líkt og að geta stundað kynmök og upplifað þau hrikalega sársaukafull, eða ofsalega ánægjuleg. Þetta hjálpaði.

Ég þurfti að koma mér úr baðinu og það var erfitt, hríðarnar virtust ekki stoppa. Soffía hjálpaði mér og nuddaði á leiðinni inn í rúm, pakkaði mér vandlega inn þar sem ég var komin með skjálfta. Allan tímann andaði ég og það heyrðist varla í mér. Ég eyddi engri orku í kvart eða öskur. Soffía hamaðist á bakinu á meðan maðurinn minn lá við hliðina á mér og hélt í höndina mína. Allt í einu fann ég þörf fyrir að rembast, og ég trúði því varla að þetta væri komið svona langt strax. Ég fylgdi á eftir og gaf eftir þörfinni, og það var smá augnablik sem ég hugsaði: „ef ég rembist, þá kúka ég!“ en ég gerði það samt. Haha, það var ótrúlega fyndið að ég hefði getað streist á móti þessari þörf af pempíuskap einum. En ég treysti á konurnar mínar sem voru þarna hjá mér og með mér. Stelpan mín var orðin forvitin og vildi koma inn, og ég sagðist vilja hafa hana inni. Hún horfði því á þegar kollur barnsins var kominn í ljós og sagði: „núna getur mamma ekki pissað!“. Það fannst mér hrikalega fyndið þótt ég væri á kafi í þessu ferli. Þremur hríðum seinna var stúlka fædd. Stjúpsonur minn, 17 ára, og tengdamamma komu inn rétt á eftir og við horfðum öll á stúlkuna í fanginu mínu. Soffía og Kristbjörg voru snöggar að öllu og öruggar í sínu, svo að enginn sá neitt blóð eða vesen. Ég fékk að liggja með hana nýfædda heillanga stund, örugglega klukkutíma, áður en strengurinn var klipptur. Þær gengu svo frá öllu og skiptu um á rúminu í rólegheitunum, og voru hjá okkur í fjórar klukkustundir í viðbót. Það var yndislegt alveg. Stjúpsonur minn var alveg hissa, því að hann heyrði aldrei neitt stress eða spennu eins og hann hafði búist við. Það heyrðist aldrei í mér, því að ég leyfði líkamanum að stjórna og gaf alveg eftir í fæðingunni, og öndunin var djúp.

Ég er svo þakklát fyrir þessa reynslu og þakklát fyrir að hafa getað átt heima. Mæli með þessu fyrir allar áhugasamar. Eftirfylgnin var svo áfram í höndum Kristbjargar. Það var líka yndislegt. Soffía kom sömuleiðis tvisvar í heimsókn og var mikið í mun að við töluðum um fæðinguna og ynnum úr hlutunum ef eitthvað væri, en svo var ekki. Þessi eftirfylgni þótti mér vera ótrúlega góð, í stað þess að vera útskrifaður af spítalanum án þess að sjá ljósmóðurina nokkurn tímann aftur sem tók á móti barninu manns. Ég man ekki hvaða ljósmæður voru með mér í fyrstu fæðingu, myndi ekki þekkja þær aftur, en ég fór í gegnum þrjú vaktaskipti þá. En í þetta sinn hef ég eignast nýjar vinkonur og það er ekkert nema yndislegt.

Sem betur fer var leikskólaferð hjá stóru systur sama dag í sveitina og tengdamamma tók hana þangað. Þá gátum við hvílst og sofnað aðeins. Þegar hún kom aftur var ég komin á fætur og tók á móti henni og knúsaði hana fast. Mér fannst mjög mikilvægt að hún upplifði mig ekki veika og að ég væri enn til staðar sem mamma hennar. Hún sagði: „Mamma, þetta fannst þér ekki vera gott,“ og við spjölluðum um fæðinguna og að litla systir hennar væri fædd. Ég leyfði henni sjálfri síðan að stjórna, og geri enn, þ.e. hvort og hvenær hún sæi litlu systur og snerti hana. Nú er hún orðin tólf vikna gömul og þriggja ára systir hennar er afskaplega ánægð með hana. Mér finnst eins og það að hafa gert þetta heima hafi gert þetta ferli betra fyrir hana, þótt lífið hafi kollvarpast líka við að eignast systkini. Ég var síðan komin strax á ról og gat farið á hjóli á þriðja degi að sækja stóru systur á leikskólann. Mér fannst ég vera mun fyrr að jafna mig en síðast og var líka ótrúlega stolt af sjálfri mér.

Fæðingarsaga Daggar

Heimafæðing, drip og keisari

Ég vaknaði klukkan þrjú um nóttina sunnudaginn 8. apríl. Þegar ég steig fram úr rúminu hóstaði ég og þá skyndilega streymdi heitt vatnið niður fótleggina. Það var loksins komið að þessu. Ég var komin 41 viku og 5 daga framyfir settan dag með mitt fyrsta barn og var farin að þrá hríðar meira en nokkuð annað í lífinu. Ég var búin að vera með einhverja smá verki, síðustu vikurnar, og margoft haldið að nú væri fæðingin að fara af stað en svo var ekki. Daginn áður hafði ég farið að ráði minna yndislegu heimaljósmæðra og tekið laxerolíu til að koma mér af stað. Hvort sem það var laxerolían, nálastungurnar eða öll hin trixin í bókinni sem ég hafði prófað þá var fæðingarvinnan allavega hafin. Ég kallaði í Daniel, manninn minn, og sagði honum að nú væri vatnið að fara á meðan að það hélt áfram að leka niður leggina. Hann var rólegur og ég sagði honum að ég ætlaði aftur upp í rúm og reyna að ná eins mikilli hvíld og ég gæti áður en fjörið byrjaði fyrir alvöru. Hálftíma eftir að vatnið fór byrjuðu vægar hríðar og ég hringdi í ljósmóðurina og lét hana vita af stöðu mála. Ég sms-aði líka doulunni minni svo að hún væri með á nótunum og fór svo í háttinn.

Ég hafði verið í meðgöngujóga hjá Auði í 5 mánuði af meðgöngunni, lesið ótal bóka, var með doulu og tvær heimaljósur. Jógað fyrir mér var eins og að mæta í meðgöngumessu. Heilög stund með ófædda barninu mínu þar sem ég hlustaði á uppljómandi fróðleik frá Auði sem mun endast mér sem veganesti það sem eftir er.

Ég var s.s. vel undirbúin, búin að gera allt sem þurfti að gera og var farin að bíða eftir litlu stúlkunni okkar. Mér fannst stundum eins og að hún myndi aldrei fæðast, biðin var svo löng. Ég er þakklát núna fyrir þessa bið því að framundan var mikil vinna og það hjálpaði mér, ekki síst andlega, að hafa fengið góðan tíma til að undirbúa mig undir verkefnið.

Uppúr hádegi kom doulan mín til mín. Ég er svo heppin að hún er líka æskuvinkona mín svo að við vorum svakalega spenntar fyrir að upplifa þetta saman. Hún snérist í kringum mig og við ákváðum að baka köku. Við gátum spjallað en reglulega þurfti ég að fara frá og gefa frá mér hljóð og hreyfa mig þegar að hríðarnar byrjuðu. Mér fannst gott að gefa frá mér hljóð eins og aaaaa eða einhverskonar útfærslur af haf önduninni. Mér fannst hljóðin hjálpa til við að hægja á önduninni og fá mig til að einblína á eitthvað annað en hríðarnar.

Daniel og Soffía doulan mín, fylltu svo laugina um 5 leitið og ég hringdi í ljósurnar og bað þær um að koma.

Þegar að þær komu var ég í miðri hríð en náði svo að heilsa þeim. Eftir það tók við erfiðasta áskorunin. Hríðarnar urðu mjög kröftugar og ég var með mikla bakhríðar. Í hverri hríð reis ég á fjórar fætur upp úr lauginni, hélt í hendina á doulunni minni og Daniel nuddaði á mér neðra bakið. Ljósurnar sátu og fylgdust með að allt færi vel fram. Mér fannst við svo gott teymi og við mæðgur í svo góðum höndum. Ég náði að slaka vel inn á milli hríða, m.a.s. dotta smá. Ég fékk kefli hjá ljósunum, svipað og tiger boltarnir, til að kreista í hríðunum. Ég var mjög hrifin af þessu kefli því ég gat dúndrað bólstruðum endanum á því í þriðja augað þegar að hríðarnar voru á hámarki. Daginn eftir var ég dáldið aum í þriðja auganu, það verður að viðurkennast. Annað sem ég nýtti mér mikið úr jógatímunum var eitt orð úr einni fæðingarsögunni, það var orðið “já”. Þegar að hríðarnar hófust byrjaði ég oft með að segja “Á” en ákvað svo að breyta þessu neikvæð “Á” yfir í “Já” og entók já-ið í sífellu. Ég trui því að já-ið hafa gefið mér orku og vilja til að halda áfram og klára verkefnið. Annað sem ég hugsaði allan tíman var hversu stutt það væri þangað til ég sæi barnið og hvað sólahringur í hríðum væri lítill tími miðað við næstum 10 mánaða meðgöngu. Ég vissi að fljótt tæki þetta enda. Ég einbeitti mér líka að hverri hríð fyrir sig og hugsaði lítið um hvað kæmi næst, “hver hríð færir mig nær barninu” eins og ég hafði svo oft heyrt í jóganu. Klukkan 10 um kvöldið var útvíkunin búin og hafði gengið mjög vel en ég var ekki enn komin með þrýstiþörf. Ljósurnar spurðu hvort þær ættu ekki að skoða mig og athuga hvernig hausinn væri skorðaður. Þær fundu strax að hausinn var skakkur. Við prófuðum nokkrar æfingar sem að geta hjálpað til við að leiðrétta stöðu barnsins. Ein æfingin var þróuð af Penny simkin, einni virtustu doulu bandaríkjanna. Ég setti annan fótinn upp á stól og stóð í hinn og vaggaði mér svo í gegnum hríðarnar með hjálp ljósmóðurinnar. Mér fannst þetta minnka þrýstinginn og þ.a.l. sársaukann í hríðunum. Næst prófaði ég að fara á fjórar fætur og ýta. Doulan mín tók svo rebozo sjalið sitt og þær hristu bumbuna eilítið til að athuga hvort að barnið myndi leiðrétta stöðuna sína. Ekkert virtist virka og það voru liðnir tveir klukkutímar. Ég sá að ljósurnar voru farnar að tala sín á milli. Þær komu svo til mín og sögðu mér að þær væru búnar að reyna allt og að þær sæju engar breytingar. Þær sögðu mér að ég væri búin að standa mig ótrúlega vel og að þær vissu að ég myndi halda áfram að reyna í alla nótt. Þær ráðlögðu mér hinsvegar að fara upp á spítala og fá drip og mænudeyfingu og athuga hvort að hríðarnar yrðu þannig kröftugri. Mænudeyfingin gæti hjálpað til við að slaka á grindinni. Ég treysti þeim vel og samþykkti að fara á spítalann. Ég hugsaði með mér að það væri ekki séns að ég færi í keisara, ég ætlaði að klára þetta á spítalanum. Ég ætlaði upphaflega að eiga algjörlega lyfjalausa fæðingu en ég viðurkenni að á þessum tímapunkti fannst mér mænustunga ekkert svo agaleg hugmynd.

Í öllu þessu ferli hafði ég aldrei áhyggjur af barninu, ég vissi að þetta var hraust og stór stelpa enda hafði hún verið með góðan hjartslátt alla fæðinguna. Mér fannst líka eins og að hún væri að spyrna og vinna með mér í hverri hríð.

Ég hafði aldrei ætlað mér á spítalann og var ekki með neitt tilbúið í slíka ferð. Daniel og Soffía, hlupu um allt hús að taka til föt og barnaföt á meðan að ég dílaði við hríðarnar upp í rúmi. Við keyrðum svo upp á spítalann, það var fljótlegra og minna stress en sjúkrabíll fannst mér.

Þegar við komum upp á spítala tók á móti okkur ljósmóðir og deildarlæknir, báðar konur. Ég lagðist á bekkinn og heimaljósurnar sögðu þeim hvernig staðan væri. Samt sem áður þurfti ljósmóðirinn, deildarlæknirinn og skurðlæknirinn á vakt að skoða mig, án þess að spyrja og í miðjum hríðum. Heimaljósurnar höfðu örsjaldan skoðað mig í öllu ferlinu og alltaf viðrað það við mig áður. Manninum mínum fannst þetta fullmikið og mér líka, sérstaklega þegar við forum að ræða þetta eftirá. Ég fékk svo mænudeyfinguna og dripið sett af stað. Hríðarnar voru aldrei langar en það var styttra á milli þeirra. Nánast allan tíman sem ég var á spítalanum var deildarlæknirinn með puttana í klofinu á mér og skipaði mér að ýta um leið og hríðarnar byrjuðu. Deyfingin virtist ekki virka og mér fannst erfitt að slaka á í þessari stöðu. Þær reyndu að setja mig á fjórar fætur, láta mig ýta löppunum aftur. Ekkert gekk og dripið var sett í botn. Sem betur fer gat ég gripið í gas af og til en hætti því þó, því ég hélt að ég gæti þá ekki ýtt eins kröftuglega. Ég fékk svo þvaglegg í miðri hríð sem var ansi óþægilegt,en átti að minnka þrýstinginn á barninu. Þetta var orðiðn allt önnur fæðing en heimafæðingin sem ég hafði hugsað mér. Ég var komin á bekk undir neonljósum, föst í alls konar snúrur og túbur. Heimaljósurnar voru farnar en maðurinn minn og Soffía doulan mín voru með mér. Spítalaljósan hafði sett mér tvo klukkutíma í reyna að ýta barninu út. Skurðlæknirinn á vakt hafði komið inn og sagt að ef að ég væri ekki dugleg að ýta þá þyrftu þau að ná í hana. Hún reyndi að segja þetta góðlátlega en auðvitað var þetta hótun.

Sirka 10 minútum áður en að tíminn sem að ljósan hafði sett mér var búinn sagði ég “ ég finn að barnið bifast ekki, get ég fengið keisara” mér fannst mikilvægt að ég tæki þessa ákvörðun. Ég fann að ég var búin að gera mitt besta og nú var nóg komið. M.a.s. doulan mín ,sem er mikill talsmaður náttúrulegra fæðinga, fannst fyrir löngu nóg komið. Það tók nokkrar mínútur að græja skurðstofuna en ég var með hríðar allan tímann. Deyfingarlæknirinn kom vandræðalegur til mínn inn á skurðarborðinu og sagði mér að mænudeyfingin hafi aldrei virkað. Hann hafði aldrei lent í þessu áður, það fór blóð ínn í túbuna og vökvinn komst þ.a.l. ekki sína leið.

Nú var komið að síðasta áfanganum. Ég kvaddi douluna mina, sem að sagðist aldrei hafa séð annan eins dugnað í fæðingu. Ég hafði aldrei gefist upp né misst stjórn á mér og var alltaf tilbúin að reyna og halda áfram. Mér fannst hughreistandi að heyra það. Daniel fór í græna gallann og fannst hann mjög flottur í honum. Ég var enn með hríðar en ég var ánægð að nú værum við loksins að fara að sjá barnið okkar. Það var eins og að ský hefði dregið frá sólu, stemningin varð allt önnur. Skurðlæknirinn sagði mér að eftir sirka tuttugu mínutur væri barnið mitt komið í heiminn.

Ég hafði verið með hríðar í nánast 24 klukkutíma og var fegin þegar að mænudeyfing númer 2 fór að virka.

Á meðan að ég var skorin fann ég fyrir miklum skjálfta en að öðru leyti fann ég ekkert. Það var pínu átak að ná barninu en skyndilega heyrðist í skurðlækninum “Vá risastórt barn” . Hún byrjaði strax að gráta og ég varð sjálf klökk við að heyra í henni. Ég hafði spurt áður hvort ég gæti fengið hana beint á bringuna eins og gert er sumstaðar í englandi en það gekk ekki eftir. Skurðlæknirinn lyfti henni aðeins upp fyrir skilrúmið svo að ég sá litlu “stóru” tásurnar hennar en svo var hún tekin frá. Skurðlæknirinn sagði að hún hefði varla getað lyft henni, hún væri svo þung. Daniel fór strax til stelpunar okkar og kom með hana til mín á meðan að það var verið að sauma mig. Hún var svo sannarlega stór og hraust, 20 merkur og 52 sentimetrar og var strax byrjuð að sjúga puttann.

Næstu tveir dagarnir á spítalanum voru mjög góðir og við fengum frábæra þjónustu og mikla aðstoð við brjóstagjöfina.

Nú eru þrjár vikur frá því að ég átti stóru og duglegu stelpuna mina. Ég er enn að fara yfir það sem gerðist þennan dag. Fæðing sem að ég hafði séð fyrir mér sem lyfjalausa og dásamlega jógafæðingu sem endaði svo í algjörri andstæðu sinni, spítalafæðing með mænudeyfingu og öllum þeim lyfjakokteilum sem fylgja slíkri aðgerð.

Ég er þakklát fyrir þessa fimm mánuði í meðgöngujóganu sem að undirbjuggu mig svo vel hugarfarslega. Ég fékk svo mörg verkfæri og þekkingu úr jóganu sem ég gat nýtt mér í þessa algjöru óvissuferð og er enn að nýta mér. Fæðing er ævintýri, óvissuferð þar sem allt getur gerst. Hún krefst hugrekkis, þekkingu, andlegs og líkamlegs undirbúnings. Þegar uppi er staðið, sé ég ekki eftir neinu, ég var vel undirbúin og með frábært stuðningslið, ljósurnar, eiginmanninn og douluna mína. Ég hef verið spurð hvort að það hefði ekki verið sniðugra að fæða á spítalanum og sleppa heimafæðingunni. Ég er mjög fegin að hafa byrjað heima með ljósunum sem ég hafði fengið að kynnast vel undanfarin mánuð. Mér fannst svo mikil virðing borin fyrir mér og verkefninu sem ég var að takast á við, allt fékk að hafa sinn gang og fókusinn algjörlega á þessari mögnuðu stund. Ég hugsa ekki jafn hlýtt til spítalans.

Mér leið á tímapunkti eins og að ég væri kjötstykki á bekk sem að væri ófær um að ýta barninu út. Allt viðmót var mun ópersónulegra og mun meiri spenna og óöryggi í andrúmsloftinu en í lauginni með kertaljósin heima.

Maðurinn minn var orðin aukahlutur þar, doulan mín sá þó um að túlka fyrir hann það sem læknarnir voru að segja (hann er amerískur). Í einmitt þessum aðstæðum er maður sérstaklega þakklátur fyrir doulu. Maðurinn minn gat leitað til hennar og ég lika ef ég var óörugg með eitthvað af þeim ákvörðunum sem ég þurfti að taka. Ég er þó þakklát fyrir spítalann fyrir þá þjónustu sem ég gat gengið að þar. Það eru forréttindi að fæða barn á Íslandi.

Ég er búin að tala mikið um fæðinguna síðan, við manninn minn og douluna mina sérstaklega. Oft var ég mjög viðkvæm og átti erfitt með að tala um þetta án þess að brotna niður. Mér leið þó alltaf betur eftir á og ég mæli með því að tala um hlutina þótt það sé stundum erfitt, það étur mann upp að birgja þá inni. Það hefði verið auðvelt að detta í þunglyndi, aum á líkama og sál eftir mikil átök en það var svo margt jákvætt til að vega upp á móti. Heilbrigt barn sem nærðist vel og er fullkomin I alla staði. Í dag lít ég til baka á þennan dag sem eitt magnaðasta ævintýri sem ég hef lent í og ég hef lent í þeim ófáum. Samband míns og mannsins míns hefur breyst til hins betra. Nú umgöngumst við hvort annað af mun meiri ást og virðingu en við gerðum áður. Hann var svo stór þátttakandi í fæðingunni og við unnum svo vel saman. Ég þakka heimafæðingunni, heimaljósunum og doulunni minni það.

Ég efaðist eitt augnablik um hvort ég ætti að skrifa þessa sögu, fannst þetta vera enn ein dramafæðingarsagan sem að konur á meðgöngunni þurfa síst að heyra. Doulan mín og ljósurnar hvöttu mig þó til að skrifa hana. Fæðingar eru jú alls konar, mestu skiftir það viðhorf sem maður temur sér til þeirra og lærdómurinn sem maður dregur af þeim. Fæðingunni sjálfri stjórnar maður ekki en hugarfarinu getur maður stjórnað. Núna hugsa ég til fæðingarinnar með þakklæti. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að fæða og ganga með barn á íslandi, fyrir fólkið sem studdi mig í gegnum allt ferlið, fyrir stóru og heilbrigðu stelpuna mina og fyrir mina fæðingarreynslu sem er mín og er engri lík. Þegar uppi er staðið var þetta engin dramafæðing, langt því frá þetta var dagurinn sem ég gaf frá mér nýtt líf, eignaðist heilbrigða dóttur. Það getur varla verið drama.

Sár fæðingarreynsla

Stundum er fæðingarreynslan ótrúlega sár, svo sár að hún nístir inn að beini. Barnið er fætt en móðirin og foreldrarnir brotnir. Orðlausir, í áfalli og uppgefnir. Fæðingin fór á allt annan hátt en lagt var upp með. Hvað veldur er ekki alveg vitað, stundum er það augljóst út á við, inngrip eftir inngrip en stundum er minningin svört þó mæðraskýrslan sé fallega orðuð. Eftir situr skömm, reiði, eftirsjá og glataðir draumar sem lítið pláss er fyrir.

Fæðingarferlið var allt öðruvísi en lagt var upp með. Yfirleitt erfiðara, lengra og inngripameira. Löngunin til að eignast annað barn er kannski til staðar en óttinn stýrir manni og kona getur ekki hugsað sér að ganga í gegnum sama ferli aftur.

Brot úr minningarreynslunni sækja á mann ítrekað og stundum getur fólk ekki kallað minningarreynsluna sína fram. Minningin lituð af framkomu þar sem erfitt var að átta sig á aðstæðum og enga stjórn að hafa á hlutunum. Stjórnleysið er oft það sem situr sárast eftir og framkoma starfsfólks gleymist seint.

Oft eftir erfiða fæðingu hringsóla systurnar ef og hefði í huganum og telja manni trú um að maður hefði getað gert betur. Kona gerði ekki nóg, hún hefði getað gert aðeins meir ,,ef ég hefði…“.

Stundum er eitthvað til í þessu, kannski hefði mátt leggja áherslu á meiri undirbúning, undirbúning fyrir það að takast á við það óvænta, að vera tilbúin fyrir líðandi stund og taka því sem til manns kemur. Þó má ekki gleyma að það er ekki hægt að undirbúa allt, sem betur fer heldur maður áfram að undrast út lífið. Allur heimsins undirbúningur gefur okkur ekki stjórn og stundum hefði ekkert getað breytt neinu og trúin á að undirbúningur hefði breytt útkomunni setur oft óheyrilega sektarkennd og ofurábyrgð á hendur nýrrar móður. Sannleikurinn er sá að oft hefði útkoman verið nákvæmlega sú sama. Mjóa þrautseiga röddin í höfðinu ætti í reynd að hvísla ,,þú gerðir allt sem þú gast, þú ert nóg“.

,,Það eina sem skiptir máli er að barnið er heilbrigt“ eru huggunarorð sem veita sjaldnast nokkra huggun. Það er ekki hægt að fullþakka fyrir þá gjöf að fá barn í hendurnar og heilbrigt í ofan á lag en huggunarorðin gera lítið úr þeim sem sitja með sárt ennið, minnka rýmið sem er til að deila upplifuninni og sækja kraft í að heila reynsluna. Líklega eru fáar setningar sem þagga jafnfljótt niður í nýbökuðum foreldrum sem hafa upplifað erfiða fæðingu.

Móðirin skiptir miklu máli, líðan hennar skiptir gríðarlegu máli. Fyrir hana sjálfa, fyrir barnið og fyrir nýju fjölskylduna. Áherslan fer á að velta sér ekki upp úr því sem er liðið, horfa fram á við og njóta barnsins en það er erfitt að njóta barns þegar hugurinn hringsólar í endurminningum sárra minninga. Áherslan er á að loka og leggja minninguna að baki og láta hana ekki á sig fá. Herða sig aðeins upp. Sem gengur oftast ekki því eina leiðin í gegnum sára reynslu er einmitt að fara í gegnum hana. Ganga alla leiðina. Það er ekki hægt að fara styttri leið, þegar við lokum á þungu tilfinningarnar lokum við gleðinni líka. Yfirleitt getum við linað þjáninguna með því að vera að fullu í líðandi stundu. Núið sem hjálpar okkur svo mikið.

Mildi er besta gjöfin sem við getum gefið okkur sjálfum, mildi gagnvart því að hafa upplifað eitthvað svo sárt sem manni finnst að eigi að vera gleðilegt. Mildi gagnvart því hve berskjölduð við erum, mildi gegn dómhörkunni okkar og mildi við skömminni sem við upplifum og þrífst bara í þögninni.
Mildi er að upplifa og finna sársaukann, mildi er að segja já þetta var erfitt, mildi er að segja þetta tekur tíma að jafna sig.

Tíminn er vinur okkur. Tíminn læknar ekki öll sár en skapar fjarlægð og gefur okkur rými. Núið í tímanum gefur okkur rými til að vera og tíminn gefur gefið okkur fjarlægð til að endurspegla, skoða og sættast.

Óeigingjarnasta gjöfin sem við getum þegið er hlustun úr innsta hring, flest eigum við einhvern í innsta hring sem vill hlusta, vera til staðar og skapa rými, einhvern sem þolir að heyra hvernig okkur líður.

Að þiggja hjálparhönd frá utanaðkomandi fagfólki þegar á þarf að halda er styrkur.

Það sem stundum gleymist að tala um eftir fæðingu

Eftirvæntingin eftir barninu og undirbúningurinn fyrir fæðinguna tekur stundum svo mikið rými í lífi okkar að fyrstu stundirnar eftir fæðingu koma oft mjög á óvart. Barnið fætt en slatti eftir af einhverju sem ekki endilega hefur verið talað um. Ekki misskilja, það er alltaf eitthvað sem kemur á óvart, það er ekki hægt að undirbúa sig svo vel að maður hætti að undrast. Þó eru nokkrir hlutir sem koma upp aftur og aftur, sem kannski er ekki mikið talað um fyrst eftir fæðingu.

Þegar barnið er fætt, fæðist fylgjan. Fylgjan kemur síðast og það er heitt og skrýtið að fæða fylgju, yfirleitt áreynslulaust en skrýtið.

Ljósmæður nudda legið eftir fæðingu, til að athuga hvort það taki sig ekki örugglega saman. Það er alveg agalega vont að láta nudda á sér legið eftir fæðingu. Þær nudda legið og athuga það reglulega. Þetta á líka við um eftir keisarafæðingu.

Oft þarf að sauma eftir fæðingu, það er talað um fyrstu, annars og þriðju stigs rifu. Það er oft sárt að láta sauma, þó vel sé búið að deyfa og getur tekið langan tíma. Sársaukinn er líka oft meira eins og sviði eða stingur og fátt sem getur undirbúið mann undir það að láta sauma á sér barmana með lítið barn í fanginu.

Sviðinn sem fylgir því stundum að pissa er eiginlega ólýsanlegur og það getur verið heilmikið mál að kúka eftir fæðingu.

Netanærbuxurnar sem konur fá fyrst eftir fæðingu halda vel en leyna engu.

Það getur verið erfitt að setjast upp og sitja strax eftir fæðinguna, slíkt tekur oft nokkra daga að jafna sig.

Maginn er mjúkur og laus strax eftir fæðingu og það getur verið skrýtið að ýta á hann strax á eftir. Fyrstu skrefin eftir fæðingu með tóman maga eru oft eftirminnileg.

Það getur tekið tíma að jafna sig og ná áttum eftir fæðingu og ná að njóta þess að vera með barninu sínu.

Blessun vex með barni hverju

Barnafjöldi og barneignir, eru einkaákvörðun hverrar fjölskyldu og ætti að virða sem slíka. Það er samt einhvern veginn eins og fólk geti ekki gert rétt í þeim málum og vonandi óvart hefur fólk sterkar skoðanir fyrir aðra með hvað sé ákjósanlegt, æskilegt eða við hæfi. Og tjáir það. Því miður er það svo að fólk upplifir oft að fjölskylduform þeirra er dæmt og að fólki otað skömm. Sem er miður og við mættum öll hugsa aðeins áður en við komum með góðlátlega athugasemd eða spurningu um fjölskylduform annarra.

Hér er minn veiki punktur, mér finnst nefnilega ósköp gaman að ræða barneignir, mínar og annarra út frá fjölda og má því passa mig að tal mitt endurspegli mig og mitt val en varpi ekki skugga eða dóm á aðra. Ég er því persónulega ekki viðkvæm fyrir því að ræða þetta málefni, hugsanlega því  ég held ég hafi snúist eins marga hringi og hægt er þegar kemur að barneignum. Ekki alls fyrir löngu sá ég ekki fyrir mér að eignast börn, þegar ég átti eitt var ég ekki viss um að það væri sniðugt að eiga fleiri og nú þegar ég á þrjú get ég alveg hugsað mér að eiga tíu, en það er nú önnur saga.

Barneignir- hugsanlegar eða ekki eru prívat mál og alls ekki allir jafn tilbúnir að tala opinskátt um ,,stöðuna“ í barneignum en umræðuefnið er sívinsælt og ótrúlegt hvað margt fólk er lítið að velta því fyrir sér hvort hér sé staður og stund.  Í þessum efnum er líka áhugavert að sjá viðbrögð okkar við því þegar barneignaval eða barneignastaða annarra er önnur en manns eigin hugmyndir. Það er einhvern veginn eins og ekki sé hægt að gera neinum til geðs og athugsemdir sem fólk fær, í hugsanaleysi vonandi, geta verið ansi þreytandi. Stundum þarf ekki að segja neitt framan í fólk, maður finnur það bara að fólk er að pæla og dæma.

Barnlaus pör eru spurð hvort þau séu ekki að reyna og hvort þau ætli í alvöru ekki að eignast börn. Sumir fá ráð um að ,,slaka bara á og þá komi þetta allt“ eða tillögur um að taka að sér fósturbörn eða ættleiða. Taki fólk ákvörðun um barnleysi er eins og það sé einfaldlega rangt svar. Það er ekki hugsandi að taka þá ákvörðun af eigin vilja.

Þegar fyrsta barnið er komið, kemur spurningaflóðið um hvort ekki eigi að koma með annað, það verða að koma fleiri börn. Helst að ,,reyna“ við hitt kynið. Nauðsynlegt að eiga systkini því ekki er gott að vera með frekt einbirni eða eitt barn að hugsa um báða foreldra sína í ellinni.

Tvö börn, hér virðist vera ágæt samfélagssátt um að mál sé að linni en það er ekki hægt að vera með samkynja systkini. ,, Á ekki að reyna við strákinn/ stelpuna?“

Þrjú börn dansar þarna á mörkum dugnaðar og óvitaskapar. Hraustmenni og ofurkonur en einhvern veginn er fólk búið að henda sér fram af brúninni þegar fjórða barnið kemur. Sumir tala um að fólki sé orða vant þegar von er á fjórða barninu og fólk fær samúðarsvip og í einhverjum tilfellum segir fólk bara ekki neitt, gleymir að samgleðjast með fólki.

Þegar börnin verða fimm og sex er eins og fólki haldi engin bönd lengur, það missir út úr sér ,,æjæj“ og veltir því fyrir sér hvort þetta hafi ekki örugglega verið slys og hálf vorkennir fólki og reynir að fá fullvissu um að nú sé komið nóg af börnum ,, eruð þið ekki örugglega hætt núna?“

Óhjálplegar athugasemdir breyta engu, en sitja eftir sem leiðindaviðbrögð hjá verðandi fjölskyldu og skilur eftir sig frekari ótta um að vera dæmdur. Það er svo gott að muna að allir eru að gera sitt besta og hvað hentar einni fjölskyldu er ekki það besta fyrir aðra. Setja sig í spor annarra.

Hér dreg ég vissulega fram aðeins neikvæð eða leiðinleg viðbrögð og læt undan allar hamingjuóskirnar, heillakveðjurnar og þegar fólk samgleðst. Hugsum þetta aðeins, munum að hver fjölskylda er ólík- og næsta víst að hún er ólík okkur. Samgleðjumst og munum að ,,blessun fylgir barni hverju“.

Samtal fyrir fæðingu

Barnsfæðing er umbreytingatímabil í lífi pars.  Fjölskyldueiningin er að fara úr tveimur í þrjá (eða þremur í fjóra, fjórum í fimm og svo framvegis) og það þarf að koma barninu í heiminn 🙂 kynnast því og annast. Nýir og spennandi tímar sem breyta mörgu í okkar lífi.

Það er margt að hugsa um, óvissutími sem gott er að fara yfir og leyfa sér að skoða, hvað er framundan og hvernig viljum við nálgast það. Þegar kemur að barnsfæðingunni, erum við sammála? Hvaða reynslu og væntingar komum við með varðandi fæðinguna?  Mig langar að deila með ykkur nokkrum vangaveltum og spurningum með áherslu á fæðinguna og tímann fyrst á eftir.

Gefið ykkur tíma í að skoða og velta þessu fyrir ykkur og hlusta vel á hvaða hugmyndir makinn hefur og hvernig þær samræmast ykkar hugmyndum og hvernig þið getið séð þær virka saman fyrir ykkur. Þetta eru auðvitað bara örfáar hugmyndir og alls ekki tæmandi listi!

Hvernig sérðu fæðinguna fyrir þér? Hvað hefur áhrif á þá sýn?

Hvaða hugmyndir ertu með varðandi fæðingar almennt? Hvaða koma þessar hugmyndir? Eru þær hugmyndir tengdar tilfinningu, rannsóknum eða reynslu?

Hvar viljið þið helst að barnið fæðist? Hvaða áhrif hefur sú ákvörðun?

Hvern viljið þið hafa með í fæðingunni ykkar og af hverju? Hvert er hlutverk stuðningsaðilans? Hvaða stuðning getur hann veitt?

Hvernig líður ykkur við tilhugsunina um inngripalausa fæðingu? Náttúrulega?

Hvernig líður ykkur við tilhugsunina um inngripafæðingu? Gangsetning, sogklukka, keisari?

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að bregðast við ef öll plön breytast?

Hvaða styrkleikar ykkar koma til með að nýtast ykkur best í fæðingunni?

Hvaða styrkleika finnið þið í parasambandinu sem hjálpar ykkur í fæðingunni?

Viljið þið / þurfið þið stuðning eftir fæðinguna? Hver í ykkar nánasta umhverfi getur veitt ykkur þann stuðning? Ef það er enginn í ykkar umhverfi, hvert getið þið sótt stuðning?

Hvaða áhrif haldið þið að litla barnið hafi á sambandið?

Hvaða uppeldisáherslur viljið þið hafa frá fyrsta degi?

Hvaða áherslu setjið þið á brjóstagjöf?

Hvaða áherslu setjið þið á svefnfyrirkomulag og svefnvenjur?

Hvernig finnið þið tíma til að hugsa um og næra ykkur sem par?

 

Ég veit ekki hvað það er en ég hef byrjað að skrifa þennan pistil oftar en ég kæri mig um að muna. Hripa niður nokkur orð og hætti svo. Kannski er bara best að skrifa lykilorðin strax og þá eru þau frá, kúkur og prump. Allt mjög mikilvægt og enn mikilvægara í fæðingu. Kúkur og kúkatilfinning í fæðingu er venjulegt og normal. Ég finn að þrátt fyrir mikla þjálfun í að tala um efnið, er eitthvað sem heldur aftur af mér. Ok jæja þá er það frá,

Þegar barn fæðist um fæðingarveg, verður það að nýta allt rýmið í líkama móðurinnar. Það þrýstir sér sína leið niður í gegnum grindina og út í heiminn. Til þess að það gangi sem best má ekki vera nein fyrirstaða, allt sem tekur pláss verður að fara. Þetta ferli þýðir að flestar konur kúka örlítið í fæðingu og þannig er það bara. Fæstir sem eru viðstaddir taka eftir því, enginn sem starfar í kringum fæðingar kippir sér nokkuð upp við það en þetta getur verið heilmikið mál og sálarstríð fyrir þann sem er að fæða og upplifir þetta.

Margar konur finna að tilhugsunin um að kúka í fæðingu angrar þær strax á meðgöngu, eitthvað sem margar konur hræðast og kallar jafnvel fram heiftarlegan kvíða. Hugsun sem sækir endurtekið á en ekki fer mikið fyrir í umræðunni.

Stundum kemur það aftan að konum í fæðingu hvað það truflar þær mikið. Þetta geta verið hljóð innri átök að finna tilfinninguna, að maður þurfi að kúka og sjá svo fram á að hugsanlega kúka fyrir framan þann sem maður elskar og aðra sem eru viðstaddir. Inn í flesta er svo kyrfilega innritað að það að kúka sé algert einkamál og gerist ekki með aðra í kringum sig og sumir hafa jafnvel masterað að prumpa aldrei svo nokkur sála heyri.
Tilfinningin ,, ég þarf að fæða barn“ er eiginlega nákvæmlega eins og tilfinningin ,,ég þarf að kúka“. Þarmarnir liggja við fæðingarveginn, þrýstingurinn á taugaendana er á svipuðum stað og tilfinningin sem líkaminn þekkir er þessi, kúkaþörf. Eitthvað þarf að fara út en í fæðingu er það lítið dásamlegt barn.

Hvort þetta er ólík tilfinning í raun með blæbrigðamun eða sama tilfinningin er kannski ekki aðalatriðið en þarna kallast á þversagnir, við viljum fæða barnið en viljum ekki kúka fyrir framan aðra. Kúkur og prump í almenningsrými er oft beintengt skömm og tilfinningin skömm heldur aftur af okkur, við upplifum okkur minni og vanmáttugri og það dregur yfirleitt úr vilja okkar og getu til þess að halda áfram.

Leghálsinn er í raun bara hringvöðvi, sem er feiminn og viðkvæmur fyrir skömm og við getum stjórnað honum nokkuð vel, svona rétt eins og öðrum hringvöðvum. Lokað og herpt ef það á við og opnað og slakað þegar það er viðeigandi.
Kona sem er í öruggu umhverfi þar sem henni líður vel er líklegri til að opna líkamann og útvíkkun gengur hraðar fyrir sig, svona ,,klósettaðstæður“ ef svo má segja. Það er líka hægt að loka líkamanum, til dæmis ef kona upplifir ótta eða skömm og þá getur útvíkkun gengið til baka. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að margar konur vilja fara afsíðis á klósettið í fæðingu, því það er privat. Klemman að vilja ekki kúka fyrir framan aðra, heldur aftur af fæðingunni, getur tafið fæðingarferlið og veldur hugarangri.

Hvað skal til bragðs taka? Á staðnum er auðvitað hægt að stappa stálinu í fólk, segja að kúkur skipti ekki máli, öllum sé alveg sama, ljósmæður eru góðar í að fjarlægja allt sem fjarlægja þarf og svo framvegis. Það er hægt að henda í fimmaura brandara og létta stemninguna í smá stund og allt er það satt, það er öllum alveg sama.

Ég held líka að það sé mikilvægt að tala um kúk og fæðingar, minnast á þetta oft meðan konur eru barnshafandi. Skömm virkar nefnilega þannig að því meira sem er talað um það sem vekur skömm, því minni verður skömmin. Því meira sem við tölum um kúk og prump sem fylgifisk í fæðingu því minna mál.
Enn betra væri að taka þetta alla leið og byrja fyrr, normalísera prump frá fyrstu tíð, sérstaklega hjá stelpum. Hætta að hafa prump þannig að það veki upp skömm. Prump er bara prump. Svo næst þegar lítil stelpa prumpar hressilega fyrir framan okkur að í staðinn fyrir að koma með klassísku skammarvekjandi viðbrögðin að taka vel í það og reyna að muna að stelpa sem prumpar hressilega í almenningsrými og skammst sín ekkert fyrir það, verður kannski einn daginn þakklát barnshafandi kona sem sleppur að öllum líkindum við kúkahugarstríðið í fæðingu mörgum árum seinna.

 

 

7 leiðir til að draga úr kvíða fyrir fæðingu

Fæðing barns er svo mikið undur en á sama tíma fylgir henni óvissa. Skiljanlega getur það vakið með manni ugg að vita ekki og í raun geta ekki vitað með vissu út í hvað maður er að fara.  Það skilar sér þó alltaf að undirbúa sig vel fyrir fæðingu og skoða hvað það er sem hugurinn dvelur við. Smá kvíði er í raun eðlilegur og hvetur mann til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Þegar hann verður mikill og lamandi er nauðsynlegt að bregðast við og skoða hann.

 1. Gerðu plan út frá þér, fyrir þig svo þú sért í bestu mögulegu aðstæðum. Hvar viltu fæða og af hverju? Hvernig er óskafæðingin þín og af hverju? Hvaða styrkleikar nýtast þér í fæðingunni?
 2. Prófaðu að skrifa hvað ef …þá…lista. Þarna skrifarðu niður allt sem er að leita á hugann og veldur kvíða og skrifar svarið.  Stundum liggur svarið í augum uppi en stundum borgar sig að leita upplýsinga og/eða tala við fagmann. Hér er verið að passa upp á að halda sig í raunveruleikanum og útiloka það óþekkta.
  Algengar vangaveltur eru eins og hvað ef ég næ ekki að takast á við verkina? Þá….
  Hvað ef ég næ ekki upp á spítala áður en barnið fæðist? Þá…
  Hvað ef ég missi stjórn á aðstæðum? Þá…
  Veltu því fyrir þér hvernig þú tækist á við aðstæður sem þú óttast ef þær kæmu upp. Ef þú getur undirbúið þig, komið í veg fyrir það, skaltu stíga skref í þá áttina. Ef þú getur ekkert gert til að koma í veg fyrir aðstæðurnar, veltu því þá líka fyrir þér hvernig þú vilt takast á við þær aðstæður? Passaðu að dvelja ekki um of í þessum hluta.
 3. Talaðu við vini, ættingja og aðra eftir því sem við á. Það er gott að setja orð á hugsanir sínar og fá endurgjöf á þær.
  Ræddu við makann um fæðinguna, skoðaðu hvaða styrkleikar nýtast í fæðingunni, hvernig getur makinn hjálpað ykkur að laða fram styrkleika þína? Hvað getið þið gert saman?
 4. Leitaðu eftir sérþekkingu og aðstoð án þess að hika, heilsugæslan getur verið innan handar, MFB-teymið er frábært og svo eru margir sjálfstætt starfandi sérfræðingar sem hafa sérhæft sig í meðgöngu og fæðingu.
 5. Veldu vel hvaða fæðingarsögur þú hlustar á. Fæðingar eru allskonar og margar breytur sem hafa áhrif þar á. Erfiðar og átakanlegar fæðingarsögur fá oft mikið pláss og maður man eftir þeim en þær eru endurspegla ekki flestar sögur. Veldu vel hvaða fæðingarsögur þú vilt að sitji með þér, reyndu að leita eftir jákvæðum sögum til að byggja upp jákvæða mynd.
 6. Taktu einhvern með í fæðinguna, auk maka sem þú treystir. Það getur verið ættingi, vinur eða doula. Hafðu einhvern með sem getur veitt þér stuðning, einhvern sem þú (og makinn þinn) treystir. Það minnkar álagið á ykkur bæði og dregur úr stressi og eykur líkur á góðri upplifun.
 7. Treystu og njóttu. Treystu því að allt verði eins og það eigi að vera og sé eins og það á að vera.

Hverjir ráða doulur?

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi undanfarin ár að vera viðstödd margar yndislegar og ólíkar fæðingar sem doula.

Fæðing er svo sannarlega ekki alltaf auðveld en mín upplifun er þó að það er alltaf fegurð og styrkur sem fylgir fæðingu barns. Ég geng enn út úr fæðingum og lýt höfði af lotningu og nú þegar reynslan er orðin nokkur er samt alltaf eins og maður verði vitni að fæðingu í fyrsta sinn.

Starf mitt felst í að vera til staðar fyrir foreldrana. Styðja foreldrana samfellt í gegnum meðgöngu og fæðingu.
Hvert mitt hlutverk er breytilegt frá einni fjölskyldu til annarrar, stundum er ég nuddarinn, stundum sálgæslan, stundum fræðarinn, stundum er ég ljósameistarinn og hlaupakonan. Stundum geri ég ekki neitt. Ég er til staðar til að hvetja og hughreysta á forsendum foreldranna.

Rannsóknir sýna endurtekið mikilvægi doulunnar, viðvera doulu bætir fæðingarupplifunina, getur stytt fæðingarferlið, minnkar verkjaupplifun og pör sem hafa verið með doulu upplifa minni vanlíðan eftir fæðingu og sterkari tengingu við barnið. Doulur eru samt ekki töfrakonur heldur erum við til staðar.

Doulur eru viðbót í fæðingarteymið, við komum aldrei í staðinn fyrir ljósmóður eða annað fagfólk, en við getum verið mikilvæg brú í samskiptum á milli foreldra og fagaðila.

Doulur eru líka mikill stuðningur við báða foreldra og koma aldrei í staðinn fyrir maka, heldur styðja hann og hjálpa.  Við fræðum makann, getum bent á leiðir til að vera til staðar og tökum stundum stressið svolítið í burtu svo makinn geti verið til staðar á sínum forsendum, sem hitt foreldrið líka en ekki eingöngu stuðningsaðili.

Ég er stundum spurð að því hverjir ráða doulur og mín reynsla er að hópurinn er ansi fjölbreyttur og ástæðurnar margar og ólíkar.  Algengast er að verðandi foreldrar vilja meiri stuðning en nú þegar er, og hvað er meiri stuðningur þýðir er ólíkt frá pari til pars. Flestir tala um að vilja samfellu í stuðningnum, það er þekkja manneskjuna sem kemur með í fæðinguna.  Margir tala um að vilja tala um fæðinguna og foreldrahlutverkið á hlutlausan hátt og geta velt við öllum steinum og doulur eru styðjandi í þeim ákvörðunum sem eru teknar.

Sumir sem leita til mín eru að takast á við kvíða, sumir hafa átt erfiða fæðingu, einhverjar konur eru að fara í fæðingu eftir keisara, sumir eru óöryggir í parasambandinu, sumir eru að leita að meiri fræðslu, sumir eru að takast á við vanlíðan og sumir hafa lítið bakland.  Enn aðrir eru að leitast eftir æðri tengingu og meiri slökun. Sumir segjast enga ástæðu hafa og eitt par sagði að þeim fyndist doulur einfaldlega svo töff að þau ætluðu ekki að missa af því að taka doulu með í fæðinguna.
Doulur skapa tengingu og flæði, doulur tengja saman foreldra, tengja foreldra við barn og tengja foreldra við fæðinguna. Doulur eru til staðar, klettur sem á sinn stað í ferlinu, sama hvað gerist. Mér finnst doulur setja lífið í samhengi, hringrás þess að tilheyra og vera til staðar.
Því fleiri pörum sem ég kynnist því fjölbreyttari svör fæ ég og með tímanum og reynslunni átta ég mig betur og betur á mikilvægi óháðs stuðnings í fæðingu og að það skiptir meira máli að stuðningurinn sé til staðar en að vita af hverju eftir honum var leitað.
Fyrir mér eru doulur aukinn styrkur fyrir konur, fyrir verðandi fjölskyldur og mikilvægur hluti af því að varðveita góða fæðingarminningu.

Verkir á móti sársauka í fæðingu

Ég er stundum spurð að því svona í gamni, í ljósi starfs míns sem doula, hvort ég hafi gaman að því að horfa upp á konur þjást.
Ég elska starfið mitt og það gefur mér mikið en ég hef ekkert umburðarlyndi fyrir þjáningu, því get ég lofað. Ég vil ekki að nokkur kona þjáist eitt augnablik í fæðingu, en ég hef hinsvegar gott þol fyrir því að vera með konum sem finna til og held ég sé komin með góða verkfæratösku í að hvetja konur áfram og hjálpa þeim að halda áfram, halda verkjunum sem verkjum.
Kannski er einhver alveg búinn að tína mér núna, en það er mikill munur á verkjum og sársauka í mínum huga þegar kemur að fæðingu.

Þegar kona á von á sínu fyrsta barni er alveg eðlilegt að óttast verkina sem þær koma til með að upplifa í fæðingunni því það er einhvern veginn í beinunum á okkur að vita að fæðing er þrekvirki og svo bætist við að oft höfum við heyrt og lesið reynslusögur annarra.

Fæðing er stórmagnaður viðburður í lífi fjölskyldu og verkirnir sem fylgja fæðingunni eru ef svo má að orði komast eðlilegar aukaverkanir af virkni og átökum líkamans og þá verki þarf ekki að óttast.

Ef við setjum svona verki í samhengi, þá þekkja flestir verki í átökum eða eftir átök, svo sem í góðri fjallgöngu, í hlaupi og eftir erfiðan tíma í ræktinni. Verki sem fylgja átökum þekkir íþróttafólk til að mynda vel, átökin í athöfninni sjálfri og verkina sem á eftir koma. Flestir sem reynt hafa mikið á sig líkamlega þekkja líka vellíðanina sem fylgir því að takast á við erfitt en yfirstíganlegt verkefni og klára það. Vellíðan, sigurtilfinning og gleði.

Í eðlilegri fæðingu taka verkirnir ekki yfir upplifunina heldur eru hluti af henni. Þegar hlutirnir ganga venjulega fyrir sig er verkurinn hliðarafurð af vinnuþættinum. Fleira kemur inn í upplifunina, svo sem slökun og ró. Milli verkja kemur ró og vellíðan, eitthvað sem hormónar kvenna hafa mikil áhrif á. Í þessu ferli þar sem skipst er á milli verkja og hvíldartíma skiptir máli að geta dottið inn í ryþma, einhversskonar endurtekningu þar sem tíminn svo að segja stendur í stað en hringlaga ferli hvíldar og samdrátta endurtekur sig.  Verkurinn er einfaldlega líkamleg upplifun sem getur verið svo sannarlega óþægileg en á ekki að vera óyfirstíganleg.

En það er líka einhver lína milli verks og sársauka, átaka og þjáninga og það er stór munur á að upplifa verki sem hluta af ferli eða upplifa sig í þjáningu. Það má í raun segja að þjáning sé óeðlilegur hluti fæðingar, þegar verkurinn sjálfur verður óyfirstíganlegur og ryþminn tapast.

Skilin á milli verks og sársauka eða þjáningar eru ekki alltaf skýr og aðeins ljós í huga þess sem upplifir. Aðeins hin fæðandi kona veit sjálf hvort hún er að upplifa verki eða þjást.

Hvar skilin liggja er ólíkt milli kvenna, konur hafa misháan sársaukaþröskuld og mismikið þol fyrir verkjum. Margir minni þættir hafa svo áhrif á verkjaupplifun svo sem líðan fyrir og í fæðingu, fyrri reynsla, vonir og væntingar og umhverfi. Þá má ekki gleyma að ekki byrja allar fæðingar eins og margir læknisfræðilegir þættir hafa þar áhrif á.

Eitt af því sem gagnast til að haldast í ryþmanum og halda verkjunum yfirstíganlegum er til dæmis góður stuðningur frá fjölskyldu og fagaðilum, upplifun á öruggu umhverfi og góður undirbúningur þar sem verðandi foreldrar þekkja ferlið sem líkami konunnar fer í gegnum og kunna leiðir til að bregðast við verkjunum og hjálpa til við að lina þá. Þannig getur kona komist í gegnum fæðingu með góðri upplifun með verkjum en án þjáningar. Fari kona yfir skilin milli verkja og sársauka, finnur fyrir þjáningu og það sem gert er hjálpar ekki til að haldast í ryþma og stundin verður óbærileg og virðist óbærileg er fulllástæða til að stíga inn í og finna út hvaða verkjastilling er gagnlegust í þessum aðstæðum.

Hluti af mínu starfi er einmitt að hjálpa pörum að viðhalda ryþmanum svo verkirnir verði yfirstíganlegir en takast á við það með pörum þegar verkirnir breytast úr verkjum í sársauka.

Doulunámskeiðið í janúar

Við förum af stað með doulunámskeið núna í janúar 2017, viðbrögðin við námskeiðinu hafa verið góð og ég hlakka til að hitta nýja hópinn. Það eru auðvitað enn laus pláss en gaman að sjá hve mikil vakningin er orðin. Við verðum líka með sængurlegu doulu-námskeið og það er haldið í fyrsta sinn á Íslandi og námskeiðið er haldið í beinu framhaldi af fyrsta hluta doulu-námskeiðsins.

Í ár vinnum við doulunámskeiðið aðeins öðruvísi en undangengin ár enda komin meiri reynsla að spila úr. Mig langaði að setja á blað helstu upplýsingar og spurningar sem ég hef fengið undanfarna daga.

Fyrst er kannski að nefna dagsetningarnar en þær eru eftir farandi. Það er skylda að mæta alla dagana og gert er ráð fyrir 80% mætingu.

24.- 26. janúar frá kl. 9-17
Þetta er dona-douluhluti námsins, Jesse Remer er með þriggja daga vinnusmiðju þar sem farið er yfir meðgöngu og fæðingu, starfsvið doulu og praktísk atriði.

18.– 19. mars frá kl. 9-15
Starf doulu á Íslandi, praktísk atriði og starfsvið doulu. Samvinna við ljósmæður og annað heilbrigðisstarfsfólk.
Heimalestur fyrir vinnuhelgi: The doula book

7. maí frá 9-16 brjóstagjöf og nýja fjölskyldan. Stuðningur og fræðsla.
Heimalestur fyrir vinnudag: The birth partner

16.-17. september  praktísk atriði, verkefnaskil, námsframvinda, eftirfylgd.
Heimalestur fyrir vinnuhelgi: Ein íslensk bók og bók um umönnun barnsins

Námið er í lotum en er mikið byggt á sjálfsnámi, skila þarf verkefnum og lesa efni um fæðingarferlið og ná staðgóðum tökum á umönnun og stuðningi við fjölskyldur sem eiga von á barni.
Gert er ráð fyrir að nemendur hafi lokið verkefnaskilum tveimur árum eftir að námskeiði lýkur (16. september 2019).

Námskröfur
Lesa þarf am sex bækur í náminu og fyrir aðra, þriðju og fjórðu lotu er lesin ein bók skv. leiðbeiningum og verða nemendur að hafa lokið við þá bók fyrir nýja lotu. Manuall fylgir en nemendur verða sjálfir að útvega sér bækur í náminu.

Doulunemar þurfa að vera viðstaddir þrjár fæðingar í náminu, yfirleitt reynist auðvelt að fá fæðingar í sínu nær umhverfi en annars aðstoðum við eftir bestu getu með að útvega nemafæðingar.

Auk þessa sem nefnt er hér að ofan þurfa nemar að uppfylla eftirfarandi:

 • sitja alla námskeiðsdaga hjá Jesse Remer og Soffíu Bæringsdóttur
 • lesa amk sex bækur og skrifa greinargerð um þær. Fyrir hverja námslotu er heimavinna.
 • vera viðstödd þrjár fæðingar og veita samfelldan stuðning í 15 klukkustundir með hverri fjölskyldu. Með hverri fæðingu verður að skila matsblaði frá móður og helst undirskrift ljósmóður. Matsblöð fylgja og má fjölfalda. Aðeins er hægt að nota eina keisarafæðingu.
 • Skila skal uppgjöri á fæðingunni, hvernig gekk, hvert þitt hlutverk var, hvernig móðirin vann sig í gegnum fæðinguna og hvað þú lærðir af reynslunni.
 • Skila uppgjöri á þinni fæðingarreynslu (allri ef þú átt fleiri en eitt barn), ef þú hefur ekki fætt barn að skila uppgjöri á viðburði sem breytti lífi þínu.
 • Útdrátt um mikilvægi stuðnings á meðgöngu og í fæðingu (500-700 orð).
 • Útdrátt um hlutverk og mikilvægi doulu í fæðingarferlinu (500 orð) má fletta inn í lið 6.
 • Greinargerð um íslenska meðgönguvernd og íslenskt fæðingarumhverfi, aðstæður og vinnureglur.
 • Lista yfir þjónustu sem nýtist konum á meðgöngu, í fæðingu og í sængurlegu amk 20 ábendingar.

Námið er í höndum Jesse Remer og Soffíu Bæringsdóttur.
Jesse Remer hefur um árabil starfað sem doula og doulukennari og starfar í gegnum DONA- bandarísk doulusamtök. Hún lærði líka til ljósmóður á sínu tíma en hefur einbeitt sér að doulustarfinu. Undanfarin ár hefur hún unnið á fæðingarheimili sem rekið er af ljósmæðrum sem doula og tekur þar vaktir. Að auki hefur hún unnið mikið að réttindabaráttu barnshafandi konum til handa og unnið að því að koma douluþjónustu í farveg á svæðinu þar sem hún býr, Portland. Hægt er að lesa meira um Jesse á heimasíðunni hennar hér.

Soffía Bæringsdóttir hefur starfað sem doula á Islandi síðan 2008, hún hefur hlotið þjálfun sem doula hjá CBI og DONA. Að auki er hún hypnobirth-leiðbeinandi, childbirth educator frá CBI, hefur lokið námi í ungbarnanuddi og að lesa í merki barnsins. Hún hefur setið fjölmargar aðrar vinnusmiðjur og er sem stendur nemi í fjölskyldumeðferð í EHÍ og starfaði um árabil sem kennari. Hún á og rekur hondihond.is douluþjónustu.

Þetta er í fjórða sinn sem námið er haldið á Íslandi.

Vinnusmiðjan er viðurkennd af DONA sem eru bandarísk doulusamtök svo fyrir þá sem hugsa sér að starfa annarsstaðar þá er hægt að sækja um doulu-réttindi í gegnum þau samtök á dona.org en að námskeiði loknu og uppfylltum námsskilyrðum útskrifast nemar með réttindi frá Hönd í hönd.

Verð  106.000 ef greitt er fyrir 15. desember, annars  122.000.-

Sum stéttarfélög niðurgreiða námskeiðið og hægt er að skipta greiðslum ef svo ber undir.
( Verð fyrir postpartumdoulu-námskeiðið sem viðbótarnámskeið er 35.000 )

Skráning í fullum gangi, það er takmarkað sætapláss. Nánari upplýsingar og skráning á soffia@hondihond.is s. 8624804

 

 

 

Snerting og stuðningur maka

Fæðing er fyrir flesta krefjandi verkefni sem kallar á alla okkar athygli. Undanfarin ár hef ég aðstoðað fólk við að undirbúa sig fyrir fæðinguna og kennt þeim nokkur einföld ráð til að takast á við fæðinguna.
Tækni sem makinn getur gert í fæðingunni og gott er að hafa farið yfir áður en kallið kemur. Mig langaði að deila því með ykkur.
Mörgum konum finnst gott að láta strjúka sér og nudda í fæðingu en mörgum finnst það líka óþægilegt. Það er ekkert rétt eða rangt í þessum og alveg alger óþarfi að taka það persónulega ef nudd eða strokur eru afþakkaðar.
Reynslan segir mér að í byrjun fæðingar hjálpar létt nudd og strokur og svo þegar líður á fæðinguna gagnast þéttari snerting betur og ekki í samdráttum heldur á millli.

Hönd í hönd og lófanudd
Einfalt en áhrifaríkt og sýnir traust og umhyggju er að haldast í hendur og oft er mjög slakandi að nudda inn í lófann, þéttingsfast.

Þrýstingur um höfuðið
Kemur oft á óvart en það að setja hendur um höfuð konu í fæðingu er yfirleitt mjög vel þegið. Önnur hendin á ennið og hin við hnakka en samt á höfðinu. Halda þéttingsfast án þess að kreista. Mörgum þykir líka gott að vefja um höfuðið á sér slæðu eða öðru svipuðu. Það er töfraráð að halda köldum þvottapoka þétt um enni konu í fæðingu.

Þriðja augað

Það veitir ótrúlega slökun að nudda með þumalfingri rólega milli augnabrúnna. Þarna við það sem oft er kallað þriðja augað.

Hjartastuðningur
Mæli því að setja aðra hönd á bringuna við hjartastað og aðra á milli herðablaða og leyfa höndunum að hvíla vel við líkamann.

Fótasnerting
Létt snerting á fætur getur verið hughreystandi og þægileg. Margar konur finna jarðtengingu þegar þær standa og því er oft mjög kærkomið að fá fótanudd ef kona liggur fyrir. Þegar langt er komið í fæðingu getur verið gott að halda vel um ökkla, gefur góða jarðtengingu.

Prófið ykkur endilega áfram, metið stöðuna og haldið áfram. Góð snerting getur gert kraftaverk í fæðingu.

 

 

Speki Inu May Gaskin

Það er ekkert langt síðan að Ina May Gaskin, þekkt ljósmóðir frá Bandaríkjunum, kom til Íslands og var með fyrirlestra hér. Þetta var góður tími, það var gaman að taka á móti henni og skemmtilegt að hlusta á hana. Sjálf hafði ég lesið bækurnar hennar á meðgöngunum mínum og vitnað í hana í gegnum doulustarfið og hlakkaði mikið til að hlusta á það sem hún hafði fram að færa.

Ina_may6

,,Láttu apann í þér um þetta“ Ina May er þekkt fyrir þessa hvatningu að benda konum á að láta apann í sér að taka yfir meðan fæðingin er. Það sem hún á við er að konur þurfa að slökkva á hugsandi heilanum okkar og kveikja á frummanneskjunni, innsæinu og leyfa okkur að hvíla í líkamanum á okkur.  Hún segir að þegar að apinn tekur yfir þá gengur fæðingin yfirleitt snuðrulaust fyrir sig, því líkaminn kann að fæða. Fyrir vikið er Ina May sérstaklega hrifin af því að sýna myndbönd af öpum fæða og fílum líka og er á því að konur eigi frekar að horfa á dýr fæða afkvæmi sín en aðrar konur.

Ina May er líka vel meðvituð um hvaða áhrif fæðingarreynslan hefur á konur, hún mótar okkur á ótrúlegan hátt það sem eftir er ævinnar, fæðingarreynslan hefur áhrif á sjálfsmynd okkar, tilfinningalíf, líkamann okkar og allt í umhverfi okkar. Góð fæðingarreynsla er eflandi, styrkjandi og getur skilað enn sterkari konu en að sama skapi er erfið eða neikvæð fæðing niðurbrjótandi og haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd kvenna. Í þessu samhengi leggur Ina May mikla áherslu á að allir sem koma að fæðingu verða að koma fram við konu af mikilli virðingu, rólegheitum og gæta þess að kona fái næði til að fæða.

 “If a woman doesn’t look like a goddess during labor, then someone isn’t treating her right.”

Ina May Gaskin er talar um ,,lögmál hringvöðvans“ og hve mikið það hefur áhrif á fæðingu og segir að leghálsinn virki í sömu aðalatriðum eins og aðrir hringvöðvar, hann er alla jafna lokaður en opnast þegar það er næði og öruggt andrúmsloft, svo sem á salerni. Skv. þessu lögmáli, opnast hringvöðvinn ósjálfrátt, það þýðir ekki að skipa honum það eins og að segja ,,slakaðu á“  eða ,,opnaðu nú leghálsinn“.  Streita, truflun og ótti hefur áhrif á leghálsinn/ hringvöðvann og hann getur auðveldlega lokast úr þvi sem hann var. Virðing, ró og öryggi er lykillinn að því að hringvöðvinn virki vel og Ina May leggur líka áherslu á að hringvöðvar (leghálsinn í þessu tilfelli) geti opnast og lokast hratt eftir aðstæðum. Út frá þessu lögmáli leggur hún mikla áherslu á næði, góða framkomu við fæðandi konu og slökun. Hún hefur líka lagt áherslu á að kjálkavöðvarnir okkar eru tengdir við hringvöðvann og að mikilvægt sé að passa að hafa kjálkana pg munnvöðvana slaka.

inamay13

Hlátur er líka mikilvægur og Ina May Gaskin talar mikið um mikilvægi þess að hlæja vel í fæðingu, það geti haft áhrif eins og verkjastilling, þar sem hlátur er endorfínlosandi. Það verður reyndar að segjast að það er einstaklega gaman að hlæja með Inu May, hún hefur gott auga fyrir spaugilegu hliðum lífsins.

Heilun í hlustun

Fyrir nokkrum árum fór ég á fyrirlestur og að honum loknum stóð ég og spjallaði við mjög merkilega konu sem ég lít upp til og við fórum að tala um fæðingarsögur, fæðingarupplifun, eitthvað sem mér finnst alltaf skemmtilegt að tala um. Hún bar nokkuð sára en gróna sögu í hjarta sér og minningin hafði dvalið sterkt með henni. Hún sagði okkur frá því að hún hafi verið með fæðingarsöguna og allt ferlið á heilanum og ekki gert annað en að tala um hana við hvern sem vildi og vildi ekki heyra. Viðbrögðin voru almennt á sömu leið að hún ætti að hætta að hugsa um þetta en sama hvað hún vildi og reyndi þá gat hún ekki hætt að hugsa um atburðina og ekki hætt að tala um þá. Einn daginn var hún svo á spjalli við unga dóttur sína og sagði henni sögu sína á barnvænu máli.Sú stutta hlustaði og hélt áfram að gera það sem hún var að gera, leit svo til hennar og sagði ,,það hlýtur að hafa verið erfitt mamma mín” og hún játti því, þetta hafi verið erfitt.

Þar small það, eftir þetta hafði hún ekki þörf til að tala um reynslu sína, eitthvað innra með henni gréri þennan dag.

Þessi saga er mér hugleikin, hún hefur sagt mér og kennt margt. Fæðingarreynslan okkar er minning sem er mikilvæg, hún er með okkur og mótar okkur. Fæðingarminningin mótar okkur og við getum fundið meiri styrk eða misst hann. Margar konur tala um þegar þær finna mátt sinn í gegnum fæðingu barnsins síns að þær upplifi sig heilar og óstöðvandi. Hvernig fæðingarminningin verður fer svo mikið eftir upplifun okkar og fyrri reynslu.

Þegar fæðingarreynslan situr með okkur, getum við ekki bara hætt að hugsa um hana, lagt hana til hliðar eins og skítugan kaffibolla og snúið okkur að öðru. Hún er með okkur og við verðum að finna henni farveg.

Ein algeng leið til þess og raunar mjög góð er að deila henni með öðrum, segja frá því sem við upplifðum og afhverju og hvernig það hefur áhrif á okkur og finna þá einhvern sem er eins og unga daman, til í að hlusta af athygli, sjá reynsluna eins og hún er og orða það sem við heyrum.

Oft höfum við takmarkaðan tíma, við hittumst kannski á kaffihúsi og förum að tala um reynslu okkar og við erum á stað þar sem allir geta heyrt orð okkar og sessunauturinn er kannski í meira stuði til að spjalla en hlusta. Þannig náum við bara að segja brot, hluta eða stikkorð og förum fyrir vikið að fara út í að segja viðurkennda og birtingarhæfa sögu sem kemst fyrir í tebollanum. Sagan fer frá okkar innsta kjarna og yfir í að vera meira eins og skráð saga í mæðraskránni, lýsing á mælanlegum atburðum í raun séðum frá öðrum en okkur. Við förum jafnvel að leggja áherslu á að vitna í orð þeirra sem voru á staðnum til að gefa betri lýsingu frekar en okkar upplifun. Sem er alveg saga sem er gott að segja en hún kannski græðir ekkert sár og er ekki nærri okkur. Mæðraskýrslusagan af fæðingunni okkar verður okkur fjarlægari og ópersónulegri og öðlast þá kannski annað líf sem ósnertanleg saga fyrir annan. Fæðingarreynslan okkar getur nefnilega ekki verið neitt annað en okkar upplifun.
Ég hallast alltaf meir og meir að því að það sé mikilvægt að velja vel þann sem hlotnast sá heiður að heyra söguna okkar og að við gefum okkur góðan tíma. Þegar við finnum einhvern sem hlustar af athygli og með það í huga að heyra söguna okkar og finna hvernig hún var og getur gefið sér tíma til að velta hlutunum upp, getur staldrað við smáatriði og hlaupið yfir önnur þá finnum við heilara, manneskju sem styrkir okkur og eflir. Við verðum að finna að við getum sagt söguna frá okkar hjartarótum, eins og hún dvelur með okkur, eins og við munum hana. Og þannig grær hún og við fáum sátt.

Nokkur orð um rebozo

Thea Van Tuyl var hjá okkur fyrir skemmstu með rebozo-námskeið. Í þættinum núna freista ég þess að útskýra hvað rebozo er og hvernig er hægt að nota rebozo. Hér eru svo nokkrir linkar til að skoða betur.

Takk fyrir að hlusta.

http://www.birthingnaturally.net/cn/tool/rebozo.html

http://www.pregnancy.com.au/birth-choices/active-birth/rebozos-as-a-tool-for-pregnancy-and-labour.shtml

Foreldrasetur óskast

Við fjölskyldan fórum út á Klambratún um helgina, þar er yndislegur leikvöllur. Sólin skein, það var hlýtt og við enduðum á að hanga þarna bróðurpartinn úr deginum. Sumarið er svo sannarlega komið. Á leikvellinum var fullt af fólki með börn á öllum aldri, reyndar flest frá 2-10 ára. Það er svo gaman að vera með börnin á leikvelli, innan um aðra.

Alltaf á sumrin þá fer mig að dreyma aftur um að hægt verði að koma af stað foreldrasetri á Íslandi, nú eða opnum leikskóla og auðvitað byrjaði mig að dreyma þarna á Klambratúni um bættara samfélag fyrir foreldra. Ég veit að það er fólk í stöflum til í að taka slíkt verkefni að sér en það er enginn vilji hjá Borgaryfirvöldum né öðrum yfirvöldum til að greiða leið fyrir því. Þetta er svona þráhyggja sem hefur kveiknað reglulega hjá mér síðan ég eignaðist barn fyrst árið 2007 og ég get ekki sagt hve oft ég hef talað um þörfina fyrir einhversskonar foreldrasetur við aðra foreldra.

Í Reykjavík er nefnilega enginn, þá meina ég alls enginn sama staður fyrir nýja foreldra með börn á aldrinum 0-2 ára og foreldrar sem eru með eldri börn segjum 2-6 ára hafa í enn færri hús að vernda. Flest börn eru í orlofi fyrstu 6-9 mánuði ævi sinnar og mörg börn eru hjá foreldrum sínum fyrstu tvö árin og einhver enn lengur en það er ekkert í Reykjavíkurborg sem gerir ráð fyrir að börn séu heima með foreldrum sínum. Foreldrasetur gæti fyllt upp í þetta tóm og aukið fjölbreytni og þjónustu til muna.

Foreldrasetur, gæti til dæmis verið gamall leikskóli eða róló, sem væri opinn frá 9-16. Þangað væru allir foreldrar velkomnir með börnin sín sem eru ekki í annarri daggæslu (eða þegar þau væru ekki í daggæslu). Fyrst og fremst væri hægt að hugsa setrið sem stað þar sem foreldrar geta hist, flesta daga á þeim tíma sem hentar þeim og verið inni að leika eða úti að leika þegar það hentar. Aðstaðan úti væri bara svona eins og er á leikskóla/róló og inni væru leikherbergi, leiksvæði og einhverjir starfsmenn sem gætu tekið á móti börnum og foreldrum og séð um staðinn.
Það er hægt að leika sér með þessa hugmynd og útfæra á ýmsan hátt en í sinni hráustu mynd eru börn og foreldrar með sama stað að hittast, sem kostar ekki hvítuna úr augunum og er opinn á dagtíma. Mjög einfalt væri svo að bjóða upp á gæslu hluta úr degi kannski eftir pöntun svo foreldrar gætu farið og keypt í matinn eða gert eitthvað fáránlega vilt á c.a. 2 klukkustundum. Hluti af leiðinni til að fjármagna mætti vera ef t.d. foreldrar sem ekki nýta sér hefðbundna daggæslu gætu þá ánafnað styrkjunum á foreldrasetrið. T.d. dagmömmugreiðslum eða leikskólastyrkjunum ef barnið er komið á leikskóla og svo væri hægt að vera með eitthvað mánaðargjald. Milljón útfærslur til sem hægt er að vinna með og í nágrannalöndum okkar eru margar útfærslur sem hægt er að sækja hugmyndir í.

Ég held þetta yrði eitt stærsta framfaraskref sem tekið hefur verið lengi fyrir foreldra og myndi auka vellíðan og draga úr einangrun foreldra til muna. Það er dásamlegt að vera heima með börnin sín, það jafnast fátt á við að leika við barn en fyrir þorra foreldra þá er bara ekkert gaman að finna einangrunina læðast aftan að sér. Mér finnst þetta vera það sem langflestir foreldrar tala um sem galla við að vera heima. Þá hafi vantað félagsskap og stuðning í foreldraorlofinu. Einhvern samastað, þar sem hægt væri að vera mikið innan um fólk og börn í sömu stöðu. Kíkja í foreldrasetrið.

Málið er að við foreldrar erum flest að fara úr umhverfi þar sem allt er á milljón, við vorum í vinnu, skóla, úti á lífinum, fórum í Kringluna, út að borða og í göngutúr og vorum innan um fólk, margt fólk meir að segja, lungann úr deginum. Svo förum við í foreldraorlof og allt fellur í dúnalogn og það er eiginlega ekkert að fara. Auðvitað eiga margir góða fjölskyldu og vini í orlofi líka en stundum er það ekki nóg og það eru ekki allir svo heppnir. Það eru líka takmörk fyrir því hversu oft hægt er að fara í Kringluna.

Þá væri svo gott að hafa svona fastan punkt í tilverunni, geta farið í foreldrasetrið, jafnvel hitt félagana þar. Leikið í öruggu, bjóðandi umhverfi í einhvern tíma og farið svo aftur heim. Spjallað við starfsfólkið, leitað ráða ef á þarf að halda og fengið leiðsögn ef á vantar. Annars bara drukkið djús, hlegið og haldið áfram að ýta rólunni. Kannski kynnst einhverjum sem á líka lítið barn, á sama aldri. Þetta þarf ekki að vera byltingarkennt. Maður er manns gaman.

Nú fussar kannski einhver og hugsar að kirkjurnar bjóða upp á foreldramorgna sem er jú ókeypis þjónusta sem má ekki vanþakka. Þangað hef ég sjálf sótt og kynnst mínum bestu vinum og átt margar góðar stundir. Ég elska starfið sem fer fram fyrir foreldra í kirkjunni.
Það er samt þegar öllu er á botninn hvolft kirkjustarf og skrýtið að þurfa leita til kirkjunnar af því að það er eini staðurinn í Reykjavík sem tekur á móti foreldrum með börn. Eðlilega er líka kirkjustarf á foreldrafundum kirkjunnar sem heillar ekki alla en helsti gallinn er að hver kirkja er með foreldramorgna, einu sinni í viku í tvo tíma í senn fyrir hádegi.  Sama má segja um foreldramorgna í Bókasöfnum. Einu sinni í viku.

Svo eru auðvitað frábær námskeið hér og þar. Mömmujógað hennar Auðar er líka kannski bara best í öllum heiminum fyrir mömmur (eins og mig). Stund til að vera með mömmum og börnum og teygja sig og njóta. En það er afmarkað námskeið  og námskeið kosta eðlilega pening. Það er því eingöngu viðbót sem mætir ekki þeirri þörf sem er til staðar nema að hluta.

Svo nei, það er enginn sama staður fyrir börn sem eru heima með foreldrum sínum í Reykjavík og það má svo léttilega bæta úr því.

Ég sendi bréf á alla borgarfulltrúa árið 2012 og óskaði eftir því að fá Njálsgöturóló leigðan undir einhverja svona starfsemi og þessir örfáu borgarfulltrúar sem svöruðu, bentu mér á að foreldramorgna og kirkjumorgna. Það væri líka hægt að fara á kaffihús. Það væri betra að leigja aðstöðuna út fyrir dagforeldra því þá væri hægt að segja ,,við fjölguðum daggæsluplássum um…“
Mér fannst svo leitt að ákveðið hefði verið að leigja róló-inn út svo hann gæti í mesta lagi þjónað 10 börnum per tímabil (miðað við 2 dagmömmur með 5 börn hver) meðan opinn róló hefði getað þjónað tugum foreldra og skapað samfélag. Það hefði þjónað svo miklu miklu fleirum.

Ég hafði líka samband við Kópavog í þeirri von að þeir væru með róló sem mætti koma í fóstur en þar fékk ég ekki einu sinni svör. Þar eru nokkrir róló-ar sem eru lítið notaðir og gætu auðveldlega blómstrað.

Ég veit alveg að ég er ekki sú eina sem hef stungið upp á þessu, ég held að flesta foreldra dreymi um svona afdrep og við erum mörg sem erum tilbúin að henda þessu í framkvæmd eða styðja við að þetta verði að veruleika. Ég get sagt eins og Davíð Oddson, ég hef engan sérstakan metnað fyrir því að reka svona stað, mér finnst þjóðin bara eiga það skilið að einn slíkur verði rekinn og ég get alveg tekið það að mér. Glöðust væri ég samt að sjá foreldrasetur starfandi. Ég veit að það er brýn þörf fyrir eitt slíkt (eða tvo eða þrjú) og ég þrái að sjá einhversskonar foreldrasetur starfa fljótlega.
Ávinningurinn væri svo gríðarlegur fyrir einstaklingana, fyrir vellíðan barna og foreldra að það myndi skilja sér hratt og vel út í samfélagið okkar. Ég þrái að sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu greiði fyrir svona setri. Það þarf ekki að liggja í nefnd í mörg ár, það þarf ekki að gera neitt annað en að segja já við skulum leigja þér þetta húsnæði næst þegar einhver spyr. Eða henda í útboð, finna einhvern til að fóstra yfirgefinn leikskóla eða róló með þetta í huga.

Við þurfum að skapa samfélag og við viljum vera í samfélagi og ekki síst fyrsta ár barnsins. Flestir foreldrar vilja vera innan um aðra, hjálpast að, spjalla, bera saman bækur sínar og deila sigrum og sorgum úr hversdagslífinu. Foreldrar eru í félagslegu umhverfi og börnin eru í félagsskap og læra hvort af öðru. Mjög beisik samvera. Þannig drögum við úr pressunni á foreldra og nánasta umhverfi, leiði minnkar og ánægja eykst.