Doulunámskeiðið í janúar

Við förum af stað með doulunámskeið núna í janúar 2017, viðbrögðin við námskeiðinu hafa verið góð og ég hlakka til að hitta nýja hópinn. Það eru auðvitað enn laus pláss en gaman að sjá hve mikil vakningin er orðin. Við verðum líka með sængurlegu doulu-námskeið og það er haldið í fyrsta sinn á Íslandi og námskeiðið er haldið í beinu framhaldi af fyrsta hluta doulu-námskeiðsins.

Í ár vinnum við doulunámskeiðið aðeins öðruvísi en undangengin ár enda komin meiri reynsla að spila úr. Mig langaði að setja á blað helstu upplýsingar og spurningar sem ég hef fengið undanfarna daga.

Fyrst er kannski að nefna dagsetningarnar en þær eru eftir farandi. Það er skylda að mæta alla dagana og gert er ráð fyrir 80% mætingu.

24.- 26. janúar frá kl. 9-17
Þetta er dona-douluhluti námsins, Jesse Remer er með þriggja daga vinnusmiðju þar sem farið er yfir meðgöngu og fæðingu, starfsvið doulu og praktísk atriði.

18.– 19. mars frá kl. 9-15
Starf doulu á Íslandi, praktísk atriði og starfsvið doulu. Samvinna við ljósmæður og annað heilbrigðisstarfsfólk.
Heimalestur fyrir vinnuhelgi: The doula book

7. maí frá 9-16 brjóstagjöf og nýja fjölskyldan. Stuðningur og fræðsla.
Heimalestur fyrir vinnudag: The birth partner

16.-17. september  praktísk atriði, verkefnaskil, námsframvinda, eftirfylgd.
Heimalestur fyrir vinnuhelgi: Ein íslensk bók og bók um umönnun barnsins

Námið er í lotum en er mikið byggt á sjálfsnámi, skila þarf verkefnum og lesa efni um fæðingarferlið og ná staðgóðum tökum á umönnun og stuðningi við fjölskyldur sem eiga von á barni.
Gert er ráð fyrir að nemendur hafi lokið verkefnaskilum tveimur árum eftir að námskeiði lýkur (16. september 2019).

Námskröfur
Lesa þarf am sex bækur í náminu og fyrir aðra, þriðju og fjórðu lotu er lesin ein bók skv. leiðbeiningum og verða nemendur að hafa lokið við þá bók fyrir nýja lotu. Manuall fylgir en nemendur verða sjálfir að útvega sér bækur í náminu.

Doulunemar þurfa að vera viðstaddir þrjár fæðingar í náminu, yfirleitt reynist auðvelt að fá fæðingar í sínu nær umhverfi en annars aðstoðum við eftir bestu getu með að útvega nemafæðingar.

Auk þessa sem nefnt er hér að ofan þurfa nemar að uppfylla eftirfarandi:

  • sitja alla námskeiðsdaga hjá Jesse Remer og Soffíu Bæringsdóttur
  • lesa amk sex bækur og skrifa greinargerð um þær. Fyrir hverja námslotu er heimavinna.
  • vera viðstödd þrjár fæðingar og veita samfelldan stuðning í 15 klukkustundir með hverri fjölskyldu. Með hverri fæðingu verður að skila matsblaði frá móður og helst undirskrift ljósmóður. Matsblöð fylgja og má fjölfalda. Aðeins er hægt að nota eina keisarafæðingu.
  • Skila skal uppgjöri á fæðingunni, hvernig gekk, hvert þitt hlutverk var, hvernig móðirin vann sig í gegnum fæðinguna og hvað þú lærðir af reynslunni.
  • Skila uppgjöri á þinni fæðingarreynslu (allri ef þú átt fleiri en eitt barn), ef þú hefur ekki fætt barn að skila uppgjöri á viðburði sem breytti lífi þínu.
  • Útdrátt um mikilvægi stuðnings á meðgöngu og í fæðingu (500-700 orð).
  • Útdrátt um hlutverk og mikilvægi doulu í fæðingarferlinu (500 orð) má fletta inn í lið 6.
  • Greinargerð um íslenska meðgönguvernd og íslenskt fæðingarumhverfi, aðstæður og vinnureglur.
  • Lista yfir þjónustu sem nýtist konum á meðgöngu, í fæðingu og í sængurlegu amk 20 ábendingar.

Námið er í höndum Jesse Remer og Soffíu Bæringsdóttur.
Jesse Remer hefur um árabil starfað sem doula og doulukennari og starfar í gegnum DONA- bandarísk doulusamtök. Hún lærði líka til ljósmóður á sínu tíma en hefur einbeitt sér að doulustarfinu. Undanfarin ár hefur hún unnið á fæðingarheimili sem rekið er af ljósmæðrum sem doula og tekur þar vaktir. Að auki hefur hún unnið mikið að réttindabaráttu barnshafandi konum til handa og unnið að því að koma douluþjónustu í farveg á svæðinu þar sem hún býr, Portland. Hægt er að lesa meira um Jesse á heimasíðunni hennar hér.

Soffía Bæringsdóttir hefur starfað sem doula á Islandi síðan 2008, hún hefur hlotið þjálfun sem doula hjá CBI og DONA. Að auki er hún hypnobirth-leiðbeinandi, childbirth educator frá CBI, hefur lokið námi í ungbarnanuddi og að lesa í merki barnsins. Hún hefur setið fjölmargar aðrar vinnusmiðjur og er sem stendur nemi í fjölskyldumeðferð í EHÍ og starfaði um árabil sem kennari. Hún á og rekur hondihond.is douluþjónustu.

Þetta er í fjórða sinn sem námið er haldið á Íslandi.

Vinnusmiðjan er viðurkennd af DONA sem eru bandarísk doulusamtök svo fyrir þá sem hugsa sér að starfa annarsstaðar þá er hægt að sækja um doulu-réttindi í gegnum þau samtök á dona.org en að námskeiði loknu og uppfylltum námsskilyrðum útskrifast nemar með réttindi frá Hönd í hönd.

Verð  106.000 ef greitt er fyrir 15. desember, annars  122.000.-

Sum stéttarfélög niðurgreiða námskeiðið og hægt er að skipta greiðslum ef svo ber undir.
( Verð fyrir postpartumdoulu-námskeiðið sem viðbótarnámskeið er 35.000 )

Skráning í fullum gangi, það er takmarkað sætapláss. Nánari upplýsingar og skráning á soffia@hondihond.is s. 8624804