Svefn ungbarns

Svefn er eitthvað sem við erum flest að spá í fyrsta ár barnsins, margir foreldrar finna að þau sofa minna og það tekur tíma að finna út hvernig er best að hjálpa barninu að fara að sofa.
Fyrstu mánuði barnsins er best ef það sefur alltaf í nálægð við foreldrana, þannig er hægt að sinna því þegar það vaknar án mikillar fyrirhafnar og heyra í því þegar það fer að rumska.

Nokkur atriði er varða rúmið/svefnstaðinn er gott að hafa í huga:

  • Passa að hafa ekki of heitt inni í herberginu
  • Dýnan á að vera stíf og jöfn
  • Ekki kodda fyrsta árið
  • Passa að hafa jafnvægi í sængurfatnaði, ekki of þykka sæng sérstaklega ef barnið er vel klætt
  • Ekki stuðkanta eða mörg mjúkdýr í rúmið/vögguna
  • Barn á alltaf að vera lagt á bakið til svefns

Ef barnið sefur uppí hjá foreldrum er mikilvægt að hafa í huga:

  • Aðeins foreldrar eða þeir sem annasta barnið hafi það upp í hjá sér
  • Gæta þess vel að barnið geti hvergi dottið fram úr
  • Enginn koddi og sérábreiða fyrir barnið
  • Foreldrar verða að vera í góðu standi, þ.e. ekki er mælt með því að foreldri sem hefur neytt áfengis, taki lyf, reyki eða á annan hátt er með skerta getu til að bregðast við barni deili rúmi með barni.

Fyrstu mánuðina eru börn í raun ekki með sérstaka svefnrútínu, þau sofa þegar þau eru södd og búin að leika. Þó er gott að fara að huga að því fljótlega að búa til góðar venjur með barninu, þannig að það sé fyrirsjáanleiki í daglega lífinu. Það hjálpar foreldrunum líka heilmikið að hafa ákveðinn ryþma.