Viðvera stuðningsaðila í fæðingu stytt

Ég er að reyna að ná utan um fréttirnar frá því í gær um að nú eigi að takmarka stuðning fæðingarfélaga á Landspítalanum verulega. Stefnt er á að maki sé ekki lengur á spítalanum en í fjórar klukkustundir, kemur rétt fyrir fæðingu og fer svo stuttu seinna. Fyrst og síðast er ég sorgmædd og finn til með fjölskyldunum sem settar eru í þessar aðstæður.

Douluhjartað blæður við tilhugsunina um að konur fari einar á spítala í fæðingu og sé meinað að hafa með sér stuðningsaðila stærstan hluta fæðingarinnar. Ég vona heitt og innilega að Landspítalinn sé eini staðurinn sem grípi til þessara aðgerða. Mér sýndist á FB síðu ljósmæðravaktar HSS að makar/aðstandandi verði enn velkomnir sem er vel og ég veit að Björkin ljósmæður grípa ekki til þessa en þær geta ekki tekið við fleirum í þjónustu.

Ég get ekki séð annað en að það stríði gegn öllu sem við vitum um fæðingar og framgang þeirra. Fæðingar taka tíma. Stuðningur í fæðingu er lykilþáttur í fæðingu og á bak við mikilvægi stuðnings liggja ótal ótal rannsóknir sem segja frá mikilvægi hans. Viðvera stuðningsaðila í fæðingu eykur fæðingaránægju, dregur úr ótta og dregur úr inngripum. Rannsóknir sýna að fólk sem upplifir fæðinguna sína erfiða segir erfiðast að hafa ekki haft stuðning í kringum sig og að ekki hafi verið hlustað á það.

Ég er samt að reyna að skilja þessa ákvörðun, reyna að skilja að ákvörðuninni er ætlað að hlífa spítalanum, fækka komum þeirra sem ,,eiga ekki erindi” og hlífa starfsfólki svo það hitti sem fæsta. Ég er að reyna að sjá að ákvörðunin sé tekin með hagsmuni heildarinnar í huga en það koma alltaf þessi en, en.

Nú þegar hafði eitt og annað gert sem fækkaði komum á spítalann. Konur fóru einar í mæðraskoðun, beðnar um að einangra sig frá 36 viku, fóru einar í keisara, viðvera aðstandanda eftir fæðingu hafði verið stytt og þó þetta hafi ekki alltaf hljómað vel þá laut maður höfði og hugsaði að allir væru að leggja sitt af mörkunum til að staðið væri vörð um að kona hefði stuðningsaðila með sér í fæðingu. Aðlagast og hjálpast að. Hlýða Víði. Ég þurfti meir að segja að læra hratt að veita stuðning í gegnum netið. En nú á að takmarka veru aðstandanda enn frekar og ég velti því fyrir mér hvort að stutt sé í að tekið verði fyrir að stuðningsaðilar komi með á spítalann.

Mér verður strax hugsað til þess að þetta eigi eftir að auka álag á ljósmæður á spítalanum, þeirra yfirseta verður að vera meiri þegar kona hefur engan hjá sér stærstan hluta fæðingarinnar. Ég myndi líka halda að ljósmóðir þyrfti að vera í meiri nálægð við konurnar og veita meiri stuðning.

Mín spá er að inngrip eigi eftir að aukast og mænurótartíðnin eftir að verða enn hærri en hún er nú þegar og jafnvel að keisurum fjölgi. Vonandi er tekur einhver að sér að rannsaka það.

Stundum er bent á að spítalar séu fyrir veikt fólk og aðgerðir teknar þar séu teknar með hagsmuni veika fólksins og starfsfólk í huga. Eðlilega og ég get ekki dregið undan að ég er stolt af framlínufólkinu okkar núna sem sinnir óvenjumörgu alvarlega veiku fólki núna. Fæðing er hinsvegar eðlilegt ferli í lífshringnum sem jú þarf stundum læknisfræðileg inngrip en lútir öðrum lögmálum.  

Ég get aðeins reynt að ímynda mér hvernig verðandi foreldrum líður við að heyra þessar fréttir. Streitukerfin virkjast því óvissunni fylgir oft kvíði. Gagnlegasta streitukerfið okkar í þessum aðstæðum er hlúa að og annast (tend and befriend). Reynum að láta þetta oxítosin drifna streitukerfi taka yfir og hlúum að hvort öðru. Þegar reynir á verður að hugsa hratt og finna lausnir

,,Ég gat þetta“

Do good without show or fuss

Facilitate what is happening rather than what you think

ought to be happening

If you must take the lead, lead so that the mother is

helped, tet still free and in charge.

When the baby is born, the mother will rightly say:

“ We did it ourselves“

Þessi texti- sem búið er að snara yfir á ensku úr kínversku, kemur frá LAo Tzu, úr bókinni um veginn, frá 500 fyrir krist. Þetta textabrot talar hvað mest til mín af öllum texta sem ég hef lesið um störf doulu eða annarra umönnunaraðila í fæðingu og reyni að minna mig á hann þegar ég er við fæðingar.

Í þessum stutta texta er búið að fanga það sem þarf að segja. Fæðing barns er í höndum konunnar og hennar stuðningsfélaga, það er mitt að vera til staðar og reyna eftir mætti að skapa aðstæður þar sem kona upplifir að hún sé við stýrið, í öruggum höndum á öruggum stað.

European doula network- árleg ráðstefna í Varsjá

 

Ég fór á árlega ráðstefnu um helgina í Varsjá í Póllandi. European doula network eru samtök sem vinna að því að hafa samvinnu á milli doula óháð því hvar í Evrópu þær búa. Við vorum um það bil 60 sem tókum þátt.

Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja og hvernig ég get líst því hversu dásamlega skemmtileg þessi ráðstefna var og fræðandi.

Fyrst má kannski nefna að við vorum 60 doulur héðan og þaðan í Evrópu, ég hitti doulur frá Austurríki, Sviss, Póllandi, Rússlandi, Belgíu, Bretlandi, Grikklandi, Litháen og víðar. Dásamlegt alveg. Ég hef ekki verið umvafin svona mörgum reyndum doulum áður, við erum til þess að gera fáar á Íslandi og það var svo frábært að tala við þær, finna að þær voru að starfa af sömu hugsjón, að sama markmiði og hlæja með þeim að sömu bröndurunum.

Vinnusmiðjurnar voru ótrúlega skemmtilegar og fræðandi. Fyrst var fyrirlestur um pólska hjátrú tengda meðgöngu og fæðingu, sumt var mjög líkt því sem maður hefur heyrt heima á Íslandi, annað var framandi. Mér fannst fyndið að heyra að konum væri ráðlagt frá því að lita á sér hárið rautt á meðgöngu því það gæti orðið til þess að barnið yrði rauðhært. Það er margt hægt að segja um þessa hjátrú en fyndið er held ég best.

Svo fórum við á fyrirlestur um missi á meðgöngu og í fæðingu og hvernig doulur geta verið til staðar þegar foreldrar ganga í gegnum missi. Einnig var reynsla doula af þvi að aðstoða foreldra í kjölfar missis rædd.

Seinni vinnusmiðjan var Batik og Henna, við fengum að prófa að mála okkur með Henna lit og það var einstök upplifun, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Ég sem get ekki teiknað mynd svo fólk sjái hvort um er að ræða hund eða kartöflu gleymdi mér alveg og finn hlýju í hvert sinn sem ég lít á hendina á mér.
Svo fórum við yfir létta nuddtækni og rebozo-notkun. Langur en góður laugardagur.

Sunnudagurinn fór svo í fundarhöld, hvert EDN stefnir, hvað er að gerast í hverju landi fyrir sig og drög lögð að næstu ráðstefnu sem verður í Vín í september. Ég vona svo sannarlega að ég geti verið á EDN dögunum að ári og að þá verðum við fleiri en ein frá Íslandi.

Hverjir ráða doulur?

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi undanfarin ár að vera viðstödd margar yndislegar og ólíkar fæðingar sem doula.

Fæðing er svo sannarlega ekki alltaf auðveld en mín upplifun er þó að það er alltaf fegurð og styrkur sem fylgir fæðingu barns. Ég geng enn út úr fæðingum og lýt höfði af lotningu og nú þegar reynslan er orðin nokkur er samt alltaf eins og maður verði vitni að fæðingu í fyrsta sinn.

Starf mitt felst í að vera til staðar fyrir foreldrana. Styðja foreldrana samfellt í gegnum meðgöngu og fæðingu.
Hvert mitt hlutverk er breytilegt frá einni fjölskyldu til annarrar, stundum er ég nuddarinn, stundum sálgæslan, stundum fræðarinn, stundum er ég ljósameistarinn og hlaupakonan. Stundum geri ég ekki neitt. Ég er til staðar til að hvetja og hughreysta á forsendum foreldranna.

Rannsóknir sýna endurtekið mikilvægi doulunnar, viðvera doulu bætir fæðingarupplifunina, getur stytt fæðingarferlið, minnkar verkjaupplifun og pör sem hafa verið með doulu upplifa minni vanlíðan eftir fæðingu og sterkari tengingu við barnið. Doulur eru samt ekki töfrakonur heldur erum við til staðar.

Doulur eru viðbót í fæðingarteymið, við komum aldrei í staðinn fyrir ljósmóður eða annað fagfólk, en við getum verið mikilvæg brú í samskiptum á milli foreldra og fagaðila.

Doulur eru líka mikill stuðningur við báða foreldra og koma aldrei í staðinn fyrir maka, heldur styðja hann og hjálpa.  Við fræðum makann, getum bent á leiðir til að vera til staðar og tökum stundum stressið svolítið í burtu svo makinn geti verið til staðar á sínum forsendum, sem hitt foreldrið líka en ekki eingöngu stuðningsaðili.

Ég er stundum spurð að því hverjir ráða doulur og mín reynsla er að hópurinn er ansi fjölbreyttur og ástæðurnar margar og ólíkar.  Algengast er að verðandi foreldrar vilja meiri stuðning en nú þegar er, og hvað er meiri stuðningur þýðir er ólíkt frá pari til pars. Flestir tala um að vilja samfellu í stuðningnum, það er þekkja manneskjuna sem kemur með í fæðinguna.  Margir tala um að vilja tala um fæðinguna og foreldrahlutverkið á hlutlausan hátt og geta velt við öllum steinum og doulur eru styðjandi í þeim ákvörðunum sem eru teknar.

Sumir sem leita til mín eru að takast á við kvíða, sumir hafa átt erfiða fæðingu, einhverjar konur eru að fara í fæðingu eftir keisara, sumir eru óöryggir í parasambandinu, sumir eru að leita að meiri fræðslu, sumir eru að takast á við vanlíðan og sumir hafa lítið bakland.  Enn aðrir eru að leitast eftir æðri tengingu og meiri slökun. Sumir segjast enga ástæðu hafa og eitt par sagði að þeim fyndist doulur einfaldlega svo töff að þau ætluðu ekki að missa af því að taka doulu með í fæðinguna.
Doulur skapa tengingu og flæði, doulur tengja saman foreldra, tengja foreldra við barn og tengja foreldra við fæðinguna. Doulur eru til staðar, klettur sem á sinn stað í ferlinu, sama hvað gerist. Mér finnst doulur setja lífið í samhengi, hringrás þess að tilheyra og vera til staðar.
Því fleiri pörum sem ég kynnist því fjölbreyttari svör fæ ég og með tímanum og reynslunni átta ég mig betur og betur á mikilvægi óháðs stuðnings í fæðingu og að það skiptir meira máli að stuðningurinn sé til staðar en að vita af hverju eftir honum var leitað.
Fyrir mér eru doulur aukinn styrkur fyrir konur, fyrir verðandi fjölskyldur og mikilvægur hluti af því að varðveita góða fæðingarminningu.

Doulunámskeiðið í janúar

Við förum af stað með doulunámskeið núna í janúar 2017, viðbrögðin við námskeiðinu hafa verið góð og ég hlakka til að hitta nýja hópinn. Það eru auðvitað enn laus pláss en gaman að sjá hve mikil vakningin er orðin. Við verðum líka með sængurlegu doulu-námskeið og það er haldið í fyrsta sinn á Íslandi og námskeiðið er haldið í beinu framhaldi af fyrsta hluta doulu-námskeiðsins.

Í ár vinnum við doulunámskeiðið aðeins öðruvísi en undangengin ár enda komin meiri reynsla að spila úr. Mig langaði að setja á blað helstu upplýsingar og spurningar sem ég hef fengið undanfarna daga.

Fyrst er kannski að nefna dagsetningarnar en þær eru eftir farandi. Það er skylda að mæta alla dagana og gert er ráð fyrir 80% mætingu.

24.- 26. janúar frá kl. 9-17
Þetta er dona-douluhluti námsins, Jesse Remer er með þriggja daga vinnusmiðju þar sem farið er yfir meðgöngu og fæðingu, starfsvið doulu og praktísk atriði.

18.– 19. mars frá kl. 9-15
Starf doulu á Íslandi, praktísk atriði og starfsvið doulu. Samvinna við ljósmæður og annað heilbrigðisstarfsfólk.
Heimalestur fyrir vinnuhelgi: The doula book

7. maí frá 9-16 brjóstagjöf og nýja fjölskyldan. Stuðningur og fræðsla.
Heimalestur fyrir vinnudag: The birth partner

16.-17. september  praktísk atriði, verkefnaskil, námsframvinda, eftirfylgd.
Heimalestur fyrir vinnuhelgi: Ein íslensk bók og bók um umönnun barnsins

Námið er í lotum en er mikið byggt á sjálfsnámi, skila þarf verkefnum og lesa efni um fæðingarferlið og ná staðgóðum tökum á umönnun og stuðningi við fjölskyldur sem eiga von á barni.
Gert er ráð fyrir að nemendur hafi lokið verkefnaskilum tveimur árum eftir að námskeiði lýkur (16. september 2019).

Námskröfur
Lesa þarf am sex bækur í náminu og fyrir aðra, þriðju og fjórðu lotu er lesin ein bók skv. leiðbeiningum og verða nemendur að hafa lokið við þá bók fyrir nýja lotu. Manuall fylgir en nemendur verða sjálfir að útvega sér bækur í náminu.

Doulunemar þurfa að vera viðstaddir þrjár fæðingar í náminu, yfirleitt reynist auðvelt að fá fæðingar í sínu nær umhverfi en annars aðstoðum við eftir bestu getu með að útvega nemafæðingar.

Auk þessa sem nefnt er hér að ofan þurfa nemar að uppfylla eftirfarandi:

  • sitja alla námskeiðsdaga hjá Jesse Remer og Soffíu Bæringsdóttur
  • lesa amk sex bækur og skrifa greinargerð um þær. Fyrir hverja námslotu er heimavinna.
  • vera viðstödd þrjár fæðingar og veita samfelldan stuðning í 15 klukkustundir með hverri fjölskyldu. Með hverri fæðingu verður að skila matsblaði frá móður og helst undirskrift ljósmóður. Matsblöð fylgja og má fjölfalda. Aðeins er hægt að nota eina keisarafæðingu.
  • Skila skal uppgjöri á fæðingunni, hvernig gekk, hvert þitt hlutverk var, hvernig móðirin vann sig í gegnum fæðinguna og hvað þú lærðir af reynslunni.
  • Skila uppgjöri á þinni fæðingarreynslu (allri ef þú átt fleiri en eitt barn), ef þú hefur ekki fætt barn að skila uppgjöri á viðburði sem breytti lífi þínu.
  • Útdrátt um mikilvægi stuðnings á meðgöngu og í fæðingu (500-700 orð).
  • Útdrátt um hlutverk og mikilvægi doulu í fæðingarferlinu (500 orð) má fletta inn í lið 6.
  • Greinargerð um íslenska meðgönguvernd og íslenskt fæðingarumhverfi, aðstæður og vinnureglur.
  • Lista yfir þjónustu sem nýtist konum á meðgöngu, í fæðingu og í sængurlegu amk 20 ábendingar.

Námið er í höndum Jesse Remer og Soffíu Bæringsdóttur.
Jesse Remer hefur um árabil starfað sem doula og doulukennari og starfar í gegnum DONA- bandarísk doulusamtök. Hún lærði líka til ljósmóður á sínu tíma en hefur einbeitt sér að doulustarfinu. Undanfarin ár hefur hún unnið á fæðingarheimili sem rekið er af ljósmæðrum sem doula og tekur þar vaktir. Að auki hefur hún unnið mikið að réttindabaráttu barnshafandi konum til handa og unnið að því að koma douluþjónustu í farveg á svæðinu þar sem hún býr, Portland. Hægt er að lesa meira um Jesse á heimasíðunni hennar hér.

Soffía Bæringsdóttir hefur starfað sem doula á Islandi síðan 2008, hún hefur hlotið þjálfun sem doula hjá CBI og DONA. Að auki er hún hypnobirth-leiðbeinandi, childbirth educator frá CBI, hefur lokið námi í ungbarnanuddi og að lesa í merki barnsins. Hún hefur setið fjölmargar aðrar vinnusmiðjur og er sem stendur nemi í fjölskyldumeðferð í EHÍ og starfaði um árabil sem kennari. Hún á og rekur hondihond.is douluþjónustu.

Þetta er í fjórða sinn sem námið er haldið á Íslandi.

Vinnusmiðjan er viðurkennd af DONA sem eru bandarísk doulusamtök svo fyrir þá sem hugsa sér að starfa annarsstaðar þá er hægt að sækja um doulu-réttindi í gegnum þau samtök á dona.org en að námskeiði loknu og uppfylltum námsskilyrðum útskrifast nemar með réttindi frá Hönd í hönd.

Verð  106.000 ef greitt er fyrir 15. desember, annars  122.000.-

Sum stéttarfélög niðurgreiða námskeiðið og hægt er að skipta greiðslum ef svo ber undir.
( Verð fyrir postpartumdoulu-námskeiðið sem viðbótarnámskeið er 35.000 )

Skráning í fullum gangi, það er takmarkað sætapláss. Nánari upplýsingar og skráning á soffia@hondihond.is s. 8624804

 

 

 

Snerting og stuðningur maka

Fæðing er fyrir flesta krefjandi verkefni sem kallar á alla okkar athygli. Undanfarin ár hef ég aðstoðað fólk við að undirbúa sig fyrir fæðinguna og kennt þeim nokkur einföld ráð til að takast á við fæðinguna.
Tækni sem makinn getur gert í fæðingunni og gott er að hafa farið yfir áður en kallið kemur. Mig langaði að deila því með ykkur.
Mörgum konum finnst gott að láta strjúka sér og nudda í fæðingu en mörgum finnst það líka óþægilegt. Það er ekkert rétt eða rangt í þessum og alveg alger óþarfi að taka það persónulega ef nudd eða strokur eru afþakkaðar.
Reynslan segir mér að í byrjun fæðingar hjálpar létt nudd og strokur og svo þegar líður á fæðinguna gagnast þéttari snerting betur og ekki í samdráttum heldur á millli.

Hönd í hönd og lófanudd
Einfalt en áhrifaríkt og sýnir traust og umhyggju er að haldast í hendur og oft er mjög slakandi að nudda inn í lófann, þéttingsfast.

Þrýstingur um höfuðið
Kemur oft á óvart en það að setja hendur um höfuð konu í fæðingu er yfirleitt mjög vel þegið. Önnur hendin á ennið og hin við hnakka en samt á höfðinu. Halda þéttingsfast án þess að kreista. Mörgum þykir líka gott að vefja um höfuðið á sér slæðu eða öðru svipuðu. Það er töfraráð að halda köldum þvottapoka þétt um enni konu í fæðingu.

Þriðja augað

Það veitir ótrúlega slökun að nudda með þumalfingri rólega milli augnabrúnna. Þarna við það sem oft er kallað þriðja augað.

Hjartastuðningur
Mæli því að setja aðra hönd á bringuna við hjartastað og aðra á milli herðablaða og leyfa höndunum að hvíla vel við líkamann.

Fótasnerting
Létt snerting á fætur getur verið hughreystandi og þægileg. Margar konur finna jarðtengingu þegar þær standa og því er oft mjög kærkomið að fá fótanudd ef kona liggur fyrir. Þegar langt er komið í fæðingu getur verið gott að halda vel um ökkla, gefur góða jarðtengingu.

Prófið ykkur endilega áfram, metið stöðuna og haldið áfram. Góð snerting getur gert kraftaverk í fæðingu.

 

 

Speki Inu May Gaskin

Það er ekkert langt síðan að Ina May Gaskin, þekkt ljósmóðir frá Bandaríkjunum, kom til Íslands og var með fyrirlestra hér. Þetta var góður tími, það var gaman að taka á móti henni og skemmtilegt að hlusta á hana. Sjálf hafði ég lesið bækurnar hennar á meðgöngunum mínum og vitnað í hana í gegnum doulustarfið og hlakkaði mikið til að hlusta á það sem hún hafði fram að færa.

Ina_may6

,,Láttu apann í þér um þetta“ Ina May er þekkt fyrir þessa hvatningu að benda konum á að láta apann í sér að taka yfir meðan fæðingin er. Það sem hún á við er að konur þurfa að slökkva á hugsandi heilanum okkar og kveikja á frummanneskjunni, innsæinu og leyfa okkur að hvíla í líkamanum á okkur.  Hún segir að þegar að apinn tekur yfir þá gengur fæðingin yfirleitt snuðrulaust fyrir sig, því líkaminn kann að fæða. Fyrir vikið er Ina May sérstaklega hrifin af því að sýna myndbönd af öpum fæða og fílum líka og er á því að konur eigi frekar að horfa á dýr fæða afkvæmi sín en aðrar konur.

Ina May er líka vel meðvituð um hvaða áhrif fæðingarreynslan hefur á konur, hún mótar okkur á ótrúlegan hátt það sem eftir er ævinnar, fæðingarreynslan hefur áhrif á sjálfsmynd okkar, tilfinningalíf, líkamann okkar og allt í umhverfi okkar. Góð fæðingarreynsla er eflandi, styrkjandi og getur skilað enn sterkari konu en að sama skapi er erfið eða neikvæð fæðing niðurbrjótandi og haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd kvenna. Í þessu samhengi leggur Ina May mikla áherslu á að allir sem koma að fæðingu verða að koma fram við konu af mikilli virðingu, rólegheitum og gæta þess að kona fái næði til að fæða.

 “If a woman doesn’t look like a goddess during labor, then someone isn’t treating her right.”

Ina May Gaskin er talar um ,,lögmál hringvöðvans“ og hve mikið það hefur áhrif á fæðingu og segir að leghálsinn virki í sömu aðalatriðum eins og aðrir hringvöðvar, hann er alla jafna lokaður en opnast þegar það er næði og öruggt andrúmsloft, svo sem á salerni. Skv. þessu lögmáli, opnast hringvöðvinn ósjálfrátt, það þýðir ekki að skipa honum það eins og að segja ,,slakaðu á“  eða ,,opnaðu nú leghálsinn“.  Streita, truflun og ótti hefur áhrif á leghálsinn/ hringvöðvann og hann getur auðveldlega lokast úr þvi sem hann var. Virðing, ró og öryggi er lykillinn að því að hringvöðvinn virki vel og Ina May leggur líka áherslu á að hringvöðvar (leghálsinn í þessu tilfelli) geti opnast og lokast hratt eftir aðstæðum. Út frá þessu lögmáli leggur hún mikla áherslu á næði, góða framkomu við fæðandi konu og slökun. Hún hefur líka lagt áherslu á að kjálkavöðvarnir okkar eru tengdir við hringvöðvann og að mikilvægt sé að passa að hafa kjálkana pg munnvöðvana slaka.

inamay13

Hlátur er líka mikilvægur og Ina May Gaskin talar mikið um mikilvægi þess að hlæja vel í fæðingu, það geti haft áhrif eins og verkjastilling, þar sem hlátur er endorfínlosandi. Það verður reyndar að segjast að það er einstaklega gaman að hlæja með Inu May, hún hefur gott auga fyrir spaugilegu hliðum lífsins.