Hvernig Rebozo?

Líklega er Rebozo orðið nokkuð þekktara en það var. Rebozo er einfaldlega sjal sem má not á ólíka vegu og ég hef mest notað það sjálf til að bera eigin börn og nudda í fæðingu. Það er auðvelt að nota það til slökunar og nudds fyrir hvern sem er sem og á meðgöngu.

Það er betra að vanda til verka þegar keypt er Rebozo, svo það nýtist vel og virki eins og það á að virka. Fyrsta „rebozoið“ mitt var samt pasmína úr Tiger og dugði fyrst um sinn svo maður þarf heldur ekki að vera hræddur við að prófa sig áfram.

Rebozo-ið ætti að vera að minnsta kosti 2 metra langt, en ekki lengra en þrír metrar. Mér hefur fundist best að nota sjöl sem eru 2,6- 2.85 metrar á lengd. Þannig er það nógu langt til að nota í allt nudd og svo til að bera barn en ekki það langt að efnið þvælist fyrir. Ef nota á rebozo-sjalið í nudd og fæðingar er hægt að sjá hvort lengdin sé hentug með því að vefja sitthvorum enda sjalsins um hendurnar á sér og láta það slaka niður á gólf svo manneskja gæti legið í því. Ef það er hægt er sjalið nógu langt og smá aukalengd í lagi. Í raun eru sjöl sem eru lengri en þrír metrar mikið hentugri sem burðarsjöl.

Efnið verður að vera velofið, yfirleitt hentar bómull best en vel ofin ull hentar líka vel. Sjalið þarf að vera passlega þykkt svo það gefi sig ekki, helst án uppbrots við endana (getur meitt). Þegar sjalið er teygt beint á það ekki að gefa eftir en ef það er teygt á endana ætti það að gefa eftir lítillega – ca hálfan sentimetra. Almennt henta gerviefni ekki og hefðbundið silki er of sleipt. Velofið, þykkt hrásilki getur gengið upp.

Góð bómullarsjöl batna með notkun, svo með því að handfjalta sjalið mikið, nota það vel verður það mýkra og skemmtilegra í notkun. Þegar þvo á sjal er best að þvo það sér í þvottavél með litlu þvottaefni og strauja það á góðum hita eftir þvott.

Einkenni góðs parasambands

Í góðu sambandi er mikilvægt að finna að maður tilheyri maka sínum og skipti hann máli. Þessi grunnþörf að elska og vera elskaður, geta þegið og gefið. Í langtímasambandi er mikilvægt að byggja sambandið á vináttu þar sem traust ríkir og báðir aðilar eru ábyrgir fyrir þeirri uppbyggingu. Vinátta felur í sér að hlusta í gleði og sorg, vináttan felur í sér að taka makanum eins og hann er og vera áhugasamur og vakandi fyrir því sem hann er að segja. Í parasambandinu er mikilvægt að geta lesið hinn aðilann og viðurkennt hann og séð hann fyrir það sem hann er. Parið verður að geta viðurkennt hvort annað án þess að gera kröfu um að það deili sömu skoðunum og tilfinningum.

Við það að eignast barn stendur parasambandið oft á tímamótum, framundan er nýr og spennandi tími í lífi fólks og að mörgu að hyggja. Flestir vilja hlúa að og rækta parasambandið sitt á þessum tíma. Nokkuð hefur verið skoðað hvað einkennir gott samband, slíkar upplýsingar fást meðal annars með því að tala við pör um upplifun þeirra og greina reynslu þeirra.  

Bandaríski hjónabandsráðgjafinn John Gottman bendir á að traust byggist hægt og rólega upp og er lykilþáttur í hjónaböndum. Þetta benda fleiri rannsóknir á. Traust er grunnþáttur í öllum samfélögum og veitir öryggiskennd og vellíðan. Traust er að vera meðvitaður um líðan makans, vilja snúa sér að honum tilfinningalega, reyna að skilja hann og geta brugðist við í samhygð. Traust er ekki síður mikilvægt í vanmætti, maður verður að geta sýnt viðkvæmar hliðar og treyst makanum fyrir þeim. Traust er tvíhliða sem báðir aðilar eru ábyrgir fyrir.

Gagnkvæm virðing einkennir gott samband og hana er hægt að tjá á ýmsan máta. Virðing er að njóta félagsskapar makans, þekkja hann og viðurkenna með kostum og kynjum. Þekkja vonir hans og drauma, gleði og sorg. Virðing er að láta sig maka sinn varða, hlusta á hann og það sem hann hefur að segja sem og að reyna að skilja hann, ekki í hvunndeginum. Hlusta til að skilja ekki til að fá orðið.

Stuðningur og umhyggja er þýðingarmikill fyrir sambandið þar sem parið er næmt á þarfir hvors annars. Stuðningur er að sýna í verki að maður er vakandi fyrir því sem þarf að gera eða segja og vilja liðsinna maka sínum. Stuðningurinn skiptir miklu máli þegar reynir á. Hann felur í sér meira en að sýna samúð, hann felst í því að taka að sér aukin verkefni og skuldbindingar þegar makinn þarf að jafna sig. Stuðningur og umhyggja er að setja sig í spor makans og hafa löngun til að hlífa honum á erfiðri stundu. Stuðningur og umhyggja gerir hversdaginn þægilegri og sambandið nánara. Með stuðning og umhyggju að leiðarljósi er líklegra að hægt sé að ræða málin þegar á reynir og finna farsælan endi eða lausn á verkefnunum sem parið stendur frammi fyrir.

Gleði, húmor og að horfa í smáu augnablikin skiptir máli í samskiptum parsins. Að geta séð hið jákvæða og glaðst yfir því smáa. Finna stund til þess að njóta og upplifa saman styrkir sambandið. Grínið má þó ekki yfirtaka samskiptamáta parsins þannig að öllu sé slegið upp í grín.

Ekki er sjálfgefið að samband gangi og sjaldnast tilviljun að gott samband er gott. Atriðin sem hér hafa verið nefnd, vinátta, traust, virðing og gleði eru burðarliðir í góðu sambandi og byggja grunn undir sambandið svo það geti þroskast áfram og þróast. Með þessa burðarliði getur par gengið í gegnum tímabil og tímaskeið með sínum sérkennum og tekist á við verkefnin sem upp koma.  

Þegar tveir verða þrír- parasambandið

Ótal margt breytist við komu lítils barns inn á heimilið og parasambandið tekur nýja stefnu.  Í amstri dagsins taka við bleiuskipti, matargjafir og oft svefnlausar nætur.  Þá er ótalið aukinn þvottur, oft fjárhagsáhyggjur og oft breytt líkamsímynd. Minni tími fyrir hvort annað og parasambandið.  Sumir taka lítið eftir breytingunum meðan aðrir sakna nándarinnar frá makanum.   Það er alveg eðliegt að fókusinn breytist tímabundið og í raun nauðsynlegt að við getum lagt okkar þarfir aðeins til hliðar og annast lítið barn.  Það þýðir þó ekki að maður þurfi alveg að gleyma sér og makanum þó að sambandið breytist.

Með því að muna að setjast niður og spjalla saman helst tengingin. Tala um daginn ykkar, daginn ykkar saman og svo hvernig hann var þegar þið voruð ekki saman. Snúa sér að hvort öðru og sýna áhuga og athygli. Þannig nær maður að halda sér inni í málunum hjá makanum og deila því sem maður er sjálfur að upplifa. Það er mjög mikilvægt að tala um barnið, umönnun þess og foreldrahlutverkið en ekki síður mikilvægt að tala alls ekki um það og reyna að gleyma sér í spjalli um eitthvað sem manni finnst skemmtilegt og áhugavert við að vera maður sjálfur en ekki ,,mamma barnsins“ eða ,,pabbi barnsins“.

Það getur verið góð ákvörðun að ákveða að snúa sér að makanum og ákveða að tengja, snúa sér að makanum eftir athygli, hlýjum orðum, snertingu og umhyggu. Með því að taka meðvitaða ákvörðun um að veita makanum athygli og biðja um hana er maður að tengja sig inn í sambandið aftur. Það þarf ekki að fjölyrða um hve neikvæð áhrif það hefur á parasambanið að nota hunsun, svara ekki eða sýna makanum ekki hlýju, slíkt dregur parið hægt og rólega í sundur.

Að sama skapi getur gert kraftaverk að setja í orð, litlu fallegu hlutina í hversdeginum. Dagarnir eru nefnilega fullir af stuttum fallegum stundum sem má setja í orð, orða hve vel þið annist barnið, hvernig við höldum sambandi, hvað heimilið er fallegt, hárið hressandi eða hvað það er sem vekur örlitla aðdáun í hvunndeginum. Þá má líka setja þakklæti ofarlega í umræðuna, einföld tjáning eins og ,,takk fyrir að …..“ get verið ótrúlega hvetjandi.
,,Takk fyrir að hella upp á kaffi fyrir mig“, ,,Takk fyrir að vakna með barninu í nótt“, ,,Takk fyrir að elda“.

Flest pör finna breytingar á nánd og kynlífi fyrst eftir að barn fæðist. Það tekur líkama konu mislangan tíma að jafna sig eftir fæðingu, stundum er það nokkrar vikur en getur verið margir mánuðir.  Þreyta og svefnleysi eru líka þekkt fyrir að draga úr nándarlöngun og það getur verið að nýju foreldrarnir upplifi að þau þurfi ekki meiri snertingu eftir að vera í daglegri mikilli snertingu við lítið barn.

Það er ekkert rétt eða rangt í þessum málum en flestir eru sammála um að nánd og kynlíf skiptir máli svo það er gott að hafa orð á breytingunum og tjá áhuga og sýna umhyggju.  Margir finna að það er ekki jafnlaus tími fyrir kynlíf og þá getur verið gott ráð að skipuleggja og taka frá tíma fyrir kynlíf. Sumum finnst það óspennandi tilhugsun en spontant getur líka þýtt að ekkert verður úr neinu og með skipulagi er hægt að búa til eftirvæntingu og spennu. Aðalmálið er að taka hlutunum með ró og prófa sig áfram.

Uppáhaldspararáðið mitt er stefnumót. Stefnumót para ættu að vera skylda amk einu sinni í mánuði. Vera saman tvö, gera eitthvað þar sem þið veitið hvort öðru athygli og njótið ykkar saman. Fyrstu mánuðina eftir að barnið fæðist er kannski ekki raunhæft að fara út úr húsi en þá má útbúa góðan mat og borða saman eftir að barnið er sofnað, setja kerti á borðið og hafa tónlist undir. Horfa saman á gamanmynd og/ eða hlæja. Rifja upp góðar stundir og passa að láta samtalið ekki snúast of mikið um reikningana heldur það sem ykkur finnst skemmtilegt og áhugavert.

Þegar fram líða stundir er hægt að fá pössun, fara saman á kaffihús, kíkja á bókasafnið eða skella sér í göngutúr eða sund. Stefnumótið þarf ekki alltaf að vera viðburðarríkt, dýrt og alsett glimmeri heldur stund sem þið njótið, saman tvö í ahyggjuleysi og notalegheitum.

Margir finna einmitt að parasambandið verður betra, dýpra og nánara eftir að börnin fæðast. Það getur bara tekið tíma að aðlagast og finna taktinn aftur og oftar en ekki þarf að gera það meðvitað.

Ástin í góðu sambandi er í raun svolítið eins og pottablóm á heimilinu, það þarf að hlúa að henni og viðhalda svo hún vaxi og dafni. Hún þolir alveg að henni sé gleymt í smá tíma og þolir skuggatímabil og smá þurrk en það þarf að vökva og gæta þess að hún fái athygli og birtu.

 

 

 

Árið 2017 kvatt

Þá er árið 2017 búið og farið. Mér finnst alltaf gott að nota síðustu daga ársins til að rifja upp helstu atburði og leiða hugann að komandi ári. Áramót eru einhversskonar uppgjör og tímamót.

Þetta hefur verið dásamlegt ár og gjöfult á svo margan hátt. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að vera viðstödd 16 fæðingar á árinu, ég er auðmjúk og þakklát fyrir. Hver fjölskylda er svo einstök og það er eiginlega ekki alveg hægt að færa það í orð hvernig það er að fylgjast með fjölskyldum vaxa og dafna. Barnsfæðing er magnaður lífsviðburður og ég er meðvituð um forréttindi mín að vera í kringum fjölskyldur á þessum ánægjulegu tímamótum. Af hverri fjölskyldu læri ég eitthvað nýtt, eitthvað nýtt um fæðingar, manneskjur og samskipti og ekki síst um lífið sjálft. Fyrir það er ég ótrúlega þakklát.

Ég tók á móti fólki í fæðingarundirbúning og aðstoðaði konur við að vinna úr fæðingarreynslunni sinni ásamt því að halda námskeið um fæðinguna, parasambandið og fyrstu fjóra mánuði ársins. Ég er að feta mig inn á braut fjölskyldumeðferðar og hef tekið á móti fólki í fjölskylduviðtöl.  Ég er alltaf á sama stað í Lygnu með yndislegu Bjarkar ljósmæðrunum sem er svo gott að vera í kringum.

Einu og hálfu ári lokið í námi í fjölskyldumeðferð. Tíminn hlífir mér ekki frekar en öðrum og þeysist áfram og mér finnst hálf ótrúlegt að aðeins ein önn sé eftir af náminu. Þetta hefur verið góður tími og ég hef öðlast yndislega færni sem vonandi kemur sér til góða fyrir fjölskyldurnar sem ég á eftir að aðstoða.

Tíu konur kláruðu doulu-nám hjá mér og það verður gaman að fylgjast með þeim halda áfram og útskrifast. Við unnum aðeins með doulusamtök og viljum virkja þau frekar. Á árinu var skrifuð mastersritgerð um doulur á Íslandi þar sem skoðuð var reynsla kvenna af því að vera með doulu og sú reynsla er góð. Það er alltaf ánægjulegt að fá staðfest með athugun það sem maður heldur.

Í september fór ég á Evrópska doulu-ráðstefnu til Póllands, það var í fyrsta sinn sem ég fór á douluráðstefnu og var innan um svona margar starfandi doulur. Þarna voru saman komnar 36 doulur frá ólíkum löndum, Belgíu, Bretlandi, Grikklandi, Króatíu, Lettlandi, Póllandi og Swiss svo einhver þjóðerni séu nefnd. Þvílíkur innblástur og mikil gleði, ég kynntist mörgum skemmtilegum konum og fékk innsýn í starf samstarfssystra minna í Evrópu og ekki þarf að fjölyrða um fegurð og dásemd Varsjár. Þema ráðstefnunnar var missir, hvernig við doulur getum stutt foreldra í gegnum missi. Þarft og erfitt umræðuefni sem lætur engan ósnortinn. Það snerti mig djúpt að fara á ráðstefnuna í Póllandi, bróðir minn dó í Póllandi fyrir 10 árum síðan og ég hafði ekki farið til Póllands síðan hann dó og mikið sem það var heilandi að ganga um götur Varsjár. Mér fannst eins og lífið væri komið í hring. Við doulur vinnum mest með upphaf lífsins og þarna var ég stuðningskona lífsins að læra um missi í landinu sem ég tengdi við missi.

Í október fór ég á Midwifery Today- ráðstefnuna, með Arneyju og Hrafnhildi ljósmæðrum og það var önnur skemmtileg yndisferð. Suomenlinna, lítil eyja við Helskinki tók vel á móti okkur og við eyddum nokkrum fallegum haustdögum innan um ljósmæður, doulur og stöku fæðingarlækni. Stemningin var dásamleg og mikið af yndislegum konum hvaðanæva úr heiminum sem gaman var að kynnast. Auk skemmtilegra fyrirlestra svo sem um oxytocin stendur kvöldvakan upp úr og ég var alveg dáleidd af öllum finnsku doulunum og finnsku ljósmæðrunum.

Fjölskyldan er bara við það sama, reyndar allir árinu eldri og við ættleiddum hund sem heitir Auðna og hún ber nafn með rentu og hefur svo sannarlega gert heimilislífið skemmtilegra. Við ætlum þó að hjálpa henni að gelta minna árið 2018!

Árið 2018 leggst vel í mig á allan hátt, ég held þetta verði gott ár, ljúft og vonandi bara svipað og síðasta ár. Þar sem allt er gott og stabílt en nokkur ævintýri inn á milli. Ég veit nú þegar af nokkrum fæðingum sem ég verð við og ég vonandi held áfram að taka á móti fólki í fæðingarundirbúning og viðtöl. Ég stefni á að klára fjölskyldumeðferðarnámið og halda áfram námskeið. Í lok janúar fer ég á Parent infant Psychotherapy námskeið sem ég hlakka mikið til að fara á og í lok mars er doulu-ráðstefna í London sem verður örugglega alveg frábær. Síðast en ekki síst vona ég að ég verji góðum tíma með fjölskyldunni.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða, megi árið 2018 vera ykkur gæfuríkt

European doula network- árleg ráðstefna í Varsjá

 

Ég fór á árlega ráðstefnu um helgina í Varsjá í Póllandi. European doula network eru samtök sem vinna að því að hafa samvinnu á milli doula óháð því hvar í Evrópu þær búa. Við vorum um það bil 60 sem tókum þátt.

Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja og hvernig ég get líst því hversu dásamlega skemmtileg þessi ráðstefna var og fræðandi.

Fyrst má kannski nefna að við vorum 60 doulur héðan og þaðan í Evrópu, ég hitti doulur frá Austurríki, Sviss, Póllandi, Rússlandi, Belgíu, Bretlandi, Grikklandi, Litháen og víðar. Dásamlegt alveg. Ég hef ekki verið umvafin svona mörgum reyndum doulum áður, við erum til þess að gera fáar á Íslandi og það var svo frábært að tala við þær, finna að þær voru að starfa af sömu hugsjón, að sama markmiði og hlæja með þeim að sömu bröndurunum.

Vinnusmiðjurnar voru ótrúlega skemmtilegar og fræðandi. Fyrst var fyrirlestur um pólska hjátrú tengda meðgöngu og fæðingu, sumt var mjög líkt því sem maður hefur heyrt heima á Íslandi, annað var framandi. Mér fannst fyndið að heyra að konum væri ráðlagt frá því að lita á sér hárið rautt á meðgöngu því það gæti orðið til þess að barnið yrði rauðhært. Það er margt hægt að segja um þessa hjátrú en fyndið er held ég best.

Svo fórum við á fyrirlestur um missi á meðgöngu og í fæðingu og hvernig doulur geta verið til staðar þegar foreldrar ganga í gegnum missi. Einnig var reynsla doula af þvi að aðstoða foreldra í kjölfar missis rædd.

Seinni vinnusmiðjan var Batik og Henna, við fengum að prófa að mála okkur með Henna lit og það var einstök upplifun, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég sem get ekki teiknað mynd svo fólk sjái hvort um er að ræða hund eða kartöflu gleymdi mér alveg og finn hlýju í hvert sinn sem ég lít á hendina á mér.
Svo fórum við yfir létta nuddtækni og rebozo-notkun. Langur en góður laugardagur.

Sunnudagurinn fór svo í fundarhöld, hvert EDN stefnir, hvað er að gerast í hverju landi fyrir sig og drög lögð að næstu ráðstefnu sem verður í Vín í september. Ég vona svo sannarlega að ég geti verið á EDN dögunum að ári og að þá verðum við fleiri en ein frá Íslandi.

Blessun vex með barni hverju

Barnafjöldi og barneignir, eru einkaákvörðun hverrar fjölskyldu og ætti að virða sem slíka. Það er samt einhvern veginn eins og fólk geti ekki gert rétt í þeim málum og vonandi óvart hefur fólk sterkar skoðanir fyrir aðra með hvað sé ákjósanlegt, æskilegt eða við hæfi. Og tjáir það. Því miður er það svo að fólk upplifir oft að fjölskylduform þeirra er dæmt og að fólki otað skömm. Sem er miður og við mættum öll hugsa aðeins áður en við komum með góðlátlega athugasemd eða spurningu um fjölskylduform annarra.

Hér er minn veiki punktur, mér finnst nefnilega ósköp gaman að ræða barneignir, mínar og annarra út frá fjölda og má því passa mig að tal mitt endurspegli mig og mitt val en varpi ekki skugga eða dóm á aðra. Ég er því persónulega ekki viðkvæm fyrir því að ræða þetta málefni, hugsanlega því  ég held ég hafi snúist eins marga hringi og hægt er þegar kemur að barneignum. Ekki alls fyrir löngu sá ég ekki fyrir mér að eignast börn, þegar ég átti eitt var ég ekki viss um að það væri sniðugt að eiga fleiri og nú þegar ég á þrjú get ég alveg hugsað mér að eiga tíu, en það er nú önnur saga.

Barneignir- hugsanlegar eða ekki eru prívat mál og alls ekki allir jafn tilbúnir að tala opinskátt um ,,stöðuna“ í barneignum en umræðuefnið er sívinsælt og ótrúlegt hvað margt fólk er lítið að velta því fyrir sér hvort hér sé staður og stund.  Í þessum efnum er líka áhugavert að sjá viðbrögð okkar við því þegar barneignaval eða barneignastaða annarra er önnur en manns eigin hugmyndir. Það er einhvern veginn eins og ekki sé hægt að gera neinum til geðs og athugsemdir sem fólk fær, í hugsanaleysi vonandi, geta verið ansi þreytandi. Stundum þarf ekki að segja neitt framan í fólk, maður finnur það bara að fólk er að pæla og dæma.

Barnlaus pör eru spurð hvort þau séu ekki að reyna og hvort þau ætli í alvöru ekki að eignast börn. Sumir fá ráð um að ,,slaka bara á og þá komi þetta allt“ eða tillögur um að taka að sér fósturbörn eða ættleiða. Taki fólk ákvörðun um barnleysi er eins og það sé einfaldlega rangt svar. Það er ekki hugsandi að taka þá ákvörðun af eigin vilja.

Þegar fyrsta barnið er komið, kemur spurningaflóðið um hvort ekki eigi að koma með annað, það verða að koma fleiri börn. Helst að ,,reyna“ við hitt kynið. Nauðsynlegt að eiga systkini því ekki er gott að vera með frekt einbirni eða eitt barn að hugsa um báða foreldra sína í ellinni.

Tvö börn, hér virðist vera ágæt samfélagssátt um að mál sé að linni en það er ekki hægt að vera með samkynja systkini. ,, Á ekki að reyna við strákinn/ stelpuna?“

Þrjú börn dansar þarna á mörkum dugnaðar og óvitaskapar. Hraustmenni og ofurkonur en einhvern veginn er fólk búið að henda sér fram af brúninni þegar fjórða barnið kemur. Sumir tala um að fólki sé orða vant þegar von er á fjórða barninu og fólk fær samúðarsvip og í einhverjum tilfellum segir fólk bara ekki neitt, gleymir að samgleðjast með fólki.

Þegar börnin verða fimm og sex er eins og fólki haldi engin bönd lengur, það missir út úr sér ,,æjæj“ og veltir því fyrir sér hvort þetta hafi ekki örugglega verið slys og hálf vorkennir fólki og reynir að fá fullvissu um að nú sé komið nóg af börnum ,, eruð þið ekki örugglega hætt núna?“

Óhjálplegar athugasemdir breyta engu, en sitja eftir sem leiðindaviðbrögð hjá verðandi fjölskyldu og skilur eftir sig frekari ótta um að vera dæmdur. Það er svo gott að muna að allir eru að gera sitt besta og hvað hentar einni fjölskyldu er ekki það besta fyrir aðra. Setja sig í spor annarra.

Hér dreg ég vissulega fram aðeins neikvæð eða leiðinleg viðbrögð og læt undan allar hamingjuóskirnar, heillakveðjurnar og þegar fólk samgleðst. Hugsum þetta aðeins, munum að hver fjölskylda er ólík- og næsta víst að hún er ólík okkur. Samgleðjumst og munum að ,,blessun fylgir barni hverju“.

Heilun í hlustun

Fyrir nokkrum árum fór ég á fyrirlestur og að honum loknum stóð ég og spjallaði við mjög merkilega konu sem ég lít upp til og við fórum að tala um fæðingarsögur, fæðingarupplifun, eitthvað sem mér finnst alltaf skemmtilegt að tala um. Hún bar nokkuð sára en gróna sögu í hjarta sér og minningin hafði dvalið sterkt með henni. Hún sagði okkur frá því að hún hafi verið með fæðingarsöguna og allt ferlið á heilanum og ekki gert annað en að tala um hana við hvern sem vildi og vildi ekki heyra. Viðbrögðin voru almennt á sömu leið að hún ætti að hætta að hugsa um þetta en sama hvað hún vildi og reyndi þá gat hún ekki hætt að hugsa um atburðina og ekki hætt að tala um þá. Einn daginn var hún svo á spjalli við unga dóttur sína og sagði henni sögu sína á barnvænu máli.Sú stutta hlustaði og hélt áfram að gera það sem hún var að gera, leit svo til hennar og sagði ,,það hlýtur að hafa verið erfitt mamma mín” og hún játti því, þetta hafi verið erfitt.

Þar small það, eftir þetta hafði hún ekki þörf til að tala um reynslu sína, eitthvað innra með henni gréri þennan dag.

Þessi saga er mér hugleikin, hún hefur sagt mér og kennt margt. Fæðingarreynslan okkar er minning sem er mikilvæg, hún er með okkur og mótar okkur. Fæðingarminningin mótar okkur og við getum fundið meiri styrk eða misst hann. Margar konur tala um þegar þær finna mátt sinn í gegnum fæðingu barnsins síns að þær upplifi sig heilar og óstöðvandi. Hvernig fæðingarminningin verður fer svo mikið eftir upplifun okkar og fyrri reynslu.

Þegar fæðingarreynslan situr með okkur, getum við ekki bara hætt að hugsa um hana, lagt hana til hliðar eins og skítugan kaffibolla og snúið okkur að öðru. Hún er með okkur og við verðum að finna henni farveg.

Ein algeng leið til þess og raunar mjög góð er að deila henni með öðrum, segja frá því sem við upplifðum og afhverju og hvernig það hefur áhrif á okkur og finna þá einhvern sem er eins og unga daman, til í að hlusta af athygli, sjá reynsluna eins og hún er og orða það sem við heyrum.

Oft höfum við takmarkaðan tíma, við hittumst kannski á kaffihúsi og förum að tala um reynslu okkar og við erum á stað þar sem allir geta heyrt orð okkar og sessunauturinn er kannski í meira stuði til að spjalla en hlusta. Þannig náum við bara að segja brot, hluta eða stikkorð og förum fyrir vikið að fara út í að segja viðurkennda og birtingarhæfa sögu sem kemst fyrir í tebollanum. Sagan fer frá okkar innsta kjarna og yfir í að vera meira eins og skráð saga í mæðraskránni, lýsing á mælanlegum atburðum í raun séðum frá öðrum en okkur. Við förum jafnvel að leggja áherslu á að vitna í orð þeirra sem voru á staðnum til að gefa betri lýsingu frekar en okkar upplifun. Sem er alveg saga sem er gott að segja en hún kannski græðir ekkert sár og er ekki nærri okkur. Mæðraskýrslusagan af fæðingunni okkar verður okkur fjarlægari og ópersónulegri og öðlast þá kannski annað líf sem ósnertanleg saga fyrir annan. Fæðingarreynslan okkar getur nefnilega ekki verið neitt annað en okkar upplifun.
Ég hallast alltaf meir og meir að því að það sé mikilvægt að velja vel þann sem hlotnast sá heiður að heyra söguna okkar og að við gefum okkur góðan tíma. Þegar við finnum einhvern sem hlustar af athygli og með það í huga að heyra söguna okkar og finna hvernig hún var og getur gefið sér tíma til að velta hlutunum upp, getur staldrað við smáatriði og hlaupið yfir önnur þá finnum við heilara, manneskju sem styrkir okkur og eflir. Við verðum að finna að við getum sagt söguna frá okkar hjartarótum, eins og hún dvelur með okkur, eins og við munum hana. Og þannig grær hún og við fáum sátt.

Foreldrasetur óskast

Við fjölskyldan fórum út á Klambratún um helgina, þar er yndislegur leikvöllur. Sólin skein, það var hlýtt og við enduðum á að hanga þarna bróðurpartinn úr deginum. Sumarið er svo sannarlega komið. Á leikvellinum var fullt af fólki með börn á öllum aldri, reyndar flest frá 2-10 ára. Það er svo gaman að vera með börnin á leikvelli, innan um aðra.

Alltaf á sumrin þá fer mig að dreyma aftur um að hægt verði að koma af stað foreldrasetri á Íslandi, nú eða opnum leikskóla og auðvitað byrjaði mig að dreyma þarna á Klambratúni um bættara samfélag fyrir foreldra. Ég veit að það er fólk í stöflum til í að taka slíkt verkefni að sér en það er enginn vilji hjá Borgaryfirvöldum né öðrum yfirvöldum til að greiða leið fyrir því. Þetta er svona þráhyggja sem hefur kveiknað reglulega hjá mér síðan ég eignaðist barn fyrst árið 2007 og ég get ekki sagt hve oft ég hef talað um þörfina fyrir einhversskonar foreldrasetur við aðra foreldra.

Í Reykjavík er nefnilega enginn, þá meina ég alls enginn sama staður fyrir nýja foreldra með börn á aldrinum 0-2 ára og foreldrar sem eru með eldri börn segjum 2-6 ára hafa í enn færri hús að vernda. Flest börn eru í orlofi fyrstu 6-9 mánuði ævi sinnar og mörg börn eru hjá foreldrum sínum fyrstu tvö árin og einhver enn lengur en það er ekkert í Reykjavíkurborg sem gerir ráð fyrir að börn séu heima með foreldrum sínum. Foreldrasetur gæti fyllt upp í þetta tóm og aukið fjölbreytni og þjónustu til muna.

Foreldrasetur, gæti til dæmis verið gamall leikskóli eða róló, sem væri opinn frá 9-16. Þangað væru allir foreldrar velkomnir með börnin sín sem eru ekki í annarri daggæslu (eða þegar þau væru ekki í daggæslu). Fyrst og fremst væri hægt að hugsa setrið sem stað þar sem foreldrar geta hist, flesta daga á þeim tíma sem hentar þeim og verið inni að leika eða úti að leika þegar það hentar. Aðstaðan úti væri bara svona eins og er á leikskóla/róló og inni væru leikherbergi, leiksvæði og einhverjir starfsmenn sem gætu tekið á móti börnum og foreldrum og séð um staðinn.
Það er hægt að leika sér með þessa hugmynd og útfæra á ýmsan hátt en í sinni hráustu mynd eru börn og foreldrar með sama stað að hittast, sem kostar ekki hvítuna úr augunum og er opinn á dagtíma. Mjög einfalt væri svo að bjóða upp á gæslu hluta úr degi kannski eftir pöntun svo foreldrar gætu farið og keypt í matinn eða gert eitthvað fáránlega vilt á c.a. 2 klukkustundum. Hluti af leiðinni til að fjármagna mætti vera ef t.d. foreldrar sem ekki nýta sér hefðbundna daggæslu gætu þá ánafnað styrkjunum á foreldrasetrið. T.d. dagmömmugreiðslum eða leikskólastyrkjunum ef barnið er komið á leikskóla og svo væri hægt að vera með eitthvað mánaðargjald. Milljón útfærslur til sem hægt er að vinna með og í nágrannalöndum okkar eru margar útfærslur sem hægt er að sækja hugmyndir í.

Ég held þetta yrði eitt stærsta framfaraskref sem tekið hefur verið lengi fyrir foreldra og myndi auka vellíðan og draga úr einangrun foreldra til muna. Það er dásamlegt að vera heima með börnin sín, það jafnast fátt á við að leika við barn en fyrir þorra foreldra þá er bara ekkert gaman að finna einangrunina læðast aftan að sér. Mér finnst þetta vera það sem langflestir foreldrar tala um sem galla við að vera heima. Þá hafi vantað félagsskap og stuðning í foreldraorlofinu. Einhvern samastað, þar sem hægt væri að vera mikið innan um fólk og börn í sömu stöðu. Kíkja í foreldrasetrið.

Málið er að við foreldrar erum flest að fara úr umhverfi þar sem allt er á milljón, við vorum í vinnu, skóla, úti á lífinum, fórum í Kringluna, út að borða og í göngutúr og vorum innan um fólk, margt fólk meir að segja, lungann úr deginum. Svo förum við í foreldraorlof og allt fellur í dúnalogn og það er eiginlega ekkert að fara. Auðvitað eiga margir góða fjölskyldu og vini í orlofi líka en stundum er það ekki nóg og það eru ekki allir svo heppnir. Það eru líka takmörk fyrir því hversu oft hægt er að fara í Kringluna.

Þá væri svo gott að hafa svona fastan punkt í tilverunni, geta farið í foreldrasetrið, jafnvel hitt félagana þar. Leikið í öruggu, bjóðandi umhverfi í einhvern tíma og farið svo aftur heim. Spjallað við starfsfólkið, leitað ráða ef á þarf að halda og fengið leiðsögn ef á vantar. Annars bara drukkið djús, hlegið og haldið áfram að ýta rólunni. Kannski kynnst einhverjum sem á líka lítið barn, á sama aldri. Þetta þarf ekki að vera byltingarkennt. Maður er manns gaman.

Nú fussar kannski einhver og hugsar að kirkjurnar bjóða upp á foreldramorgna sem er jú ókeypis þjónusta sem má ekki vanþakka. Þangað hef ég sjálf sótt og kynnst mínum bestu vinum og átt margar góðar stundir. Ég elska starfið sem fer fram fyrir foreldra í kirkjunni.
Það er samt þegar öllu er á botninn hvolft kirkjustarf og skrýtið að þurfa leita til kirkjunnar af því að það er eini staðurinn í Reykjavík sem tekur á móti foreldrum með börn. Eðlilega er líka kirkjustarf á foreldrafundum kirkjunnar sem heillar ekki alla en helsti gallinn er að hver kirkja er með foreldramorgna, einu sinni í viku í tvo tíma í senn fyrir hádegi.  Sama má segja um foreldramorgna í Bókasöfnum. Einu sinni í viku.

Svo eru auðvitað frábær námskeið hér og þar. Mömmujógað hennar Auðar er líka kannski bara best í öllum heiminum fyrir mömmur (eins og mig). Stund til að vera með mömmum og börnum og teygja sig og njóta. En það er afmarkað námskeið  og námskeið kosta eðlilega pening. Það er því eingöngu viðbót sem mætir ekki þeirri þörf sem er til staðar nema að hluta.

Svo nei, það er enginn sama staður fyrir börn sem eru heima með foreldrum sínum í Reykjavík og það má svo léttilega bæta úr því.

Ég sendi bréf á alla borgarfulltrúa árið 2012 og óskaði eftir því að fá Njálsgöturóló leigðan undir einhverja svona starfsemi og þessir örfáu borgarfulltrúar sem svöruðu, bentu mér á að foreldramorgna og kirkjumorgna. Það væri líka hægt að fara á kaffihús. Það væri betra að leigja aðstöðuna út fyrir dagforeldra því þá væri hægt að segja ,,við fjölguðum daggæsluplássum um…“
Mér fannst svo leitt að ákveðið hefði verið að leigja róló-inn út svo hann gæti í mesta lagi þjónað 10 börnum per tímabil (miðað við 2 dagmömmur með 5 börn hver) meðan opinn róló hefði getað þjónað tugum foreldra og skapað samfélag. Það hefði þjónað svo miklu miklu fleirum.

Ég hafði líka samband við Kópavog í þeirri von að þeir væru með róló sem mætti koma í fóstur en þar fékk ég ekki einu sinni svör. Þar eru nokkrir róló-ar sem eru lítið notaðir og gætu auðveldlega blómstrað.

Ég veit alveg að ég er ekki sú eina sem hef stungið upp á þessu, ég held að flesta foreldra dreymi um svona afdrep og við erum mörg sem erum tilbúin að henda þessu í framkvæmd eða styðja við að þetta verði að veruleika. Ég get sagt eins og Davíð Oddson, ég hef engan sérstakan metnað fyrir því að reka svona stað, mér finnst þjóðin bara eiga það skilið að einn slíkur verði rekinn og ég get alveg tekið það að mér. Glöðust væri ég samt að sjá foreldrasetur starfandi. Ég veit að það er brýn þörf fyrir eitt slíkt (eða tvo eða þrjú) og ég þrái að sjá einhversskonar foreldrasetur starfa fljótlega.
Ávinningurinn væri svo gríðarlegur fyrir einstaklingana, fyrir vellíðan barna og foreldra að það myndi skilja sér hratt og vel út í samfélagið okkar. Ég þrái að sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu greiði fyrir svona setri. Það þarf ekki að liggja í nefnd í mörg ár, það þarf ekki að gera neitt annað en að segja já við skulum leigja þér þetta húsnæði næst þegar einhver spyr. Eða henda í útboð, finna einhvern til að fóstra yfirgefinn leikskóla eða róló með þetta í huga.

Við þurfum að skapa samfélag og við viljum vera í samfélagi og ekki síst fyrsta ár barnsins. Flestir foreldrar vilja vera innan um aðra, hjálpast að, spjalla, bera saman bækur sínar og deila sigrum og sorgum úr hversdagslífinu. Foreldrar eru í félagslegu umhverfi og börnin eru í félagsskap og læra hvort af öðru. Mjög beisik samvera. Þannig drögum við úr pressunni á foreldra og nánasta umhverfi, leiði minnkar og ánægja eykst.

Mæðradagurinn góði

Um miðjan dag í gær, tók ég utan um manninn minn, kyssti hann létt og óskaði mér til hamingju með daginn fyrir hans hönd. Hann blótaði lágt og sagðist hafa ætlað að muna eftir deginum, en bara ómögulega getað það. Þetta er hluti af fjölskylduhefðinni okkar að muna ekki eftir svona
-dögum eða gera eitthvað í tilefni þeirra. Ég held ég beri engar sérstakar væntingar til mæðradagsins enda svo ljónheppin að maðurinn sem stendur vaktina með mér er bara dásamlegur flesta daga ársins.

Ég er samt farin að kaupa mér blóm þegar mig langar í þau því annað skilar engu.

Mæðradagurinn 8. maí var merkisdagur, fyrir nokkrum árum var ég viðstödd þegar að önnur kona varð móðir í dásamlegri og skemmtilegri fæðingu og gaman að ylja sér við góðar minningar.

Heima fyrir fékk ég knús, fullt af knúsum og stelpurnar mínar þrjár gerðu daginn skemmtilegan og fyndinn. Miðjustelpan mín óskaði mér til hamingju með daginn og benti mér svo réttilega á að ef ég væri ekki mamma hennar þá gæti hún ekki óskað mér til hamingju með daginn.
Ég fékk líka skammir fyrir að hafa verið að heiman hluta dags sem minnir mig á hve mikilvægar mömmur eru. Mér finnst gott að vera mamma og fann að mæðradagurinn kveikti aðeins í mér.

Mér var líka mikið hugsað til allra mæðra minna í gær og fann fyrir þakklæti fyrir allt sem þær hafa gert fyrir mig. Mömmur kenna manni margt og móta.
Mamma mín stendur þétt við hliðina á mér og hefur gert alla tíð, ég hef trú á því að hún sé í þessum töluðu orðum að kaupa skó á dætur mínar. Hún er líka mikið fyndnari en ég nokkurn tíma og kann einhvern veginn allt, líka að sauma!

Ömmur mínar í móður- og föðurætt eru mér báðar svo kærar, kenndu mér að borða kökur og kvarta ekki. Mér er svo oft hugsað til þeirra þegar ég er að bugast undan ungunum mínum, það gefur mér styrk að vita að þær áttu mikið fleiri börn en ég (og stráka!) og lifðu það af.
Ég á líka dásamlega tengdamömmu sem styður mig svo vel og eflir og er yndislegur félagi. Ömmurnar í þá áttina eru líka yndislegar og miklar fyrirmyndir.
Og svo eru margar aðrar konur sem hafa fóstrað mig á margan hátt.

Mér finnst gaman að sjá fyrir mér að við stöndum allar í hring, og að ég standi á öxlum einnar og svo er önnur kona undir henni og svo önnur og þannig myndum við sterkt rótarkerfi.
Því þannig eru mæður, mínar mæður, hluti af mér í daglegu lífi, ræturnar mínar.

 

 

 

Bumbumyndataka

Ég var svo spennt þegar Anna ljósmyndari hjá Stúdío Douglas var til í að taka þátt í smá viðburði og mynda barnshafandi konur í tilefni douluvikunnar sem er dagana 22.-28. mars. Yfir mig spennt.  Ég kynntist Önnu fyrst í gegnum bumbuhóp á Draumabörnum sem var (og hét), við eigum börn fædd sama ár. Svo fórum við að hittast árlega því hún var svo sæt að taka að sér að mynda börn á brjósti í tilefni brjóstagjafavikunnar.

20160330_165418

Við hittumst í dyrunum í stúdíó-inu hennar og ein og ein týndust þær inn, fallegu konurnar með börnin sín innan borðs. Þær voru mislangt komnar á leið allt frá 25 vikum að 37 vikum. Ein reyndar afboðaði sig því hún ákvað að fara frekar á fæðingardeildina! Sumar áttu von á fyrsta barni, aðrar öðru eða þriðja og ein á sínu fimmta, hversu dásamlegt er það.

mynd frá Önnu

Þetta var örmyndataka, þær skutust inn í stúdío-ið, Anna tók myndir og ég sat vaktina frammi á meðan, flestar voru 7 mínútur inni. Pælingin var bara að ná einni til tveimur góðum og fallegum myndum til að eiga til minningar.

Stillingin í Stúdío-inu var þannig að myndirnar verða dökkar, hlýjar og fallegar. Svona eins og Önnu er einni lagið. Svolítil nekt en vel stofuviðeigandi.

Hugmyndin að örmyndatöku er ekki ný af nálinni, við höfum gert þetta í tilefni brjóstagjafavikunnar í nokkur ár núna. Hugmyndafræðin á bakvið þetta er einföld. Við viljum vekja athygli á fegurðinni í nýju lífi, gefa okkar hráasta tíma gaum. Ég á margar myndir frá Önnu, meðal annars bumbumyndir og mér þykir svo vænt um bumbumyndirnar mínar. Þær minna mig á góðan tíma, ég man hvaða ilmvatn ég notaði þennan dag, ég man hvernig mér leið, finnst gaman að hugsa um barnið sem kom og ég man hvað mér fannst ég sérstök að vera í bumbumyndatöku.
Auðvitað líður ekki öllum vel á meðgöngunum sínum en ég held að það sé þá líka gaman að ná mynda fegurðina sína og kannski minna sig þannig á að jafnvel þó maður upplifi erfiðan tíma þá leynist fegurðin allsstaðar, eða það hugsa ég það.

bum22

Takk allar sem tókuð þátt í þessu með okkur!

 

 

 

Doula sem sagt…já

Mér finnst ég loksins vera að öðlast góða reynslu af því að vera doula, komin með kjöt á beinin einhvern veginn. Margt í leik og starfi verður nefnilega ekki lært af bók heldur aðeins fengið með reynslunni og stundum finn ég að reynslan er farin að fleyta mér áfram í starfi mínu sem doula, sem er góð tilfinning.

Stundum í nýjum aðstæðum finnst mér þó ennþá skrýtið að segja hvað ég geri og hef jafnvel staðið mig að því að humma það fram af mér. En það er bara stundum.  Algengustu spurningarnar sem ég fæ enn í dag eru:

,,Doula, hvernig berðu það fram?”

,,Dúla sem sagt, og hvað gera þær?”

Og æ oftar heyri ég ,,vinkona mín var með doulu- þekkiru hana?” eða ,,ég ætla að vera með doulu næst” eða ,,ég vildi óska þess að ég hefði verið með doulu”. Þá lýt bara höfði í hljóði og þakka fyrir starfsvettvanginn minn.

Doula er upphaflega grískt orð sem þýðir kvenkynsþjónn eða þræll, með síðari tíma merkingu um að vera kona sem aðstoðar verðandi fjölskyldur (sama í hvaða formi þær eru) í gegnum fæðingu. Ég veit ekki annað en að doula sé orð sem er notað um allan heim.

Doula er borið fram dúla og er kannski ekkert sérstaklega þjált á okkar ylhýra en það er ekki komið betra orð sem stendur. Ég er alveg skotin í öðrum orðum eins og stuðningskona við/ í fæðingu. Stuðningskona er mjög lýsandi fyrir starfið mitt og mér finnst orðið fylgja skemmtilegur leikur að orðum, við fylgjum konum, fylgjur voru líka oft dýr eða menn sem fylgdu fólki í lifanda lífi og svo er fylgja tímabundið líffæri sem nærir barn í móðurkviði.  Margar aðrar tillögur hafa svo sem komið fram eins og hjálparhönd, eða hjálparhella, fæðingarhjálp og mörg fleiri sem eru alveg ágæt. Verandi elsk á tungumálið okkar tók mig smá tíma að venjast því að nota doula en það vandist hratt. Stuðningskona er líklega mest lýsandi. Doula, stuðningskona, fylgja mér finnst þetta allt falleg orð og svo verður tíminn bara að leiða í ljós hvort við höldum okkur við doula-orðið eða förum markvisst að passa að kynna stuðningskonur.

Starf doulunnar er fjölbreytt og skemmtilegt og felur alltaf í sér að styðja fjölskyldur, á þeim stað sem þær eru staddar, í gegnum meðgöngu og fæðingu og í sængurlegu.

Ég er orðin ansi þjálfuð í að segja ,,doula er kona sem styður aðra konu og fjölskyldu hennar fyrir, í og eftir fæðingu en tekur aldrei klínískt hlutverk”. Kannski svo þjálfuð að ég er orðin mónótónísk þegar ég nota lyfturæðuna mína.

En þannig er það samt, ég styð barnshafandi konur og þeirra fjölskyldur fyrir, í og eftir fæðingu og veiti samfellda þjónustu. Sem sagt sama manneskjan sem fylgir þeim í gegnum allt ferlið. Það er ég kynnist parinu á meðgöngunni, við hittumst nokkrum sinnum oftast 2-3 þrisvar og förum yfir komandi fæðingu, hvaða óskir þau hafa og hvernig þau sjá fyrir sér fæðinguna og þannig þekkjumst við ágætlega þegar kallið kemur. Stundum setjumst við niður og förum lið fyrir lið yfir hvernig við getum búist við að fæðingin verði, stundum förum við yfir gagnlegar stellingar og stöður sem nýtast í fæðingarferlinu, stundum reynum við að kryfja hvernig við getum unnið með erfiðan ótta og stundum hittumst við bara og drekkum saman kaffi og treystum böndin.

Ég tek ekki ákvarðanir fyrir fólk eða reyni að benda þeim á valkosti A eða B, ég reyni mitt besta í að vera til staðar fyrir þau og finna leiðir með orðum og fræðslu til að efla þau og styrkja. Það þýðir að fólkið sem ég kynnist er bara allskonar, ég hef aðstoðað pör í heimafæðingu, á spítala, konur sem eru að fara í keisara. Konur sem þrá fæðingu án inngripa og konur sem vilja verkjastillingu sem fyrst. Ég hef verið sjálfstæðum konum innan handar með lítið stuðningsnet og konum sem eru umvafðar her manns. Ég hef verið með þegar von er á fyrsta barninu og öðru líka.

Ég er ekki góð í öllu og með tímanum slípast reynslan til og í einhverju er ég betri en öðru en ég finn líka að með tímanum er það ekki endilega hvað ég kann heldur meira hvað það er sem konurnar eru að spá sem skiptir máli. Stundum líður mér bara eins og ég sé klettur þarna út í hafinu eða tré sem veitir skjól.

Í fæðingunni kem ég þegar mín er óskað og fer þegar ég er beðin um það (en fer sjálf svona c.a. tveimur tímum eftir fæðingu ef enginn segir neitt). Engin vaktaskipti og tek í raun ekki pásur. Ég get sinnt fæðingunni 100%.
Hver fæðing er einstök og hvert par fer aðeins einu sinni í gegnum hverja fæðingu svo það er misjafnt hver aðkoma mín er. Ég er yfirleitt í sambandi við fólk þegar það finnur og fæðingin er í uppsiglingu, ég kíki oft heim til þeirra og ef það er byrjandi fæðing stoppa ég kannski í smá stund og fer aftur og kem svo aftur seinna en er áfram ef mín er þörf. Stundum hitti ég parið uppi á spítala um leið og þau fara en stundum kem ég beint í mesta fjörið.

Í fæðingunni get ég verið úti í horni og sagt ekki neitt, stundum er ég að spjalla, stundum nudda og stundum hughreysta. Allt eftir því hvernig fæðingin er og hvar í ferlinu við erum. Stundum sæki ég vatn og rétti út þvottapoka, stundum kinka ég bara kolli og stundum er ég að hjálpa til við að takast á við breyttar aðstæður. Stundum hef ég þurft að taka á öllu mínu og ekki haft hugmynd um hvað ég eigi að gera annað en að vera til staðar og reyni að taka bara vel eftir svo við getum rætt fæðinguna eftir á. Reyni í þá í veikum mætti að gera gagn en vera ekki fyrir.
Í flestum fæðingum spyr ég mig ítrekað, hvernig minning verður þessi fæðing og reyni að hugsa leiðir til þess að upplifunin þar og þarna verði sem jákvæðust fyrir alla.

Svo þegar barnið er fætt dreg ég mig oftast í hlé og reyni í öllu þysinu að leyfa foreldrunum nýju að njóta, ég reyni líka að grenja ekki úr mér augun og staglast á einhverju eins og ,,ji minn, þið eruð æði” sem ég finn að er pínu þema hjá mér. Ég finn aldrei jafnmikla aðdáun eins og í fæðingum. Það er ekkert eins heilagt.
Ég kveð svo nýju eininguna fljótlega og kem mér heim. Það er svo magnað að vera í fæðingu annarar fjölskyldu. Aukaafurð er að það er magnað að koma heim til sinnar eigin fjölskyldu eftir að hafa verið fæðingu annars barns. Stundin sem maður gengur aftur inn í húsið er heilög, það er eitthvað nýtt og fallegt heima hjá mér líka í hvert sinn. Fyrir það er ég svo þakklát.

Eftir fæðinguna hitti ég fólkið yfirleitt tvisvar, strax eftir fæðingu og svo nokkrum dögum seinna til að fara yfir fæðingarupplifunina og ef það er eitthvað sem ég get gert frekar. Annars kveðjumst við, oft í bili, og ég finn að þau eiga sérstakan stað í hjarta mér. Alltaf. Ég er alltaf að æfa mig í að eiga auðvelt með kveðjustundir en það er yfirleitt í kveðjustundunum sem ég man af hverju ég sinni þessu starfi með skrýtna heitinu.
Það sem rekur mig áfram er að finna, konu fyrir konu, fjölskyldu fyrir fjölskyldu að þau stóðu sterkari uppi fyrir vikið. Að með því að sitja á hliðarlínunni upplifðu þau kraft og styrk. Kannski vellíðan. Það er góð tilfinning, það er ástæðan fyrir því að ég er doula.

Spurt og svarað um doulur

Hvað er doula?

Doula er kona sem styður barnshafandi konu og fjölskyldu hennar á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Doula vinnur fyrir og með verðandi foreldrum á þeirra forsendum og styður þeirra ákvarðanir. Þjónustan er alltaf samfelld þe. er með fjölskyldunni frá því fæðing hefst þar til hún er yfirstaðin.

Hver er munurinn á doulu og ljósmóður?

Doula er stuðningskona, sem er ekki með klínískt hlutverk meðan ljósmóðir er heilbrigðismenntaður fagmaður sem tekur klínískt hlutverk.

Doula vinnur fyrir foreldrana og fylgir þeim eftir, veitir stuðning og hvatningu og fræðslu en gefur aldrei læknisráð, greinir eða meðhöndlar eitthvað tengt meðgöngunni. Doulur veita stoð og styrk og samstarfið er náið og persónulegt.

Doulur fylgja verðandi móður alla fæðinguna meðan ljósmæður eru á vöktum (þetta á auðvitað ekki við í heimafæðingum).

Doulur eru ekki starfsmenn spítala en samstarf við ljósmæður og aðra er mjög mikilvægt, doula tekur aldrei fram fyrir hendurnar á ljósmóður eða öðru starfsfólki.

Eru doulur eingöngu í heimafæðingum?

Doulur eru líklega oftar í spítalafæðingum, Doulur vinna með konum þar sem þær vilja vera og eru í heimafæðingum jafnt og spítalafæðingum.

Tekur doulan yfir hlutverk pabbans / foreldrisins?

Doula styður verðandi föður líka, það má ekki gleyma að hitt foreldrið er líka undir miklu álagi og doulan er þarna fyrir alla fjölskylduna. Doula tekur ekki yfir hlutverk fæðingarfélagans heldur styður hann í að styðja verðandi móður.

Eru doulur eingöngu í ,,náttúrulegum“ fæðingum?

Við kappkostum við að styðja við móður og verðandi fjölskyldu á þeirra forsendum, óháð hvernig fæðingin er og fer. Doulur styðja við verðandi mæður óháð fæðingaráætlun enda er markmið okkar að efla verðandi mæður í því sem þær eru að taka sér fyrir hendur.
Svo nei, doulur eru í ,,allskonar“ fæðingum.

Hvað með keisara og doulur?

Við kappkostum við að styðja við móður í gegnum allt fæðingarferlið, ef fæðing endar í óundirbúnum keisara erum við á staðnum og styðjum foreldrana í gegnum keisarann en förum sjaldnast með inn í aðgerðina sjálfa (yfirleitt fer einn stuðningsaðili með í aðgerðina- sem í flestum tilfellum er hitt foreldrið).

Doulur fylgja konum einnig í undirbúinn keisara (valkeisara) enda ekki síður mikilvægt að fá stuðning og fræðslu á meðgöngunni og stuðning fyrir og eftir keisarann.

Eru doulur í ,,unassisted“ fæðingum?

Nei.

Kemur doula heim til manns í byrjun fæðingar?

Það er bara allur gangur á því en þið eruð í sambandi frá upphafi. Sumar mæður vilja bara vera einar heima í rólegheitunum meðan aðrar vilja og finna þörf fyrir að doulan komi heim. Stundum komum við heim til fólks og erum lengi, stundum kíkjum við í heimsókn og förum aftur, stundum erum við samferða upp á spítala og stundum komum við þegar fólk er komið upp á spítala og búið að vera þar í nokkra stund. Allt eftir því sem hentar hverjum og einum.

Er doula talsmaður konunnar?

Doula styður foreldra í þeirra ákvörðunum og hjálpar þeim að standa á sínum vilja og réttindum en doula talar ekki fyrir verðandi foreldra.

Eru einhverjar rannsóknir til um gagnsemi doulu?

Störf doulu hafa verið umtalsvert rannsökuð víða um heim og niðurstaðan er alltaf á þá leið að viðvera doulu bætir fæðingarminninguna, styttir fæðinguna og líðan eftir fæðingu er almennt betri. Rannsóknir sýna að viðvera doulu gerir þörf fyrir verkjalyf minni, gangsetningar eru færri, áhaldafæðingar eru færri, brjóstagjöf gengur frekar upp og svo má lengi telja. Bestu niðurstöðurnar koma úr umhverfi þar sem ljósmæður og doulur vinna saman.

Bara sem lítið dæmi má nefna rannsókn frá rúmlega 700 komum í Bretlandi kom fram að með doulu sér við hlið voru færri inngrip á við gangsetningu og mænurótardeyfingu, keisaratíðnin var umtalsvert lægri (Nánari heimild hér).

Doulur hafa lítið verið rannsakaðar hér á landi, en í lokaverkefni Margrétar Bridde kom glögglega í ljós að fæðingarreynsla kvenna sem höfðu doulu var góð. Nú árið 2015 er verið að taka viðtöl við konur sem hafa haft doulur og þar kemur slíkt hið sama fram að doulur hafi verið góður stuðningur og sumir tekið svo djúpt í árinni að segja að þær muni aldrei fæða án doulu aftur.

Hvað ef maður er bara að spá í að ráða doulu en er ekki búinn að gera upp hug sinn?

Við erum alltaf til í að hitta fólk, spjalla og fara yfir stöðuna án allra skuldbindinga eða kvaða.

 

 

 

Réttindi kvenna í fæðingu

Nokkur orð um mikilvægi þess að ráða  sínum stuðningsaðilum sjálf og tilmæli lsh.

19. júní árið 1915 fengu konur (og vinnuhjú) á Íslandi kosningarétt til Alþingis, reyndar með skilyrðum að aðeins 40 ára og eldri gætu kosið, aldurstakmarkið lækkaði svo frá ári til árs þar til ársins 1931. Áður höfðu konur fengið kosningarétt til bæjarstjórna.

Áður en þær fengu kosningarétt sátu karlmenn í ,,reykfylltum bakherbergjum“ og veltu því fyrir sér hvort að konum væri hreinlega treystandi til þess að kjósa. Menn óttuðust mjög að bæta svo mörgum kjósendum við kjörskrána og veltu því fyrir sér hvort að konur gætu kosið og tekið ákvörðun um hvað væri sér og fjölskyldu sinni fyrir bestu með kjörgenginu og sumir óttuðust að þeir sem þáþegar höfðu kosningarétt myndu missa allt vald. Sumir héldu því fram að konur hefðu einfaldlega ekkert fram að færa sem hefði erindi í stjórnmál.  Sem betur fer fengum við kosningaréttinn og það kom mörgum á óvart hve vel gekk ,,að leyfa“ konum að kjósa. Eftir því sem að árin liðu fækkaði gagnrýnisröddunum og væntanlega hefur verið hlegið að því þegar framliðu stundir að nokkur hafi sett sig upp á móti því að konur kysu og þótt fáránleg forræðishyggja.

Konur eru og voru fullfærar um að taka ákvarðanir er varða eigið líf og velferð. Í dag stöndum við uppi með betra samfélag en áður þrátt fyrir óttann sem fór um samfélagið.

Því er pínulítið kaldhæðið að á 100 ára kosningaafmæli kvenna, sátu nú líklega konur í ,,reykfylltu bakherbergi“ á Landspítalanum og komust að því að barnsfæðandi konum er ekki treystandi fyrir því að velja sér stuðningsaðila eða fjölda þeirra í fæðingu.

Tilmælin eru hér og segja að mælst sé til þess að aðeins einn stuðningsaðili ætti að vera viðstaddur og þó vissulega megi taka undir þau rök að fæðingin sé viðkvæmt ferli þar sem maður vill stuðla að ró er ætti samt að huga að því að fæðingarupplifun kvenna dvelur með þeim alla þeirra tíð og mikilvægt að kona finni stuðning frá þeim sem hún telur að sé best, óháð því hver það er.  Sem betur fer er tekið fram að ,,þeir vilji heyra óskir kvenna“ sem opnar smá glugga en setur barnsfæðandi konu þó í þá stöðu að þurfa ,,að fá leyfi“ í eigin fæðingu.

Margar verðandi nýjar fjölskyldur vilja helst af öllu vera tvo og útaf fyrir sig, mjög margar fjölskyldur kjósa að hafa einhvern nákominn með sér t.d. verðandi móðurömmu, systur eða vinkonu og einhverjir vilja hafa óháðan stuðningsaðila eins og doulu eða nuddara og í örfáum tilfellum vilja pörin hafa tvo stuðningsaðila með sér þ.e. parið plús tveir. Svo fyrir marga hafa þessi tilmæli ekki áhrif og væntanlega fagna einhverjar fjölskyldur því að þurfa ekki að ræða við fjölskyldumeðlimi um hverjir geti verið viðstaddir.

Í tilmælunum er eins og gengið sé út frá því að best væri að konan mætti ein á svæðið og taki með sér einn stuðningsaðila en ekki litið á parið, verðandi foreldra, sem heild og gert ráð fyrir að bæði mæti og vilji hafa með sér stuðningsaðila. Í dag göngum við alltaf út frá því að ef kona á maka að hún mæti með hann á staðinn og stundum gleymist það að pabbinn (eða foreldrið sem gengur ekki með barnið) þarf líka stuðning, hann ætti að fá að vera á staðnum sem fulltrúi síns sjálfs, verðandi foreldri sem þarf stuðning og hvatningu en ekki að vera stillt upp í að vera aðalstuðningsaðili konunnar sinnar og svo ,,redda“ sér sjálfur.

Flestir gera sér grein fyrir hve stór stund fæðingin er fyrir fjölskylduna, við sem höfum eignast barn munum stund og stað, við munum hvernig okkur leið og hvað hjálpaði og hvað ekki, við munum hvernig var komið fram við okkur og hvað hjálpaði og hvað ekki. Góð fæðingarreynsla getur því verið mjög valdeflandi en á sama tíma getur erfið reynsla tekið langan tíma að jafna sig á.

Við vitum að fæðingar eru allskonar og ekki alltaf hægt að sjá ferlið fyrirfram og upplifun konu af fæðingunni er einstök. ,,birth is in the eyes of the beholder“ eins og þeir segja á útlensku. Eitt af því sem hefur sýnt sig að stuðlar að jákvæðri fæðingarreynslu og að reynslan af fæðingunni sé jákvæð óháð því hvernig ,,pappírarnir“ eru er að fjölskyldan hafi ástúðlegan, samfelldan stuðning sem byggir á trausti.

Það er lítið hughreystandi að mega ekki koma með þann stuðningsaðila með sér sem maður vill og treystir og upplifa að maður verði að biðja um leyfi og auðvitað er líklegast að kona þori ekki að nefna það að maður vilji aukinn stuðning og fer því hrædd (hræddari) í fæðinguna. Í ferlinu sitja þá konur eftir með þá tilfinningu að einhvern hafi vantað. Sé fæðingin erfið og átakanleg verður eftirsjáin ,,ég vildi óska þess að ég hefði haft einhvern með mér“ en sé fæðingarminningin góð og ljúf felst eftirsjáin í að að hafa misst af því að deila stundinni með öðrum.

Við konur erum ekki vitleysingar, þó við séum barnshafandi, við vitum nær alltaf hvað er best fyrir okkur og í hvaða umhverfi við upplifum okkur sterkar og öflugar, við vitum hverja við viljum hafa í kringum okkur til að komast í gegnum aðstæður og enginn sem ekki þekkir til veit hvað er konu fyrir bestu.
Við erum líka fullfærar um að bera ábyrgð á ákvörðunum okkar, ef við viljum hafa marga í kringum okkur er væntanlega ástæða fyrir því sem við viljum kannski ekki segja með orðum. Og ástæðan á ekki að þurfa vera önnur en ,,bara“.  Svona smá útúrdúr er að starfsmenn dýragarða komust að því að apynjur fæddu ekki unga sína án þess að eldri kvenkynsættingi væri á staðnum. Líklega upplifa margar konur slíkt hið sama og verandi einar í fæðingu með einn stuðningsaðila getur verið til þess að þær eru hræddari, ósáttari og reynslan sýnir að við slíkar aðstæður dregst fæðingin óþarflega á langinn.
Skilaboðin sem felast í því að mælst sé til þess að kona komi aðeins með einn með sér á fæðingarvaktina eru að hún ráði ekki för. Hún er að ganga inn á svæði sem miðar að því að hún taki tillit til umverfisins en ekki öfugt, að umhverfið mæti henni þar sem hún er stödd.  Þar á hún að hlýða og gera það sem henni er sagt, í raun verið að taka fæðinguna svolítið úr höndunum á henni.

Barnshafandi konum og nýjum verðandi foreldrum er vel treystandi til að velja sína stuðningsaðila, við veljum út frá vilja og þörfum, þó það þóknist kannski ekki öllum. Svona rétt eins og með kosningaréttinn, okkur er veltreystandi til að kjósa, við kjósum út frá okkar bestu vitund, vilja og þörfum.