Parasambandið eftir fæðingu

Það kemur mörgum á óvart hve mikil breyting verður á parasambandinu við það að barn fæðist. Það tekur á að aðlagast því að hafa eignast barn og þegar fæðingin hefur verið erfið getur það verið enn strembnara. Slík upplifun er í raun í ætt við vægt þunglyndi og lýsir sér svipað en líka eitthvað sem ekki er rætt mikið um. Talið er að eitt af hverjum fimm pörum hið minnsta eigi erfitt með aðlagast breyttum aðstæðum og að um 80% para finni fyrir aukinni streitu í sambandinu eftir að barn er komið inn á heimilið.

Þegar litla barnið er komið í heiminn og börn inni á heimilinu má gera ráð fyrir að samskipti foreldra snúist fyrst og síðast um praktísk mál og áhyggjur, og svo lítið sem fimm mínútur fari í samtal um eitthvað annað. Fimm mínútur er ekki langur tími.

Óöryggi, svefnleysi, annríki og áhyggjur taka yfir heimilislífið og smátt og smátt beinist það að makanum í stað þess að snúa sér að hvort öðru.

Í fyrirtækjum og á stofnunum eru teymisfundir, samráðsfundir og allskonar samtalstækifæri og fæst fyrirtæki myndu láta hlutina koma í ljós, ræða þá seinna eða taka á því við betra tækifæri en ég held að margir hafi staðið sig að því að hugsa það inni á heimilinu. Samtalið er eitt mikilvægasta og gagnlegasta tækið sem við höfum inn í parasambandið og því ætti að vera alveg sjálfsagt að setjast niður og skipuleggja hlutina og sjá hvernig hefur gengið og að sama skapi ætti að vera sjálfsagt að taka frá tíma í fundi þar sem ekki er rætt um praktíska hluti eða annað sem tengist fjölskyldunni heldur samverustund sem nærir og færir fólk aftu saman.

Það að setjast niður reglulega, að minnsta kosti vikulega til að spjalla um eitthvað og hafa ekki börn, áhyggjur og annað fólk á spjalllistanum er fljótt að skila sér inn í meiri ánægju í parasambandið sem skilar sér svo yfirleitt nokkuð hratt inn í meiri ánægju í hvunndeginum og annríki dagsins.

Tilgangslausar samverustundir eru nauðsynlegar