Viðvera stuðningsaðila í fæðingu stytt

Ég er að reyna að ná utan um fréttirnar frá því í gær um að nú eigi að takmarka stuðning fæðingarfélaga á Landspítalanum verulega. Stefnt er á að maki sé ekki lengur á spítalanum en í fjórar klukkustundir, kemur rétt fyrir fæðingu og fer svo stuttu seinna. Fyrst og síðast er ég sorgmædd og finn til með fjölskyldunum sem settar eru í þessar aðstæður.

Douluhjartað blæður við tilhugsunina um að konur fari einar á spítala í fæðingu og sé meinað að hafa með sér stuðningsaðila stærstan hluta fæðingarinnar. Ég vona heitt og innilega að Landspítalinn sé eini staðurinn sem grípi til þessara aðgerða. Mér sýndist á FB síðu ljósmæðravaktar HSS að makar/aðstandandi verði enn velkomnir sem er vel og ég veit að Björkin ljósmæður grípa ekki til þessa en þær geta ekki tekið við fleirum í þjónustu.

Ég get ekki séð annað en að það stríði gegn öllu sem við vitum um fæðingar og framgang þeirra. Fæðingar taka tíma. Stuðningur í fæðingu er lykilþáttur í fæðingu og á bak við mikilvægi stuðnings liggja ótal ótal rannsóknir sem segja frá mikilvægi hans. Viðvera stuðningsaðila í fæðingu eykur fæðingaránægju, dregur úr ótta og dregur úr inngripum. Rannsóknir sýna að fólk sem upplifir fæðinguna sína erfiða segir erfiðast að hafa ekki haft stuðning í kringum sig og að ekki hafi verið hlustað á það.

Ég er samt að reyna að skilja þessa ákvörðun, reyna að skilja að ákvörðuninni er ætlað að hlífa spítalanum, fækka komum þeirra sem ,,eiga ekki erindi” og hlífa starfsfólki svo það hitti sem fæsta. Ég er að reyna að sjá að ákvörðunin sé tekin með hagsmuni heildarinnar í huga en það koma alltaf þessi en, en.

Nú þegar hafði eitt og annað gert sem fækkaði komum á spítalann. Konur fóru einar í mæðraskoðun, beðnar um að einangra sig frá 36 viku, fóru einar í keisara, viðvera aðstandanda eftir fæðingu hafði verið stytt og þó þetta hafi ekki alltaf hljómað vel þá laut maður höfði og hugsaði að allir væru að leggja sitt af mörkunum til að staðið væri vörð um að kona hefði stuðningsaðila með sér í fæðingu. Aðlagast og hjálpast að. Hlýða Víði. Ég þurfti meir að segja að læra hratt að veita stuðning í gegnum netið. En nú á að takmarka veru aðstandanda enn frekar og ég velti því fyrir mér hvort að stutt sé í að tekið verði fyrir að stuðningsaðilar komi með á spítalann.

Mér verður strax hugsað til þess að þetta eigi eftir að auka álag á ljósmæður á spítalanum, þeirra yfirseta verður að vera meiri þegar kona hefur engan hjá sér stærstan hluta fæðingarinnar. Ég myndi líka halda að ljósmóðir þyrfti að vera í meiri nálægð við konurnar og veita meiri stuðning.

Mín spá er að inngrip eigi eftir að aukast og mænurótartíðnin eftir að verða enn hærri en hún er nú þegar og jafnvel að keisurum fjölgi. Vonandi er tekur einhver að sér að rannsaka það.

Stundum er bent á að spítalar séu fyrir veikt fólk og aðgerðir teknar þar séu teknar með hagsmuni veika fólksins og starfsfólk í huga. Eðlilega og ég get ekki dregið undan að ég er stolt af framlínufólkinu okkar núna sem sinnir óvenjumörgu alvarlega veiku fólki núna. Fæðing er hinsvegar eðlilegt ferli í lífshringnum sem jú þarf stundum læknisfræðileg inngrip en lútir öðrum lögmálum.  

Ég get aðeins reynt að ímynda mér hvernig verðandi foreldrum líður við að heyra þessar fréttir. Streitukerfin virkjast því óvissunni fylgir oft kvíði. Gagnlegasta streitukerfið okkar í þessum aðstæðum er hlúa að og annast (tend and befriend). Reynum að láta þetta oxítosin drifna streitukerfi taka yfir og hlúum að hvort öðru. Þegar reynir á verður að hugsa hratt og finna lausnir

Skjálfti eftir fæðingu

Margar konur segja frá því að það sé eitt og annað sem komi þeim á óvart varðandi fæðingarferlið, og þá ekki síst það sem kemur eftir að barnið fæðist. Eitt af því er eftirskjálftinn, margar konur upplifa skjálfta eftir að barnið fæðist. Óstjórnlegur skjálfti og svolítil kuldatilfinning kemur fljótlega eftir að barnið fæðist og er algerlega eðlilegt og algengt. Það er allt í lagi, ekkert er að. Þessi skjálfti er algengur en kannski ekki svo mikið rætt um hann. Stundum er skjálftinn svo mikill að konur treysta sér varla til að halda á barninu sínu en svo hefur reynslan sýnt að þegar konur halda á börnum sínum í skjálftanum þá skjálfa þær yfirleitt minna og skemur (og fá minni verkjaupplifun). Athyglin er þá líka meira á litla barninu.

Ekki er að fullu vitað af hverju konur fá þennan skjálfta en hormónar spila þar stórt hlutverk. Líkaminn er að losa sig við endorfín og önnur hormón. Einhver áhrif hefur herbergishitinn en þó útilokar heitt herbergi alls ekki skjálftann. Við vitum heldur ekki alveg hvaða áhrif vökvi í æð hefur á skjálfta.

Skjálfti eftir fæðingu er kannski líka að einhverju leiti ,,sjokk“ viðbragð líkamans. Það er auðvitað ótrúlegt afrek að koma barni í heiminn og reynir á líkamann á einstakan hátt og eftir slíkt afrek er kannski eðlilegt að líkaminn sýni viðbrögð og þurfi að skjálfa til að jafna sig og komast í sitt fyrra horf.

Í flestum tilfellum er skjálftinn í nokkrar mínútur en getur verið upp undir klukkutíma. Ef skjálfti og óþægindi halda áfram sérstaklega eftir að heim er komið er ráðlagt að hafa samband við ljósmóður eða heilsugæslu til að útiloka sýkingu eða veikindi.

Náttúrulegar leiðir til að takast á við fæðingu

Fæðing barns er stórvirki, það tekur á mörgum þáttum að koma barni í heiminn. Líkamlega er það krefjandi sem og andlega. Það er eitt og annað sem kona getur gert til að hafa áhrif á fæðinguna sína sem hjálpar til við að takast á við fæðinguna.

Öndun er svo ótrúlega einfalt en magnað hjálpartæki í fæðingu, ég hef séð það aftur og aftur hvað hvernig öndun dregur konur í annað meðvitundarástand. Hormónar, samdrættir og annað hafa auðvitað sín áhrif en þetta að draga inn andann, anda rólegar út og endurtaka  er svolítið eins og akkeri. Kemur konum aðeins lengra inn í fæðinguna og stundum alveg í gegnum hana. Það er eins og öndunin, yfirveguð, einbeitt og æfð minnki sársaukaupplifun, dragi úr meðvitund um umhverfið og geri konum betur kleift að fara inn í eigin líkama og ganga inn í tímaleysið sem fylgir fæðingu. Einn samdráttur enn, einn enn andardráttur. Það eru svo ótal mörg önnur tilefni þar sem andardrátturinn nýtist áfram, þó móður og barn séu ekki lengur eitt. Það á oftast eftir að sauma og stundum taka blóðsýni, það eru sárar geirvörtu og aumur botn sem fylgja manni inn í móðurhlutverkið.  Öndun þessi endurtekning að draga inn andann og anda rólega út, gagnast manni vissulega best þegar maður hefur æft það á einhvern hátt áður, meðvitað eða ómeðvitað. Svo sem að fara í jóga og gera hugleiðsluæfingar. Þá gagnast að sama skapi að muna að það þarf ekki nema þrjá rólega andardrætti til að róa líkamann, sem ósjálfrátt róar hugann. Þessa þrjá andardrætti er aðgengilegt að æfa heima hjá sér, hvenær sem maður man eftir, maður getur gert það í laumi svo að segja hvenær sem er en það er líka hægt að setja miða á ísskápinn eða stilla símann sinn á áminningu. Ég bendi fólki stundum á á námskeiðinum mínum að það geti verið gott að æfa saman andardráttinn í augnablik fyrir svefninn, haldast jafnvel í hendur þegar maður er lagstur á koddann og taka nokkra góða andardrætti og leyfa sér að finna, án þess að dæma, hvernig manni líður í líkamanum.

Mín reynsla í gegnum þær  fæðingar sem ég hef verið viðstödd er líka sú að öndunin kemur manni alltaf til góða en fæstar konur geta stýrt önduninni út alla fæðinguna, þar til barnið er komið í heiminn. Það er eins og þegar komið er á síðustu metrana taki líkamskerfið alveg við, stýri líkamanum og stýri önduninni. Ósjálfráða kerfið tekur yfir og þá getur reynt á að láta hugann fylgja með og leyfa líkamanum að stýra. Sumar konur hafa talað um að það hafi verið erfitt að hafa stýrt önduninni lengi og vel og finna svo á einhverjum tímapunkti að öndunin er ekki eins og þær vilja stýra honum, þá er að taka eftir því og samþykkja það. Minna sig á að maður er kominn það langt í fæðingunni að öndunin er ósjálfráð, þá er yfirleitt stutt eftir.

Hreyfing í fæðingu getur líka verið virkilega gagnleg, það að hreyfa sig reglulega meðan á fæðingunni stendur styttir fæðinguna og gerir hana mun bærilegri. Það er misjafnt hvernig hreyfiþörfin kemur til kvenna og meðan sumar eru mjög afslappaðar og finna lítinn frið með að hreyfa sig eru aðrar sem verða að vera á hreyfingu.

Í upphafi getur verið gott að ganga aðeins um, það er hægt að fara í gönguferð í byrjun fæðingarinnar og þegar líða fer á getur verið gott að ganga um húsið eða herbergið. Sumum finnst gott að rúlla sér á bolta eða hossa sér á milli samdrátta, getur linað verkina og hjálpað litla barninu að snúa sér og koma sér í góða stöðu. Eiginlega er öll hreyfing sem manni dettur í hug til hins góða.

Stundum er nóg að standa og hrista mjaðmirnar duglega, sveifla mjöðmunum í rólega í stóra hringi. Ef maður liggur út af er gagnlegt að muna að skipta um hlið á hálftíma fresti og jafnvel snúa sér í hring, hægri  hlið, bak, vinstri hlið, fjórir fætur.

Fæðing barns er stórvirki, það tekur á mörgum þáttum að koma barni í heiminn. Líkamlega er það krefjandi sem og andlega. Það er eitt og annað sem kona getur gert til að hafa áhrif á fæðinguna sína sem hjálpar til við að takast á við fæðinguna.

Öndun er svo ótrúlega einfalt en magnað hjálpartæki í fæðingu, ég hef séð það aftur og aftur hvað hvernig öndun dregur konur í annað meðvitundarástand. Hormónar, samdrættir og annað hafa auðvitað sín áhrif en þetta að draga inn andann, anda rólegar út og endurtaka  er svolítið eins og akkeri. Kemur konum aðeins lengra inn í fæðinguna og stundum alveg í gegnum hana. Það er eins og öndunin, yfirveguð, einbeitt og æfð minnki sársaukaupplifun, dragi úr meðvitund um umhverfið og geri konum betur kleift að fara inn í eigin líkama og ganga inn í tímaleysið sem fylgir fæðingu. Einn samdráttur enn, einn enn andardráttur. Það eru svo ótal mörg önnur tilefni þar sem andardrátturinn nýtist áfram, þó móður og barn séu ekki lengur eitt. Það á oftast eftir að sauma og stundum taka blóðsýni, það eru sárar geirvörtu og aumur botn sem fylgja manni inn í móðurhlutverkið.  Öndun þessi endurtekning að draga inn andann og anda rólega út, gagnast manni vissulega best þegar maður hefur æft það á einhvern hátt áður, meðvitað eða ómeðvitað. Svo sem að fara í jóga og gera hugleiðsluæfingar. Þá gagnast að sama skapi að muna að það þarf ekki nema þrjá rólega andardrætti til að róa líkamann, sem ósjálfrátt róar hugann. Þessa þrjá andardrætti er aðgengilegt að æfa heima hjá sér, hvenær sem maður man eftir, maður getur gert það í laumi svo að segja hvenær sem er en það er líka hægt að setja miða á ísskápinn eða stilla símann sinn á áminningu. Ég bendi fólki stundum á á námskeiðinum mínum að það geti verið gott að æfa saman andardráttinn í augnablik fyrir svefninn, haldast jafnvel í hendur þegar maður er lagstur á koddann og taka nokkra góða andardrætti og leyfa sér að finna, án þess að dæma, hvernig manni líður í líkamanum.

Mín reynsla í gegnum þær  fæðingar sem ég hef verið viðstödd er líka sú að öndunin kemur manni alltaf til góða en fæstar konur geta stýrt önduninni út alla fæðinguna, þar til barnið er komið í heiminn. Það er eins og þegar komið er á síðustu metrana taki líkamskerfið alveg við, stýri líkamanum og stýri önduninni. Ósjálfráða kerfið tekur yfir og þá getur reynt á að láta hugann fylgja með og leyfa líkamanum að stýra. Sumar konur hafa talað um að það hafi verið erfitt að hafa stýrt önduninni lengi og vel og finna svo á einhverjum tímapunkti að öndunin er ekki eins og þær vilja stýra honum, þá er að taka eftir því og samþykkja það. Minna sig á að maður er kominn það langt í fæðingunni að öndunin er ósjálfráð, þá er yfirleitt stutt eftir.

Hreyfing í fæðingu getur líka verið virkilega gagnleg, það að hreyfa sig reglulega meðan á fæðingunni stendur styttir fæðinguna og gerir hana mun bærilegri. Það er misjafnt hvernig hreyfiþörfin kemur til kvenna og meðan sumar eru mjög afslappaðar og finna lítinn frið með að hreyfa sig eru aðrar sem verða að vera á hreyfingu.

Í upphafi getur verið gott að ganga aðeins um, það er hægt að fara í gönguferð í byrjun fæðingarinnar og þegar líða fer á getur verið gott að ganga um húsið eða herbergið. Sumum finnst gott að rúlla sér á bolta eða hossa sér á milli samdrátta, getur linað verkina og hjálpað litla barninu að snúa sér og koma sér í góða stöðu. Eiginlega er öll hreyfing sem manni dettur í hug til hins góða.

Stundum er nóg að standa og hrista mjaðmirnar duglega, sveifla mjöðmunum í rólega í stóra hringi. Ef maður liggur út af er gagnlegt að muna að skipta um hlið á hálftíma fresti og jafnvel snúa sér í hring, hægri  hlið, bak, vinstri hlið, fjórir fætur.

 

Sár fæðingarreynsla

Stundum er fæðingarreynslan ótrúlega sár, svo sár að hún nístir inn að beini. Barnið er fætt en móðirin og foreldrarnir brotnir. Orðlausir, í áfalli og uppgefnir. Fæðingin fór á allt annan hátt en lagt var upp með. Hvað veldur er ekki alveg vitað, stundum er það augljóst út á við, inngrip eftir inngrip en stundum er minningin svört þó mæðraskýrslan sé fallega orðuð. Eftir situr skömm, reiði, eftirsjá og glataðir draumar sem lítið pláss er fyrir.

Fæðingarferlið var allt öðruvísi en lagt var upp með. Yfirleitt erfiðara, lengra og inngripameira. Löngunin til að eignast annað barn er kannski til staðar en óttinn stýrir manni og kona getur ekki hugsað sér að ganga í gegnum sama ferli aftur.

Brot úr minningarreynslunni sækja á mann ítrekað og stundum getur fólk ekki kallað minningarreynsluna sína fram. Minningin lituð af framkomu þar sem erfitt var að átta sig á aðstæðum og enga stjórn að hafa á hlutunum. Stjórnleysið er oft það sem situr sárast eftir og framkoma starfsfólks gleymist seint.

Oft eftir erfiða fæðingu hringsóla systurnar ef og hefði í huganum og telja manni trú um að maður hefði getað gert betur. Kona gerði ekki nóg, hún hefði getað gert aðeins meir ,,ef ég hefði…“.

Stundum er eitthvað til í þessu, kannski hefði mátt leggja áherslu á meiri undirbúning, undirbúning fyrir það að takast á við það óvænta, að vera tilbúin fyrir líðandi stund og taka því sem til manns kemur. Þó má ekki gleyma að það er ekki hægt að undirbúa allt, sem betur fer heldur maður áfram að undrast út lífið. Allur heimsins undirbúningur gefur okkur ekki stjórn og stundum hefði ekkert getað breytt neinu og trúin á að undirbúningur hefði breytt útkomunni setur oft óheyrilega sektarkennd og ofurábyrgð á hendur nýrrar móður. Sannleikurinn er sá að oft hefði útkoman verið nákvæmlega sú sama. Mjóa þrautseiga röddin í höfðinu ætti í reynd að hvísla ,,þú gerðir allt sem þú gast, þú ert nóg“.

,,Það eina sem skiptir máli er að barnið er heilbrigt“ eru huggunarorð sem veita sjaldnast nokkra huggun. Það er ekki hægt að fullþakka fyrir þá gjöf að fá barn í hendurnar og heilbrigt í ofan á lag en huggunarorðin gera lítið úr þeim sem sitja með sárt ennið, minnka rýmið sem er til að deila upplifuninni og sækja kraft í að heila reynsluna. Líklega eru fáar setningar sem þagga jafnfljótt niður í nýbökuðum foreldrum sem hafa upplifað erfiða fæðingu.

Móðirin skiptir miklu máli, líðan hennar skiptir gríðarlegu máli. Fyrir hana sjálfa, fyrir barnið og fyrir nýju fjölskylduna. Áherslan fer á að velta sér ekki upp úr því sem er liðið, horfa fram á við og njóta barnsins en það er erfitt að njóta barns þegar hugurinn hringsólar í endurminningum sárra minninga. Áherslan er á að loka og leggja minninguna að baki og láta hana ekki á sig fá. Herða sig aðeins upp. Sem gengur oftast ekki því eina leiðin í gegnum sára reynslu er einmitt að fara í gegnum hana. Ganga alla leiðina. Það er ekki hægt að fara styttri leið, þegar við lokum á þungu tilfinningarnar lokum við gleðinni líka. Yfirleitt getum við linað þjáninguna með því að vera að fullu í líðandi stundu. Núið sem hjálpar okkur svo mikið.

Mildi er besta gjöfin sem við getum gefið okkur sjálfum, mildi gagnvart því að hafa upplifað eitthvað svo sárt sem manni finnst að eigi að vera gleðilegt. Mildi gagnvart því hve berskjölduð við erum, mildi gegn dómhörkunni okkar og mildi við skömminni sem við upplifum og þrífst bara í þögninni.
Mildi er að upplifa og finna sársaukann, mildi er að segja já þetta var erfitt, mildi er að segja þetta tekur tíma að jafna sig.

Tíminn er vinur okkur. Tíminn læknar ekki öll sár en skapar fjarlægð og gefur okkur rými. Núið í tímanum gefur okkur rými til að vera og tíminn gefur gefið okkur fjarlægð til að endurspegla, skoða og sættast.

Óeigingjarnasta gjöfin sem við getum þegið er hlustun úr innsta hring, flest eigum við einhvern í innsta hring sem vill hlusta, vera til staðar og skapa rými, einhvern sem þolir að heyra hvernig okkur líður.

Að þiggja hjálparhönd frá utanaðkomandi fagfólki þegar á þarf að halda er styrkur.

Samtal fyrir fæðingu

Barnsfæðing er umbreytingatímabil í lífi pars.  Fjölskyldueiningin er að fara úr tveimur í þrjá (eða þremur í fjóra, fjórum í fimm og svo framvegis) og það þarf að koma barninu í heiminn 🙂 kynnast því og annast. Nýir og spennandi tímar sem breyta mörgu í okkar lífi.

Það er margt að hugsa um, óvissutími sem gott er að fara yfir og leyfa sér að skoða, hvað er framundan og hvernig viljum við nálgast það. Þegar kemur að barnsfæðingunni, erum við sammála? Hvaða reynslu og væntingar komum við með varðandi fæðinguna?  Mig langar að deila með ykkur nokkrum vangaveltum og spurningum með áherslu á fæðinguna og tímann fyrst á eftir.

Gefið ykkur tíma í að skoða og velta þessu fyrir ykkur og hlusta vel á hvaða hugmyndir makinn hefur og hvernig þær samræmast ykkar hugmyndum og hvernig þið getið séð þær virka saman fyrir ykkur. Þetta eru auðvitað bara örfáar hugmyndir og alls ekki tæmandi listi!

Hvernig sérðu fæðinguna fyrir þér? Hvað hefur áhrif á þá sýn?

Hvaða hugmyndir ertu með varðandi fæðingar almennt? Hvaða koma þessar hugmyndir? Eru þær hugmyndir tengdar tilfinningu, rannsóknum eða reynslu?

Hvar viljið þið helst að barnið fæðist? Hvaða áhrif hefur sú ákvörðun?

Hvern viljið þið hafa með í fæðingunni ykkar og af hverju? Hvert er hlutverk stuðningsaðilans? Hvaða stuðning getur hann veitt?

Hvernig líður ykkur við tilhugsunina um inngripalausa fæðingu? Náttúrulega?

Hvernig líður ykkur við tilhugsunina um inngripafæðingu? Gangsetning, sogklukka, keisari?

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að bregðast við ef öll plön breytast?

Hvaða styrkleikar ykkar koma til með að nýtast ykkur best í fæðingunni?

Hvaða styrkleika finnið þið í parasambandinu sem hjálpar ykkur í fæðingunni?

Viljið þið / þurfið þið stuðning eftir fæðinguna? Hver í ykkar nánasta umhverfi getur veitt ykkur þann stuðning? Ef það er enginn í ykkar umhverfi, hvert getið þið sótt stuðning?

Hvaða áhrif haldið þið að litla barnið hafi á sambandið?

Hvaða uppeldisáherslur viljið þið hafa frá fyrsta degi?

Hvaða áherslu setjið þið á brjóstagjöf?

Hvaða áherslu setjið þið á svefnfyrirkomulag og svefnvenjur?

Hvernig finnið þið tíma til að hugsa um og næra ykkur sem par?

 

Ég veit ekki hvað það er en ég hef byrjað að skrifa þennan pistil oftar en ég kæri mig um að muna. Hripa niður nokkur orð og hætti svo. Kannski er bara best að skrifa lykilorðin strax og þá eru þau frá, kúkur og prump. Allt mjög mikilvægt og enn mikilvægara í fæðingu. Kúkur og kúkatilfinning í fæðingu er venjulegt og normal. Ég finn að þrátt fyrir mikla þjálfun í að tala um efnið, er eitthvað sem heldur aftur af mér. Ok jæja þá er það frá,

Þegar barn fæðist um fæðingarveg, verður það að nýta allt rýmið í líkama móðurinnar. Það þrýstir sér sína leið niður í gegnum grindina og út í heiminn. Til þess að það gangi sem best má ekki vera nein fyrirstaða, allt sem tekur pláss verður að fara. Þetta ferli þýðir að flestar konur kúka örlítið í fæðingu og þannig er það bara. Fæstir sem eru viðstaddir taka eftir því, enginn sem starfar í kringum fæðingar kippir sér nokkuð upp við það en þetta getur verið heilmikið mál og sálarstríð fyrir þann sem er að fæða og upplifir þetta.

Margar konur finna að tilhugsunin um að kúka í fæðingu angrar þær strax á meðgöngu, eitthvað sem margar konur hræðast og kallar jafnvel fram heiftarlegan kvíða. Hugsun sem sækir endurtekið á en ekki fer mikið fyrir í umræðunni.

Stundum kemur það aftan að konum í fæðingu hvað það truflar þær mikið. Þetta geta verið hljóð innri átök að finna tilfinninguna, að maður þurfi að kúka og sjá svo fram á að hugsanlega kúka fyrir framan þann sem maður elskar og aðra sem eru viðstaddir. Inn í flesta er svo kyrfilega innritað að það að kúka sé algert einkamál og gerist ekki með aðra í kringum sig og sumir hafa jafnvel masterað að prumpa aldrei svo nokkur sála heyri.
Tilfinningin ,, ég þarf að fæða barn“ er eiginlega nákvæmlega eins og tilfinningin ,,ég þarf að kúka“. Þarmarnir liggja við fæðingarveginn, þrýstingurinn á taugaendana er á svipuðum stað og tilfinningin sem líkaminn þekkir er þessi, kúkaþörf. Eitthvað þarf að fara út en í fæðingu er það lítið dásamlegt barn.

Hvort þetta er ólík tilfinning í raun með blæbrigðamun eða sama tilfinningin er kannski ekki aðalatriðið en þarna kallast á þversagnir, við viljum fæða barnið en viljum ekki kúka fyrir framan aðra. Kúkur og prump í almenningsrými er oft beintengt skömm og tilfinningin skömm heldur aftur af okkur, við upplifum okkur minni og vanmáttugri og það dregur yfirleitt úr vilja okkar og getu til þess að halda áfram.

Leghálsinn er í raun bara hringvöðvi, sem er feiminn og viðkvæmur fyrir skömm og við getum stjórnað honum nokkuð vel, svona rétt eins og öðrum hringvöðvum. Lokað og herpt ef það á við og opnað og slakað þegar það er viðeigandi.
Kona sem er í öruggu umhverfi þar sem henni líður vel er líklegri til að opna líkamann og útvíkkun gengur hraðar fyrir sig, svona ,,klósettaðstæður“ ef svo má segja. Það er líka hægt að loka líkamanum, til dæmis ef kona upplifir ótta eða skömm og þá getur útvíkkun gengið til baka. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að margar konur vilja fara afsíðis á klósettið í fæðingu, því það er privat. Klemman að vilja ekki kúka fyrir framan aðra, heldur aftur af fæðingunni, getur tafið fæðingarferlið og veldur hugarangri.

Hvað skal til bragðs taka? Á staðnum er auðvitað hægt að stappa stálinu í fólk, segja að kúkur skipti ekki máli, öllum sé alveg sama, ljósmæður eru góðar í að fjarlægja allt sem fjarlægja þarf og svo framvegis. Það er hægt að henda í fimmaura brandara og létta stemninguna í smá stund og allt er það satt, það er öllum alveg sama.

Ég held líka að það sé mikilvægt að tala um kúk og fæðingar, minnast á þetta oft meðan konur eru barnshafandi. Skömm virkar nefnilega þannig að því meira sem er talað um það sem vekur skömm, því minni verður skömmin. Því meira sem við tölum um kúk og prump sem fylgifisk í fæðingu því minna mál.
Enn betra væri að taka þetta alla leið og byrja fyrr, normalísera prump frá fyrstu tíð, sérstaklega hjá stelpum. Hætta að hafa prump þannig að það veki upp skömm. Prump er bara prump. Svo næst þegar lítil stelpa prumpar hressilega fyrir framan okkur að í staðinn fyrir að koma með klassísku skammarvekjandi viðbrögðin að taka vel í það og reyna að muna að stelpa sem prumpar hressilega í almenningsrými og skammst sín ekkert fyrir það, verður kannski einn daginn þakklát barnshafandi kona sem sleppur að öllum líkindum við kúkahugarstríðið í fæðingu mörgum árum seinna.

 

 

7 leiðir til að draga úr kvíða fyrir fæðingu

Fæðing barns er svo mikið undur en á sama tíma fylgir henni óvissa. Skiljanlega getur það vakið með manni ugg að vita ekki og í raun geta ekki vitað með vissu út í hvað maður er að fara.  Það skilar sér þó alltaf að undirbúa sig vel fyrir fæðingu og skoða hvað það er sem hugurinn dvelur við. Smá kvíði er í raun eðlilegur og hvetur mann til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Þegar hann verður mikill og lamandi er nauðsynlegt að bregðast við og skoða hann.

 1. Gerðu plan út frá þér, fyrir þig svo þú sért í bestu mögulegu aðstæðum. Hvar viltu fæða og af hverju? Hvernig er óskafæðingin þín og af hverju? Hvaða styrkleikar nýtast þér í fæðingunni?
 2. Prófaðu að skrifa hvað ef …þá…lista. Þarna skrifarðu niður allt sem er að leita á hugann og veldur kvíða og skrifar svarið.  Stundum liggur svarið í augum uppi en stundum borgar sig að leita upplýsinga og/eða tala við fagmann. Hér er verið að passa upp á að halda sig í raunveruleikanum og útiloka það óþekkta.
  Algengar vangaveltur eru eins og hvað ef ég næ ekki að takast á við verkina? Þá….
  Hvað ef ég næ ekki upp á spítala áður en barnið fæðist? Þá…
  Hvað ef ég missi stjórn á aðstæðum? Þá…
  Veltu því fyrir þér hvernig þú tækist á við aðstæður sem þú óttast ef þær kæmu upp. Ef þú getur undirbúið þig, komið í veg fyrir það, skaltu stíga skref í þá áttina. Ef þú getur ekkert gert til að koma í veg fyrir aðstæðurnar, veltu því þá líka fyrir þér hvernig þú vilt takast á við þær aðstæður? Passaðu að dvelja ekki um of í þessum hluta.
 3. Talaðu við vini, ættingja og aðra eftir því sem við á. Það er gott að setja orð á hugsanir sínar og fá endurgjöf á þær.
  Ræddu við makann um fæðinguna, skoðaðu hvaða styrkleikar nýtast í fæðingunni, hvernig getur makinn hjálpað ykkur að laða fram styrkleika þína? Hvað getið þið gert saman?
 4. Leitaðu eftir sérþekkingu og aðstoð án þess að hika, heilsugæslan getur verið innan handar, MFB-teymið er frábært og svo eru margir sjálfstætt starfandi sérfræðingar sem hafa sérhæft sig í meðgöngu og fæðingu.
 5. Veldu vel hvaða fæðingarsögur þú hlustar á. Fæðingar eru allskonar og margar breytur sem hafa áhrif þar á. Erfiðar og átakanlegar fæðingarsögur fá oft mikið pláss og maður man eftir þeim en þær eru endurspegla ekki flestar sögur. Veldu vel hvaða fæðingarsögur þú vilt að sitji með þér, reyndu að leita eftir jákvæðum sögum til að byggja upp jákvæða mynd.
 6. Taktu einhvern með í fæðinguna, auk maka sem þú treystir. Það getur verið ættingi, vinur eða doula. Hafðu einhvern með sem getur veitt þér stuðning, einhvern sem þú (og makinn þinn) treystir. Það minnkar álagið á ykkur bæði og dregur úr stressi og eykur líkur á góðri upplifun.
 7. Treystu og njóttu. Treystu því að allt verði eins og það eigi að vera og sé eins og það á að vera.

Verkir á móti sársauka í fæðingu

Ég er stundum spurð að því svona í gamni, í ljósi starfs míns sem doula, hvort ég hafi gaman að því að horfa upp á konur þjást.
Ég elska starfið mitt og það gefur mér mikið en ég hef ekkert umburðarlyndi fyrir þjáningu, því get ég lofað. Ég vil ekki að nokkur kona þjáist eitt augnablik í fæðingu, en ég hef hinsvegar gott þol fyrir því að vera með konum sem finna til og held ég sé komin með góða verkfæratösku í að hvetja konur áfram og hjálpa þeim að halda áfram, halda verkjunum sem verkjum.
Kannski er einhver alveg búinn að tína mér núna, en það er mikill munur á verkjum og sársauka í mínum huga þegar kemur að fæðingu.

Þegar kona á von á sínu fyrsta barni er alveg eðlilegt að óttast verkina sem þær koma til með að upplifa í fæðingunni því það er einhvern veginn í beinunum á okkur að vita að fæðing er þrekvirki og svo bætist við að oft höfum við heyrt og lesið reynslusögur annarra.

Fæðing er stórmagnaður viðburður í lífi fjölskyldu og verkirnir sem fylgja fæðingunni eru ef svo má að orði komast eðlilegar aukaverkanir af virkni og átökum líkamans og þá verki þarf ekki að óttast.

Ef við setjum svona verki í samhengi, þá þekkja flestir verki í átökum eða eftir átök, svo sem í góðri fjallgöngu, í hlaupi og eftir erfiðan tíma í ræktinni. Verki sem fylgja átökum þekkir íþróttafólk til að mynda vel, átökin í athöfninni sjálfri og verkina sem á eftir koma. Flestir sem reynt hafa mikið á sig líkamlega þekkja líka vellíðanina sem fylgir því að takast á við erfitt en yfirstíganlegt verkefni og klára það. Vellíðan, sigurtilfinning og gleði.

Í eðlilegri fæðingu taka verkirnir ekki yfir upplifunina heldur eru hluti af henni. Þegar hlutirnir ganga venjulega fyrir sig er verkurinn hliðarafurð af vinnuþættinum. Fleira kemur inn í upplifunina, svo sem slökun og ró. Milli verkja kemur ró og vellíðan, eitthvað sem hormónar kvenna hafa mikil áhrif á. Í þessu ferli þar sem skipst er á milli verkja og hvíldartíma skiptir máli að geta dottið inn í ryþma, einhversskonar endurtekningu þar sem tíminn svo að segja stendur í stað en hringlaga ferli hvíldar og samdrátta endurtekur sig.  Verkurinn er einfaldlega líkamleg upplifun sem getur verið svo sannarlega óþægileg en á ekki að vera óyfirstíganleg.

En það er líka einhver lína milli verks og sársauka, átaka og þjáninga og það er stór munur á að upplifa verki sem hluta af ferli eða upplifa sig í þjáningu. Það má í raun segja að þjáning sé óeðlilegur hluti fæðingar, þegar verkurinn sjálfur verður óyfirstíganlegur og ryþminn tapast.

Skilin á milli verks og sársauka eða þjáningar eru ekki alltaf skýr og aðeins ljós í huga þess sem upplifir. Aðeins hin fæðandi kona veit sjálf hvort hún er að upplifa verki eða þjást.

Hvar skilin liggja er ólíkt milli kvenna, konur hafa misháan sársaukaþröskuld og mismikið þol fyrir verkjum. Margir minni þættir hafa svo áhrif á verkjaupplifun svo sem líðan fyrir og í fæðingu, fyrri reynsla, vonir og væntingar og umhverfi. Þá má ekki gleyma að ekki byrja allar fæðingar eins og margir læknisfræðilegir þættir hafa þar áhrif á.

Eitt af því sem gagnast til að haldast í ryþmanum og halda verkjunum yfirstíganlegum er til dæmis góður stuðningur frá fjölskyldu og fagaðilum, upplifun á öruggu umhverfi og góður undirbúningur þar sem verðandi foreldrar þekkja ferlið sem líkami konunnar fer í gegnum og kunna leiðir til að bregðast við verkjunum og hjálpa til við að lina þá. Þannig getur kona komist í gegnum fæðingu með góðri upplifun með verkjum en án þjáningar. Fari kona yfir skilin milli verkja og sársauka, finnur fyrir þjáningu og það sem gert er hjálpar ekki til að haldast í ryþma og stundin verður óbærileg og virðist óbærileg er fulllástæða til að stíga inn í og finna út hvaða verkjastilling er gagnlegust í þessum aðstæðum.

Hluti af mínu starfi er einmitt að hjálpa pörum að viðhalda ryþmanum svo verkirnir verði yfirstíganlegir en takast á við það með pörum þegar verkirnir breytast úr verkjum í sársauka.

Snerting og stuðningur maka

Fæðing er fyrir flesta krefjandi verkefni sem kallar á alla okkar athygli. Undanfarin ár hef ég aðstoðað fólk við að undirbúa sig fyrir fæðinguna og kennt þeim nokkur einföld ráð til að takast á við fæðinguna.
Tækni sem makinn getur gert í fæðingunni og gott er að hafa farið yfir áður en kallið kemur. Mig langaði að deila því með ykkur.
Mörgum konum finnst gott að láta strjúka sér og nudda í fæðingu en mörgum finnst það líka óþægilegt. Það er ekkert rétt eða rangt í þessum og alveg alger óþarfi að taka það persónulega ef nudd eða strokur eru afþakkaðar.
Reynslan segir mér að í byrjun fæðingar hjálpar létt nudd og strokur og svo þegar líður á fæðinguna gagnast þéttari snerting betur og ekki í samdráttum heldur á millli.

Hönd í hönd og lófanudd
Einfalt en áhrifaríkt og sýnir traust og umhyggju er að haldast í hendur og oft er mjög slakandi að nudda inn í lófann, þéttingsfast.

Þrýstingur um höfuðið
Kemur oft á óvart en það að setja hendur um höfuð konu í fæðingu er yfirleitt mjög vel þegið. Önnur hendin á ennið og hin við hnakka en samt á höfðinu. Halda þéttingsfast án þess að kreista. Mörgum þykir líka gott að vefja um höfuðið á sér slæðu eða öðru svipuðu. Það er töfraráð að halda köldum þvottapoka þétt um enni konu í fæðingu.

Þriðja augað

Það veitir ótrúlega slökun að nudda með þumalfingri rólega milli augnabrúnna. Þarna við það sem oft er kallað þriðja augað.

Hjartastuðningur
Mæli því að setja aðra hönd á bringuna við hjartastað og aðra á milli herðablaða og leyfa höndunum að hvíla vel við líkamann.

Fótasnerting
Létt snerting á fætur getur verið hughreystandi og þægileg. Margar konur finna jarðtengingu þegar þær standa og því er oft mjög kærkomið að fá fótanudd ef kona liggur fyrir. Þegar langt er komið í fæðingu getur verið gott að halda vel um ökkla, gefur góða jarðtengingu.

Prófið ykkur endilega áfram, metið stöðuna og haldið áfram. Góð snerting getur gert kraftaverk í fæðingu.

 

 

Speki Inu May Gaskin

Það er ekkert langt síðan að Ina May Gaskin, þekkt ljósmóðir frá Bandaríkjunum, kom til Íslands og var með fyrirlestra hér. Þetta var góður tími, það var gaman að taka á móti henni og skemmtilegt að hlusta á hana. Sjálf hafði ég lesið bækurnar hennar á meðgöngunum mínum og vitnað í hana í gegnum doulustarfið og hlakkaði mikið til að hlusta á það sem hún hafði fram að færa.

Ina_may6

,,Láttu apann í þér um þetta“ Ina May er þekkt fyrir þessa hvatningu að benda konum á að láta apann í sér að taka yfir meðan fæðingin er. Það sem hún á við er að konur þurfa að slökkva á hugsandi heilanum okkar og kveikja á frummanneskjunni, innsæinu og leyfa okkur að hvíla í líkamanum á okkur.  Hún segir að þegar að apinn tekur yfir þá gengur fæðingin yfirleitt snuðrulaust fyrir sig, því líkaminn kann að fæða. Fyrir vikið er Ina May sérstaklega hrifin af því að sýna myndbönd af öpum fæða og fílum líka og er á því að konur eigi frekar að horfa á dýr fæða afkvæmi sín en aðrar konur.

Ina May er líka vel meðvituð um hvaða áhrif fæðingarreynslan hefur á konur, hún mótar okkur á ótrúlegan hátt það sem eftir er ævinnar, fæðingarreynslan hefur áhrif á sjálfsmynd okkar, tilfinningalíf, líkamann okkar og allt í umhverfi okkar. Góð fæðingarreynsla er eflandi, styrkjandi og getur skilað enn sterkari konu en að sama skapi er erfið eða neikvæð fæðing niðurbrjótandi og haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd kvenna. Í þessu samhengi leggur Ina May mikla áherslu á að allir sem koma að fæðingu verða að koma fram við konu af mikilli virðingu, rólegheitum og gæta þess að kona fái næði til að fæða.

 “If a woman doesn’t look like a goddess during labor, then someone isn’t treating her right.”

Ina May Gaskin er talar um ,,lögmál hringvöðvans“ og hve mikið það hefur áhrif á fæðingu og segir að leghálsinn virki í sömu aðalatriðum eins og aðrir hringvöðvar, hann er alla jafna lokaður en opnast þegar það er næði og öruggt andrúmsloft, svo sem á salerni. Skv. þessu lögmáli, opnast hringvöðvinn ósjálfrátt, það þýðir ekki að skipa honum það eins og að segja ,,slakaðu á“  eða ,,opnaðu nú leghálsinn“.  Streita, truflun og ótti hefur áhrif á leghálsinn/ hringvöðvann og hann getur auðveldlega lokast úr þvi sem hann var. Virðing, ró og öryggi er lykillinn að því að hringvöðvinn virki vel og Ina May leggur líka áherslu á að hringvöðvar (leghálsinn í þessu tilfelli) geti opnast og lokast hratt eftir aðstæðum. Út frá þessu lögmáli leggur hún mikla áherslu á næði, góða framkomu við fæðandi konu og slökun. Hún hefur líka lagt áherslu á að kjálkavöðvarnir okkar eru tengdir við hringvöðvann og að mikilvægt sé að passa að hafa kjálkana pg munnvöðvana slaka.

inamay13

Hlátur er líka mikilvægur og Ina May Gaskin talar mikið um mikilvægi þess að hlæja vel í fæðingu, það geti haft áhrif eins og verkjastilling, þar sem hlátur er endorfínlosandi. Það verður reyndar að segjast að það er einstaklega gaman að hlæja með Inu May, hún hefur gott auga fyrir spaugilegu hliðum lífsins.

Gagnsemi doula- rannsóknir

Rannsóknir sem sýna fram á gagnsemi doula

Þrátt fyrir að doulur séu til þess að gera ný starfstétt hafa verið gerðar margar rannsóknir sem sýna fram á gildi þeirra og gagn.

Doulur eru stuðningskonur á meðgöngu og í fæðingu og sængurlegu doulur styðja svo konur fyrstu vikurnar eftir fæðingu. Doulur veita stuðning en bera ekki klíníska ábyrgð og eru ekki heilbrigðisstarfsmaður. Starf þeirra er samfellt, það er sama doulan er með sömu fjölskyldunni alla fæðinguna. Ekki má heldur ekki gleyma að doulur vinna fyrir báða foreldra og styrkja maka í fæðingarferlinu og koma ekki í staðinn fyrir maka eða taka yfir þeirra hlutverk. 

En að rannsóknunum. Árið 2012 voru birtar niðurstöður frá Cohraine database þar sem teknar voru saman 22 rannsóknir þar sem meira en 15.000.- konur voru þátttakendur. (Fyrst birt árið 2013)

Stuðningurinn sem konurnar fengu var ólíkur, í einhverjum tilfellum var það stuðningur frá starfsfólki spítalans, svo sem ljósmóður eða hjúkrunarfræðingi, stuðning frá konum (doulum) sem voru ekki starfsmenn spítalans eða í félagsneti móður (sem væri mamma eða vinkona)  og svo stuðning frá maka eða einhverjum í félagsneti konunnar svo sem ættingi/vinur.

Konurnar sem fengu samfelldan stuðning doulu í gegnum fæðingu voru líklegri til að fæða spontant eða án inngripa eins og áhalda eða keisara og það voru minni líkur á að þær þyrftu verkjalyf. Aukreitis var fæðingin örlítið styttri hjá þeim sem voru með doulur og barnið skoraði almennt hærra á Apgar-skalanum. Engar aukaverkanir fundust, sem er auðvitað mjög ánægjulegt. Sumir hópar innan rannsóknanna komu svo enn betur út t.d. konur í áhættumeðgöngu. Konur sem fengu stuðning doulu voru mun líklegri til að vera ánægðar með fæðinguna sína og mun minni líkur á að þær upplifðu sig ekki við stjórnvölinn og ,,stjórnlausar“ í fæðingu. 

Út frá þessum niðurstöðunum er mælt með að allar konur hafi samfelldan stuðning í gegnum fæðingu frá doulu, s.s. stuðning frá manneskju sem er viðstödd eingöngu til að styðja við fæðinguna og hefur reynslu af fæðingarhjálp og tilheyrir ekki félagsneti manneskjunnar né heldur spítalanum.

Árið 2009 gerði Hrafnhildur Margrét ljósmóðir lokaverkefni sitt um hlutverk doula og ljósmæðra, og talaði við tvær konur sem höfðu notið þjónustu doulu, þær konur voru afskaplega ánægðar með þá þjónustu sem þær fengu. Inni ritgerðinni segja konurnar sem talað var við um douluna sína ma. að hún hafi verið ,,mikill stuðningur við pabbann“ og að hún hafi ,,verið með einstaka nærveru“. Konurnar sem talað var við voru líka mjög ánægðar með ljósmæðurnar aðstoðuðu þær og upplifðu að þær hefðu fengið góðan alhliða stuðning.

Kristún Heiða tók svo viðtal við mig og tvær konur sem höfðu notið þjónustu minnar fyrir nokkru og þær höfðu jákvæða sögu að segja. Töluðu um að doulur væru kjölfesta og að undirbúningurinn hefði verið persónulegur og að það hefði myndast teymi.

Fyrir nokkru voru tekin viðtöl við nokkrar konur sem hafa notið stuðnings doula á Íslandi og vonandi fáum við að sjá niðurstöður úr því fljótlega en fjölskyldurnar sem talað var við voru mjög ánægðar og gaman að fylgjast með því þegar grein og niðurstöður verða kynntar.

 

 

Leiðir til að takast á við kvíða

Barnshafandi konur geta upplifað svo margskonar kvíða fyrir komandi fæðingu. Smá streita og kvíði er skiljanlegur þegar maður veit að maður er að fara að upplifa eitthvað sem maður hefur ekki gert áður.  Kvíðinn getur verið margskonar, ótti við að eitthvað komi fyrir sig eða barnið, að maður höndli ekki verkina, að stjórnin verði tekin af manni, að fæðingin fari á annan hátt en maður vonaði svo einhver dæmi séu nefnd.

Við þessum ótta og kvíða er þó hægt að gera eitt og annað til að sefa hann og róa og vinna með hann því það gerist lítið við að stinga höfðinu í sandinn, því miður. (þó það virki oft sem það besta í stöðunni).

Kannski það fyrsta í stöðunni er að horfast í augu við óttann og átta sig á því hvers eðlis hann og hvernig er hægt að vinna með hann. Hvers eðlis er óttin og hvernig er hægt að tækla hann? Er óttinn helst við að rifna eða öskra í fæðingunni? Eða er hann tengdur óttanum við að missa stjórn á sér og aðstæðum og að stjórnin verði tekin af manni? Því meira sem maður veit um hvað óttinn er því betur getur maður brugðist við honum og oft hverfur hann við það að fá athygli.

Þá er gagnlegt að undirbúa sig vel og reyna að átta sig á því út í hvað maður er að fara, hluti af því er að lesa sér til, nú er til margt gott efni á netinu án endurgjalds, það eru sífellt fleiri íslenskar bækur sem koma út og aragrúi af bókum á ensku sem eru gagnlegar, hjálpa manni að skilja ferlið og undirbúa sig fyrir fæðingu.

Sögur og reynsla annarra er svona beggja blands. Það getur verið gott að umvefja sig góðum sögum, finna félagsskap í konum sem hafa trú á sér og öðrum, það getur gefið manni kraft og þor. Slíkum sögum verður maður að taka sem hvatningu en muna að manns eigin reynsla verður einstök.

Sama gildir um hinar sögurnar sem voru sárar og erfiðar, það má læra af flestum sögum en stundum situr maður eftir með hálfa sögu hræddari en maður var. Það er eins með erfiðu reynsluna og þá góðu, það má taka það sem höfðar til manns og muna að reynsla annarra er ekki endilega manns eigin. Stundum verður maður að slökkva á sjónvarpinu, hætta að gúgla og passa sig á að taka sögum með fyrirvara til að passa upp á sjálfan sig.

 

Það er gott að gera eitthvað á meðgöngu sem hjálpar manni að takast á við fæðinguna eins og að fara í meðgöngujóga eða stunda jóga/ slökun / núvitund. Eitthvað sem maður hefur æft fyrir fæðinguna og hjálpar manni að takast á við manns eigin huga í þeim aðstæðum sem maður er. Það að geta dregið athyglina inn, andað djúpt að sér og frá sér getur verið það hjálplegasta sem hægt er að gera í krefjandi aðstæðum. Það að kunna slökun gerir verkina sem fylgja fæðingu oftast bærilegri og viðráðanlegri og jafnvel styttri! Það er til allskonar slökun, jóga nidra, hypnobirthing, núvitund, mikilvægast að finna eitthvað sem hentar manni.

Námskeið og fræðsla hjálpa til við að sefa óttann, það getur verið gott að fara á fæðingarundirbúningsnámskeið með makanum og í kjölfarið ræða vel hvernig fæðingu maður sér fyrir sér, af hverju og hvernig maður getur helst nálgast það. Fæðingarundirbúningsnámskeið eiga að gefa manni verkfæri sem nýtast þegar í fæðinguna er komið.

Það getur verið gott að hafa einhvern með sér í fæðingunni sem styður þig og ykkur í gegnum allt ferlið, einhvern sem þið treystið.

Ótti sem fylgir fæðingu

Flest allar konur finna einhvern ótta, einhverja hræðslu bærast innra með sér þegar þær eiga von á barni. Óttinn getur verið léttvægur og bara svona flögrað að manni sem eitt lítið ,,ef” sem ekki stoppar í huga okkar en stundum er hræðslan við fæðingu óyfirstíganleg og svo mikil að hún hefur hamlandi áhrif á líf konunnar .  Undanfarin ár hefur verið talað um að ótti við fæðingar hafi aukist til muna og sagt að í raun hafi konur aldrei verið jafn hræddar við komandi fæðingar, sem sumum þykir skjóta skökku við nú þegar (amk á Íslandi) tölfræðileg fæðingarútkoma er mjög góð.


Ótti er í raun ekkert óeðlilegur og getur verið hjálplegur, ef hann er innan marka. Ótti getur ýtt okkur af stað í framkvæmdir sem eru nauðsynlegar eins og ákveða fæðingarstað og hafa hlutina klára fyrir fæðinguna. Verandi varkár erum við með verndareðlið vakandi og þannig sjáum við til þess að við leitum öryggis í fæðingu og gætum öryggis barnsins okkar. Það er eitthvað fallegt við það.

Þegar við eigum von á barni, berum við lífssöguna okkar inn í ferlið. Svo allt sem hefur mótað okkur og þroskað og er með okkur í daglegu lífi hefur líka áhrif á meðgönguna okkar og mótar sýn okkar á fæðinguna (og hvernig hún verður). Lífssöguóttinn okkar er því æði ólíkur frá einni konu til annarrar.

Hinsvegar deila konur sumum ótta. Til dæmis nefna flestar konur, hvaðan sem þær eru í heiminum, að þær hafi velt því fyrir sér hvort þær muni lifa fæðinguna af. Ég man eftir því að þessi hugsun hafi flögrað í gegnum huga minn á meðgöngunum mínum, ,,hvað ef ég dey?”. Ég man líka að hugsunin dvaldi ekki lengi með mér heldur eitt af mörgum atriðum sem fóru í gegnum huga minn.
Ég held að þetta sé mjög frumstæð tilfinning sem er grafin djúpt í bein okkar og frumur og við komumst ekki hjá því að leiða hugann að því hvað ef. Í sögulegu samhengi, í gegnum aldanna rás, hafa konur ekki getað gengið út frá því að lifa fæðinguna sína af. Mæðradauði var hluti af raunveruleika fólks og er mjög raunverulegur víða um heim ennþá. Við á Íslandi búum bara við þann munað að hann þekkist varla hér en tilfinningin situr með okkur. Því er svo gott að muna að ótti er bara tilfinning sem ekki þarf alltaf að trúa og við getum minnkað hann en líklega ekki látið hann hverfa.

Margar konur finna rétt undir lok fæðingar fyrir tilfinningu um að þær séu að deyja, muni ekki lifa fæðinguna af og það getur verið ansi uggvænlegt að upplifa það. Michel Odent, fæðingarlæknir sem nú er kominn á eftirlaun kallar þennan tíma eða þessa upplifun ,,fetus ejection reflex.” Það lýsir sér þannig að konan finnur skyndilega ótta hellast yfir sig og tjáir sig oft um hann með því að t.d. að öskra eða hrópa upp yfir sig að hún sé að deyja, geti ekki fætt barnið eða vilji deyja. Þegar reflexið kemur yfir konur á örstuttri, en eftirminnilegri stundu, er hormónaflæðið að aukast til muna, meðal annars adrenalín svo yfirleitt koma nokkrir sterkir og mjög öflugir samdrættir eftir þessi viðbrögð. Upp úr þessu viðbragði er sem konan komi aftur til sín full af orku og líklega hefur hún vilja og löngun til að rétta úr sér eða skipta um stellingu svo barnið eigi greiðari leið um fæðingarveginn. Rétt eins og þegar hlauparar sjá lokatakmarkið fá þeir aukakraft og geta gefið aðeins í.

Eðlilegur ótti er hluti af lífinu og þó við höfum tilhneigingu til að forðast flest sem er óþægilegt er betra að reyna að horfast í augu við hann. Oft er besta vopnið sem við höfum að greina óttann og gefa athygli. Því þannig náum við oft að beisla óttann og koma honum í farveg sem þarf eða getum skilið hann eftir fyrir það sem hann er. Tilfinning sem ekki þarf alltaf að bregðast við.

 

Algengur ótti fyrir fæðingu

Ég man þegar ég gekk með elstu stelpuna mína hvað það var margt sem vakt með mér ugg. Hugleiðingarnar voru allt frá því að vera léttvægar yfir í áhyggjur af stórslysi.

Svo í gegnum árin, í gegnum doulu-starfið og líka bara í gegnum kaffiboðsspjall er alveg ljóst að ég var ekkert ein. Það er margt sem við hræðumst þegar kemur að barnsfæðingu og kannski skiljanlega.  Fæðingar eru allskonar, oft erfiðar og átakanlegar (og stundum ósköp ljúfar og léttar) og það eru margar sögur þarna úti sem eru hálfsagðar sem hjálpa lítið í að kveða niður fæðingarótta.

Við deilum oft sama ótta, og það eru nokkur atriði sem koma fyrir aftur og aftur sem leitar á huga okkar og vekur með okkur ugg. Ég leitaði á náðir Facebook-kvenna og spurði þær hvað þær óttuðust helst og það lá ekki á svörum og hugsun mín var staðfest, við erum flestar að takast á við það sama og það er gott að finna styrk í því. Hér eru fimm algengustu atriðin sem vöktu ótta og smá hugleiðing með því.

 1. Ótti við að rifna.

Langflestar konur nefndu að þær óttuðust að rifna í fæðingu. Skiljanlega, tölfræðin segir okkur að um 80% kvenna rifni eitthvað í fæðingu en sem betur fer er ekki algengt að konur rifni mikið og illa eða í innan við 4% tilfella (auðvitað vill enginn tilheyra 4%!).
Er eitthvað hægt að gera í þessu?
Margir segja að spangarnudd á meðgöngu hjálpi til, geri spöngina mýkri og svo kynnast konur kynfærum sínum betur. Það er talið auka á rifur að vera á hækjum sér, með mænurótardeyfingu og það er hærri tíðni áverka eftir áhaldafæðingar. Stellingar sem eru betri fyrir spöngina eru taldar vera þegar kona er á fjórum fótum, liggjandi á hliðinni eða standandi. Vatnsfæðingar hjálpa líka til við að halda spönginni heilli.
Það er talið líklegra að konur rifni þegar þær liggja á bakinu (auk þess sem það minnkar rýmið í mjaðmagrindinni) en þannig er best fyrir ljósmóður að styðja við spöng kvenna og árið 2011 voru teknar upp vinnuleiðbeiningar um að styðja átti við spöng allra kvenna í fæðingum og alvarlegar rifur hafa minnkað eftir að þau vinnubrögð voru tekin upp.

2.) Ótti við að kúka í fæðingunni

Við erum vön að kúka í friði, í einrúmi og viljum helst ekki að neinn verði var við það. Kúkafíla er líka ekkert sem konur vilja flagga. Svo kemur að fæðingunni og við erum með makanum okkar og oft ókunnugu heilbrigðisstarfsfólki og eigum bara að láta eins og þetta sé ekkert mál. Að öllum sé bara sama. En þannig er það! Kúkur er bara hluti af fæðingu og í raun ekkert sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir hann. Hans hlutverk í fæðingum er þó stórlega blásið upp. Langoftast hefur líkaminn sett af stað smá hreinsunarferli fyrir fæðinguna til að búa til pláss og yfirleitt er ekkert mál að fara bara á klósettið í fæðingunni ef manni er mál. Kúkatilfinningin kemur oft yfir konur þegar þrýstingurinn frá barninu verður meiri og tilfinningin sem við þekkjum er að við þurfum að kúka en í raun þurfum við að fæða barn (við notum sömu vöðva til að koma barninu út og jú ef það er kúkur kemur hann með barninu).
Ljósmæður eru svo ótrúlega snöggar að fjarlæga allt sem kemur, svo maður verður eiginlega ekkert var við það og enginn í kringum mann og passa upp á reisn manns. Það verður engin kúkalykt því hún drekkist í fæðingarlyktinni góðu. Ef þetta hefur veruleg áhrif á mann verður maður að hafa kjarkinn til að tala um það við maka og t.d. biðja hann bara um að horfa framan í mann eða finna aðrar leiðir til að geta verið öruggur um að fæða með öllu sem því fylgir. Margir segja að vatnsfæðing sé þægileg í þessu tillliti.

3.) Spangarskurður

Tilhugsunin um að vera klippt er áhyggjuefni margra. Skiljanlega, það er enginn æstur í að láta klippa á sér spöngina. Spangarskurður var mikið algengari hér áður fyrr og rútína að kona væri klippt án þess að vera spurð.
Spangarskurður á nú til dags að vera gerður í fyrirbyggjandi tilgangi, t.d. þegar spöngin er svo stíf að hún gefur ekki eftir, flýta þarf fæðingu eða stytta rembingstíma, í axlarklemmu og svo til að fyrirbyggja alvarlega spangaráverka.
Tölfræðin segir okkur að árið 2013 var tíðni spangarskurða rúm 12% í fæðingum á landsspítalanum og hefur hækkað úr 8% frá 2011. Spangarskurður hefur hækkað í samræmi við nýju vinnubrögðin m. stuðning við spöng. Sú var amk raunin í Noregi að spangarskurðum fjölgaði um 7 % eftir að sömu vinnubrögð voru tekin upp.
Er eitthvað hægt að gera til að koma í veg fyrir að vera klipptur? Stundum en stundum ekki, sömu ráðleggingar fyrir leiðir til að koma í veg fyrir rifur á við hér og ef þú ert mikið með hugann við málefnið er gott að ræða það þegar komið er í fæðinguna og vera viss um að þú sért með í allri ákvarðanatöku sem tekin er varðandi líkama þinn.

4.) Ótti við inngrip á við gangsetningu eða áhaldafæðingu.

Hoppandi beint í tölfræðina þá var tíðni gagnsetninga á LSH árið 2013 um 26% og áhaldafæðingar tæp 10%. Ótti við gangsetningu eða önnur inngrip er mjög skiljanlegur og getur verið sprottinn af mörgum ástæðum og ein þeirra er eflaust að völdin eru tekin af manni. Stundum spyrja konur sig hvort að inngripin hafi verið nauðsynleg og efast um það og stundum er gripið inn í án sjáanlegrar ástæðu.
En hin hliðin á peningnum er að inngrip eru oft það besta sem er til í heiminum og við eigum þeim mikið að þakka. Fæðingarútkoma á Íslandi tölfræðilega er t.d. alveg til fyrirmyndar og ein sú besta í heimi.
Svo stundum má maður vera ósköp þakklátur fyrir inngrip.
Helsta vopnið er að vera upplýstur, með á nótunum og þora að spyrja spurninga svo maður sé þátttakandi í ákvörðunum sem teknar eru. Mikilvægt að spyrja og fá svör sem maður skilur.
Penny Simkin, konan sem ég lít æ svo mikið upp til, gerði lítil spjöld með spurningum fyrir fólk svo það gæti betur áttað sig á stöðunni í fæðingum. Hún tekur líka fram að stundum er ekki hægt að spyrja allra þessara spurninga og þá er auðvitað líklegt að málið sé brýnt eða um neyðartilfelli að ræða. En lauslega þýddar koma þær hér:

 •  Hvert er vandamálið? Af hverju er það vandamál og hversu alvarlegt er það? Hversu mikilvægt er að það verði meðhöndlað strax?
 • Viltu lýsa heildarferlinu fyrir mér ítarlega, hversu líklegt er að inngripið hafi jákvæð/ neikvæð áhrif og hverjar eru líkurnar á að málið verði leyst eftir þetta?
 • Ef þetta heppnast, hvað þá?
 • Kostir/ gallar?
 • Er eitthvað annað í stöðunni? (eins og að bíða og gera eitthvað)

5.) Ótti við keisara

Keisaratíðni á Íslandi hefur verið í kringum 14-15% undanfarin ár, sem er mjög lág tíðni keisara miðað við mörg önnur lönd og er á pari við það sem Alþjóðaheilbrigisstofnunin (WHO) mælir með. Tölfræðin segir þó að það eru 1-2 konur af hverjum 10 sem fara í keisara svo óttinn er alveg raunverulegur. Það á í raun það sama við um keisara og önnur inngrip. Keisarar eru líklega á pari við aðrar stórkostlegar uppfinningar eins og pensilin og bólusetningar og hafa gefið okkur hér á Íslandi þá vissu að við getum gengið inn í fæðingu og þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að lifa hana ekki af.
Besta leiðin til að minnka líkurnar á að fara í keisara er að vera vel undirbúinn og með góðan stuðning með sér í fæðinguna.

Að lokum

Ótti er hluti af fæðingu held ég, við hljótum að leiða hugann að flestum þeim aðstæðum sem gætu komið upp þegar við erum að fara út í eitthvað sem við höfum aldrei gert og getum svolítið illa undirbúið okkur  fyrir. Það er gott að skoða óttann sinn, horfast í augu við hann og sjá hvað maður geti gert til að sigrast á honum. Hella svo yfir sig slatta af æðruleysi og taka því sem kemur.

Samfelldur stuðningur við parið, það að hafa manneskju með sér í fæðingarferlið sem maður þekkir, treystir og þekkir mann og fæðingarferlið gerir líka ótrúlega mikið fyrir mann og minnkar líkur á inngripum og sefar óttann. Það að hafa einhvern með sér í fæðingu sem maður getur treyst er ekki töfralausn við ótta en gerir fæðingarminninguna betri og það er algerlega þess virði.

Ástarhormónið góða

Oxytocin er stórmerkilegt hormón sem kemur mikið við sögu í fæðingum. Það er oft nefnt ástarhormónið og eftir að ég sá að konur eru farnar að húðflúra það á sig eða vera með oxýtocin-hálsmen hefur mér fundist það pínu hæpað eins og þeir sletta á útlensku en það stendur algerlega fyrir sínu og gegnir veigamiklu hlutverki í fæðingu. Þess virði að gefa því góðan gaum, skilja það og virða.

Oxýtocin er svona kósý hormón, við finnum fyrir áhrifum af því þegar okkur líður vel, þegar við borðum mat, hlæjum, njótum ásta og þegar við upplifum okkur örugg. Þegar það seytir fram veitir það okkur vellíðan. Þegar við finnum fyrir óöryggi og hlutirnir ganga ekki vel þá seytir það minna eða jafnvel ekkert. Ástarhormónið er auðtruflað og Michel Odent segir það feimið. Oxýtocin spilar lykihlutverk í fæðingu en hagar sér á sama hátt frá degi til dags og í fæðingu, það flæðir fram í öruggu umhverfi en dregur úr virkni sinni við ótta og kvíða eða þegar adrenalínið flæðir um.
500px-Oxytocin.svg_-300x189

Oxýtocin, endorfín og adrenalín eru þrjú lykihormón í fæðingu og þó við vitum heilmargt um virkni þeirra þá erum við ekki komin með fullnaðarvitneskju um þau. Við vitum þó að viðtakar oxýtocins aukast á meðgöngu og mikið í fæðingu. Í fæðingu örvar oxýtoxin hríðar sem leiðir svo af sér að leghálsinn opnast og mýkist, sem svo kemur barninu í gegnum fæðingarveginn og losar fylgjuna frá. Oxýtocin minnkar blæðinguna eftir fæðingu og kona í ótruflaðri fæðingu losar aldrei meira magni af oxýtocin um ævina en rétt eftir að hún hefur alið barn. Magnað! Þetta útskýrir ofurkonusvipinn á mörgum konum rétt eftir fæðingu, þær eru í oxytocin vímu.

Það er margt sem getur truflað oxýtocinið t.d. bælir adrenalín niður oxýtocin. Við losum adrenalín þegar við erum hrædd, kvíðin oglíka þegar okkur er kalt. Adrenalín er svo öflugt að það getur haft þau áhrif að fæðing verður mjög löng og sársaukafull og adrenalin getur haft þau áhrif að fæðingin stoppar með öllu.

Við skiljum þessa tengingu oft þegar við hugsum til spendýra fæða afkvæmi sín. Þau finna dimman stað þar sem þau geta verið í friði. Ég var ekki mjög gömul þegar ég var skömmuð fyrir að leita að kettinum í kringum got, enda vissu allir að læðan þurfti að vera í friði og þess var gætt að svo yrði. Mér finnst líka eins og það sé altalað að hryssur kasti ekki nema einar og þær eru mjög næmar á að verið sé að fylgjast með sér. Hryssur eiga það líka til að stoppa kast ef þeim er ógnað eða ef þær fælast og bíða þar til þær upplifa sig óhultar aftur.  Við manneskjurnar erum jú spendýr og alls ekkert ólík þessum dýrum sem ég nefni þegar kemur að fæðingu. Við verðum að upplifa öryggi.

dream-away-1528495

Margar konur upplifa að þeirra öruggi staður sé spítalinn þar sem þær finni öryggið en þegar þær mæta svo upp á spítala í fæðingu finna þær að líkaminn bregst við, hríðarnar detta niður og það hægir á öllu ferlinu. Þetta þekkja ljósmæður vel og taka sem betur fer oftast tillit til þess. Spítalaumhverfið örvar líka oft adrenalínið og hægir þar af leiðandi á oxýtoxininu. Umhverfið sem fylgir spítölum svo sem skært ljós, spurningaflóð, klukkuhljóð, hljóð í mónitor, hljóð frá rúminu og fleira getur allt dempað oxýtoxinið mikið og þannig gert fæðinguna lengri.

Michel Odent, fæðingarlæknir, hefur verið óþreytandi í að benda á að til þess að oxýtoxinið streymi um okkur í fæðingu verðum við að skapa aðstæður þar sem við erum afslöppuð, róleg og örugg. Þetta þýðir að kjöraðstæður er staður þar sem við erum örugg og getum slökkt á heilanum í okkur (neo-cortexinu) s.s. þurfum ekki að svara spurningum, spjalla, spá í útvíkkun eða annað álíka áreiti. Með því að slökkva á neo-cortexinu þá getur kona farið á fullt inn í fæðinguna sína, oxýtoxinið flæðir fram og gerir sitt.

Jafnframt er mikilvægt að vera í umhverfi þar sem barnsfæðandi kona hefur það ekki á tilfinningunni að verið sé að fylgjast með henni eða vakta hana. Það getur verið áhrif frá utanaðkomandi aðilum en tölvur, myndavélar og símar hafa sömu áhrif og geta haft truflandi áhrif. Upplifi kona að verið sé að fylgjast með henni kveikir hún á sér og þannig hægist á ferlinu.

Þá skiptir máli að staðurinn sé dimmur og engin skær ljós til staðar, dregið fyrir, kveikt á kertum eða dempuð birta hjálpar til við að örva oxýtocinið. Þá verður staðurinn að vera hlýr, mikilvægt að hafa herbergið heitt og jafnvel hitara í gangi (kerti eða kamínu ef það má kveikja á svoleiðis) og jafnvel heitt vatn á réttum tíma getur allt lagt sitt af mörgum til að örva oxýtocinið.

Síðasti liðurinn en ekki sá sísti er að halda verður adrenalíni í lágmarki. Adrenalín er annað mjög merkilegt hormón og ekki síst fyrir þær sakir að það er smitandi (rétt eins og oxýtocin). Ef manneskja er stressuð, kvíðin og hrædd í fæðingu getur hún auðveldlega smitað aðra og ósjálfrátt líður fólki í fæðingarrýminu eins. Því er mikilvægt fyrir þá sem eru viðstaddir fæðingu að vera rólegir og ef ekki, taka á öllu sínu til að róa sig niður og í einhverjum tilfellum mælir Michel Odent hreinlega með því að fólk sem er stressað og gefur frá sér adrenalín yfirgefi herbergið, fái sér göngutúr og komi til baka þegar það hefur náð að róa sig.  

Kannski hljómar það eins og það sé alls ekki hægt að vinna með þessi atriði í venjulegri fæðingu sem fer fram á spítala en það er auðveldara en maður heldur. Maður getur passað upp á að manni sé hlýtt allan tímann og beðið um að hafa ljósin slökkt og dregið fyrir. Ef hlusta þarf á hjartsláttinn að ekki sé kveikt á hljóðinu í mónitornum og lítið sé talað við mann. Svo getur viðvera doulu eða stuðningsaðila sem þekkir fæðingar hjálpað parinu mikið með rólegri nærveru og þannig viðhaldið eðlilegu flæði oxýtocins.

candles-2-1189399-640x480

Fyrir þá sem vilja kynna sér oxýtocin meira má benda á heimasíðu Michels Odent http://www.wombecology.com  

 

Stuðningur í fæðingu

Stundum þegar ég hef verið að aðstoða fólk við að undirbúa sig fyrir komu barns í heiminn hef ég spurt pabbann/makann hvernig hann sjái fyrir sér að styðja konuna sína í gegnum fæðinguna. Sjaldnast stendur á svari ,,ég ætla bara að gera mitt besta, gera það sem hún biður mig um og vera til staðar“.

Það er nefnilega heilmargt sem stuðningsaðilinn getur gert til að létta undir í fæðingunni.

Mikilvægur en vanmetinn eða vanræktur stuðningur felst í því að vera sjálfur í lagi, vera búinn að borða vel undanfarna daga og hvíla sig. Fæðing er oftast hörkupúl sem getur verið mjög löng og krafist þess að maður geri allskonar, það er mikið betra fyrir mann sjálfan og alla í kring að vera upplagður.

Það er gott að vera með á nótunum, hafa spjallað vel um komandi fæðingu og hvernig þið sjáið hana fyrir ykkur. Hvar ætlið þið að fæða? Hvenær er stefnan tekin á að fara þangað? Afhverju? Hvað ætlið þið að gera í biðtímanum? En þegar allt er komið á fullt? En ef það er eitthvað óvænt, hvað þá? Hvert er plan A? En plan B? Hvað viljið þið gera ef plan C hoppar til ykkar? Við hvað eruð þið hrædd og af hverju? Hvernig ætlið þið að tækla það ef sú staða kemur upp? Viðhorf til verkjastillingar, hvert er það? Eruð þið með svipað tollerans í því? Ef þið eruð búin að ræða málin vel getið þið betur tekist á við aðstæður sem koma upp.

Fæðingarundirbúningur er líka mikilvægur, það er gott að þekkja fæðingarferlið, upphaf, einkenni, hvað er eðlilegt og við hverju þarf að bregðast. Hvað er gott að gera í hverjum aðstæðum og hafa reynt og prófað það sem líklega kemur upp. Mikið betra að hafa kynnt sér það í tíma frekar en að panikka á ögurstundu.
Að sama skapi er gott að hafa tileinkað sér ákveðna öndunartækni sem róar mann og nýtist í fæðingunni, fyrir mann sjálfan og svo konuna sem maður styður. Einfaldasta formið er að anda þrisvar djúpt að sér andanum og anda frá rólega og skoða með opnum huga hvaða áhrif það hefur á líkamann.

Þá getur verið gott að vera búinn að kynna sér eitthvað um nudd í fæðingu, það eru ákveðin svæði á baki og mjöðmum sem mörgum konum finnst gott að láta nudda eða þrýsta á í fæðingu, maður fær oft auka stig í kladdann með því að vita hvar er gott að fá nudd og strokur. Flestar konur vilja léttara nudd í upphafi fæðingar og svo þéttara eftir því sem líður á fæðinguna.

Einlægt hrós er alltaf hvetjandi og það getur verið gott að vera búinn að setja smá hugsun í hvaða orð hvetja konuna áfram, hvaða hrós hittir hana í hjartastað og eflir og hvetur. Hvaða orð notar hún sjálf til að hvetja sig áfram? Ekki vera spar á hrósið, það kemur mann nær lokamarkmiðinu.

Vertu til staðar í augnablikinu og veittu því athygli sem er að gerast. Sjúklega erfitt, sérstaklega þegar aðstæður eru pínu erfiðar en það margborgar sig. Skoðaðu með opnum huga hvað er að gerast, hvert er hún að horfa? Er endurtekning í ferlinu hjá henni? Nær hún að slaka á og sóna út á milli hríða? Veittu því athygli hvort það hljómi allt eins og það sé í himnalagi eða er verið að gefa eitthvað annað til kynna?

Ekki tala meðan á samdrætti stendur, betra að tala á milli og ef eitthvað er óljóst er yfirleitt betra að spyrja beinna spurninga sem auðvelt er að svara með jái eða nei-i. ,,Viltu vatn?“ er þægilegri spurning en ,,hvað viltu drekka?“. Fyrri spurningin býður upp á já/nei svar og svo er líka hægt að kinka kolli eða hrista höfuðið eftir því sem við á.

Vertu vakandi fyrir bendingum, stundum geta konur ekki talað eða vilja ekki segja neitt og
þá er gott að geta bent með höfðinu eða fingrunum í áttina að því sem mann vanhagar um eða truflar mann.

Forðastu allar leiðbeiningar um andardrátt nema vera handviss um að það sé viðeigandi ,,anda inn- anda út“ getur verið mjög ruglandi og manns eigin andardráttur ekki í takt við öndun konunnar eða í samræmi við líðan hennar. Ef maður er ekki viss um að andardráttur konunnar sé eins og hún myndi kjósa reynist vel að stilla sig inn á hana og leiðbeina með útöndun, hvetja til að anda rólega frá sér og anda alveg frá sér frekar en að spá í hvernig innöndunin er.

Vertu þolinmóður eins og þú getur. Fæðing tekur oft langan tíma, venjuleg fæðing yrði aldrei sýnd í sjónvarpi í rauntíma því hún er langdregin og getur dregist og dregist. Vertu þolinmóður og haltu í jákvæðnina og bjartsýnina. Áður en þið vitið af er litla krílið komið í fangið til ykkar.

 

 

 

Rebozo í fæðingu

Fljótlega eftir að ég byrjaði að starfa sem doula tók ég ástfóstri við rebozo, ég fer helst ekki í fæðingu án þess að hafa það með í töskunni. Stundum er það þar ósnert en oft tek ég það upp og það hefur margsannað gildi sitt. Það getur róað, nuddað og flýtt fæðingarferlinu. Ekki það, ég hef jafnoft ekki tekið það upp úr töskunni minni og stundum hreinlega gleymt því heima. Rebozo er dásamlegt þegar það á við.
Ég tók saman nokkur myndbönd sem sýna ágætlega hvernig er hægt að nota rebozo í fæðingu.

Hér er stutt myndband um hvernig rebozo getur stutt við mjaðmir á meðgöngu og í fæðingu.

Þá er hér myndband um hvernig er hægt að nota rebozo í spítalarúminu

Hér er svo myndband af Naoli Vinaver sem er mikill frumkvöðull í að kynna rebozo,

 

 

Kona gleymir ekki fæðingunni sinni

Fæðingarreynslan er minning sem dvelur með okkur konum alla ævi og það er alveg ótrúlegt hvað hún er fersk í minninu alla ævi. Kannski má segja að fæðingarminningin sé sú minning sem hafi hvað mest áhrif á konur.

Konur muna fæðinguna sína yfirleitt í nokkrum smáatriðum og þó tíminn líði verður hún ljóslifandi um leið og talið berst að henni.

Það kemur kannski ekki á óvart en það sem konur muna helst er hvernig hugsað var um þær í fæðingunni og hvernig þeim leið með fólkinu í kringum sig. Konur muna betur hverjir voru í kringum þær og hvaða áhrif það hafði á líðan þeirra en nákvæmlega hvernig fæðingarútkoman var, hvort fæðingin hafi verið skráð sem góð, hröð, venjuleg eða eitthvað annað.

Þetta virðist eiga jafnt við aðstandendur og fagfólk. Konur muna hvernig var komið fram við þær, augnsambandið, hvort viðkomandi hafði áhuga á þeim eða ekki, andardráttinn og nærveruna, stök orð og umhyggju. Muna hvort hlustað var á þær, þeim hjálpað og þær studdar í gegnum ferlið. Hvort þær voru virtar og komið fram við þær af virðingu.

Konur muna líka yfirleitt hvaða tilfinning var innra með þeim í ferlinu og hvort þær upplifðu sig við stjórnvölinn eða ekki. Þessi tilfinning, að upplifa sig við stjórn og upplifa virðingu, er ein sterkasta minningin sem situr eftir með konum eftir fæðingu.

Konur sem upplifa gott teymi í kringum sig, þar sem þær eru studdar, efldar, hvattar áfram og á þær hlustað og þær virtar upplifa sig öflugri og sterkari á eftir. Konur sem hafa upplifað þennan stuðning tala oft um að þeim líði eins og þær geti allt, að þær séu einstakar og getumiklar og það þarf ekki að hafa mörg orð um það hve mikilvægt veganesti sú tilfinning er út í lífið.

Það er gott fyrir barnshafandi konu að hafa þetta í huga, að fæðingarreynslan sé minning sem kona man og velta því fyrir sér hvernig best sé hægt að vernda fæðingarminninguna, pæla í því hvað skipti sig máli, hverjir eiga að vera með í fæðingunn og hvar konunni líður best.

Efst í huga okkar sem komum að fæðingum ætti alltaf að vera ,,hvernig mun hún muna eftir þessum degi?”

Nokkur bjargráð í gegnum fæðingu

Öndun

 • leggja áherslu á útöndun
 • helmingi lengri útöndun en innöndun
 • dæs og stunur
 • horselips

Endurtekin hreyfing

 • standandi rugg, vanga, húlla með mjöðmunum
 • endurtekning sem skapar hrynjandi
 • ganga

Þrýstingur

 • styðja við axlir, ýta létt niður
 • snerta kjálka
 • þétt snerting
 • lyfta, hendur undir maga

Nudd

 • þrýstipunktar: ennispunktur, milli þumals og vísifingurs, tvo þumla fyrir ofan öxlabein
 • handanudd: brjóta kitkat
 • fótanudd: brjóta kitkat, kreista hæl og halda utan um fætur
 • bak: krossa yfir við mjaðma mittissvæði
 • bak: pálmatréð, stór og falleg laufblöð

Fyrir bakið

 • rúlla bakið
 • vatn á bakið
 • vera á fjórum fótum
 • þrýstingur á spjaldið
 • double hip squeeze
 • dhs með félaga
 • rebozo
 • The lunge

Hugaræfingar

 • telja
 • leidd slökun
 • sjálfstal, möntrur, staðhæfingar

Heitur /kaldur bakstur

 • á neðra bakið
 • á spöngina í / eftir fæðingunni

Áttu smá tíma aflögu?

Fátt ef nokkuð, jafnast á við að vera heima með nýjan fjölskyldumeðlim. Nýtt líf, nýir tímar, ný og óþekkt framtíð. Dásamlegt alveg.

Það kemur hinsvegar mörgum á óvart hve annasamir fyrstu dagarnir og vikurnar eru eftir að barnið er komið í heiminn. Álagið er síst minna þegar börnin eru fleiri en eitt. Það þarf að sinna börnunum, ganga frá, þvo og búa um rúmin.

Þetta er líka yfirleitt tíminn sem flestir eru boðnir og búnir að vera manni innan handar og aðstoða og oftar en ekki segir maður pent nei takk, vill ekki valda öðrum ónæði en stendur svo á haus sjálfur. Maður kann ekki við það að þiggja aðstoð, vill ekki viðurkenna fyrir sér eða öðrum að maður eigi fullt í fangi með nýja hlutverkið eða áttar sig ekki á því.

Þessar áhyggjur eru ástæðulausar, eins og áður segir flestir vilja allt fyrir mann gera. Í allra allra versta falli kemur eitt lítið því miður og það er varla endalok heimsins, maður snýr sér þá bara til næsta.

Svo í staðinn fyrir að afþakka boðna aðstoð hvernig væri að segja já takk eða senda vinum og ættingjum lítið óskabréf þar sem fram kemur hvað það geti gert fyrir mann. Hér eru nokkrar hugmyndir.

 • Viltu elda eitthvað gott og hollt fyrir okkur og skilja eftir hjá okkur. Þú þarft alls ekki að stoppa. Lasagne, ferskt pasta, kjúklingaréttur eða súpa kemur vel til greina.
 • Viltu skera niður ferska ávexti og færa okkur.
 • Þú mátt gjarnan kaupa það allra algengasta sem vantar á heimilið og skilja eftir við hurðina hjá okkur. Mjólk, safi, brauð og ávextir.
 • Þú mátt gjarnan kíkja við og setja í þvottavél og brjóta saman þvottinn sem er enn í körfunni. Það væri einnig vel þegið ef þú getur sópað á leiðinni út.
 • Endilega skiptu um á rúmunum og settu í vél. Þú mátt gjarnan skúra á leiðinni út.
 • Hvernig hljómar skemmtiferð með eldri börnunum? Kíkið í Öskjuhlíðina, húsdýragarðinn, í leikhús eða niður á tjörn. Endilega gefðu þeim hollan mat meðan þið eruð í burtu.
 • Endilega taktu til í ísskápnum og ekki spyrja mig út í hvað ég vilji eiga og hvað ekki. Ég treysti þér.
 • Viltu bjóða mér fótanudd og sendu manninn minn út að hitta félagana í smá stund, endilega haltu á nýja barninu meðan ég skýst í sturtu.
 • Ef þig langar í kaffi eða te, helltu upp á sjálf og færðu mér bolla.
 • Taktu ruslið með þér á leiðinni út og settu nýjan poka í.
 • Endilega gefðu mér gjafabréf upp á heimilisaðstoð þína t.d. andvirði 4 klukkustunda í tiltekt eða andvirði þriggja símtala
 • Ef þú hefur eitthvað sérstakt í huga sem þú vilt gera fyrir mig, ekki vera feimin við að nefna það. Ég segi í versta falli nei, en ef það er til þess gert að létta okkur lífið þiggjum við það að öllum líkindum.

Það munar svo ótrúlegu að fá aðstoð frá sínum nánustu á þessum magnaða tíma. Um að gera að nýta sér það. Ef maður er feiminn við að nefna það er hægt að segja feimnislega … ég sá svolítið sniðuga grein á hondihond.is sem heitir áttu smá tíma aflögu…

Undirbúningur skiptir máli

Stundum heyrir maður því fleygt að réttast sé að undirbúa sig ekki of mikið fyrir fæðingu og gera sér ekki of miklar vonir um útkomuna, því maður verður svo svekktur ef hlutirnir fara svo á annan veg.

Þetta hlýtur að vera sagt í góðri trú og til að vernda barnshafandi konur en sannleikurinn er samt sá að það margborgar sig að undirbúa sig vel fyrir fæðingu á allan hátt og því betur sem kona er undirbúin fyrir fæðingu því meiri líkur eru á að fæðingin fari á þá leið sem hún kýs. Það á við um allar fæðingar.

Góður undirbúningur er ekki trygging fyrir því að allt fari samkvæmt áætlun en maður hefur aukið líkurnar til muna. Liður í undirbúningi er líka að taka með sér æðruleysið og taka því sem að höndum ber.

Fæðing er nefnilega einn stærsti viðburður í lífi konu, ef ekki sá stærsti og það er alveg sama hvernig sú lífsreynsla verður, hún kemur til með að dvelja í huga konunnar lengi, ef ekki alla ævi. Fari allt vel man kona það og fari hlutirnir illa man kona það líka.

Kona sem fer vel undirbúin í sína fæðingu er betur í stakk búin til þess að vinna úr sinni reynslu t.d. ef fæðingin verður henni erfið. Af hverju?  Jú hún er nefnilega undirbúin, og yfirleitt þegar maður er undirbúinn er maður líka búinn að skoða ,hvað ef“-ið sitt ef hlutirnir fara ekki eins og maður leggur upp með.

Fæðing er stórviðburður, henni er oft líkt við maraþon eða fjallgöngu. Það er ágæt samlíking þó hún hafi svo sem sínar takmarkanir líka.

Þegar maður hittir einhvern sem ætlar í fjallgöngu þá er hinsvegar allt annað viðhorf til undirbúnings. Þá er talað um mikilvægi þess að vera vel undirbúinn, líkamlega sem og andlega. Fjallganga er þrekraun sem reynir á líkama og sál og allir vita að ef þú leggur af stað vanbúinn getur farið illa.

Hvernig fer í fjallgöngunni er að miklu leiti undir undirbúningnum komið. Það er ekki trygging fyrir því að allt fari vel en eykur líkurnar til muna. Liður í undirbúningnum er að vera í góðu líkamlegu formi, lesa sér til um fjallið og aðstæður, tala við fólk með reynslu af svæðinu, umkringja sig fólki sem hefur áhuga á því sem maður tekur sér fyrir hendur og góður aðbúnaður.

Engum heilvita manni dettur í hug að segja við fjallgöngumann ,,Ekki undirbúa þig of mikið. Þú verður svo hrikalega svekktur ef þú fótbrotnar á leiðinni upp og kemst ekki á toppinn einn þíns liðs. Tala nú ekki um svekkelsið ef þú þarft hjálp á miðri leið”.

Það vita allir að ef eitthvað kemur upp á í fjallgöngu að það eru ofboðsleg vonbrigði sem getur tekið langan tíma að jafna sig á. Vel undirbúinn fjallgöngumaður er hinsvegar fljótari að jafna sig á vonbrigðunum, því hann var undirbúinn og áttar sig á því að hann hafði gert allt sem í sínu valdi var og svo fór sem fór.

En hér gildir sama lögmál, góður undirbúningur eykur líkurnar á góðri útkomu en auðvitað er ekki hægt að ganga að útkomunni. Því er um að gera að sökkva sér í bókalestur, umvefja sig jákvæðum fæðingarsögum, sækja slökun og fara á mörg námskeið og njóta þess að vera að undirbúa stærsta viðburð lífsins.

Muna svo eftir æðruleysinu og að það er í góðu lagi að skipta um áætlun þegar stóra stundin rennur upp.

Viðbrögð við erfiðri fæðingu

Fæðing er líklega ein stærsta stund í lífi konu og upplifunin dvelur með okkur lengi. Þær eru líka allskonar og sitja mislengi í okkur. Flestar erum við þannig að við viljum tala um og deila reynslu okkar en það getur verið erfitt að tala um erfiða fæðingarreynslu því viðbrögðin eru svo misjöfn. Eftir erfiða fæðingu eru konur, vinir og ættingjar stundum eins og í lausu lofti, vita ekki alveg hvernig þeir eiga að vera eða ekki vera.

Ef fæðingin er átakamikil reyna velmeinandi ættingjar og vinir og jafnvel heilbrigðisstarfsmenn að hughreysta konu en vita ekki alveg hvernig þeir eiga að koma orðum að því. Orðasambönd og klisjur sem eru endurteknar ef kona reynir að ræða reynslu sína, stundum af góðum hug en oft líka til að þagga niður í óþægilegri umræðu.

Það tekur mismikið á en það getur verið íþyngjandi að hlusta á hughreystandi orð en upplifa alls enga huggun við að heyra þau.

Mikilvægt er að reyna að muna að hver og einn upplifir sína fæðingu á sinn hátt og hvernig aðrir upplifðu sína fæðingu hefur ekkert að gera með okkar reynslu. Gott að geta samglaðst en það er ekki alltaf hægt að samsama sig reynslunni.

Huggunarorðin eru oft á þá leið;

Þú kemur til með að gleyma sársaukanum!
Jú, það er oft rétt að margar konur gleyma sársaukanum en það er mikið frekar ef kona hefur átt venjulega fæðingu. Konur sem hafa upplifað fæðingartrauma muna einmitt eftir sársaukanum og endurupplifa hann jafnvel aftur og aftur og aftur jafnvel svo mikið að þær geta ekki hugsað sér að eignast annað barn.
Vissulega dofnar tilfinningin með tímanum, svona rétt eins og ef kona getur hugsað til baka og munað eftir sársauka sem fylgdi handleggsbroti að þá dofnar tilfinningin með tímanum.

Það eina sem skiptir máli er að þú eignaðist heilbrigt barn.
Enn á ný, jú það er mjög ánægjulegt og mikilvægt að eignast heilbrigt barn en það er alls ekki það eina sem skiptir máli.
Þó barnið sé heilbrigt er það ekki sama sem merki þess að konu líði vel, að hún og hennar upplifun skipti ekki neinu máli og það sé óþarfi að huga að henni bara því barnið er heilbrigt.
Það skiptir miklu máli að barnið sé heilbrigt og það skiptir líka miklu máli hvernig kona upplifði fæðinguna og sjálfa sig og það skiptir máli að gefa sér tíma í að syrgja upplifunina og takast á við þær tilfinningar sem koma. Móðir og barn skipta máli, upplifun og útkoma geta verið jafnmikilvæg.

Reyndu bara að gleyma þessu.
Það er erfitt, ef ekki ógjörningur, að láta sem viðburður á við barnsfæðingu hafi ekki gerst. Svo ekki sé sagt að þegar hann er erfiður og átakanlegur. Það eru allar líkur á því að kona sem hefur upplifað erfiða fæðingu hugsi mikið um fæðinguna sína, fái óþægileg flashback og endurupplifi atvik úr fæðingunni, jafnvel svo að hún nær ekki að hvílast eða slaka á.
Þegar brugðist er við á þann hátt að konur eru hvattar til að gleyma atburðinum er í raun verið að biðja hana um að tala ekki um upplifunina, hún kemur varla til með að gleyma honum svo glatt.

Þú ættir að hafa …(fyllið sjálf í eyðurnar- gert eitthvað annað) fætt heima, fengið verkjastillingu/ ekki fengið verkjastillingu, fætt í Reykjavík/Akranesi, farið í sund. Þú hefðir átt að ….

Það getur vel verið að ef ef ef ef hefði virkað og einhver annar hefði getað komið með betri fæðingu sem hefði ekki leitt til þess að niðurstaðan var sú sem hún var eða tilfinningin sem eftir er væri önnur.
Það er hinsvegar þannig að það er alveg sama hve mikið kona fær að heyra um allt sem hún hefði getað gert eða hugsar um allt sem hún hefði getað gert eða ekki gert það breytir ekki orðnum hlut og það breytir ekki tilfinningunni sem situr eftir og í öllu falli mjög ólíklegt að konu líði betur af því að fá gagnrýni eða ráð um hvernig hún hefði getað tæklað aðstæður betur.
Aðstæður eru oft á þann veg akkúrat þegar kona er að takast á við þær að það er ekki hægt að fá það sem maður vildi helst eftir á. Með því að sættast við það þokast kona aðeins áfram í sáttaferlinu. Það er að sjálfsögðu hægt að nýta fyrri reynslu til að hjálpa manni í að taka ákvarðanir fyrir framtíðina en fortíðinni breytir maður ekki.

Þegar kona segir frá fæðingarreynslu sinni ætti maður ekki að reyna að breyta upplifun hennar eða gera lítið úr henni heldur bara hlusta og fá að heyra hvernig hún upplifði akkúrat þessa stóru stund og þannig kannski hjálpa pínulítið til við að plástra sárið á sálinni.

Streituröskun í kjölfar erfiðrar fæðingar er nefnilega mjög eðlileg, hún er eðlileg viðbrögð við óeðlilegum og erfiðum aðstæðum.

!