Árið 2017 kvatt

Þá er árið 2017 búið og farið. Mér finnst alltaf gott að nota síðustu daga ársins til að rifja upp helstu atburði og leiða hugann að komandi ári. Áramót eru einhversskonar uppgjör og tímamót.

Þetta hefur verið dásamlegt ár og gjöfult á svo margan hátt. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að vera viðstödd 16 fæðingar á árinu, ég er auðmjúk og þakklát fyrir. Hver fjölskylda er svo einstök og það er eiginlega ekki alveg hægt að færa það í orð hvernig það er að fylgjast með fjölskyldum vaxa og dafna. Barnsfæðing er magnaður lífsviðburður og ég er meðvituð um forréttindi mín að vera í kringum fjölskyldur á þessum ánægjulegu tímamótum. Af hverri fjölskyldu læri ég eitthvað nýtt, eitthvað nýtt um fæðingar, manneskjur og samskipti og ekki síst um lífið sjálft. Fyrir það er ég ótrúlega þakklát.

Ég tók á móti fólki í fæðingarundirbúning og aðstoðaði konur við að vinna úr fæðingarreynslunni sinni ásamt því að halda námskeið um fæðinguna, parasambandið og fyrstu fjóra mánuði ársins. Ég er að feta mig inn á braut fjölskyldumeðferðar og hef tekið á móti fólki í fjölskylduviðtöl.  Ég er alltaf á sama stað í Lygnu með yndislegu Bjarkar ljósmæðrunum sem er svo gott að vera í kringum.

Einu og hálfu ári lokið í námi í fjölskyldumeðferð. Tíminn hlífir mér ekki frekar en öðrum og þeysist áfram og mér finnst hálf ótrúlegt að aðeins ein önn sé eftir af náminu. Þetta hefur verið góður tími og ég hef öðlast yndislega færni sem vonandi kemur sér til góða fyrir fjölskyldurnar sem ég á eftir að aðstoða.

Tíu konur kláruðu doulu-nám hjá mér og það verður gaman að fylgjast með þeim halda áfram og útskrifast. Við unnum aðeins með doulusamtök og viljum virkja þau frekar. Á árinu var skrifuð mastersritgerð um doulur á Íslandi þar sem skoðuð var reynsla kvenna af því að vera með doulu og sú reynsla er góð. Það er alltaf ánægjulegt að fá staðfest með athugun það sem maður heldur.

Í september fór ég á Evrópska doulu-ráðstefnu til Póllands, það var í fyrsta sinn sem ég fór á douluráðstefnu og var innan um svona margar starfandi doulur. Þarna voru saman komnar 36 doulur frá ólíkum löndum, Belgíu, Bretlandi, Grikklandi, Króatíu, Lettlandi, Póllandi og Swiss svo einhver þjóðerni séu nefnd. Þvílíkur innblástur og mikil gleði, ég kynntist mörgum skemmtilegum konum og fékk innsýn í starf samstarfssystra minna í Evrópu og ekki þarf að fjölyrða um fegurð og dásemd Varsjár. Þema ráðstefnunnar var missir, hvernig við doulur getum stutt foreldra í gegnum missi. Þarft og erfitt umræðuefni sem lætur engan ósnortinn. Það snerti mig djúpt að fara á ráðstefnuna í Póllandi, bróðir minn dó í Póllandi fyrir 10 árum síðan og ég hafði ekki farið til Póllands síðan hann dó og mikið sem það var heilandi að ganga um götur Varsjár. Mér fannst eins og lífið væri komið í hring. Við doulur vinnum mest með upphaf lífsins og þarna var ég stuðningskona lífsins að læra um missi í landinu sem ég tengdi við missi.

Í október fór ég á Midwifery Today- ráðstefnuna, með Arneyju og Hrafnhildi ljósmæðrum og það var önnur skemmtileg yndisferð. Suomenlinna, lítil eyja við Helskinki tók vel á móti okkur og við eyddum nokkrum fallegum haustdögum innan um ljósmæður, doulur og stöku fæðingarlækni. Stemningin var dásamleg og mikið af yndislegum konum hvaðanæva úr heiminum sem gaman var að kynnast. Auk skemmtilegra fyrirlestra svo sem um oxytocin stendur kvöldvakan upp úr og ég var alveg dáleidd af öllum finnsku doulunum og finnsku ljósmæðrunum.

Fjölskyldan er bara við það sama, reyndar allir árinu eldri og við ættleiddum hund sem heitir Auðna og hún ber nafn með rentu og hefur svo sannarlega gert heimilislífið skemmtilegra. Við ætlum þó að hjálpa henni að gelta minna árið 2018!

Árið 2018 leggst vel í mig á allan hátt, ég held þetta verði gott ár, ljúft og vonandi bara svipað og síðasta ár. Þar sem allt er gott og stabílt en nokkur ævintýri inn á milli. Ég veit nú þegar af nokkrum fæðingum sem ég verð við og ég vonandi held áfram að taka á móti fólki í fæðingarundirbúning og viðtöl. Ég stefni á að klára fjölskyldumeðferðarnámið og halda áfram námskeið. Í lok janúar fer ég á Parent infant Psychotherapy námskeið sem ég hlakka mikið til að fara á og í lok mars er doulu-ráðstefna í London sem verður örugglega alveg frábær. Síðast en ekki síst vona ég að ég verji góðum tíma með fjölskyldunni.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða, megi árið 2018 vera ykkur gæfuríkt