Heilun í hlustun

Fyrir nokkrum árum fór ég á fyrirlestur og að honum loknum stóð ég og spjallaði við mjög merkilega konu sem ég lít upp til og við fórum að tala um fæðingarsögur, fæðingarupplifun, eitthvað sem mér finnst alltaf skemmtilegt að tala um. Hún bar nokkuð sára en gróna sögu í hjarta sér og minningin hafði dvalið sterkt með henni. Hún sagði okkur frá því að hún hafi verið með fæðingarsöguna og allt ferlið á heilanum og ekki gert annað en að tala um hana við hvern sem vildi og vildi ekki heyra. Viðbrögðin voru almennt á sömu leið að hún ætti að hætta að hugsa um þetta en sama hvað hún vildi og reyndi þá gat hún ekki hætt að hugsa um atburðina og ekki hætt að tala um þá. Einn daginn var hún svo á spjalli við unga dóttur sína og sagði henni sögu sína á barnvænu máli.Sú stutta hlustaði og hélt áfram að gera það sem hún var að gera, leit svo til hennar og sagði ,,það hlýtur að hafa verið erfitt mamma mín” og hún játti því, þetta hafi verið erfitt.

Þar small það, eftir þetta hafði hún ekki þörf til að tala um reynslu sína, eitthvað innra með henni gréri þennan dag.

Þessi saga er mér hugleikin, hún hefur sagt mér og kennt margt. Fæðingarreynslan okkar er minning sem er mikilvæg, hún er með okkur og mótar okkur. Fæðingarminningin mótar okkur og við getum fundið meiri styrk eða misst hann. Margar konur tala um þegar þær finna mátt sinn í gegnum fæðingu barnsins síns að þær upplifi sig heilar og óstöðvandi. Hvernig fæðingarminningin verður fer svo mikið eftir upplifun okkar og fyrri reynslu.

Þegar fæðingarreynslan situr með okkur, getum við ekki bara hætt að hugsa um hana, lagt hana til hliðar eins og skítugan kaffibolla og snúið okkur að öðru. Hún er með okkur og við verðum að finna henni farveg.

Ein algeng leið til þess og raunar mjög góð er að deila henni með öðrum, segja frá því sem við upplifðum og afhverju og hvernig það hefur áhrif á okkur og finna þá einhvern sem er eins og unga daman, til í að hlusta af athygli, sjá reynsluna eins og hún er og orða það sem við heyrum.

Oft höfum við takmarkaðan tíma, við hittumst kannski á kaffihúsi og förum að tala um reynslu okkar og við erum á stað þar sem allir geta heyrt orð okkar og sessunauturinn er kannski í meira stuði til að spjalla en hlusta. Þannig náum við bara að segja brot, hluta eða stikkorð og förum fyrir vikið að fara út í að segja viðurkennda og birtingarhæfa sögu sem kemst fyrir í tebollanum. Sagan fer frá okkar innsta kjarna og yfir í að vera meira eins og skráð saga í mæðraskránni, lýsing á mælanlegum atburðum í raun séðum frá öðrum en okkur. Við förum jafnvel að leggja áherslu á að vitna í orð þeirra sem voru á staðnum til að gefa betri lýsingu frekar en okkar upplifun. Sem er alveg saga sem er gott að segja en hún kannski græðir ekkert sár og er ekki nærri okkur. Mæðraskýrslusagan af fæðingunni okkar verður okkur fjarlægari og ópersónulegri og öðlast þá kannski annað líf sem ósnertanleg saga fyrir annan. Fæðingarreynslan okkar getur nefnilega ekki verið neitt annað en okkar upplifun.
Ég hallast alltaf meir og meir að því að það sé mikilvægt að velja vel þann sem hlotnast sá heiður að heyra söguna okkar og að við gefum okkur góðan tíma. Þegar við finnum einhvern sem hlustar af athygli og með það í huga að heyra söguna okkar og finna hvernig hún var og getur gefið sér tíma til að velta hlutunum upp, getur staldrað við smáatriði og hlaupið yfir önnur þá finnum við heilara, manneskju sem styrkir okkur og eflir. Við verðum að finna að við getum sagt söguna frá okkar hjartarótum, eins og hún dvelur með okkur, eins og við munum hana. Og þannig grær hún og við fáum sátt.