Mikilvægi leiks ungra barna

Stundum finnst mér ekkert mjög þjált að nota orðið leikur yfir samskipti við mjög ungbörn, en leikur er samt mjög mikilvægur öllum börnum óháð aldri og skiptir gríðarlegu máli þegar kemur að námi og þroska barna. Leikur hjá nýfæddum börnum og ungbörnum eru jákvæð samskipti, tilgangslaus tímaeyðsla sem maður vill ekki að hætti. Leikur er gríðarlega vel rannsakað fyrirbrigði og vanmetinn oft á tíðum.

Leikur barna hjálpar börnum að byggja upp sjálfstæði og sjálfstraust, upplifa og finn ástúð og öryggi og skilja sjálft sig í samhengi við og tengslum við aðra.

Leikur barna undir þriggja mánaða er svo sem ekki flókinn, grettur og bros, hjal, tal og söngur. Börn elska andlit og andlitstjáningu og horfa helst á svæðið við augu og enni og svo munnsvæðið. Í leik svo ungra barna eru samskiptin aðalatriðið, viðbrögð við viðbrögðum. Maður þarf ekki hluti eða dót, bara sjálfan sig og barnið.

Samskiptin eru mikilvægust, skilaboð og svar

Leikur þjónar ekki bara því að efla barnið heldur eflast tengslin milli foreldris og barns, með því að leika við barn og tala við það kynnist maður barninu betur og áttar sig á styrkleikum þess. Barnið treystir á mann og þannig byggist sambandið upp. Í gegnum leikinn sér maður líka nokkuð fljótt hvernig týpa barnið er og hvað því líkar við og hvað ekki. Hvort það er rólegt eða meira fyrir stuð.

Svefn barns 0- 3 mánaða

Fyrst um sinn sofa börn ósköp mikið. Þau hafa ekki þol né getu í að einbeita sér lengi né vaka mikið. Yfirleitt vakna þau til að drekka, horfa smá og sofna aftur.

Nýfætt barn ætti að sofa á bilinu 16-18 tíma á sólarhring. Meðan barn er að þyngjast eðlilega fyrstu vikurnar þarf ekki að hafa áhyggjur ef barnið sefur meira en gæta þess að barnið sofi ekki minna.

Fyrst um sinn er alveg eðlilegt að barn vakni á tveggja til fjögurra tíma fresti til að drekka allan sólarhringinn til að drekka. Smám saman lengist svo þessi tími og það fer oft að myndast rútína um þriggja mánaða.

Fyrstu vikurnar er svefn barnsins óreglulegur, börn eru ekki með fullþroskað hormónakerfi til að stýra svefninum og því getur svefninn virkað tilviljunarkenndur og óútreiknanlegur. Það getur reynt á foreldra en er alveg eðlilegt og batnar með tímanum.

Svefnhrynjandi barna er allt öðruvísi en svefnhrynjandi fullorðinna. Svefnhringurinn er styttri og börn verja miklum tíma í REM svefni sem er mikilvægur fyrir heilaþroska barnsins.

Um þriggja mánaða fer svefnkerfið að breytast aðeins, daglúrarnir taka á sig fastari mynd og nætursvefninn byrjar að lengjast lítillega. Þetta er auðvitað misjafnt eftir börnum, sum börn eru búin að koma sér upp góðum svefnhrynjanda um 6-7 vikna meðan önnur ná því ekki fyrr en um sex-sjö mánaða og jafnvel seinna.

Börn vakna á 2-4 tíma fresti fyrstu vikurnar.

Það er gott að byrja að búa til góðar svefnvenjur þegar barnið er nokkurra vikna:

Byrja á því að gera greinarmun á nóttu og degi með birtumun. Hafa bjart á daginn og dimmt á kvöldin þar sem barnið sefur. Gæta þess að hafa venjuleg umgengnishljóð yfir daginn en kyrrlátara á kvöldin og nóttunni.

Fylgjast vel með barninu og læra inn á þreytumerki þess. Sum þreytumerki barna eru mjög skýr en önnur eru óljósari og getur verið erfiðara að spotta. Merki þess að barn sé þreytt er að það lygnir aftur augunum, lítur undan, starir út í loftið, nuddar augun og grípur jafnvel um eyrað og það volar jafnvel eða ,,kvartar“ undan þreytu.

Flestum börnum þykir gott að vera á hlýjum og öruggum stað með eitthvað þétt að sér og bakgrunnshljóð. Með því að vera kjarnaður og rólegur sjálfur róast flest börn á stuttum tíma.

Er barnið svangt?

Nýfætt barn treystir á umönnunaraðila sinn. Það treystir á að umönnunaraðilinn túlki það sem barnið er að segja því í hag. Það er alveg eðlilegt að það taki tíma að kynnast barni og átta sig á því hvað það er að segja manni. Fyrst um sinn sofa börn mest og eru mikið í að drekka og sofa.

Barn er ótrúlega duglegt að segja til hvenær það er orðið svangt eða tilbúið til að drekka. Fyrstu merkin eru að það fer að hreyfa höfuðið lítilega til, leita og rótera. Það opnar munninn enn betur og fer svo að hreyfa höfuðið ákveðið til beggja hliða og leita frekar ákaft. Þetta eru svona fyrstu merkin sem maður sér.

Svo fara þau að setja hendina upp í munn, teygja sig og reygja og maður verður var við aukna hreyfingu. Þarna er barnið orðið svangt og vill endilega fá að borða. Ef maður getur er gott að byrja að gefa barninu að drekka þarna.

Síðustu svengdarmerki ungra barna er þegar þau eru orðin rauð um andlit og niður á kroppinn, hreyfingar eru áberandi og þau skríkja jafnvel og að lokum fara þau að gráta.

Nýfædd börn gráta oft við lítið tilefni, það er alveg eðlilegt og viðbúið að barn gráti því það er svo tilbúið að drekka en það er ávinningur af því að gefa barni strax að drekka áður en það verður mjög svangt.

Myndaniðurstaða fyrir hungry cues

Myndaniðurstaða fyrir hungry cues
Myndin hér að neðan er fengin hjá Storkmama og sýnir myndrænt merki barnsins.

Nokkur orð um parasambandið

Að eignast er fyrir flesta dásamleg og eftirsóknarverð breyting á lífinu. Allt breytist og verður betra. Líklega verður ekki meiri breyting á parasambandi en við það að eignast fyrsta barnið. Allir fá nýtt hlutverk og það tekur tíma að læra inn á barnið, sjálfan sig og parasambandið.  Meirihluti foreldra kannast við að hafa stögglað í sambandinu sínu fyrsta ár barnsins og að það taki tíma að aðlagast og lenda á fótunum aftur. Skal engan undra, það tekur tíma að annast lítið barn, bleiuskiptingar, þvottur og umönnun fyllir upp í tímann manns. Það er mikilvægt að gæta að verkaskiptingunni, skipta verkum jafnt á milli sín og ræða oft hver gerir hvað. Sumir detta inn í góða verkaskiptingu á heimilinu en flestir þurfa að gefa sér tíma til að ræða hlutina og finna taktinn. Svefninn er oft minni fyrsta árið eftir að barnið er fætt og lítill svefn gerir allt erfiðara. Með því að gæta þess að allir á heimilinu hvílist nóg gengur flest betur. Það er auðvelt að falla í þá gryfju að finnast maður verða að gera eitt og annað og taka það fram yfir svefninn en svefninn ætti að vera forgangsatriði. Þetta er sérlega mikilvægt ef barnið sefur slitrótt eða lítið. Síðast en ekki síst er mikilvægt að muna að í brimrótinni verður maður að muna að vera bandamaður maka síns. Spjalla mikið saman þegar vel gengur og enn meira þegar harðnar á dalinn.

Svefn ungbarns

Svefn er eitthvað sem við erum flest að spá í fyrsta ár barnsins, margir foreldrar finna að þau sofa minna og það tekur tíma að finna út hvernig er best að hjálpa barninu að fara að sofa.
Fyrstu mánuði barnsins er best ef það sefur alltaf í nálægð við foreldrana, þannig er hægt að sinna því þegar það vaknar án mikillar fyrirhafnar og heyra í því þegar það fer að rumska.

Nokkur atriði er varða rúmið/svefnstaðinn er gott að hafa í huga:

 • Passa að hafa ekki of heitt inni í herberginu
 • Dýnan á að vera stíf og jöfn
 • Ekki kodda fyrsta árið
 • Passa að hafa jafnvægi í sængurfatnaði, ekki of þykka sæng sérstaklega ef barnið er vel klætt
 • Ekki stuðkanta eða mörg mjúkdýr í rúmið/vögguna
 • Barn á alltaf að vera lagt á bakið til svefns

Ef barnið sefur uppí hjá foreldrum er mikilvægt að hafa í huga:

 • Aðeins foreldrar eða þeir sem annasta barnið hafi það upp í hjá sér
 • Gæta þess vel að barnið geti hvergi dottið fram úr
 • Enginn koddi og sérábreiða fyrir barnið
 • Foreldrar verða að vera í góðu standi, þ.e. ekki er mælt með því að foreldri sem hefur neytt áfengis, taki lyf, reyki eða á annan hátt er með skerta getu til að bregðast við barni deili rúmi með barni.

Fyrstu mánuðina eru börn í raun ekki með sérstaka svefnrútínu, þau sofa þegar þau eru södd og búin að leika. Þó er gott að fara að huga að því fljótlega að búa til góðar venjur með barninu, þannig að það sé fyrirsjáanleiki í daglega lífinu. Það hjálpar foreldrunum líka heilmikið að hafa ákveðinn ryþma.

Það sem stundum gleymist að tala um eftir fæðingu

Eftirvæntingin eftir barninu og undirbúningurinn fyrir fæðinguna tekur stundum svo mikið rými í lífi okkar að fyrstu stundirnar eftir fæðingu koma oft mjög á óvart. Barnið fætt en slatti eftir af einhverju sem ekki endilega hefur verið talað um. Ekki misskilja, það er alltaf eitthvað sem kemur á óvart, það er ekki hægt að undirbúa sig svo vel að maður hætti að undrast. Þó eru nokkrir hlutir sem koma upp aftur og aftur, sem kannski er ekki mikið talað um fyrst eftir fæðingu.

Þegar barnið er fætt, fæðist fylgjan. Fylgjan kemur síðast og það er heitt og skrýtið að fæða fylgju, yfirleitt áreynslulaust en skrýtið.

Ljósmæður nudda legið eftir fæðingu, til að athuga hvort það taki sig ekki örugglega saman. Það er alveg agalega vont að láta nudda á sér legið eftir fæðingu. Þær nudda legið og athuga það reglulega. Þetta á líka við um eftir keisarafæðingu.

Oft þarf að sauma eftir fæðingu, það er talað um fyrstu, annars og þriðju stigs rifu. Það er oft sárt að láta sauma, þó vel sé búið að deyfa og getur tekið langan tíma. Sársaukinn er líka oft meira eins og sviði eða stingur og fátt sem getur undirbúið mann undir það að láta sauma á sér barmana með lítið barn í fanginu.

Sviðinn sem fylgir því stundum að pissa er eiginlega ólýsanlegur og það getur verið heilmikið mál að kúka eftir fæðingu.

Netanærbuxurnar sem konur fá fyrst eftir fæðingu halda vel en leyna engu.

Það getur verið erfitt að setjast upp og sitja strax eftir fæðinguna, slíkt tekur oft nokkra daga að jafna sig.

Maginn er mjúkur og laus strax eftir fæðingu og það getur verið skrýtið að ýta á hann strax á eftir. Fyrstu skrefin eftir fæðingu með tóman maga eru oft eftirminnileg.

Það getur tekið tíma að jafna sig og ná áttum eftir fæðingu og ná að njóta þess að vera með barninu sínu.

Ég vildi að ég hefði vitað

Eldri stelpan mín er fjögurra ára gömul og oft finnst mér við vera jafngamlar. Hún hefur kennt mér mikið um lífið og margt um sjálfa mig.

Mér finnst ég hafa verið fljót að stilla mig inn á hana en suma daga tek ég svona ohh, ég vildi að ég hefði vitað, til daganna sem hún var lítil og ég vitlaus móðir og við að kynnast.

Ég vildi að ég hefði almennt vitað meira um brjóstagjöf. Hún tekur tíma, kona kemst varla á klósettið á milli gjafa. Það getur verið erfitt og vont og þreytandi að vera með barnið á brjósti. Ég vildi að ég hefði vitað hvernig þau sýna merki um svengd og ég vildi óska að ég hefði vitað að það er í lagi að finnast það ekki frábært að vera með barn á brjósti allan sólarhringinn.

Ég vildi að ég hefði vitað meira um nándarþörf barna og hve mismikil hún er eftir karakterum. Ég eignaðist stelpu sem þurfti mikla athygli og nánd og ég var 4 vikur að fatta það. Það er allt í lagi að halda á barninu allan sólarhringinn og hafa það hjá sér, upp við sig og með sér meðan allir eru sáttir.

Ég vildi að ég hefði áttað mig betur á mikilvægi hvíldar, nýtt sængurleguna betur í að liggja fyrir en ekki sýna hvað ég var hress nýbökuð móðir. Ég vildi að ég hefði fattað að það gerir kraftaverk að fara ekki á fætur fyrir hádegi og stundum ætti að vera uppáskrifað að kona eigi að leggja sig með barninu sínu.

Ég vildi að ég hefði vitað að börn sofa mismikið og sum þeirra sofa jafnvel lítið. Ég vildi að ég hefði vitað hve mikilvæg regla, rólyndi og leggjur eru þegar kona á þannig börn. Ég vildi að ég hefði vitað að það er börnum eðlilegt að vakna 1-3 á nóttu allt fyrsta árið sitt.

Ég vildi að ég hefði vitað að börn vilja nærast þegar mamman nærist, ég hefði getað sparað mér mikinn tíma við að reyna að fá hana til að sofa meðan ég borðaði. Lífið varð svo miklu einfaldara eftir að ég hætti að reyna.

Ég vildi að ég hefði vitað að ég þarf ekki að leyfa öðrum að halda á barninu mínu frekar en ég vil.

Ég vildi að ég hefði passað betur upp á heimsóknartímann strax eftir fæðingu og ég vildi að ég hefði slökkt á símanum oftar.

Ég vildi að ég hefði beðið mömmu um að koma oftar og stoppa lengur.

Ég vildi að ég hefði áttað mig fyrr á því að ég þarf ekki að vera betri húsmóðir en amma var. Þvotturinn bíður og draslið verður þarna að eilífu en litla stúlkan stækkar hratt.

Ég vildi að ég hefði fattað fyrr að ég þarf að hugsa vel um mig til þess að hugsa vel um fjölskylduna mína. Þegar ég er í jafnvægi þá er fjölskyldan mín það líka.

Ég vildi að ég hefði fylgt hjartanu enn meir alltaf alveg frá upphafi. Þegar kona tekur ákvörðun út frá hjartanu tekur hún rétta ákvörðun, alveg óháð velmeinandi frænkum, uppeldisbókum og öðrum uppeldissérfræðingum.

Ég vildi líka að ég hefði vitað að það er ekki hægt að vita fyrirfram hvernig kona upplifir foreldrahlutverkið og ég vildi að ég hefði áttað mig á hvað það er dásamlega frábært að kunna ekki neitt. Kannski reyndi fólk eftir bestu getu að segja mér þetta allt og reyndi jafnvel að troða því ofan í mig og ég hlustaði ekki.

Hefði einhver sagt mér fyrirfram að eftir fæðingu barnanna minna myndi ég leggja upp í stærsta, skemmtilegasta, dásamlegasta, erfiðasta og fyndnasta ferðalag lífs míns þar sem ég þyrfti að taka á öllu mínu alla daga og upplifi hæstu hæðir og dýpstu dali hefði ég líklega hlegið frekar hrokafullt og fullyrt að þannig yrði það ekki hjá mér.

Kannski hefði ég betur hlustað aðeins fyr.

Pistillinn birtist fyrst á foreldrahandbókinni 2011

Áttu smá tíma aflögu?

Fátt ef nokkuð, jafnast á við að vera heima með nýjan fjölskyldumeðlim. Nýtt líf, nýir tímar, ný og óþekkt framtíð. Dásamlegt alveg.

Það kemur hinsvegar mörgum á óvart hve annasamir fyrstu dagarnir og vikurnar eru eftir að barnið er komið í heiminn. Álagið er síst minna þegar börnin eru fleiri en eitt. Það þarf að sinna börnunum, ganga frá, þvo og búa um rúmin.

Þetta er líka yfirleitt tíminn sem flestir eru boðnir og búnir að vera manni innan handar og aðstoða og oftar en ekki segir maður pent nei takk, vill ekki valda öðrum ónæði en stendur svo á haus sjálfur. Maður kann ekki við það að þiggja aðstoð, vill ekki viðurkenna fyrir sér eða öðrum að maður eigi fullt í fangi með nýja hlutverkið eða áttar sig ekki á því.

Þessar áhyggjur eru ástæðulausar, eins og áður segir flestir vilja allt fyrir mann gera. Í allra allra versta falli kemur eitt lítið því miður og það er varla endalok heimsins, maður snýr sér þá bara til næsta.

Svo í staðinn fyrir að afþakka boðna aðstoð hvernig væri að segja já takk eða senda vinum og ættingjum lítið óskabréf þar sem fram kemur hvað það geti gert fyrir mann. Hér eru nokkrar hugmyndir.

 • Viltu elda eitthvað gott og hollt fyrir okkur og skilja eftir hjá okkur. Þú þarft alls ekki að stoppa. Lasagne, ferskt pasta, kjúklingaréttur eða súpa kemur vel til greina.
 • Viltu skera niður ferska ávexti og færa okkur.
 • Þú mátt gjarnan kaupa það allra algengasta sem vantar á heimilið og skilja eftir við hurðina hjá okkur. Mjólk, safi, brauð og ávextir.
 • Þú mátt gjarnan kíkja við og setja í þvottavél og brjóta saman þvottinn sem er enn í körfunni. Það væri einnig vel þegið ef þú getur sópað á leiðinni út.
 • Endilega skiptu um á rúmunum og settu í vél. Þú mátt gjarnan skúra á leiðinni út.
 • Hvernig hljómar skemmtiferð með eldri börnunum? Kíkið í Öskjuhlíðina, húsdýragarðinn, í leikhús eða niður á tjörn. Endilega gefðu þeim hollan mat meðan þið eruð í burtu.
 • Endilega taktu til í ísskápnum og ekki spyrja mig út í hvað ég vilji eiga og hvað ekki. Ég treysti þér.
 • Viltu bjóða mér fótanudd og sendu manninn minn út að hitta félagana í smá stund, endilega haltu á nýja barninu meðan ég skýst í sturtu.
 • Ef þig langar í kaffi eða te, helltu upp á sjálf og færðu mér bolla.
 • Taktu ruslið með þér á leiðinni út og settu nýjan poka í.
 • Endilega gefðu mér gjafabréf upp á heimilisaðstoð þína t.d. andvirði 4 klukkustunda í tiltekt eða andvirði þriggja símtala
 • Ef þú hefur eitthvað sérstakt í huga sem þú vilt gera fyrir mig, ekki vera feimin við að nefna það. Ég segi í versta falli nei, en ef það er til þess gert að létta okkur lífið þiggjum við það að öllum líkindum.

Það munar svo ótrúlegu að fá aðstoð frá sínum nánustu á þessum magnaða tíma. Um að gera að nýta sér það. Ef maður er feiminn við að nefna það er hægt að segja feimnislega … ég sá svolítið sniðuga grein á hondihond.is sem heitir áttu smá tíma aflögu…