Mikilvægi leiks ungra barna

Stundum finnst mér ekkert mjög þjált að nota orðið leikur yfir samskipti við mjög ungbörn, en leikur er samt mjög mikilvægur öllum börnum óháð aldri og skiptir gríðarlegu máli þegar kemur að námi og þroska barna. Leikur hjá nýfæddum börnum og ungbörnum eru jákvæð samskipti, tilgangslaus tímaeyðsla sem maður vill ekki að hætti. Leikur er gríðarlega vel rannsakað fyrirbrigði og vanmetinn oft á tíðum.

Leikur barna hjálpar börnum að byggja upp sjálfstæði og sjálfstraust, upplifa og finn ástúð og öryggi og skilja sjálft sig í samhengi við og tengslum við aðra.

Leikur barna undir þriggja mánaða er svo sem ekki flókinn, grettur og bros, hjal, tal og söngur. Börn elska andlit og andlitstjáningu og horfa helst á svæðið við augu og enni og svo munnsvæðið. Í leik svo ungra barna eru samskiptin aðalatriðið, viðbrögð við viðbrögðum. Maður þarf ekki hluti eða dót, bara sjálfan sig og barnið.

Samskiptin eru mikilvægust, skilaboð og svar

Leikur þjónar ekki bara því að efla barnið heldur eflast tengslin milli foreldris og barns, með því að leika við barn og tala við það kynnist maður barninu betur og áttar sig á styrkleikum þess. Barnið treystir á mann og þannig byggist sambandið upp. Í gegnum leikinn sér maður líka nokkuð fljótt hvernig týpa barnið er og hvað því líkar við og hvað ekki. Hvort það er rólegt eða meira fyrir stuð.