Samtal fyrir fæðingu

Barnsfæðing er umbreytingatímabil í lífi pars.  Fjölskyldueiningin er að fara úr tveimur í þrjá (eða þremur í fjóra, fjórum í fimm og svo framvegis) og það þarf að koma barninu í heiminn 🙂 kynnast því og annast. Nýir og spennandi tímar sem breyta mörgu í okkar lífi.

Það er margt að hugsa um, óvissutími sem gott er að fara yfir og leyfa sér að skoða, hvað er framundan og hvernig viljum við nálgast það. Þegar kemur að barnsfæðingunni, erum við sammála? Hvaða reynslu og væntingar komum við með varðandi fæðinguna?  Mig langar að deila með ykkur nokkrum vangaveltum og spurningum með áherslu á fæðinguna og tímann fyrst á eftir.

Gefið ykkur tíma í að skoða og velta þessu fyrir ykkur og hlusta vel á hvaða hugmyndir makinn hefur og hvernig þær samræmast ykkar hugmyndum og hvernig þið getið séð þær virka saman fyrir ykkur. Þetta eru auðvitað bara örfáar hugmyndir og alls ekki tæmandi listi!

Hvernig sérðu fæðinguna fyrir þér? Hvað hefur áhrif á þá sýn?

Hvaða hugmyndir ertu með varðandi fæðingar almennt? Hvaða koma þessar hugmyndir? Eru þær hugmyndir tengdar tilfinningu, rannsóknum eða reynslu?

Hvar viljið þið helst að barnið fæðist? Hvaða áhrif hefur sú ákvörðun?

Hvern viljið þið hafa með í fæðingunni ykkar og af hverju? Hvert er hlutverk stuðningsaðilans? Hvaða stuðning getur hann veitt?

Hvernig líður ykkur við tilhugsunina um inngripalausa fæðingu? Náttúrulega?

Hvernig líður ykkur við tilhugsunina um inngripafæðingu? Gangsetning, sogklukka, keisari?

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að bregðast við ef öll plön breytast?

Hvaða styrkleikar ykkar koma til með að nýtast ykkur best í fæðingunni?

Hvaða styrkleika finnið þið í parasambandinu sem hjálpar ykkur í fæðingunni?

Viljið þið / þurfið þið stuðning eftir fæðinguna? Hver í ykkar nánasta umhverfi getur veitt ykkur þann stuðning? Ef það er enginn í ykkar umhverfi, hvert getið þið sótt stuðning?

Hvaða áhrif haldið þið að litla barnið hafi á sambandið?

Hvaða uppeldisáherslur viljið þið hafa frá fyrsta degi?

Hvaða áherslu setjið þið á brjóstagjöf?

Hvaða áherslu setjið þið á svefnfyrirkomulag og svefnvenjur?

Hvernig finnið þið tíma til að hugsa um og næra ykkur sem par?

 

7 leiðir til að draga úr kvíða fyrir fæðingu

Fæðing barns er svo mikið undur en á sama tíma fylgir henni óvissa. Skiljanlega getur það vakið með manni ugg að vita ekki og í raun geta ekki vitað með vissu út í hvað maður er að fara.  Það skilar sér þó alltaf að undirbúa sig vel fyrir fæðingu og skoða hvað það er sem hugurinn dvelur við. Smá kvíði er í raun eðlilegur og hvetur mann til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Þegar hann verður mikill og lamandi er nauðsynlegt að bregðast við og skoða hann.

 1. Gerðu plan út frá þér, fyrir þig svo þú sért í bestu mögulegu aðstæðum. Hvar viltu fæða og af hverju? Hvernig er óskafæðingin þín og af hverju? Hvaða styrkleikar nýtast þér í fæðingunni?
 2. Prófaðu að skrifa hvað ef …þá…lista. Þarna skrifarðu niður allt sem er að leita á hugann og veldur kvíða og skrifar svarið.  Stundum liggur svarið í augum uppi en stundum borgar sig að leita upplýsinga og/eða tala við fagmann. Hér er verið að passa upp á að halda sig í raunveruleikanum og útiloka það óþekkta.
  Algengar vangaveltur eru eins og hvað ef ég næ ekki að takast á við verkina? Þá….
  Hvað ef ég næ ekki upp á spítala áður en barnið fæðist? Þá…
  Hvað ef ég missi stjórn á aðstæðum? Þá…
  Veltu því fyrir þér hvernig þú tækist á við aðstæður sem þú óttast ef þær kæmu upp. Ef þú getur undirbúið þig, komið í veg fyrir það, skaltu stíga skref í þá áttina. Ef þú getur ekkert gert til að koma í veg fyrir aðstæðurnar, veltu því þá líka fyrir þér hvernig þú vilt takast á við þær aðstæður? Passaðu að dvelja ekki um of í þessum hluta.
 3. Talaðu við vini, ættingja og aðra eftir því sem við á. Það er gott að setja orð á hugsanir sínar og fá endurgjöf á þær.
  Ræddu við makann um fæðinguna, skoðaðu hvaða styrkleikar nýtast í fæðingunni, hvernig getur makinn hjálpað ykkur að laða fram styrkleika þína? Hvað getið þið gert saman?
 4. Leitaðu eftir sérþekkingu og aðstoð án þess að hika, heilsugæslan getur verið innan handar, MFB-teymið er frábært og svo eru margir sjálfstætt starfandi sérfræðingar sem hafa sérhæft sig í meðgöngu og fæðingu.
 5. Veldu vel hvaða fæðingarsögur þú hlustar á. Fæðingar eru allskonar og margar breytur sem hafa áhrif þar á. Erfiðar og átakanlegar fæðingarsögur fá oft mikið pláss og maður man eftir þeim en þær eru endurspegla ekki flestar sögur. Veldu vel hvaða fæðingarsögur þú vilt að sitji með þér, reyndu að leita eftir jákvæðum sögum til að byggja upp jákvæða mynd.
 6. Taktu einhvern með í fæðinguna, auk maka sem þú treystir. Það getur verið ættingi, vinur eða doula. Hafðu einhvern með sem getur veitt þér stuðning, einhvern sem þú (og makinn þinn) treystir. Það minnkar álagið á ykkur bæði og dregur úr stressi og eykur líkur á góðri upplifun.
 7. Treystu og njóttu. Treystu því að allt verði eins og það eigi að vera og sé eins og það á að vera.

Meðgönguógleði

Morgunógleði, morgunógleði.

Jæja, barnið er á leiðinni, tilhlökkunin er til staðar en morgunógleðin rænir allri lífslöngun. Líkaminn er að fara í gegnum miklar breytingar, líf vex innra með þér og hormónarnir eru á fullu og líkamlegar breytingar eru miklar, það er alveg skiljanlegt að það taki á og okkur líði skringilega.

Þrátt fyrir að morgunógleði sé algeng, hvimleið og á stundum langdregin er furðu lítið búið að kanna hana og finna lausnir við henni. Góðu fréttirnar eru auðvitað að yfirleitt er ógleðin hætt innan 12 vikna- þó ekki algilt. Stundum fylgir ógleðin alla meðgönguna og getur orðið alvarlegt krítískt ástand og þá þarf auðvitað að sækja aðstoð til fagfólks og fá stuðning og viðeigandi aðstoð.

Eitthvað er þó hægt að gera og hér koma nokkur ráð en ef ég get einhvern tíma gefið gott ráð er það að fara varlega, ekkert liggur á og hvetja konur til að leyfa sér að hlusta á líkamann og líðan sína. Flest annað getur beðið. En hér er smá upptalning af húsráðum sem hafa virkað fyrir barnshafandi konur í kringum mig.  

Engifer í réttu magni léttir oft ógleðina, te, nammi eða kaldir drykkir hafa allir reynst vel. Sumum felur meir að segja að drekka engifer öl! Engar öfgar, ekki óverdósa á engiferi, hófsemi hjálpar.

engiferl

Setja nokkra dropa af piparmintu-ilmkjarnaolíu í bómull og þefa af því af og til, piparmintute getur líka slegið á ógleðina.

Þrýstipunktanudd getur gert kraftaverk. Svæðanudd er alltaf notarlegt og jafnar orku og nærir líkamann en ákveðnir þrýstipunktar eru sérlega gagnlegir þegar kemur að ógleði. Til að minnka ógleði er hægt að þrýst þremur fingrum fyrir ofan úlnliðinn, getur verið gott að fá aðstoð við þetta, þrýsta létt en þétt og halda í mínútu í senn og endurtaka þrisvar.

Coping with Common Pregnancy Discomforts_5

Nálastungur gera það sama og þrýstipunktanudd og geta svo sannarlega létt á ógleðinni, þú átt að geta fengið tíma hjá ljósmóður eða nálastungusérfræðingi ef ógleðin er mikil.

Hollur og góður matur minnkar yfirleitt ógleði og næg vítamín, ótrúlegt en satt, stundum langar manni bara í eitthvað mishollt þegar manni er óglatt en oftast eykur það bara ógleðina til lengri tíma. Snakk eins og ávextir, grænmeti og hnetur er gott að grípa í og mikilvægt að passa upp á próteinríka fæðu.

Litlir og reglulegir matarskammtar. Flestum gagnast vel að borða lítið í einu en oftar en þær eru vanar.

Mörgum finnst gott að taka Magnesium, meðgönguhormónin hægja á upptöku magnesium og því getur verið gott að fara í magnesium bað.

Í allri ógleðinni og vanlíðaninni má ekki gleyma að vera góður við sjálfan sig, hvílast og borða vel, það er ótrúlega orkufrekt ferli að framleiða barn, við eigum það alveg skilið að taka öllu með ró.

 

Spurt og svarað um doulur

Hvað er doula?

Doula er kona sem styður barnshafandi konu og fjölskyldu hennar á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Doula vinnur fyrir og með verðandi foreldrum á þeirra forsendum og styður þeirra ákvarðanir. Þjónustan er alltaf samfelld þe. er með fjölskyldunni frá því fæðing hefst þar til hún er yfirstaðin.

Hver er munurinn á doulu og ljósmóður?

Doula er stuðningskona, sem er ekki með klínískt hlutverk meðan ljósmóðir er heilbrigðismenntaður fagmaður sem tekur klínískt hlutverk.

Doula vinnur fyrir foreldrana og fylgir þeim eftir, veitir stuðning og hvatningu og fræðslu en gefur aldrei læknisráð, greinir eða meðhöndlar eitthvað tengt meðgöngunni. Doulur veita stoð og styrk og samstarfið er náið og persónulegt.

Doulur fylgja verðandi móður alla fæðinguna meðan ljósmæður eru á vöktum (þetta á auðvitað ekki við í heimafæðingum).

Doulur eru ekki starfsmenn spítala en samstarf við ljósmæður og aðra er mjög mikilvægt, doula tekur aldrei fram fyrir hendurnar á ljósmóður eða öðru starfsfólki.

Eru doulur eingöngu í heimafæðingum?

Doulur eru líklega oftar í spítalafæðingum, Doulur vinna með konum þar sem þær vilja vera og eru í heimafæðingum jafnt og spítalafæðingum.

Tekur doulan yfir hlutverk pabbans / foreldrisins?

Doula styður verðandi föður líka, það má ekki gleyma að hitt foreldrið er líka undir miklu álagi og doulan er þarna fyrir alla fjölskylduna. Doula tekur ekki yfir hlutverk fæðingarfélagans heldur styður hann í að styðja verðandi móður.

Eru doulur eingöngu í ,,náttúrulegum“ fæðingum?

Við kappkostum við að styðja við móður og verðandi fjölskyldu á þeirra forsendum, óháð hvernig fæðingin er og fer. Doulur styðja við verðandi mæður óháð fæðingaráætlun enda er markmið okkar að efla verðandi mæður í því sem þær eru að taka sér fyrir hendur.
Svo nei, doulur eru í ,,allskonar“ fæðingum.

Hvað með keisara og doulur?

Við kappkostum við að styðja við móður í gegnum allt fæðingarferlið, ef fæðing endar í óundirbúnum keisara erum við á staðnum og styðjum foreldrana í gegnum keisarann en förum sjaldnast með inn í aðgerðina sjálfa (yfirleitt fer einn stuðningsaðili með í aðgerðina- sem í flestum tilfellum er hitt foreldrið).

Doulur fylgja konum einnig í undirbúinn keisara (valkeisara) enda ekki síður mikilvægt að fá stuðning og fræðslu á meðgöngunni og stuðning fyrir og eftir keisarann.

Eru doulur í ,,unassisted“ fæðingum?

Nei.

Kemur doula heim til manns í byrjun fæðingar?

Það er bara allur gangur á því en þið eruð í sambandi frá upphafi. Sumar mæður vilja bara vera einar heima í rólegheitunum meðan aðrar vilja og finna þörf fyrir að doulan komi heim. Stundum komum við heim til fólks og erum lengi, stundum kíkjum við í heimsókn og förum aftur, stundum erum við samferða upp á spítala og stundum komum við þegar fólk er komið upp á spítala og búið að vera þar í nokkra stund. Allt eftir því sem hentar hverjum og einum.

Er doula talsmaður konunnar?

Doula styður foreldra í þeirra ákvörðunum og hjálpar þeim að standa á sínum vilja og réttindum en doula talar ekki fyrir verðandi foreldra.

Eru einhverjar rannsóknir til um gagnsemi doulu?

Störf doulu hafa verið umtalsvert rannsökuð víða um heim og niðurstaðan er alltaf á þá leið að viðvera doulu bætir fæðingarminninguna, styttir fæðinguna og líðan eftir fæðingu er almennt betri. Rannsóknir sýna að viðvera doulu gerir þörf fyrir verkjalyf minni, gangsetningar eru færri, áhaldafæðingar eru færri, brjóstagjöf gengur frekar upp og svo má lengi telja. Bestu niðurstöðurnar koma úr umhverfi þar sem ljósmæður og doulur vinna saman.

Bara sem lítið dæmi má nefna rannsókn frá rúmlega 700 komum í Bretlandi kom fram að með doulu sér við hlið voru færri inngrip á við gangsetningu og mænurótardeyfingu, keisaratíðnin var umtalsvert lægri (Nánari heimild hér).

Doulur hafa lítið verið rannsakaðar hér á landi, en í lokaverkefni Margrétar Bridde kom glögglega í ljós að fæðingarreynsla kvenna sem höfðu doulu var góð. Nú árið 2015 er verið að taka viðtöl við konur sem hafa haft doulur og þar kemur slíkt hið sama fram að doulur hafi verið góður stuðningur og sumir tekið svo djúpt í árinni að segja að þær muni aldrei fæða án doulu aftur.

Hvað ef maður er bara að spá í að ráða doulu en er ekki búinn að gera upp hug sinn?

Við erum alltaf til í að hitta fólk, spjalla og fara yfir stöðuna án allra skuldbindinga eða kvaða.

 

 

 

Jákvæðar staðhæfingar

Jákvæðar staðhæfingar eru í raun ákveðnar setningar endurteknar (oft í hljóði) og minna mann á manns innri styrk og vega oft vel upp á móti efanum sem á það til að læðast upp að manni.

Jákvæðar staðhæfingar geta hjálpað til á meðgöngu og í fæðingu til að róa hugann, minnka streitu og kvíða. Þær geta aðstoðað mann við að endurstilla hugann og bæta við jákvæðari hugsunum og tengingum en áður sem skilar sér svo í bættri líðan. Staðhæfingar nýtast svo oft á ögurstundu, þegar maður er í miðri fæðingu og gefa manni styrk og þol til að halda út aðeins lengur.

Hér eru nokkrar hugmyndir að staðhæfingum sem koma mörgum að gagni á meðgöngu og í fæðingu, nú eða bara hvenær sem er!

 • Ég er fullkomin eins og ég er
 • Ég tek breytingum á líkama mínum fagnandi
 • Lífið er kraftaverk, ég skapa kraftaverk
 • Ég og litla ófædda barnið mitt erum órjúfanleg heild
 • Ég elska mig og ófætt barn mitt
 • Ég er örugg og barn mitt er öruggt
 • Ég er sterk og öflug
 • Ég treysti mér og innsæi mínu
 • Ég treysti líkama mínum
 • Þetta er allt í lagi
 • Góðir hlutir gerast hægt
 • Ég er hönnuð til að ala og fæða barn.
 • Ég er sterkari en ljón, stöðugri en fjall.
 • Ég er góð móðir

Hvaða staðhæfingar er gott að nota er einstaklingsbundið og kona ætti alltaf að leitast við að nota staðhæfingar sem henni líkar, efla hana og styrkja en ekki velja einhverjar sem hafa litla merkingu. Málið er að ef maður endurtekur eitthvað sem hittir mann ekki í hjartastað þá skilar það ekki tilætluðum árangri. Oft er gott að finna staðhæfingu og laga hana að manni sjálfum. Skoða innra með sér hvað það er sem maður óttast eða finnur að vekur með manni ugg og dregur úr manni og búa til staðhæfingu sem tekur á því. Þegar við nýtum okkur staðhæfingar er gott að hafa þær í nútíð, fyrstu persónu og persónulegar. Þær verða að vera persónulegar svo þær fari inn að hjartarótum og nái að koma sér fyrir. Staðhæfingar sem maður tengir ekki við eru meira eins og vatn sem fellur á regnkápu.

Sem dæmi getur verið að kona óttist að verkirnir beri hana ofurliði og almennt kunni hún að meta hrósið að vera álitin sterk. Þá væri góð staðhæfing fyrir hana kannski ,,ég er sterk og get tekið þeim verkjum sem koma“ eða ,,andardrátturinn er minn styrkur“.
Önnur aðstaða getur verið að fyrri fæðing hafi verið erfið og óttinn felist helst í að komandi fæðing verði jafn erfið. Þá getur góð staðhæfing kannski verið ,,ég treysti líkama mínum í nýjum aðstæðum“, eða ,,ótti er tilfinning sem líður hjá. Þessi fæðing er eflandi upplifun“.

Það getur verið gott að skrifa staðhæfingarnar niður og líma á ísskápinn hjá sér eða deila með maka eða þeim sem verður með í fæðingunni. Þannig nýtast staðhæfingarnar ekki bara manni sjálfum heldur hefur maður gefið makanum líka þá gjöf að vita nákvæmlega hvað það er sem er hvetjandi og eflandi.

 

 

 

 

 

When survivors give birth

When survivors give birth er yfirtitill á bók og fyrirlestri eftir Penny Simkin og umfjöllunarefnið er hvaða áhrif það hefur á barneignarferli kvenna að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í æsku. Penny var með fyrirlestur 21. apríl 2015 á Íslandi, einmitt í Lygnu og mig langar að deila með ykkur aðeins frá þeim degi.

Smá útúrdúr, survivor finnst mér vera gott og eflandi orð. Það er einhver sem lifir af, kemst af eða stendur uppi sem sigurvegari. Orðið nær fallega og valdeflandi utan um erfiða og sára reynslu. Mér er ekki kunnugt um annað orð í íslensku en þolandi sem er jú vissulega lýsandi fyrir það að viðkomandi hefur þurft að þola eitthvað en gefur ekki þessa von eða eflingu. Mig langar því að finna eitthvað gott orð sem er jafn skýrt og þolandi en fallegt og eflandi eins og survivor.

Það er erfitt að alhæfa um hvernig fæðingarreynsla kvenna verður, enda er um stóran og ólíkan hóp kvenna að ræða. Við vitum þó að fæðingarreynslan hefur mótandi áhrif á líf okkar og hún getur verið eflandi og hún getur gert okkur viðkvæmari.

Sumar konur sem upplifað hafa kynferðisofbeldi lýsa fæðingunni sem hluta af batagöngu, sigri sem tengir þær sjálfri sér meðan aðrar upplifa hana neikvæðari og jafnvel þannig að þær endurupplifi tilfinningar tengdar ofbeldinu.

Penny Simkin dregur fram nokkur atriði sem hjálpa konum að komast í gegnum fæðinguna sína á sem jákvæðastan hátt. Þetta plan kemur held ég öllum konum til góða:

– Fæðingaráætlun

Það getur verið sérstaklega hjálplegt að skrifa fæðingaráætlun, hafa hana persónulega og nefna hvað skiptir mann máli í fæðingunni, það getur verið gott að setja fram hvað hjálpar konu í erfiðum aðstæðum, hvað minnkar streitu og áhyggjur og hvernig gera megi aðstæður sem vinalegastar.

Það getur verið sérlega hjálplegt fyrir alla ef kona treystir sér til að skrifa um ótta sinn og áhyggjur og af hverju hann stafar. Það hjálpar öllum, stuðningsfólki og heilbrigðisfólki í að vera enn nærgætnara og skilningsríkara. Ef til dæmis ákveðin snerting eða ákveðin orð valda vanlíðan að koma því á framfæri svo fólkið í umhverfinu viti hvernig það getur stutt og styrkt.

– doula

Það er mjög styrkjandi að hafa einhvern sem er þarna bara fyrir ykkur og þekkir óskir ykkar og væntingar vel. Doula er svona eins og einkastarfsmaður fæðandi konu og styður ykkur í gegnum ykkar ferli. Doulur eru stuðningskonur fjölskyldunnar, starfa aðeins fyrir hana og fylgja konum samfellt í gegnum fæðinguna.

– núvitund

Penny talar alveg sérstaklega um að það sé mikilvægt fyrir konur að finna styrkinn í því að vera á staðnum að upplifa það sem þær eru að upplifa þ.e. fæðinguna og hvernig hún er. Meðan kona nær að halda fókus á að vera í fæðingu og vera við stjórnvölinn eru minni líkur á að hún endurupplifi erfiðar minningar og aðstæður. Margar konur hafa fundið leið til að lifa af ofbeldið með því að fjarlægjast sjálfum sér, flýja úr líkama sínum og vera fjarverandi þannig að þær finna lítið tengingu milli huga og líkama. Sú tækni var mjög mikilvæg þá en í fæðingu er gott að reyna að halda sér í núvitundinni til að minnka líkur á endurupplifun og panik og að fæðingarreynslan verði ekki svipuð minning og minningin um ofbeldið.

– æfð sjónræn hugleiðsla

Það getur verið gagnlegt á fyrstu stigum fæðingarinnar að hugsa um tíma þar sem manni leið vel, draga fram minningu eða viðburð sem var góður og minningin yljar manni og sjá hana fyrir sér. Það getur verið tími með maka þar sem allir voru ánægðir og afslappaðir, minning úr æsku eða staður þar sem maður er öruggur á. Mörgum finnst gagnlegt að sjá fyrir sér þessa minningu í gegnum hverja hríð í upphafi fæðingar.

Þegar komið er í virka fæðingu og framgangurinn er meiri og reynir á mann getur verið gott að hugsa um atburð þar sem maður komst yfir ákveðna hindrun eða áskorun. Það getur verið líkamleg áskorun eins og að hlaupa maraþon eða þegar maður yfirstígur ákveðinn ótta sem hefur hindrað mann. Þessi æfing getur verið hvetjandi í fæðingunni og komið konu í gegnum erfiðar áskoranir.

– að finna stjórnina

Það er mörgum konum mjög mikilvægt að finna að þær séu alltaf við stjórn í öllum aðstæðum, það veitir þeim öryggi og vellíðan og þannig ná þær að koma sér í gegnum erfiðar aðstæður. Það getur verið gott að átta sig á því í hverju sú tilfinning felst, hvernig er hægt að viðhalda henni og ákveða að ef aðstæður eru þannig að þá er hægt að ákveða að missa stjórnina og hafa þannig stjórn á stjórnleysinu ef svo má að orði komast.

 

 

 

 

 

 

Ilmkjarnaolíur á meðgöngu

Ilmkjarnaolíur hafa í gegnum aldirnar verið notaðar til lækninga og hafa fyrir löngu sannað gildi sitt. Ilmkjarnaolíur geta haft góð áhrif á líkama og sál og eru meðal annars notaðar til þess að draga úr spennu og streitu og róa hugann.

Ilmkjarnaolíur geta komið að góðu gagni á meðgöngu og í fæðingu.

Noktun ilmkjarnaolía er nokkuð auðveld. Það er hægt að spreyja í andrúmsloftið, nota til innöndunar, blanda í nuddolíu eða setja út í baðið. Ilmkjarnaolíur skal ætíð blanda við grunnolíu áður en þær eru settar á húð til dæmis vínberjaolíu (grapeseed), möndluolíu, sólblómaolíu og jarðhnetuolíu. Mikilvægt er að nota hreinar ilmkjarnaolíur því gerviefni gefa aðeins lykt en gera ekkert annað gagn. Sumar ilmkjarnaolíur henta betur en aðrar á meðgöngu og margar olíur á beinlínis aðforðast að nota.

Almennt er talið óhætt að nota Lavender, Bergamot, Chamomile roman, Neroli, Geranium, Rose, Jasmin og Ylang Ylang ásamt fleiri. Til að hafa vaðið fyrir neðan sig er gott að nota ekki ilmkjarnaolíur fyrsta þriðjung meðgöngunnar.
Olíurnar hafa hver sína virkni til dæmis er Lavender er mjög góð alhliðaolía, hún er græðandi og slakandi fyrir líkama og huga. Hún er meðal annars góð við höfuðverk. Chamomile roman er róandi og verkjastillandi og góð við svefnleysi og gegn þunglyndi.Bergamot er frískandi, verkjastillandi og sótthreinandi. Bergamot er gott gegn kvíða,depurð og er verkjastillandi. Geranium er frískandi, róandi og bætir blóðrásina. Geranium er gott við bakverkjum, bólgnum ökklum. Það hreinsar og jafnar húðina. Það er auðvelt að nálgast ítarlegar upplýsingar um virkni ilmkjarnaolía meðal annars á netinu og upplagt að kynna sér olíurnar vel áður en maður notar þær. Neroli vinnur með taugakerfinu, er róandi og hjálpar til með öndun og vinnur gegn þunglyndi.
Það er mjög þægilegt að nota ilmkjarnaolíur í bað, best er að setja fjóra til fimm dropa í feita mjólk, rjóma eða hunang, hræra vel saman og blanda út í baðvatnið.Hunangið eða rjóminn er notað til þess að olían fljóti ekki ofan á vatninu.

Slakandi baðblanda 1

6 dropar lavender eða

Slakandi baðblanda 2

2 dropar lavender 2 dropar Chamomile

Baðblanda 3

2 dropar bergamot

1 dropi neroli
Til þess að gera góða nuddolíu skal setja 2 til 3 dropa af ilmkjarnaolíu í 10 ml grunnolíu.Góðar grunnolíur eru meðal annars vínberjasteinsolía, sólblómaolía, ólívuolía.

Nuddolía

20 ml vínberjasteinsolía (grunnolía)

3 dropar lavender2 dropar chamomile

Nuddolía fyrir þreytta fætur

20 ml sólblómaolía (grunnolía)

2 dropar geranium

1 dropi lavender

Nuddolía til að nota í fæðingu

30 ml vínberjasteinsolía (grunnolía)

4 dropar lavender

2 chamomile roman

1 dropi neroli

Nuddolía í fæðingu

30 ml vínsteinsolía (grunnolía)

2 dropar rose

2 dropar geranium

1 dropi lavender

Þegar ilmkjarnaolíur eru notaðar til innöndunar er gott að setja einn eða tvo dropa af ilmkjarnaolíu í pappír eða klút og bera að vitum sér. Ef notað er úðatæki er gott að setja3-4 dropa af ilmkjarnaolíu og í úðabrúsa er gott að setja 10 dropa í 100 ml af vatni, hrista vel og spreyja allt í kringum sig.

Úðabrúsablanda 1

100 ml vatn

3 dropar geranium

3 dropar frankincence

Úðabrúsablanda 2

100 ml vatn

3 dropar geranium

2 dropar lavender

2 dropar rose

Hér er frábær íslensk vefsíða með upplýsingum um ilmolíur  http://ilmandi.is