Að eignast annað systkini

Ég hef tilhneigingu til að endurtaka mig og segi oft að allir ættu að byrja á því að eignast barn númer tvö. Þá eru flestir svo öruggir með sig og kunna handtökin og alveg búnir að mastera foreldrahlutverkið. Hitt er svo að þegar annað barnið kemur (nú eða þriðja eða fjórða eða..) að þá eru eldri systkini að fara í nýtt hlutverk og það getur verið erfitt og áhugavert að takast á við. Alltaf er eitthvað nýtt að takast á við og skoða.

Vissulega skiptir aldur barnsins miklu máli þegar það eignast systkini. Það er munur á þvi að vera 18 mánaða og eiga von á systkini eða 6 ára. Óháð aldri þurfa börn undirbúning. Það getur verið mjög skrýtið að fá annað barn inni á heimilið og margar  hugsanir hljóta að fara í gegnum huga lítils barns, svo sem eins og hvort ástin sé jafnmikil milli barnanna, hvort það sé yfirhöfuð gaman að eiga systkini, hvort maður gleymist og svo auðvitað gleði, spenningur og eftirvænting. Líklega sveiflast börn þarna á milli mikillar tilhlökkunar og gleði og efa og öfundar.

Börn verða afbrýðissöm og öfundssjúk og kannski má ganga út frá því að það sé eðlilegt. Systkinasambandið er lengsta staka sambandið sem við eigum á lífsleiðinni og kannski það mikilvægasta og á sama tíma vanmetnasta. Við verðum að gefa okkur að það komi til með að ganga á ýmsu. Systkini rífast, takast á, þræta og keppast um athygli foreldra sinna. Það er eðlilegt en fellur i hlut okkar foreldranna að hjálpa þeim að finna þessum tilfinningum farveg og hjálpa þeim að búa til gott og heilbrigt samband við systkini sín.

Þegar annað barnið okkar fæddist var ég mjög vel undirbúin undir að þetta yrði ,,allskonar“ og hafði verið svo lánsöm að geta drukkið í mig reynslu vinkvenna og lesið mér vel til. Það sem kom mér algerlega í opna skjöldu var hve skilyrðislaus, einföld og falleg ást systranna varð frá fyrstu stundu. Ég veit ekki hvort ég vissi það ekki eða bara áttaði mig ekki á því fyrr en ég hafði það fyrir augunum á mér að systrakærleikurinn kom strax og stóra systir tengdist og elskaði litlu systur sína frá fyrstu stundu. Bara rétt eins og við foreldrarnir.

Mikilvægasti þátturinn er líklega að byrja á  meðgöngunni að tala við barnið um nýja systkinið og halda svo samtalinu áfram eftir að er fætt. Tala við barnið út frá áhugasviði þess og aldri og leyfa því svolítið að stýra ferðinni. Ef barnið hefur mikinn áhuga á litla barninu er það vel en það má líka alveg ekki hafa áhuga á því. Samtalið er svo mikilvægt. Spjalla um hvað er að gerast, velta því fyrir sér hvernig þetta verði og svo framvegis og samþykkja og skoða tilfinningar barnsins sem koma upp og reyna að tengja við þær og skilja. Líklega verða stundir þar sem stóra systkinið  vill leika mikið við barnið og hafa það hjá sér og tala við það. Svo verða líka stundir þar sem að systkinið er afbrýðissamt og vill helst vera eitt með ykkur foreldrunum og efast um að það skipti jafnmiklu málið og áður. Þetta er bara hluti af ferlinu og þau verða að fá að finna að þessar tilfinningar eru eðlilegar og við verðum að leggja okkur fram um að skilja stóru börnin og hjálpa þeim að finna tilfinningunum og breyttum aðstæðum jafnvægi.

Þegar stórar tilfinningar stíga fram er svo gott að reyna að muna eftir frumtilfinningunni, reiði er til dæmis mikið oftar fylgitilfinning en frumtilfinning. Börn sýna oft reiði en eru í raun leið, hrædd eða afbrýðissöm í grunninn. Því er mikilvægt að gefa sér tíma til að skoða hvað það er sem er á bak við neikvæðu til finninguna og bregaðst við þeirri tilfinningu en ekki birtingarmyndinni sem getur verið svo klaufaleg.

Ef það er ekki nú þegar hátturinn á heimilinu þá er gæfuspor að hafa báða foreldra vel innvinklaða í umönnun barnsins svo það geti leitað jafn til foreldranna og bæði fundið huggun og gleði við það að leita til beggja. Við þurftum að taka á okkur rögg með þetta og það heppnaðist mjög vel, var gott skref fyrir stóru stelpuna okkar og samband hennar við pabba sinn.

Stundum þarf að fara í breytingar á herbergi, flytja eða færa til við komu nýs systkinis og þá er mikilvægt að fara í gegnum þær breytingar af yfirvegun og hafa barnið með í ráðum svona eftir þroska þess. Gefa sér tíma í breytingarnar, gera þær eftirsóknarverðar og taka þetta í rólegheitunum, líklega verður allt erfiðara ef þær eru þvíngaðar fram. Mér finnst oft ofuráhersla á að allar breytingar verði að gerast svo snemma í ferlinu en ég held að meðan við tökum yfirvegaða ákvörðun og breytum í rólegheitum að þá er hægt að gera það hvenær sem er. Mikilvægast er að vera meðvitaður og muna eftir stóra barninu og staldra við og velta því fyrir sér hvaða áhrif maður haldi að breytingin hafi á barnið og hvort hún sé nauðsynleg og með velferð fjölskyldunnar í heild að leiðarljósi. Ef svo er þarf maður alls ekki að vera hræddur og það er líka allt í lagi að efast um breytingar, hjá litlum og stórum en við verðum að prófa okkur áfram.

Stóra systkinið verður að finna að það skiptir ennþá miklu máli, að það er enn mikilvægur hluti af fjölskyldunni. Fá að finna að það sé einstaklingur innan fjölskyldunnar sem skiptir máli og fær enn sína athygli og sinn tíma þó í breyttu formi.