Þakklæti í daglega lífinu

Eitt lítið ráð til að setja fókusinn á betri stað í parasambandinu er að tjá maka sínum þakklæti fyrir hluti sem alla jafna maður hefði ekki orð á.

,,Takk fyrir að fara út með ruslið“

,,Takk fyrir að sækja börnin og skutla á æfingu“

,,Takk fyrir að setjast niður með mér og ræða málin“

,,Takk fyrir að …… „

Fyrir marga er þetta ósköp skrítið til að byrja með og sumir hafa orð á að þeim finnist þetta óþarfi og jafnvel óþægilegt að hlusta á sagt við sig. Kannski fyrst en svo þykir flestum þakklæti betra með tímanum, gott að þakka fyrir sig og fá þakkir. Það er mikilvægt að báðir aðilar æfi þakklæti til þess að það auki sambandsánægjuna.

Með því að setja orð á þakklæti erum við að setja athyglina á það sem við sjáum og er gert fyrir framan okkur, þakklæti er að setja orð á að það sem viðkomandi geri fyrir okkur skipti máli og það auki velferð og vellíðan okkar. Að makinn okkar skipti okkur máli, að við viljum að hann viti að það sem hann geri skipti máli og við tökum því ekki sem sjálfsögðum hlut.

Þakklæti skilar sér því í meiri ánægju í parasambandinu og yfirleitt meiri ánægju með eigið framlag innan sambandsins.

Listin að hlusta

Fyrsta skrefið í átt að bættum samskiptum í parasambandinu er oft að taka ákvörðun um að vanda sig betur í samskiptum. Þegar stirrt hefur verið á milli manns og maka í einhvern tíma langar mann oft síst að hlusta á viðkomandi heldur frekar leiðbeina, gagnrýna og jafnvel stýra. Manni langar að laga hlutina með skipunum og festu. Hratt og örugglega því maður er úrvinda og oft einmana í sambandinu. Þó slík nálgun sé skiljanleg í strembnum aðstæðum er hún sjaldan leiðin að bættum samskiptum eða betra parasambandi.

Við þurfum og viljum koma skilaboðum áleiðis, við viljum líka að hlustað sé á okkur og tekið tillit til þess sem við höfum til málanna að leggja. Við viljum upplifa að maki okkar taki eftir okkur, að við finnum að við skiptum máli. Dr. Sue Johnson, hjónabandsráðgjafi, segir að stóra óorðaða spurningin í parasambandinu sé ,,sérðu mig, skipti ég þig máli?“ og líka ,,Ertu að hlusta á mig?“.

,,Flestir hlusta ekki til að skilja, flestir hlusta til að fá orðið aftur“

Hlustun krefst þess oft að við leggjum okkur fram, hlustum á orðin sem koma, skoðum tjáninguna sem fylgir og við horfum á manneskjuna. Þegar fólk hlustar til að skilja spyr það nánar út í það sem verið er að tala um. Hlustun felur í sér að bíða, melta og trufla ekki frásögn. Við þurfum að stilla okkur inn á að hlusta. Það getur verið krefjandi til að byrja með en er fljótt að komast upp í góðan vana og þegar fólk fer að leggja sig fram um að hlusta til að skilja í parasambandinu, breytast hlutirnir oft hratt til hins betra.

Fyrst skrefið í bættu parasambandi er því oft að leggja við hlustir, vanda sig við að grípa ekki fram í og hlusta á og heyra það sem makinn er í alvörunni að reyna að segja manni. Með því að leggja okkur fram við að hlusta sýnum við vilja til að skilja og virða maka okkar og ná áttum á því sem er sagt. Undir orðunum og frásögninni liggur oft beiðni um tengingu og traust. Því getur verið gagnlegt að velta því fyrir sér hvað maki manns sé raunverulega að biðja mann um í samtalinu, hvaða þörf hann óski eftir að fá uppfyllta.

Enginn segir þetta auðvelt, þvert á móti, það tekur tíma að venja sig á að hlusta til að skilja, hlusta með opnum huga og reyna að sjá eitthvað nýtt við það sem makinn er að segja manni. Það krefst meðvitundar að bregðast ekki við eins og venjulega heldur spegla frásögnina eða spyrja nánar til að skilja hvað hann er að segja. Það getur hinsvegar verið afskaplega fljótt að skilja sér í innilegra og nánara sambandi.

Parasambandið eftir fæðingu

Það kemur mörgum á óvart hve mikil breyting verður á parasambandinu við það að barn fæðist. Það tekur á að aðlagast því að hafa eignast barn og þegar fæðingin hefur verið erfið getur það verið enn strembnara. Slík upplifun er í raun í ætt við vægt þunglyndi og lýsir sér svipað en líka eitthvað sem ekki er rætt mikið um. Talið er að eitt af hverjum fimm pörum hið minnsta eigi erfitt með aðlagast breyttum aðstæðum og að um 80% para finni fyrir aukinni streitu í sambandinu eftir að barn er komið inn á heimilið.

Þegar litla barnið er komið í heiminn og börn inni á heimilinu má gera ráð fyrir að samskipti foreldra snúist fyrst og síðast um praktísk mál og áhyggjur, og svo lítið sem fimm mínútur fari í samtal um eitthvað annað. Fimm mínútur er ekki langur tími.

Óöryggi, svefnleysi, annríki og áhyggjur taka yfir heimilislífið og smátt og smátt beinist það að makanum í stað þess að snúa sér að hvort öðru.

Í fyrirtækjum og á stofnunum eru teymisfundir, samráðsfundir og allskonar samtalstækifæri og fæst fyrirtæki myndu láta hlutina koma í ljós, ræða þá seinna eða taka á því við betra tækifæri en ég held að margir hafi staðið sig að því að hugsa það inni á heimilinu. Samtalið er eitt mikilvægasta og gagnlegasta tækið sem við höfum inn í parasambandið og því ætti að vera alveg sjálfsagt að setjast niður og skipuleggja hlutina og sjá hvernig hefur gengið og að sama skapi ætti að vera sjálfsagt að taka frá tíma í fundi þar sem ekki er rætt um praktíska hluti eða annað sem tengist fjölskyldunni heldur samverustund sem nærir og færir fólk aftu saman.

Það að setjast niður reglulega, að minnsta kosti vikulega til að spjalla um eitthvað og hafa ekki börn, áhyggjur og annað fólk á spjalllistanum er fljótt að skila sér inn í meiri ánægju í parasambandið sem skilar sér svo yfirleitt nokkuð hratt inn í meiri ánægju í hvunndeginum og annríki dagsins.

Tilgangslausar samverustundir eru nauðsynlegar

Einkenni góðs parasambands

Í góðu sambandi er mikilvægt að finna að maður tilheyri maka sínum og skipti hann máli. Þessi grunnþörf að elska og vera elskaður, geta þegið og gefið. Í langtímasambandi er mikilvægt að byggja sambandið á vináttu þar sem traust ríkir og báðir aðilar eru ábyrgir fyrir þeirri uppbyggingu. Vinátta felur í sér að hlusta í gleði og sorg, vináttan felur í sér að taka makanum eins og hann er og vera áhugasamur og vakandi fyrir því sem hann er að segja. Í parasambandinu er mikilvægt að geta lesið hinn aðilann og viðurkennt hann og séð hann fyrir það sem hann er. Parið verður að geta viðurkennt hvort annað án þess að gera kröfu um að það deili sömu skoðunum og tilfinningum.

Við það að eignast barn stendur parasambandið oft á tímamótum, framundan er nýr og spennandi tími í lífi fólks og að mörgu að hyggja. Flestir vilja hlúa að og rækta parasambandið sitt á þessum tíma. Nokkuð hefur verið skoðað hvað einkennir gott samband, slíkar upplýsingar fást meðal annars með því að tala við pör um upplifun þeirra og greina reynslu þeirra.  

Bandaríski hjónabandsráðgjafinn John Gottman bendir á að traust byggist hægt og rólega upp og er lykilþáttur í hjónaböndum. Þetta benda fleiri rannsóknir á. Traust er grunnþáttur í öllum samfélögum og veitir öryggiskennd og vellíðan. Traust er að vera meðvitaður um líðan makans, vilja snúa sér að honum tilfinningalega, reyna að skilja hann og geta brugðist við í samhygð. Traust er ekki síður mikilvægt í vanmætti, maður verður að geta sýnt viðkvæmar hliðar og treyst makanum fyrir þeim. Traust er tvíhliða sem báðir aðilar eru ábyrgir fyrir.

Gagnkvæm virðing einkennir gott samband og hana er hægt að tjá á ýmsan máta. Virðing er að njóta félagsskapar makans, þekkja hann og viðurkenna með kostum og kynjum. Þekkja vonir hans og drauma, gleði og sorg. Virðing er að láta sig maka sinn varða, hlusta á hann og það sem hann hefur að segja sem og að reyna að skilja hann, ekki í hvunndeginum. Hlusta til að skilja ekki til að fá orðið.

Stuðningur og umhyggja er þýðingarmikill fyrir sambandið þar sem parið er næmt á þarfir hvors annars. Stuðningur er að sýna í verki að maður er vakandi fyrir því sem þarf að gera eða segja og vilja liðsinna maka sínum. Stuðningurinn skiptir miklu máli þegar reynir á. Hann felur í sér meira en að sýna samúð, hann felst í því að taka að sér aukin verkefni og skuldbindingar þegar makinn þarf að jafna sig. Stuðningur og umhyggja er að setja sig í spor makans og hafa löngun til að hlífa honum á erfiðri stundu. Stuðningur og umhyggja gerir hversdaginn þægilegri og sambandið nánara. Með stuðning og umhyggju að leiðarljósi er líklegra að hægt sé að ræða málin þegar á reynir og finna farsælan endi eða lausn á verkefnunum sem parið stendur frammi fyrir.

Gleði, húmor og að horfa í smáu augnablikin skiptir máli í samskiptum parsins. Að geta séð hið jákvæða og glaðst yfir því smáa. Finna stund til þess að njóta og upplifa saman styrkir sambandið. Grínið má þó ekki yfirtaka samskiptamáta parsins þannig að öllu sé slegið upp í grín.

Ekki er sjálfgefið að samband gangi og sjaldnast tilviljun að gott samband er gott. Atriðin sem hér hafa verið nefnd, vinátta, traust, virðing og gleði eru burðarliðir í góðu sambandi og byggja grunn undir sambandið svo það geti þroskast áfram og þróast. Með þessa burðarliði getur par gengið í gegnum tímabil og tímaskeið með sínum sérkennum og tekist á við verkefnin sem upp koma.  

Nokkur orð um parasambandið

Að eignast er fyrir flesta dásamleg og eftirsóknarverð breyting á lífinu. Allt breytist og verður betra. Líklega verður ekki meiri breyting á parasambandi en við það að eignast fyrsta barnið. Allir fá nýtt hlutverk og það tekur tíma að læra inn á barnið, sjálfan sig og parasambandið.  Meirihluti foreldra kannast við að hafa stögglað í sambandinu sínu fyrsta ár barnsins og að það taki tíma að aðlagast og lenda á fótunum aftur. Skal engan undra, það tekur tíma að annast lítið barn, bleiuskiptingar, þvottur og umönnun fyllir upp í tímann manns. Það er mikilvægt að gæta að verkaskiptingunni, skipta verkum jafnt á milli sín og ræða oft hver gerir hvað. Sumir detta inn í góða verkaskiptingu á heimilinu en flestir þurfa að gefa sér tíma til að ræða hlutina og finna taktinn. Svefninn er oft minni fyrsta árið eftir að barnið er fætt og lítill svefn gerir allt erfiðara. Með því að gæta þess að allir á heimilinu hvílist nóg gengur flest betur. Það er auðvelt að falla í þá gryfju að finnast maður verða að gera eitt og annað og taka það fram yfir svefninn en svefninn ætti að vera forgangsatriði. Þetta er sérlega mikilvægt ef barnið sefur slitrótt eða lítið. Síðast en ekki síst er mikilvægt að muna að í brimrótinni verður maður að muna að vera bandamaður maka síns. Spjalla mikið saman þegar vel gengur og enn meira þegar harðnar á dalinn.

Kynlíf eftir barnsburð

Það getur verið stórt skref að fara að huga að því að lifa kynlífi eftir að litla barnið er komið í heiminn. Það tekur mislangan tíma fyrir konur og pör að jafna sig eftir fæðinguna og finna fyrir löngun í kynlíf aftur. Líkaminn er oft mikið breyttur, maginn mjúkur, brjóstin þanin og húðin getur verið viðkvæm. Stundum þekkja konur ekki alveg líkama sinn og það getur tekið tíma að taka hann aftur í sátt.  Hversu langur tími á að líða eftir fæðingu er misjafnt milli para, lykilorðið er að bæði séu tilbúin og hafi áhuga en yfirleitt er gott að bíða fyrstu sex vikurnar eða svo en það er alls ekki óalgengt að löngunin sé ekki til staðar fyrstu 3-4 mánuðina og jafnvel ekki allt fyrsta árið.

Umönnun barns tekur alla manns athygli og tíma. Eftir að barnið er fætt er maður yfirleitt í meiri líkamlegri snertingu við aðra manneskju en maður hefur verið áður og hugtakið ,,touched out“ er stundu notað í því samhengi, snerti – , nándarþörfinni er einfaldlega uppfyllt. Þá er minni svefn og breytt svefnmunstur eitthvað sem hefur mikil áhrif og svo er hormónabúskapurinn öðruvísi fyrstu vikurnar og mánuðina eftir fæðingu. Hormónabreytingarnar hafa t.d. stundum í för með sér að konur eru með þurrari slímhúð sem þarf þá að bregðast við. Hormónabreytingarnar eru  sérstaklega þegar kona er á með barn á brjósti.

Ekki gleyma að tala saman og fara yfir málin, það er ekki ólíklegt að pör séu á ólíkum stað hvað varðar áhuga eftir að barnið er fætt. Það er mikilvægt að muna eftir því að snertast, knúsast og kyssast. Muna að fara yfir málin saman, hvar áhuginn liggur og hvenær og hvað geti verið gott og veitt ánægju. Það má ekki gleyma því að kynlíf getur verið mjög fjölbreytt og kryddað.

Flestir finna að þeir þurfa að breyta mynstrinu frá því sem áður var, til dæmis með tímasetningar því oft eru allir þreyttir á kvöldin, oft er ekki jafnmikill tími aflögu eins og áður var og þá þarf kannski að huga að því að nota tímann þegar barnið er að leggja sig eða fá stundarpössun.  Um að gera að nota hugmyndarflugið!

Langflest pör upplifa með tímanum eða um eins árs aldur barnsins að kynlífið er komið í svipað horf og það var áður en von var á barninu og mörg pör deila því að kynlífið sé ánægjulegra og nándin innilegri eftir að barnið kom til sögunnar.

 

 

 

 

 

Að eignast annað systkini

Ég hef tilhneigingu til að endurtaka mig og segi oft að allir ættu að byrja á því að eignast barn númer tvö. Þá eru flestir svo öruggir með sig og kunna handtökin og alveg búnir að mastera foreldrahlutverkið. Hitt er svo að þegar annað barnið kemur (nú eða þriðja eða fjórða eða..) að þá eru eldri systkini að fara í nýtt hlutverk og það getur verið erfitt og áhugavert að takast á við. Alltaf er eitthvað nýtt að takast á við og skoða.

Vissulega skiptir aldur barnsins miklu máli þegar það eignast systkini. Það er munur á þvi að vera 18 mánaða og eiga von á systkini eða 6 ára. Óháð aldri þurfa börn undirbúning. Það getur verið mjög skrýtið að fá annað barn inni á heimilið og margar  hugsanir hljóta að fara í gegnum huga lítils barns, svo sem eins og hvort ástin sé jafnmikil milli barnanna, hvort það sé yfirhöfuð gaman að eiga systkini, hvort maður gleymist og svo auðvitað gleði, spenningur og eftirvænting. Líklega sveiflast börn þarna á milli mikillar tilhlökkunar og gleði og efa og öfundar.

Börn verða afbrýðissöm og öfundssjúk og kannski má ganga út frá því að það sé eðlilegt. Systkinasambandið er lengsta staka sambandið sem við eigum á lífsleiðinni og kannski það mikilvægasta og á sama tíma vanmetnasta. Við verðum að gefa okkur að það komi til með að ganga á ýmsu. Systkini rífast, takast á, þræta og keppast um athygli foreldra sinna. Það er eðlilegt en fellur i hlut okkar foreldranna að hjálpa þeim að finna þessum tilfinningum farveg og hjálpa þeim að búa til gott og heilbrigt samband við systkini sín.

Þegar annað barnið okkar fæddist var ég mjög vel undirbúin undir að þetta yrði ,,allskonar“ og hafði verið svo lánsöm að geta drukkið í mig reynslu vinkvenna og lesið mér vel til. Það sem kom mér algerlega í opna skjöldu var hve skilyrðislaus, einföld og falleg ást systranna varð frá fyrstu stundu. Ég veit ekki hvort ég vissi það ekki eða bara áttaði mig ekki á því fyrr en ég hafði það fyrir augunum á mér að systrakærleikurinn kom strax og stóra systir tengdist og elskaði litlu systur sína frá fyrstu stundu. Bara rétt eins og við foreldrarnir.

Mikilvægasti þátturinn er líklega að byrja á  meðgöngunni að tala við barnið um nýja systkinið og halda svo samtalinu áfram eftir að er fætt. Tala við barnið út frá áhugasviði þess og aldri og leyfa því svolítið að stýra ferðinni. Ef barnið hefur mikinn áhuga á litla barninu er það vel en það má líka alveg ekki hafa áhuga á því. Samtalið er svo mikilvægt. Spjalla um hvað er að gerast, velta því fyrir sér hvernig þetta verði og svo framvegis og samþykkja og skoða tilfinningar barnsins sem koma upp og reyna að tengja við þær og skilja. Líklega verða stundir þar sem stóra systkinið  vill leika mikið við barnið og hafa það hjá sér og tala við það. Svo verða líka stundir þar sem að systkinið er afbrýðissamt og vill helst vera eitt með ykkur foreldrunum og efast um að það skipti jafnmiklu málið og áður. Þetta er bara hluti af ferlinu og þau verða að fá að finna að þessar tilfinningar eru eðlilegar og við verðum að leggja okkur fram um að skilja stóru börnin og hjálpa þeim að finna tilfinningunum og breyttum aðstæðum jafnvægi.

Þegar stórar tilfinningar stíga fram er svo gott að reyna að muna eftir frumtilfinningunni, reiði er til dæmis mikið oftar fylgitilfinning en frumtilfinning. Börn sýna oft reiði en eru í raun leið, hrædd eða afbrýðissöm í grunninn. Því er mikilvægt að gefa sér tíma til að skoða hvað það er sem er á bak við neikvæðu til finninguna og bregaðst við þeirri tilfinningu en ekki birtingarmyndinni sem getur verið svo klaufaleg.

Ef það er ekki nú þegar hátturinn á heimilinu þá er gæfuspor að hafa báða foreldra vel innvinklaða í umönnun barnsins svo það geti leitað jafn til foreldranna og bæði fundið huggun og gleði við það að leita til beggja. Við þurftum að taka á okkur rögg með þetta og það heppnaðist mjög vel, var gott skref fyrir stóru stelpuna okkar og samband hennar við pabba sinn.

Stundum þarf að fara í breytingar á herbergi, flytja eða færa til við komu nýs systkinis og þá er mikilvægt að fara í gegnum þær breytingar af yfirvegun og hafa barnið með í ráðum svona eftir þroska þess. Gefa sér tíma í breytingarnar, gera þær eftirsóknarverðar og taka þetta í rólegheitunum, líklega verður allt erfiðara ef þær eru þvíngaðar fram. Mér finnst oft ofuráhersla á að allar breytingar verði að gerast svo snemma í ferlinu en ég held að meðan við tökum yfirvegaða ákvörðun og breytum í rólegheitum að þá er hægt að gera það hvenær sem er. Mikilvægast er að vera meðvitaður og muna eftir stóra barninu og staldra við og velta því fyrir sér hvaða áhrif maður haldi að breytingin hafi á barnið og hvort hún sé nauðsynleg og með velferð fjölskyldunnar í heild að leiðarljósi. Ef svo er þarf maður alls ekki að vera hræddur og það er líka allt í lagi að efast um breytingar, hjá litlum og stórum en við verðum að prófa okkur áfram.

Stóra systkinið verður að finna að það skiptir ennþá miklu máli, að það er enn mikilvægur hluti af fjölskyldunni. Fá að finna að það sé einstaklingur innan fjölskyldunnar sem skiptir máli og fær enn sína athygli og sinn tíma þó í breyttu formi.