Blessun vex með barni hverju

Barnafjöldi og barneignir, eru einkaákvörðun hverrar fjölskyldu og ætti að virða sem slíka. Það er samt einhvern veginn eins og fólk geti ekki gert rétt í þeim málum og vonandi óvart hefur fólk sterkar skoðanir fyrir aðra með hvað sé ákjósanlegt, æskilegt eða við hæfi. Og tjáir það. Því miður er það svo að fólk upplifir oft að fjölskylduform þeirra er dæmt og að fólki otað skömm. Sem er miður og við mættum öll hugsa aðeins áður en við komum með góðlátlega athugasemd eða spurningu um fjölskylduform annarra.

Hér er minn veiki punktur, mér finnst nefnilega ósköp gaman að ræða barneignir, mínar og annarra út frá fjölda og má því passa mig að tal mitt endurspegli mig og mitt val en varpi ekki skugga eða dóm á aðra. Ég er því persónulega ekki viðkvæm fyrir því að ræða þetta málefni, hugsanlega því  ég held ég hafi snúist eins marga hringi og hægt er þegar kemur að barneignum. Ekki alls fyrir löngu sá ég ekki fyrir mér að eignast börn, þegar ég átti eitt var ég ekki viss um að það væri sniðugt að eiga fleiri og nú þegar ég á þrjú get ég alveg hugsað mér að eiga tíu, en það er nú önnur saga.

Barneignir- hugsanlegar eða ekki eru prívat mál og alls ekki allir jafn tilbúnir að tala opinskátt um ,,stöðuna“ í barneignum en umræðuefnið er sívinsælt og ótrúlegt hvað margt fólk er lítið að velta því fyrir sér hvort hér sé staður og stund.  Í þessum efnum er líka áhugavert að sjá viðbrögð okkar við því þegar barneignaval eða barneignastaða annarra er önnur en manns eigin hugmyndir. Það er einhvern veginn eins og ekki sé hægt að gera neinum til geðs og athugsemdir sem fólk fær, í hugsanaleysi vonandi, geta verið ansi þreytandi. Stundum þarf ekki að segja neitt framan í fólk, maður finnur það bara að fólk er að pæla og dæma.

Barnlaus pör eru spurð hvort þau séu ekki að reyna og hvort þau ætli í alvöru ekki að eignast börn. Sumir fá ráð um að ,,slaka bara á og þá komi þetta allt“ eða tillögur um að taka að sér fósturbörn eða ættleiða. Taki fólk ákvörðun um barnleysi er eins og það sé einfaldlega rangt svar. Það er ekki hugsandi að taka þá ákvörðun af eigin vilja.

Þegar fyrsta barnið er komið, kemur spurningaflóðið um hvort ekki eigi að koma með annað, það verða að koma fleiri börn. Helst að ,,reyna“ við hitt kynið. Nauðsynlegt að eiga systkini því ekki er gott að vera með frekt einbirni eða eitt barn að hugsa um báða foreldra sína í ellinni.

Tvö börn, hér virðist vera ágæt samfélagssátt um að mál sé að linni en það er ekki hægt að vera með samkynja systkini. ,, Á ekki að reyna við strákinn/ stelpuna?“

Þrjú börn dansar þarna á mörkum dugnaðar og óvitaskapar. Hraustmenni og ofurkonur en einhvern veginn er fólk búið að henda sér fram af brúninni þegar fjórða barnið kemur. Sumir tala um að fólki sé orða vant þegar von er á fjórða barninu og fólk fær samúðarsvip og í einhverjum tilfellum segir fólk bara ekki neitt, gleymir að samgleðjast með fólki.

Þegar börnin verða fimm og sex er eins og fólki haldi engin bönd lengur, það missir út úr sér ,,æjæj“ og veltir því fyrir sér hvort þetta hafi ekki örugglega verið slys og hálf vorkennir fólki og reynir að fá fullvissu um að nú sé komið nóg af börnum ,, eruð þið ekki örugglega hætt núna?“

Óhjálplegar athugasemdir breyta engu, en sitja eftir sem leiðindaviðbrögð hjá verðandi fjölskyldu og skilur eftir sig frekari ótta um að vera dæmdur. Það er svo gott að muna að allir eru að gera sitt besta og hvað hentar einni fjölskyldu er ekki það besta fyrir aðra. Setja sig í spor annarra.

Hér dreg ég vissulega fram aðeins neikvæð eða leiðinleg viðbrögð og læt undan allar hamingjuóskirnar, heillakveðjurnar og þegar fólk samgleðst. Hugsum þetta aðeins, munum að hver fjölskylda er ólík- og næsta víst að hún er ólík okkur. Samgleðjumst og munum að ,,blessun fylgir barni hverju“.