Foreldrasetur óskast

Við fjölskyldan fórum út á Klambratún um helgina, þar er yndislegur leikvöllur. Sólin skein, það var hlýtt og við enduðum á að hanga þarna bróðurpartinn úr deginum. Sumarið er svo sannarlega komið. Á leikvellinum var fullt af fólki með börn á öllum aldri, reyndar flest frá 2-10 ára. Það er svo gaman að vera með börnin á leikvelli, innan um aðra.

Alltaf á sumrin þá fer mig að dreyma aftur um að hægt verði að koma af stað foreldrasetri á Íslandi, nú eða opnum leikskóla og auðvitað byrjaði mig að dreyma þarna á Klambratúni um bættara samfélag fyrir foreldra. Ég veit að það er fólk í stöflum til í að taka slíkt verkefni að sér en það er enginn vilji hjá Borgaryfirvöldum né öðrum yfirvöldum til að greiða leið fyrir því. Þetta er svona þráhyggja sem hefur kveiknað reglulega hjá mér síðan ég eignaðist barn fyrst árið 2007 og ég get ekki sagt hve oft ég hef talað um þörfina fyrir einhversskonar foreldrasetur við aðra foreldra.

Í Reykjavík er nefnilega enginn, þá meina ég alls enginn sama staður fyrir nýja foreldra með börn á aldrinum 0-2 ára og foreldrar sem eru með eldri börn segjum 2-6 ára hafa í enn færri hús að vernda. Flest börn eru í orlofi fyrstu 6-9 mánuði ævi sinnar og mörg börn eru hjá foreldrum sínum fyrstu tvö árin og einhver enn lengur en það er ekkert í Reykjavíkurborg sem gerir ráð fyrir að börn séu heima með foreldrum sínum. Foreldrasetur gæti fyllt upp í þetta tóm og aukið fjölbreytni og þjónustu til muna.

Foreldrasetur, gæti til dæmis verið gamall leikskóli eða róló, sem væri opinn frá 9-16. Þangað væru allir foreldrar velkomnir með börnin sín sem eru ekki í annarri daggæslu (eða þegar þau væru ekki í daggæslu). Fyrst og fremst væri hægt að hugsa setrið sem stað þar sem foreldrar geta hist, flesta daga á þeim tíma sem hentar þeim og verið inni að leika eða úti að leika þegar það hentar. Aðstaðan úti væri bara svona eins og er á leikskóla/róló og inni væru leikherbergi, leiksvæði og einhverjir starfsmenn sem gætu tekið á móti börnum og foreldrum og séð um staðinn.
Það er hægt að leika sér með þessa hugmynd og útfæra á ýmsan hátt en í sinni hráustu mynd eru börn og foreldrar með sama stað að hittast, sem kostar ekki hvítuna úr augunum og er opinn á dagtíma. Mjög einfalt væri svo að bjóða upp á gæslu hluta úr degi kannski eftir pöntun svo foreldrar gætu farið og keypt í matinn eða gert eitthvað fáránlega vilt á c.a. 2 klukkustundum. Hluti af leiðinni til að fjármagna mætti vera ef t.d. foreldrar sem ekki nýta sér hefðbundna daggæslu gætu þá ánafnað styrkjunum á foreldrasetrið. T.d. dagmömmugreiðslum eða leikskólastyrkjunum ef barnið er komið á leikskóla og svo væri hægt að vera með eitthvað mánaðargjald. Milljón útfærslur til sem hægt er að vinna með og í nágrannalöndum okkar eru margar útfærslur sem hægt er að sækja hugmyndir í.

Ég held þetta yrði eitt stærsta framfaraskref sem tekið hefur verið lengi fyrir foreldra og myndi auka vellíðan og draga úr einangrun foreldra til muna. Það er dásamlegt að vera heima með börnin sín, það jafnast fátt á við að leika við barn en fyrir þorra foreldra þá er bara ekkert gaman að finna einangrunina læðast aftan að sér. Mér finnst þetta vera það sem langflestir foreldrar tala um sem galla við að vera heima. Þá hafi vantað félagsskap og stuðning í foreldraorlofinu. Einhvern samastað, þar sem hægt væri að vera mikið innan um fólk og börn í sömu stöðu. Kíkja í foreldrasetrið.

Málið er að við foreldrar erum flest að fara úr umhverfi þar sem allt er á milljón, við vorum í vinnu, skóla, úti á lífinum, fórum í Kringluna, út að borða og í göngutúr og vorum innan um fólk, margt fólk meir að segja, lungann úr deginum. Svo förum við í foreldraorlof og allt fellur í dúnalogn og það er eiginlega ekkert að fara. Auðvitað eiga margir góða fjölskyldu og vini í orlofi líka en stundum er það ekki nóg og það eru ekki allir svo heppnir. Það eru líka takmörk fyrir því hversu oft hægt er að fara í Kringluna.

Þá væri svo gott að hafa svona fastan punkt í tilverunni, geta farið í foreldrasetrið, jafnvel hitt félagana þar. Leikið í öruggu, bjóðandi umhverfi í einhvern tíma og farið svo aftur heim. Spjallað við starfsfólkið, leitað ráða ef á þarf að halda og fengið leiðsögn ef á vantar. Annars bara drukkið djús, hlegið og haldið áfram að ýta rólunni. Kannski kynnst einhverjum sem á líka lítið barn, á sama aldri. Þetta þarf ekki að vera byltingarkennt. Maður er manns gaman.

Nú fussar kannski einhver og hugsar að kirkjurnar bjóða upp á foreldramorgna sem er jú ókeypis þjónusta sem má ekki vanþakka. Þangað hef ég sjálf sótt og kynnst mínum bestu vinum og átt margar góðar stundir. Ég elska starfið sem fer fram fyrir foreldra í kirkjunni.
Það er samt þegar öllu er á botninn hvolft kirkjustarf og skrýtið að þurfa leita til kirkjunnar af því að það er eini staðurinn í Reykjavík sem tekur á móti foreldrum með börn. Eðlilega er líka kirkjustarf á foreldrafundum kirkjunnar sem heillar ekki alla en helsti gallinn er að hver kirkja er með foreldramorgna, einu sinni í viku í tvo tíma í senn fyrir hádegi.  Sama má segja um foreldramorgna í Bókasöfnum. Einu sinni í viku.

Svo eru auðvitað frábær námskeið hér og þar. Mömmujógað hennar Auðar er líka kannski bara best í öllum heiminum fyrir mömmur (eins og mig). Stund til að vera með mömmum og börnum og teygja sig og njóta. En það er afmarkað námskeið  og námskeið kosta eðlilega pening. Það er því eingöngu viðbót sem mætir ekki þeirri þörf sem er til staðar nema að hluta.

Svo nei, það er enginn sama staður fyrir börn sem eru heima með foreldrum sínum í Reykjavík og það má svo léttilega bæta úr því.

Ég sendi bréf á alla borgarfulltrúa árið 2012 og óskaði eftir því að fá Njálsgöturóló leigðan undir einhverja svona starfsemi og þessir örfáu borgarfulltrúar sem svöruðu, bentu mér á að foreldramorgna og kirkjumorgna. Það væri líka hægt að fara á kaffihús. Það væri betra að leigja aðstöðuna út fyrir dagforeldra því þá væri hægt að segja ,,við fjölguðum daggæsluplássum um…“
Mér fannst svo leitt að ákveðið hefði verið að leigja róló-inn út svo hann gæti í mesta lagi þjónað 10 börnum per tímabil (miðað við 2 dagmömmur með 5 börn hver) meðan opinn róló hefði getað þjónað tugum foreldra og skapað samfélag. Það hefði þjónað svo miklu miklu fleirum.

Ég hafði líka samband við Kópavog í þeirri von að þeir væru með róló sem mætti koma í fóstur en þar fékk ég ekki einu sinni svör. Þar eru nokkrir róló-ar sem eru lítið notaðir og gætu auðveldlega blómstrað.

Ég veit alveg að ég er ekki sú eina sem hef stungið upp á þessu, ég held að flesta foreldra dreymi um svona afdrep og við erum mörg sem erum tilbúin að henda þessu í framkvæmd eða styðja við að þetta verði að veruleika. Ég get sagt eins og Davíð Oddson, ég hef engan sérstakan metnað fyrir því að reka svona stað, mér finnst þjóðin bara eiga það skilið að einn slíkur verði rekinn og ég get alveg tekið það að mér. Glöðust væri ég samt að sjá foreldrasetur starfandi. Ég veit að það er brýn þörf fyrir eitt slíkt (eða tvo eða þrjú) og ég þrái að sjá einhversskonar foreldrasetur starfa fljótlega.
Ávinningurinn væri svo gríðarlegur fyrir einstaklingana, fyrir vellíðan barna og foreldra að það myndi skilja sér hratt og vel út í samfélagið okkar. Ég þrái að sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu greiði fyrir svona setri. Það þarf ekki að liggja í nefnd í mörg ár, það þarf ekki að gera neitt annað en að segja já við skulum leigja þér þetta húsnæði næst þegar einhver spyr. Eða henda í útboð, finna einhvern til að fóstra yfirgefinn leikskóla eða róló með þetta í huga.

Við þurfum að skapa samfélag og við viljum vera í samfélagi og ekki síst fyrsta ár barnsins. Flestir foreldrar vilja vera innan um aðra, hjálpast að, spjalla, bera saman bækur sínar og deila sigrum og sorgum úr hversdagslífinu. Foreldrar eru í félagslegu umhverfi og börnin eru í félagsskap og læra hvort af öðru. Mjög beisik samvera. Þannig drögum við úr pressunni á foreldra og nánasta umhverfi, leiði minnkar og ánægja eykst.