European doula network- árleg ráðstefna í Varsjá

 

Ég fór á árlega ráðstefnu um helgina í Varsjá í Póllandi. European doula network eru samtök sem vinna að því að hafa samvinnu á milli doula óháð því hvar í Evrópu þær búa. Við vorum um það bil 60 sem tókum þátt.

Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja og hvernig ég get líst því hversu dásamlega skemmtileg þessi ráðstefna var og fræðandi.

Fyrst má kannski nefna að við vorum 60 doulur héðan og þaðan í Evrópu, ég hitti doulur frá Austurríki, Sviss, Póllandi, Rússlandi, Belgíu, Bretlandi, Grikklandi, Litháen og víðar. Dásamlegt alveg. Ég hef ekki verið umvafin svona mörgum reyndum doulum áður, við erum til þess að gera fáar á Íslandi og það var svo frábært að tala við þær, finna að þær voru að starfa af sömu hugsjón, að sama markmiði og hlæja með þeim að sömu bröndurunum.

Vinnusmiðjurnar voru ótrúlega skemmtilegar og fræðandi. Fyrst var fyrirlestur um pólska hjátrú tengda meðgöngu og fæðingu, sumt var mjög líkt því sem maður hefur heyrt heima á Íslandi, annað var framandi. Mér fannst fyndið að heyra að konum væri ráðlagt frá því að lita á sér hárið rautt á meðgöngu því það gæti orðið til þess að barnið yrði rauðhært. Það er margt hægt að segja um þessa hjátrú en fyndið er held ég best.

Svo fórum við á fyrirlestur um missi á meðgöngu og í fæðingu og hvernig doulur geta verið til staðar þegar foreldrar ganga í gegnum missi. Einnig var reynsla doula af þvi að aðstoða foreldra í kjölfar missis rædd.

Seinni vinnusmiðjan var Batik og Henna, við fengum að prófa að mála okkur með Henna lit og það var einstök upplifun, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég sem get ekki teiknað mynd svo fólk sjái hvort um er að ræða hund eða kartöflu gleymdi mér alveg og finn hlýju í hvert sinn sem ég lít á hendina á mér.
Svo fórum við yfir létta nuddtækni og rebozo-notkun. Langur en góður laugardagur.

Sunnudagurinn fór svo í fundarhöld, hvert EDN stefnir, hvað er að gerast í hverju landi fyrir sig og drög lögð að næstu ráðstefnu sem verður í Vín í september. Ég vona svo sannarlega að ég geti verið á EDN dögunum að ári og að þá verðum við fleiri en ein frá Íslandi.