Ég veit ekki hvað það er en ég hef byrjað að skrifa þennan pistil oftar en ég kæri mig um að muna. Hripa niður nokkur orð og hætti svo. Kannski er bara best að skrifa lykilorðin strax og þá eru þau frá, kúkur og prump. Allt mjög mikilvægt og enn mikilvægara í fæðingu. Kúkur og kúkatilfinning í fæðingu er venjulegt og normal. Ég finn að þrátt fyrir mikla þjálfun í að tala um efnið, er eitthvað sem heldur aftur af mér. Ok jæja þá er það frá,

Þegar barn fæðist um fæðingarveg, verður það að nýta allt rýmið í líkama móðurinnar. Það þrýstir sér sína leið niður í gegnum grindina og út í heiminn. Til þess að það gangi sem best má ekki vera nein fyrirstaða, allt sem tekur pláss verður að fara. Þetta ferli þýðir að flestar konur kúka örlítið í fæðingu og þannig er það bara. Fæstir sem eru viðstaddir taka eftir því, enginn sem starfar í kringum fæðingar kippir sér nokkuð upp við það en þetta getur verið heilmikið mál og sálarstríð fyrir þann sem er að fæða og upplifir þetta.

Margar konur finna að tilhugsunin um að kúka í fæðingu angrar þær strax á meðgöngu, eitthvað sem margar konur hræðast og kallar jafnvel fram heiftarlegan kvíða. Hugsun sem sækir endurtekið á en ekki fer mikið fyrir í umræðunni.

Stundum kemur það aftan að konum í fæðingu hvað það truflar þær mikið. Þetta geta verið hljóð innri átök að finna tilfinninguna, að maður þurfi að kúka og sjá svo fram á að hugsanlega kúka fyrir framan þann sem maður elskar og aðra sem eru viðstaddir. Inn í flesta er svo kyrfilega innritað að það að kúka sé algert einkamál og gerist ekki með aðra í kringum sig og sumir hafa jafnvel masterað að prumpa aldrei svo nokkur sála heyri.
Tilfinningin ,, ég þarf að fæða barn“ er eiginlega nákvæmlega eins og tilfinningin ,,ég þarf að kúka“. Þarmarnir liggja við fæðingarveginn, þrýstingurinn á taugaendana er á svipuðum stað og tilfinningin sem líkaminn þekkir er þessi, kúkaþörf. Eitthvað þarf að fara út en í fæðingu er það lítið dásamlegt barn.

Hvort þetta er ólík tilfinning í raun með blæbrigðamun eða sama tilfinningin er kannski ekki aðalatriðið en þarna kallast á þversagnir, við viljum fæða barnið en viljum ekki kúka fyrir framan aðra. Kúkur og prump í almenningsrými er oft beintengt skömm og tilfinningin skömm heldur aftur af okkur, við upplifum okkur minni og vanmáttugri og það dregur yfirleitt úr vilja okkar og getu til þess að halda áfram.

Leghálsinn er í raun bara hringvöðvi, sem er feiminn og viðkvæmur fyrir skömm og við getum stjórnað honum nokkuð vel, svona rétt eins og öðrum hringvöðvum. Lokað og herpt ef það á við og opnað og slakað þegar það er viðeigandi.
Kona sem er í öruggu umhverfi þar sem henni líður vel er líklegri til að opna líkamann og útvíkkun gengur hraðar fyrir sig, svona ,,klósettaðstæður“ ef svo má segja. Það er líka hægt að loka líkamanum, til dæmis ef kona upplifir ótta eða skömm og þá getur útvíkkun gengið til baka. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að margar konur vilja fara afsíðis á klósettið í fæðingu, því það er privat. Klemman að vilja ekki kúka fyrir framan aðra, heldur aftur af fæðingunni, getur tafið fæðingarferlið og veldur hugarangri.

Hvað skal til bragðs taka? Á staðnum er auðvitað hægt að stappa stálinu í fólk, segja að kúkur skipti ekki máli, öllum sé alveg sama, ljósmæður eru góðar í að fjarlægja allt sem fjarlægja þarf og svo framvegis. Það er hægt að henda í fimmaura brandara og létta stemninguna í smá stund og allt er það satt, það er öllum alveg sama.

Ég held líka að það sé mikilvægt að tala um kúk og fæðingar, minnast á þetta oft meðan konur eru barnshafandi. Skömm virkar nefnilega þannig að því meira sem er talað um það sem vekur skömm, því minni verður skömmin. Því meira sem við tölum um kúk og prump sem fylgifisk í fæðingu því minna mál.
Enn betra væri að taka þetta alla leið og byrja fyrr, normalísera prump frá fyrstu tíð, sérstaklega hjá stelpum. Hætta að hafa prump þannig að það veki upp skömm. Prump er bara prump. Svo næst þegar lítil stelpa prumpar hressilega fyrir framan okkur að í staðinn fyrir að koma með klassísku skammarvekjandi viðbrögðin að taka vel í það og reyna að muna að stelpa sem prumpar hressilega í almenningsrými og skammst sín ekkert fyrir það, verður kannski einn daginn þakklát barnshafandi kona sem sleppur að öllum líkindum við kúkahugarstríðið í fæðingu mörgum árum seinna.