Skjálfti eftir fæðingu

Margar konur segja frá því að það sé eitt og annað sem komi þeim á óvart varðandi fæðingarferlið, og þá ekki síst það sem kemur eftir að barnið fæðist. Eitt af því er eftirskjálftinn, margar konur upplifa skjálfta eftir að barnið fæðist. Óstjórnlegur skjálfti og svolítil kuldatilfinning kemur fljótlega eftir að barnið fæðist og er algerlega eðlilegt og algengt. Það er allt í lagi, ekkert er að. Þessi skjálfti er algengur en kannski ekki svo mikið rætt um hann. Stundum er skjálftinn svo mikill að konur treysta sér varla til að halda á barninu sínu en svo hefur reynslan sýnt að þegar konur halda á börnum sínum í skjálftanum þá skjálfa þær yfirleitt minna og skemur (og fá minni verkjaupplifun). Athyglin er þá líka meira á litla barninu.

Ekki er að fullu vitað af hverju konur fá þennan skjálfta en hormónar spila þar stórt hlutverk. Líkaminn er að losa sig við endorfín og önnur hormón. Einhver áhrif hefur herbergishitinn en þó útilokar heitt herbergi alls ekki skjálftann. Við vitum heldur ekki alveg hvaða áhrif vökvi í æð hefur á skjálfta.

Skjálfti eftir fæðingu er kannski líka að einhverju leiti ,,sjokk“ viðbragð líkamans. Það er auðvitað ótrúlegt afrek að koma barni í heiminn og reynir á líkamann á einstakan hátt og eftir slíkt afrek er kannski eðlilegt að líkaminn sýni viðbrögð og þurfi að skjálfa til að jafna sig og komast í sitt fyrra horf.

Í flestum tilfellum er skjálftinn í nokkrar mínútur en getur verið upp undir klukkutíma. Ef skjálfti og óþægindi halda áfram sérstaklega eftir að heim er komið er ráðlagt að hafa samband við ljósmóður eða heilsugæslu til að útiloka sýkingu eða veikindi.